Vita nemendur hvernig þeim hentar best að læra?

Menntavísindi og kennslufræði eru ekki raunvísindi og það er ekki hægt að setja fram algild lögmál á borð við náttúrulögmál í eðlisfræði. Það sem er algerlega öruggt er ekki sérlega áhugavert. Kennsla og nám eiga sér stað í samfélagi og tengslum og áhrifaþættirnir eru ótal margir og þar á meðal eru tilfinningar einstaklinga, uppbygging samfélaga, félagslegar aðstæður, líkamlegur mismunur, bara til að nefna örfáa hluti. Ofan á þetta leggst svo að fólk greinir á um það hver séu endanleg markmið menntunar: hvað viljum við fyrir börn, unglinga og fullorðið fólk sem er í skóla? Hvers konar samfélag viljum við byggja, hvaða eiginleika viljum við rækta? Allt þetta skiptir máli þegar rætt er um það sem kunna að virðast einfaldar spurningar eins og „hvernig er best að kenna stærðfræði?“

Engu að síður er til margskonar og margbrotin þekking á þessum málefnum. En nú langaði mig bara til að minnast á eitt og gleyma á meðan hinum stóru samhengjum. Hugsum okkur dæmigerðan nemanda í „venjulegum skóla“. Margir slíkir nemendur (en ekki allir) temja sér ýmsa hegðun og skoðanir sem eru ekki gagnlegar fyrir nám. (Það sama má ef til vill segja um kennara.) Hér eru nokkrar:

  • Að nám felist aðallega í því að taka við upplýsingum til þess að skila síðar í sem óbreyttustu formi (td á prófi). [Nám í samræmi við metnaðarfull markmið felur í sér skilning og að geta beitt þekkingu við nýjar aðstæður.]
  • Að það skili árangri að endurlesa námsefni fyrir próf, jafnvel aftur og aftur. [Þetta getur skilað skammtímaárangri á einföldum þekkingarprófum en virkar ekki til lengri tíma eða fyrir próf sem reyna á beitingu eða skilning.]
  • Að maður viti vel sjálfur hvernig manni gengur að læra tiltekið efni eða námsgrein. [Hver kannast ekki við að „skilja það þegar kennarinn sagði það í tímanum“ en geta svo ekki leyst verkefni á eigin spýtur þegar á reynir?]
  • Að það sé mjög mikilvægt að hlýða á fyrirlestra og ná að skrá hjá sér sem mest af því sem kemur fram í fyrirlestrinum.

Fyrsta atriðið er kannski dálítið margbrotið, því það er bæði um markmið (jafnvel gildi) og leiðir. Seinni þrjú atriðin eru einfaldari og margar rannsóknir styðja það að þetta séu ógagnleg viðhorf. Mjög sennilegt er að of lítið sé gert til þess að kenna nemendum að læra (og mögulega er þessi þekking ekki heldur nógu útbreidd meðal kennara.) Svo svarið við spurningunni í titlinum er nei: nemendur vita yfirleitt ekki hvernig þeim sjálfum hentar best að læra, að minnsta kosti ekki nema að þeir ígrundi það mjög vandlega og rannsaki sína eigin námshætti og viðhorf í ljósi þeirrar þekkingar sem til er á þessum hutum.