Við elskum þessar druslur!

Ég fékk skeyti frá Feðraveldinu. Það er svona:

Halló, Feðraveldið hérna.

Endilega farið í druslugöngu stelpur, I’m all for it. Ég mæti líka enda alltaf gaman að sjá graðar dömur – og ekki spillir ef þær eru léttklæddar! Ég nefnilega hata ekki druslur, ég fckn elska þær!

Ah Feðraveldið, ah ah, hvað hefur það ekki gefið mér? Það hefur fært mér tvískiptinguna í konur og karla, druslur og góðar stelpur, en líka einhver fuzzy landamæri milli nauðgunar og eftirlátssemi kvenna við sterkan karlmann.

Feðraveldið krefst aðgangs að konum, bæði eiga þær að vera þjónar karla, sjá um börn og heimili, en líka vera körlum augnayndi og veita þeim kynferðislega blíðu. Þær eru til fyrir karla. Þetta er ekki (einungis) ákvörðun einstakra karla, þetta er menning og mynstur sem er svo ríkjandi að margir eiga erfitt með að sjá það. Og margt er gert sem viðheldur því og réttlætir (sumt meðvitað, annað ómeðvitað). Við höfum endalausan straum af afþreyingu og meintri upplýsingu sem segir: þetta er eðlilegt og samkvæmt náttúrunni, ef ekki einhverjum guði. Við sjáum þetta á hverjum degi í sjónvarpsþáttum, tímaritum, auglýsingum, vefritum og bíómyndum.

Nauðganir eru í yfirgnæfandi tilvika framdar af körlum gegn konum. Mörgum finnst erfitt að samþykkja að við búum við nauðgunarmenningu. En það gerum við nú samt. Það þykir í raun og veru eðlilegt að karlmaður beiti alls konar brögðum til að fá konu til að veita sér aðgang að líkama sínum. Þeir reyna að nýta sér yfirburðavaldastöðu, þeir reyna að nýta áfengi eða önnur vímuefni, þeir reyna að koma konu í einhverja aðstöðu sem gerir henni erfitt um vik að neita, þeir bjóða peninga eða aðrar gjafir. Stundum beita þeir líkamlegu valdi, og það er reyndar þar sem sumir vilja draga mörkin. Þangað til slíku er beitt telja þeir ekki að um nauðgun hafi verið að ræða.

Þar sem konan er til fyrir karlmenn er eðlilegt að túlka útlit hennar, klæðaburð og framkomu út frá því. Ef hún kemur fram sem aðlaðandi kynvera hlýtur hún að vera að biðja karlmenn um að ríða sér. Ef hún er í þess konar ástandi að hún á erfitt með að verjast ágangi er hún enn frekar að biðja um það. Ef hún hefur sýnt að hún hafi nautn af kynlífi og stundað það með fleirum en þykir hóflegt, er hún að biðja um það. Hún hefur takmarkaðan rétt til að hafna karlmanninum. Hún er drusla.

Ef konur vilja ekki láta nauðga sér, eiga þær að passa að gefa ekki frá sér þau skilaboð að þær séu þarna til að láta ríða sér. Þær ættu að klæðast hógværari fötum, vera í hópum, ekki drekka of mikið, ekki brosa til karla. En konum er reyndar nauðgað hvernig sem þær eru klæddar.

Það sem stendur hér að ofan er lýsing á ástandi. Því þarf að breyta. Ég hef heyrt að gengin verði drusluganga í Reykjavík. Reyna á að aftengja þetta orð drusla sem vopn. Því þetta orð er vissulega vopn og því er beitt gegn konum. Því er beitt gegn konum sem sofa hjá of mörgum og því er beitt gegn konum ef þær neita að sofa hjá. Við viljum færa ábyrgðina frá þolendum nauðgana yfir á gerendur. Við viljum ekki segja konum að vera ekki of ögrandi eða kynþokkafullar til að koma í veg fyrir nauðgun, við viljum segja körlum að hætta að nauðga.

Ég hef mínar efasemdir um druslugöngur, eins og sést kannski í upphafi þessa bloggs. Málefnið er gott og ég styð algerlega það grundvallaratriði að konur eiga ekki að þurfa að óttast nauðgun, hvernig sem þær klæðast eða haga lífi sínu. Það er spurning hvort við viljum stuðla að tvíhyggju milli druslu og góðrar stelpu. Næsta mál hlýtur að vera að útrýma þessum flokkum. Konur eru ekki annaðhvort druslur eða góðar stelpur. Er feðraveldinu raunverulega ógnað af druslugöngu? Er ekki málið að fara í femínistagöngu næst og rústa feðraveldinu?

(Hér er að lokum tengill með feminískri gagnrýni á slutwalk-fyrirbærið.)

6 thoughts on “Við elskum þessar druslur!

 1. admin

  Hmm. Já. Ég veit ekki. Ég myndi kannski taka undir kommentara „alikichapple“ (08 June 2011 at 12:49) við greinina.

 2. Eyja M B

  Ég má ekki vera að því að leggjast í lestur á tenglunum í bili (lofa að gera það seinna) en vil bara segja að mér finnst druslugangan alls ekki stuðla að þeirri tvíhyggju sem þú nefnir heldur einmitt vinna gegn henni. Ég skil hana frekar sem afbyggingu á drusluhugtakinu, að hver sem er sé til í að ídentífera sig sem drusla, sýna samstöðu með druslunum með því að fylkja sér í þeirra hóp. Mér dettur ekki í hug að fara að klæða mig sérstaklega upp í eitthvað stutt og flegið fyrir druslugönguna, hef ekki skilið það þannig að það væri einhver skylda. Og vissulega væri það slæmt ef druslugangan yrði að einhverju sexsjói fyrir unglingspilta (eða fullorðna karla með þeirra mentalítet).

 3. admin

  Já, þetta á að vera afbygging á drusluhugtakinu. Virkar það þannig? Ég veit það ekki. Kannski, vonandi. Sjálfsagt er hægt að segja, eins og alltaf: þetta er ekki nóg. Verður orðið notað gegn konu daginn eftir gönguna? Ekki ólíklegt. Eða annað orð. Mella, tík, ekki skortir orðskotfærin. Það er líka svo erfitt að átta sig á eða hafa áhrif á orðanotkun, eða menningar/félagsleg fyrirbæri. Mér finnst eins og það séu ýmsar ólíkar túlkanir í gangi á þessu, bæði drusluhugtakinu og druslugöngum, jafnvel togast á um þær. Ég get vel skilið feminista sem óttast að þetta sé ekki til gagns, eða lítils, nema sem mjög konkret viðbrögð við „konur ættu að passa sig að vera ekki druslur til að láta ekki nauðga sér“.
  Mér finnst eins og það þurfi einhvern dýpri skurð í líkama feðraveldisins til að komast að meininu sem kemur út m.a. sem druslu/gyðju tvíhyggja, en væri eflaust réttilega lýst sem kvenhatri. Svo – druslugangan gæti verið fyrstu skrefin?

 4. Eyja M B

  Það er sjálfsagt rétt hjá þér, þetta með mörgu túlkanirnar sem togast er á um. Og ég vona innilega að þetta verði ekki að einhverju fyrirbæri þar sem allt snýst um að mæta í hott átfitti heldur verði þarna fólk í víðum og skósíðum vaðmálsserkjum og kyrji „við erum öll druslur“. Eða eitthvað sambærilegt. Ég vona bara að drusluhugtakið nái að verða svo víðtækt að það verði merkingarlaust. Og auðvitað gerist það ekki með druslugöngu einni saman. Það þarf alveg ábyggilega eitthvað miklu meira og fleira en eina göngu til að komast að meininu, hvað svo sem gangan kann að nefnast.

Comments are closed.