Verk í vinnslu 1

Ég hef í mörg ár haft ákafan áhuga á því hvernig fólk myndar sér og viðheldur skoðunum sínum og heimsmynd, svo ekki sé talað um allar óorðuðu ómeðvituðu forsendurnar sem krauma undir eins og ormar undir steini. Hægt er að tengja þetta við heimspeki, þekkingarfræði, og þrotaðar pælingar um það hvort hlutir geti verið bæði grænir og bláir á sama tíma og hve mörg viskískot þarf að drekka áður en verufræðilega sönnun Anselms á tilvist Guðs fer að meika sens. (Guð er fullkomnasta vera sem hægt er að ímynda sér. Vera sem er til er fullkomnari en vera sem er ekki til. Þar af leiðandi er Guð til.)

En ég hef meiri áhuga á þessu í praxís og hvernig fólk ályktar í raun og veru. Þrátt fyrir fögur orð um sjálfstæði og gagnrýna hugsun myndum við okkur yfirleitt skoðanir og „þekkingu“ fyrst og leitum að, eða finnum upp, rök og ástæður seinna.

Mig minnir að ég hafi lesið um þetta fyrst (þannig að það hafi vakið nóga athygli mína) hjá Páli Skúlasyni. Ég held að greinin heiti „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ og hefur verið vinsælt lesefni í allskonar kúrsum, allavega vinsælt meðal kennara þessara námskeiða. Í þessari grein er meðal annars bent á að maður hefur tilhneigingu til að sækjast í staðfestingar skoðanna sinna, fremur en að reyna að fella þær út gildi. Í gamla daga var þetta útskýrt með því að við læsum Moggann eða Þjóðviljann eftir því hvort við tryðum á kapítalíska heterópatríarkíið eða kommúníska heterópatríarkíið en núna kennum við reikniritum Facebook um. Þetta á að minnsta kosti að vera andstætt því sem stundum er sagt vera vísindaleg aðferð, en lífið er ekki vísindi og vísindi eru það oft ekki heldur. Stundum er því haldið fram að vísindaleg aðferð gangi út á að setja fram tilgátur, byggðar á kenningum, og láta svo reyna á þær til hins ítrasta, reyna bókstaflega í alvöru að afsanna þær. Þetta er auðvitað ekki endilega það sem er gert, því þá væri erfiðara að fá styrki úr samkeppnissjóðum og birtingar í fræðilegum tímaritum.

Vísindaleg aðferð:

  1. Þú skalt ekki ljúga mikið.
  2. Ef mældur raunveruleiki getur ekki með nokkru móti komið heim og saman við kenninguna verðurðu að breyta kenningunni eitthvað örlítið eða viðurkenna að það eigi enn eftir að lagfæra nokkur smáatriði.
  3. Fyrri liðir eiga ekki við í styrkumsóknum.

Ég er að sjálfsögðu undantekning frá þessu vinnulagi.

Gagnrýnin hugsun felst samkvæmt Páli Skúlasyni í því „að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni fellst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni.“ Þetta þýðir strax að það er vonlaust að ástunda gagnrýna hugsun, meðal annars vegna þess að

  1. Heilinn myndar sér strax skoðun án meðvitaðrar hugsunar og finnur svo fullnægjandi rök eftirá, sama hver skoðunin er.
  2. Maður hefur nauðsynlega allt of margar skoðanir til að nokkur einasti möguleiki sé til að rannsaka þær allar af nokkru viti.

Ég hugsa um þetta úr tveimur áttum.

Í fyrsta lagi er til yndislegur litteratúr í sálfræði um það að heilinn noti tvö kerfi. Eitt sem virkar hratt, nánast ómeðvitað, lýsum því með heitum eins og „innsæi“ og „tilfinningum“. Það hefur í þessum fræðum hlotið hið skáldlega nafn „system 1“. Hitt kerfið virkar miklu hægar og er meðvituð, það sem kalla mætti rökhugsun – sem krefst áreynslu og veldur sársauka í heilanum. Flestir forðast þetta kerfi í lengstu lög. Þetta kerfi heitir hinu undursamlega nafni „system 2“. Þessum kerfum er lýst í bókinni „Thinking, Fast and Slow“ eftir Daniel Kahnemann, sem er sálfræðingur en hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir þessa pælingu. (Látum eiga sig að Nóbelsverðlaun í hagfræði eru ekki endilega góðs viti.) Annað efni úr sömu átt eru verk David Dunning og félaga. Kannski þekkja allir í dag hin rómuðu Dunning-Kruger áhrif: heimskt fólk er of heimskt til að fatta hvað það er heimskt. Ég myndi orða þetta kurteisar í viðurvist viðkvæmra sála (af hverju ekki „sálna“?) og er svosem víðtækara en akkúrat þetta. Til dæmis telja fjórar af hverjum fimm manneskjum sig vera betri bilstjóra en meðalbílstjóri og betra ljóðskáld en meðalljóðskáld, og betri í því að greina lygafréttir frá alvöru pródúksjón en venjulegur auli.

Það er þó ekki minna skemmtilegt að nálgast þetta út frá gagnrýnum fræðum og sálgreiningu. Þá er hver einstaklingur og hans heili ekki í brennidepli heldur við öll sem heild og allar þær leyndu langanir og forsendur sem eru undir og bakvið allt sem við gerum og segjum. Fólk verður oft mjög ringlað eða jafnvel reitt þegar þessir hlutir eru skoðaðir og ormar skríða úr holum steinsins í bláhvítu ljósi. Tvö stig ef þið þekkið þessa vísun.