Vændi og vinna

Ef trúa má læknisfræðitímaritum þá er vændi versta atvinnugrein í heimi. Í stórri langtímarannsókn frá Bandaríkjunum var dánartíðni vændiskvenna metin sexföld á við meðaltalið, en morðtíðnin átjánföld. (Sjá í British Medical Journal: Mortality in a Long-term Open Cohort of Prostitute Women.) Höfundar telja að vísu að þetta séu of lágar tölur, þær eru algert lágmark og byggjast á staðfestum dauðsföllum. Þeir telja líklegt að þeir hafi misst af einhverjum. Ég skoðaði tvær aðrar greinar (í British Medical Journal og Lancet) sem segja það sama: vændi er hættulegasta og mest heilsuspillandi starf sem til er.

Nú er það ekki óhjákvæmileg afleiðing þessara staðreynda að besta ákvörðunin sé að banna vændi með lögum að viðlögðum refsingum fyrir þá sem bjóða það eða kaupa það. Svo virðist sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telji skynsamari leið vera að gera vændi löglegt en beita í staðinn öðrum kraftmiklum aðferðum til þess að hjálpa fólki sem er í vændi, efla vald þess og stöðu, reyndar með það fyrir augum að það geti að lokum sagt skilið við þetta hlutverk. (Sjá í Lancet: Sex-work harm reduction.) En hér ber að hafa í huga að við erum einkum að tala um praktískar leiðir fyrir fólk sem býr ekki í ríkum sósíaldemókratískum löndum. Ef aðrir möguleikar til framfærslu eru engir eða verulega vondir er ekki skynsamlegt að vændi sé glæpsamlegt.

Af hverju fór ég að skrifa þetta og hver er punkturinn? Svarið er að ég sé fólk, sem að ýmsu öðru leyti virðist skynsamt, talar eins og vændi sé eins og hver önnur vinna. Það er það ekki. Og mér finnst eiginlega óskiljanlegt hvers vegna sama fólk telur að þetta sé á einhvern hátt „ósannað“. Auk þess séu til dæmi um fólk sem vilji stunda vændi. Og margt annað sem fólk gerir til að framfleyta sér sé ömurlegt. Þetta tvennt síðarnefnda er alveg rétt. En það breytir því ekki að á alla raunvísindalega mælikvarða (dánartíðni, sjúkdómar, tíðni árása) er vændi versta starf sem til er, að minnsta kosti þar sem það hefur verið kannað.

Ég get líka vel fallist á að það kunni að vera rétt að leyfa vændi en ég held að það fari eftir samfélaginu. Í norrænu velferðarsamfélagi eru góð rök fyrir því að banna vændiskaup með lögum, vegna þess að við eigum að geta boðið öllum upp á aðra betri valkosti. Það kann að vera skynsamlegt að fara aðrar leiðir annars staðar og leggja frekar í aðgerðir til að hjálpa og lágmarka þann skaða sem fólk í vændi verður fyrir.

3 thoughts on “Vændi og vinna

 1. Eva Hauksdóttir

  Ástæðan fyrir því að margir telja það bæði ósannað og ólíklegt að vændi sem slíkt sé heilsuspillandi og banvænt er sú að þegar aðstæður vændiskvenna eru rannsakaðar og hryllingsniðurstöður settar fram, er sjaldan gerður greinarmunur á þrælum og frjálsum konum, hvað þá að menn hafi rænu á því að gera greinarmun á fíklum og konum sem ekki eiga við slík vandamál að etja.

  Í greininni sem þú vísar til kemur fram að vímuefnaneysla og ofbeldi séu algengustu dánarorsakirnar. Margar konur fara út í vændi til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu. Þær deyja vegna þess að lifa áhættusömu lífi. Fikniefnaneytendur sem ekki stunda vændi eru iðulega í afbrotum þar sem lífshættan er síst minni. Ekkert segir hinsvegar að kona sem ekki er í þessháttar líferni sé í meiri hættu en fólk í mörgum “venjulegum” störfum.

  Hvort sem fólk býr við sólíaldemókratisma eða eitthvað annað, ætti það að fá að stjórna sínu lífi sjálft. Sjálfsagt er að taka hart á þrælahaldi, halda uppi öflugu forvarnastarfi meðal unglinga og bjóða upp á aðstoð fyrir þá sem kæra sig um að hætta vímuefnaneyslu og/eða vændi. Það að sjálfskipaðar bjargvættir reyni að hafa vit fyrir öðrum með því að búa til glæp án fórnarlambs er hinsvegar óþolandi. Nær væri að gefa vændishúsum gæðastimpil þannig að þeir sem þau stunda geti reiknað með að þar sé ekki þrælahald í gangi og að konur geti stundað þessa iðju í öruggu umhverfi.

 2. admin

  Svo ef veruleikinn væri öðruvísi en hann er, þá væri vændi í lagi. Ef það fólk sem er í vændi er flokkað þannig að við tökum burt alla sem lifa áhættusömu lífi, tekur eiturlyf, eru “í þrældómi”, þá sé afgangurinn í góðu lagi? En er ekki einmitt niðurstaðan að þessir hlutir eru fylgifiskar vændis, órjúfanlegur hluti þess “menningarheims”? Þú getur ekki bara litið burt frá raunveruleikanum og rökrætt út frá ímyndun þar sem vændiskonur “lifa ekki áhættusömu lífi”. Út frá abstrakt sjónarmiði, ef maður má velja hvernig heimurinn er, gæti vændi ef til vill verið þægileg vinna. Raunveruleikinn er bara annar. Og hann er það líka þrátt fyrir að til séu undantekningar. Tölfræðin er skýr þótt hún taki ekki til allra – fyrir yfirgnæfandi meirihluta er vændi ömurleg “vinna”.
  Finnst þér ekkert umhugsunarefni að starfandi vændiskona er 18 sinnum líklegri til að verða myrt en meðalkona? Sú tala er fengin með því að fylgjast með vændiskonum í Colorado Springs í meira en 20 ár.

 3. Eva Hauksdóttir

  Ég er ekki með neina ímyndun um að vændiskonur lifi ekki áhættusömu lífi. Ég tel hinsvegar að það að glæpgera þennan iðnað dragi ekkert úr áhættunni. Það er ekki langt síðan íslenskir sjómenn lifðu mjög áhættusömu lífi. Það var tæklað með þvi að efla öryggi þeirra en ekki með því að svipta þá lifibrauðinu.

Comments are closed.