Ungur, hvítur og ríkur

Þeir sem þetta lesa eru flestir hvítir Íslendingar. Í krafti þess njóta þeir forréttinda og yfirburða yfir flestum jarðarbúum. Sumir lesendur eru karlar, og þeir njóta þess vegna forskots umfram konur á ótal vegu. Einhverjir eru streit og þeir njóta forréttinda þess vegna. Sjálfsagt eru þeir flestir ágætlega settir í stétt, kannski dæmigerðir millistéttarborgarar, misþrúgaðir af skuldum, en fæstir í raunverulegri fátækt. Þeir njóta þess. Að auki mætti telja sem forréttindi að vera ekki-fatlaður, grannur, menntaður, og svo framvegis. Völdin streyma um okkur þvers og kruss, eins og við tilheyrum alls kyns flokkum sem veita mismunandi völd.

Þetta snýst ekki um það hvort fólk er gott eða vont. Hvítir ríkir karlar geta verið ágætis náungar. En þeir njóta samt sem áður yfirburða vegna þess einfaldlega að vera hvítir ríkir karlar. Burt séð frá öðrum kostum og löstum. Það er ekki þannig að hvítir karlar ákveði á leynifundum að þeir eigi að hafa forréttindi, hins vegar eiga þeir oft erfitt með að koma auga á það sjálfir að þeir hafa þau, og það sem þeir gera er mjög oft til þess fallið að viðhalda þeim eða auka þau.

Þetta snýst heldur ekki um það að einstaklingum séu allar leiðir lokaðar. Við vitum að sumar konur komast í valdastóla. Sumir hommar eiga fullt af peningum. Sumir menn komast langt upp í valdapýramídann þrátt fyrir stutta skólagöngu. Svona mætti lengi telja. Það eru til ótal undantekningar. En breytir ekki því að leiðin er erfiðari fyrir suma, þeir þurfa að vinna meira fyrir “árangrinum” og þeir þurfa að laga sig að reglum og hefðum þess stigveldis sem mismunar.

Þetta snýst ekki svo mikið um það hvort fólki misbýður og hvort það móðgast eða særist. Vandinn við brandara er ekki fyrst og fremst að þeir særi tilfinningar, þó að það sé hluti af virkni þeirra. Vandinn er að þeir viðhalda eða magna upp ýmiskonar viðhorf og skilgreina hvers konar fyrirlitning og mismunun er viðtekin og eðlileg í menningunni, hver hefur völdin. Brandarar sem gera grín að þeim sem er mismunað hafa sínu hlutverki að gegna í mismununarmenningunni.

Þetta snýst ekki um að banna brandara eða banna fólki að hugsa það sem það vill eða banna skoðanir eða banna hvíta ríka karla.

Þetta snýst um að það er í heiminum raunverulegt stigveldi, valdamismunur, eða til að reyna að halda nákvæmni þá eru mörg stigveldi sem fléttast saman og vinna saman. Fólki er mismunað og fólk er útilokað, bæði opinberlega og í gegnum ýmislegt sem ekki er sýnilegt. Baráttan er gegn mismunun, útilokun og kúgun.

One thought on “Ungur, hvítur og ríkur

  1. Anna

    Ég held reyndar að hommar eigi margir hverjir peninga, þar sem þeir njóta forréttinda karla í launum og eru fæstir með börn sem þeir þurfa að borga undir. En þeim er mismunað á annan hátt en efnahagslega.

Comments are closed.