Tími tilkominn að tengja

Gagnstætt því sem margir halda er Internetið mikil dásemd. Mikilfenglegra en orð fá lýst. Ég mun hella úr kaffibollanum yfir næsta mann sem segir í kaldhæðnu gríni að hann þoli ekki netið, það sé bóla, tímaþjófur, eða dregur með nokkrum hætti úr jákvæðum áhrifum þess á lífið.

Eitt af því sem netið hefur gefið mér, er aðgangur að þekkingu, innblæstri og tengingu við hugsun annnara um stærðfræðimenntun, nám og kennslu. Ef ég hefði ekki haft internetið, ég veit ekki hvað ég hefði getað gert – væri sjálfsagt löngu hættur að spá í kennslu og farinn að forrita einhverjar auglýsingar eða hirða um geitur. Ela! Ela! myndi ég kalla. Hér er eitt uppáhald mitt í dag. Kannski skrifa ég um og tengi á önnur uppáhöld síðar.

Dan Meyer – hann er með mikið af frumlegu og góðu kennsluefni, auk pælinga um menntun og menntakerfi. Skapar og tekur þátt í „opinberri umræðu framsækinna stærðfræðikennara í Bandaríkjunum“ svo ég búi til hugtak. Ein af hugmyndum hans er „stærðfræði í þremur þáttum“ (sjá opið verkefnasafn).

Stærðfræði í þremur þáttum nýtir sér sígilda byggingu frásagna:

  1. Kynntu megintogstreitu sögunnar/verkefnisins á skýran, sjónrænan, lifandi hátt, með eins fáum orðum og mögulegt er.
  2. Aðalpersónan/nemandinn sigrast á hindrunum, nýtir sér bjargir og þróar ný tól og nýja getu.
  3. Leyst er úr togstreitunni og gert tilbúið fyrir næstu sögu/bindi/sequel…

Hér er fyrsti þáttur eins verkefnis:

Hvað á Fry í bankanum í dag?

Skoðið svo alla þrjá þættina í heild sinni hér.