Tag Archives: vald

Sýn ríkis og reiknirita

Ég setti mér ekki áramótaheiti um lestur tiltekinna fjölda bóka en ég hafði samt í huga að reyna að lesa einhverjar bækur á árinu og halda utan um þær. En hvað er það að lesa bók? Kannski er óþarfi að hugsa of mikið um lestur á skáldskap, ég get lesið hann mér til ánægju án þess að leggja í greiningarvinnu. En hvað með fræðibækur eða hálf-alþýðlegar fræðilegar bækur? Þarf ég ekki að skrifa eitthvað, hugsa eitthvað, draga saman, vinna úr, áður en ég gleymi öllu? Er hægt að hafa lesið bók og samt hraðlesið eða hoppað yfir einhverja kafla?

Í Seeing like a State fjallar höfundurinn James C. Scott um það hvernig skipuleg skráning á flóknum veruleika gegnum staðlaðar, abstrakt mælistærðir og hugtök hefur áhrif á veruleikann. Hann segir að með því að binda líf og starfsemi fólks í slíkan búning fái stjórnendur yfirsýn og tök á lífi og starfsemi fólks. Hann rekur margar dæmisögur til þess að varpa ljósi á þetta:

  • Ríkið staðlaði mælieiningar fyrir lengdir, þyngdir og verðmæti til þess að það gæti lagt skatta á eignir og viðskipti. Ef fólk notar ólík viðmið er allt of auðvelt að svindla. Og öll skráning og utanumhald upplýsinga, og þar með áætlanagerð verður mjög erfið.
  • Ríkið festi eiginnöfn þegnanna til þess að geta talið þá, haldið skrá um þá (til dæmis um herþjónustu, eignir, dóma og svo framvegis). Ég hafði aldrei áður hugsað um þetta, að lókal nafnasiðir kröfðust þess ekki að ein manneskja hefði eitt opinbert nafn.
  • Borgarskipulag fyrri tíðar var svo kaótískt að margskonar stjórnun var mjög erfið. Heimilisföng með tilteknu götuheiti og húsnúmeri eftir einhverju kerfi er seinni tíma uppfinning sem gerir borgirnar læsilegri og sýnilegri.
  • Það kerfi að sérhver landspilda sé nákvæmlega afmörkuð og með skilgreindu eignarhaldi er líka nýrri tíma uppfinning, nauðsynleg fyrir gangvirki kapítalismans, eignaskráningu, skatta, úrskurði dómstóla og svo framvegis. Höfundurinn tekur dæmi um þetta hafi alls ekki verið svona heldur hafi stór hluti lands verið almenningur en einnig hafi verið ýmis önnur eignarform þar sem fjölskyldur eða þorp skiptu með sér landi en þannig að mörkin hafi verið fljótandi og ráðist af ýmsu öðru en landmælingum og flatarmáli.

Meginboðskapurinn er að þegar saman fari hámódernísk hugmyndafræði (einhvers konar vísindatrú), ofurvald stjórnenda og veiklaður almenningur, þá sé hætta á því að valdið fari að móta veruleikann eftir þessum mælistærðum og kategoríum: reisa nýjar borgir frá grunni samkvæmt því skipulagi sem er auðveldast að skrá og stjórna og skipuleggja landbúnað upp á nýtt. Allt út frá því sem lítur „best“ út á korti, með beinum línum og skýrum kerfum, allt samræmt svo það sé auðveldast að reikna í Excel. Þetta leiði hins vegar stundum til mikilla hörmunga vegna þess að abstrakt skipulag tekur ekki tillit til flókins veruleika. Þannig hafi til dæmis tilraunir til að endurskipuleggja landbúnað með þessum hætti leitt til hungursneyða.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að lesa þessa bók var twitter færsla þar sem fólki í gagnavísindum (data science) var bent á að lesa þessa bók, í viðvörunarskyni. Bókin er mjög viðeigandi í því samhengi vegna þess að hún beinir athyglinni að því að þegar gögnum er safnað þá eru þau alltaf abstrakt, þau eru ekki veruleikinn sjálfur, heldur einföldun. Fólk er til dæmis flokkað eftir einhverjum viðmiðum (litur, uppruni, tekjur, aldur, kyn, …). Þegar kerfi og reiknilíkön eru smíðuð vinna þau út frá slíkum einföldunum og þegar þau eru svo notuð til þess að taka ákvarðanir þá eru þau að móta veruleikann eftir þessum tilteknu einföldunum. Það hvernig þessir flokkar eru skilgreindir er í raun hápólitísk ákvörðun, en þetta er oft falið inni í reikniritum (algóritmum) sem fá skilja. Þannig er um að ræða beina tengingu við aðra gagnrýna umfjöllun um „vald reiknirita“ svo sem eins og í bók Cathy O’Neil, Weapons of Math Destruction og bók Hannah Fry, Hello World. Í þessum bókum er til dæmis fjallað um og gagnrýnt það hvernig reiknirit hafa verið notuð til að ákvarða hvort fólk fær lán, ákvarða þyngd refsinga í dómskerfi, hvaða auglýsingar það sér á netinu og til að spá fyrir um glæpi (hvar og hvenær þeir gerist), svo fátt eitt sé nefnt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er til dæmis hvort og í hvaða mæli stærðfræðinám geti gert fólk meðvitað og gagnrýnið á vald reikniritanna og þeirra stærðfræðilegu líkana sam hafa mikil áhrif á samfélagið. Í einni fræðigrein stendur til dæmis

A mathematically literate adult should be aware of the danger of the substitution of political, philosophical, social and juridical arguments by numerical arguments that rely on complicated measures. 

Jablonka E. (2003) Mathematical Literacy. Í Bishop A.J., Clements M.A., Keitel C., Kilpatrick J., Leung F.K.S. (ritstj) Second International Handbook of Mathematics Education.

Alltaf þegar ég hugsa um þetta finnst mér eins og þetta gæti verið óraunhæft markmið. Reikniritin eru flókin og á hvaða plani getur almenningur skilið þau? Er hægt að fjalla um þau almennt þannig að gagn sé að, en án þess að farið sé út í línulega algebru, gagnaskipan í tölvum, tölfræðiforritun og svo framvegis?

Róttæk kennslufræði

Ég var áðan með námsstofu í Róttæka sumarháskólanum sem nefndist Róttæk kennslufræði II (framhald frá því í fyrra). Ég vona að þeir sem mættu hafi farið út einhverju bættari og að þetta hafi ekki verið leiðinlegt. Allmargir mættu og úr mörgum ólíkum áttum. Ég er ekki viss um að ég sé nógu flinkur að „stjórna umræðum“. En ég ákvað reyndar, í þetta skipti, að vera með fyrirlestur – með innleggjum úr sal. Ég vildi reyna að koma á framfæri nokkrum fræðilegum hugtökum, sem hægt er að nota til að hugsa með, um skólakerfið. Það eru marxísk hugtök eins og skiptagildi, notagildi og firring, og „tákrænn auður“ frá Bourdieu. Ég lagði til að þáttakendur kynntu sér 2 „almennar“ greinar sem eru dæmigerðar fyrir opinbera umræðu um námskrár: hvaða efni á að kenna í skólum? (Í þessu tilviki: er nauðsynlegt að kenna algebru í skólum?) Auk þess benti ég á fræðilega grein, sem er reyndar töluvert erfiður lestur. En, eins og á við um öll réttnefnd fræði og vísindi, þá veitir hún innsýn og fer undir yfirborðið. Tenglar á greinarnar eru á síðunni minni um stærðfræði/menntun.

Mannréttindi fólks af röngum uppruna

Hatur, ótti og fyrirlitning á útlendingum eru þrástef í okkar menningu og kannski víðast hvar. Hér gæti verið rétt að gera nánari grein fyrir því hvað „útlendingur“ þýðir í þessu samhengi. Til dæmis telst hvítt millistéttarfólk yfirleitt ekki til þessa hóps, svo ekki sé talað um kvikmyndastjörnur. En þetta getur verið dálítið breytilegt. Í dag eru hinir ógnandi útlendingar aðallega brúnt fólk frá fátækum löndum. Rætt er um slíkt fólk á þann hátt að ljóst er að það er í raun ekki talið til manna, það er ekki talið sjálfsagt að það njóti mannréttinda. Það er einfaldlega gengið út frá því að það eigi ekki að hafa frelsi til að ferðast, setjast að og vinna hér á landi.

Við lesum um þessa útlendinga í leiðurum íhaldsblaða og heyrum um þau úr munnum stjórnmálamanna, en líka á kaffistofum og heimilum. Áróður í fjölmiðlum virkar ekki nema að hann eigi sér hljómgrunn. Heimamenn eru tilbúnir að trúa alls konar vitleysu upp á þessa útlendinga og alhæfa út frá fréttum um einstök atvik og flökkusögur verða að staðreyndum. Á móti kemur að glæpir og einkennilegt háttalag heimamanna eru útskýrð sem undantekningar. [Nema að heimamaðurinn tilheyri einhverjum undirskipuðum hópi, þá er þetta skýrt út frá eiginleikum hópsins, til dæmis femínistar, atvinnulausir, latte-lepjarar osfr.] Engum dettur í hug að vara við hvítum kristnum millistéttarkarlmönnum þó svo að þeir séu yfirgnæfandi fjöldi í hópi fjöldamorðinga í ríku löndunum. Og þá er ég ekkert að tala um stríðsgleði þeirra og tilhneigingu til að drepa fólk með sprengjum úr flugvélum. Þessi ótti/fyrirlitning hefur verið rannsökuð út frá mörgum sjónarhornum, cognitive-sálfræðilegu, marxísku, þjóðfræðilegu og fleirum og allnokkrar kenningar til. Ég fer ekki nánar út í það hér, verð bara á léttu nótunum.

Árið 1998 birti Davíð Oddsson í Morgunblaðinu afar smekklausan „jólasálm“, sem ég birti með örlitlum breytingum í bókinni Handsprengja í morgunsárið. Ég gerði það aðallega til að sýna botnlausa hræsni þessa manns. Hugsið ykkur bara: annars vegar að yrkja „jólasálm“ og fá hann meira að segja fluttan í ríkisútvarpinu og hins vegar að gefa samþykki sitt fyrir hönd þjóðarinnar á innrás og stríði sem hefur kostað hundruð þúsunda mannslífa. Hér að ofan getur að líta skjáskot af sálminum, með nótum, úr opnu Morgunblaðsins 24. desember 1998 (opið á timarit.is).

En tilefni þessa pistils (loksins!) er auðvitað leiðari Morgunblaðsins frá því í gær, þar sem flóttamenn eru hrakyrtir, Ísraelsríki er hampað, og varað við íslamistum. Ég sá á Facebook að Hjálmtýr Heiðdal hafði bent á hliðstæðu – í Morgunblaðinu 7. apríl 1938. Efnislega er merkingin svipuð og í Morgunblaðinu 25. júlí 2012.

Hvernig orð sem þessi fara saman við kærleiksboðskap eins og þann sem menn lesa úr sögunni um Jesú Krist skil ég ekki. „Hefði ég ekki kærleika væri ég ekki neitt“ eins og þar stendur. Hvernig þau samrýmast hugmyndinni um mannréttindi skil ég ekki heldur. En reynslan sýnir, jafnt sem rannsóknir, að maður er ekki eitt heldur margt. Hræsnin er erfið að  uppræta. Allt í lagi að reyna samt.

Kosningaforsetar

Mælingar sýna að eftir því sem síðasta skólastig fólks er lægra, þeim mun líklegra er það til að segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar.

Ég stenst freistinguna að segja að þetta sýni hversu mikilvægt sé að hækka menntunarstig þjóðarinnar, en samt ekki alveg.

Þegar Ólafur Ragnar var kosinn í fyrsta sinn minnir mig að ég hafi kosið hann af einhverskonar níhílískum hvötum. Mér þótti skemmtilegt að hugsa til forseta sem væri fjandmaður Davíðs og ekki vildi ég heldur fá sjálfstæðismann í embættið. En ég sá forsetann fyrst og fremst sem platfígúru og grín og bar enga virðingu fyrir því. Í einhverjum skilningi hefur það ekki breyst þó að Ólafur hafi umturnað eðli þess.

Hugmyndin um forseta sem sameiningartákn er plat í þeim skilningi að það er margt sem sundrar fólki og völdum og auði er misskipt. Við erum ekki öll á sama báti. Vigdís var plat (og hvílíkt plat!), Kristján Eldjárn var plat. Og svo framvegis. En þetta vita flestir – eða veit og veit ekki – þetta er einhver þversagnarkennd staða. Fólk veit að „þjóðin er ekki sameinuð“ og hefur aldrei verið. Samt er eitt og annað sem fólk sameinast um, enda þurfum við að umgangast og eiga í samskiptum við hvert annað, milli stétta og staða. Við hittumst öll í fjölskylduboðum og mætumst á götunni.

Sitjandi forseti hefur mest fylgi í könnunum. Líklega getur hann þakkað vinsældir sínar ákvörðunum sínum í IceSave-málinu. Og það er ekki bara vegna þess tiltekna máls heldur vegna þess að hann sýndi með því að hann er einspilari og getur verið mótvægi við ríkjandi stjórn hverju sinni. Fólk veit að hann mun beita öllum brögðum og ekki láta undan. Það sem er skemmtilega þversagnarkennt við þetta er: af hverju kjósa þing til að „ráða“ en vilja svo samt ekki að það ráði. Og að mótvægið sé þá einhver einn maður, sem velur bara þau mál sem falla að hans eiginhagsmunum til að pönkast í. Því eins og við vitum: ekki setti hann sig gegn Íraksstríðinu, og ekki gegn Kárahnjúkum. Samt voru þessi mál mjög umdeild og ekki víst að meirihluti hafi verið með þeim. Þeir sem kjósa Ólaf eru augljóslega ekki að kjósa sameiningartákn, því allir vita að mjög mörgum er tilhugsunin um hann áfram sem forseta nánast óbærileg. Þeir eru að kjósa hann sem mótvægi við þingið (og mörgum er ESB aðildarvilji þess ofarlega í huga.)

Þóra Arnórsdóttir hefur næst mesta fylgið. Hana kjósa þeir sem vilja að þingið fari með löggjafarvaldið í landinu, og þeir sem vilja í raun og veru að hlutverk forseta sé ekki pólitískt. Þóra er augljóslega gædd mörgum góðum eiginleikum, er klár og kemur vel fyrir. Upplagt til að heimsækja veik börn, veita verðlaun og hjálpa okkur að viðhalda blekkingunni/raunveruleikanum um okkur sem eina þjóð. Og kannski einhverjir sem hafa slíka ímugust á Ólafi Ragnari sjálfum að þeir vilja hann burt, en hafa kannski engar sérstakar skoðanir á embættinu.

Aðrir hafa svo minna fylgi, en ég er ekki opinber stofnun og ég nenni ekki að fara yfir aðra frambjóðendur, þó að þeir kunni að eiga jafn mikið erindi í embættið eins og þau tvö.

Ég hef reyndar forðast fréttir, þætti og auglýsingar um þessar kosningar eins og pestina, því mér finnst það allt óbærilega leiðinlegt. En nú legg ég samt mitt af mörkum í þá hít. Og geri ráð fyrir að kjósa Þóru þó að ég taki undir með ályktun Öldu, sem telur rétt að forsetaembættið verði lagt niður.

Hugsað upphátt: Glæpir og refsingar

Þetta sumar hefur verið rosalegt. Hryðjuverk í Noregi, óeirðir á Bretlandi. Fjármálakerfið höktir. Ég hef setið við tölvu og legið með tölvu, endalaust að lesa fréttir, skýringar, fræðigreinar og ekki má gleyma botnlausu þruglinu í kommenturum og bloggurum. Ég hef ætlað að skrifa oft. Ég hef ætlað að skrifa lengi. Ég skil ekki hvernig stendur á því að svona margir skrifa á netið um hluti sem þeir vita lítið um. Ég er ekki að meina að viðkomandi hafi lítið vit, eða að þeir megi ekki eða eigi ekki að hafa skoðanir. Sjálfur á ég svo erfitt með að tjá mig nema að ég hafi að minnsta kosti aðeins reynt að komast að því hvað best er vitað um viðkomandi hluti. Þetta veldur auðvitað því að ég kemst stundum ekki svo langt að byrja að skrifa áður en næstu tíðindi dynja yfir, eða ég dett í hraðskákarmaraþon á netinu eða eitthvað annað. Svo auðvitað verður maður að tala og mynda sér skoðanir án þess að kynna sér allt til hlítar.

Breivik

Ég ætlaði að skrifa um Breivik. Ég ætlaði að benda á að aðferðarfræði hans er svipuð og eignuð er al-Kaída, eins konar „open source“ hryðjuverkabarátta. Hún fer ekki fram gegnum víðfeðman strúktúr eða híerarkíur, heldur er hugmyndunum dreift, og treyst á að óháðir hópar eða einstaklingar taki til vopna.

Hryðjuverkamenn byggja baráttu sína alltaf á hugmyndum sem eru töluvert viðteknar, sem eiga sér umtalsverðan stuðning. Hugmyndin er oft eitthvað eins og að hrekja burt hernámslið, eða að reyna að þvinga stjórnvöld til að afnema eitthvert óréttlæti. En það þarf að umbreyta hugmyndinni í trúverðuga von. Til þess þarf að gera árangursríka (sem skelfilegasta) árás. Ef það tekst hefur verið sýnt fram á að skotmarkið hafi veikleika og mögulegt sé að vinna stríðið. Þannig er hryðjuverkið auglýsing og hvatning fyrir önnur skoðanasystkini, og einhver þeirra munu reyna að fylgja því eftir með frekara ofbeldi.

Allt þetta veit Breivik, þetta er ekki bara eftiráspeki fræðimanna. Hann veit líka ýmislegt um áróður og virkni fjölmiðla, hann veit að hann á sér stóran hóp „hófsamari“ samherja, að hann verði hataður og að það skiptir máli að líta ekki út eins og nasisti, það skiptir máli að orða hlutina rétt, tala ekki um að drepa eða útrýma múslimum, heldur bara um að þeir eigi að snúa aftur úr Evrópu.

Í tilfelli Breiviks er stóra hugmyndin sú að múslimar séu að yfirtaka Evrópu. Þetta er útbreidd hugmynd. Hér á landi hafa til dæmis fyrrverandi þingmenn, Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson, reynt að nýta sér þessa hugmynd og koma henni á framfæri. Bókaútgáfan Ugla hefur gefið út að minnsta kosti tvær bækur sem ganga út á þessa kenningu. (Þessi hugmynd er út í hött en ég nenni ekki að skrifa um það núna. Get vísað á þennan dóm um bókina Íslamistar og naívistar. Sú bók hlaut almennt hlýjar viðtökur á Íslandi, og marga lofsamlega dóma hægrimanna eins og á andriki.is.)

Breivik tilheyrir semsagt þeim stóra hópi fólks sem ímyndar sér að í ríku löndunum (eins og Noregi og Danmörku) sé við lýði einhverskonar fjölmenningarstefna. Þar sem innflytjendur séu boðnir velkomnir, þeim veitt allskyns fyrirgreiðsla en þeir svari með því að leggjast í leti og glæpi. Það er erfitt fyrir mig að skrifa eins og ég vilji svara þessu, því þetta er svo æpandi ranghugmynd. Bæði norrænu kratarnir og rasistarnir hafa rangt fyrir sér. Fjölmenningarstefnan hefur engin verið. Einhver fjöldi fólks hefur vissulega fengið að flytja til þessara landa, þar sem það fer beinustu leið í lægsta þrep þjóðfélagsins og vinnur láglaunastörf ef og þegar það fær að vinna. Staða þeirra er veik og þeim er mismunað bæði leynt og ljóst. Þeim er lofað aðgengi að verðleikasamfélaginu, þar sem ríkir einstaklingsfrelsi og jafnrétti en svo er í raun ekki ætlast til þess að þeir komist áfram. Jæja, nú er ég kominn út fyrir efnið, það er kannski eitthvað um þetta í áðurnefndum bókadómi. En punkturinn er: komið fyrst á fjölmenningarlegu samfélagi og þá skulum við tala saman um það hvort það „virkar“.

Ég ætlaði líka að hugsa um óeirðirnar á Englandi, en þetta er orðið gott.

Ungur, hvítur og ríkur

Þeir sem þetta lesa eru flestir hvítir Íslendingar. Í krafti þess njóta þeir forréttinda og yfirburða yfir flestum jarðarbúum. Sumir lesendur eru karlar, og þeir njóta þess vegna forskots umfram konur á ótal vegu. Einhverjir eru streit og þeir njóta forréttinda þess vegna. Sjálfsagt eru þeir flestir ágætlega settir í stétt, kannski dæmigerðir millistéttarborgarar, misþrúgaðir af skuldum, en fæstir í raunverulegri fátækt. Þeir njóta þess. Að auki mætti telja sem forréttindi að vera ekki-fatlaður, grannur, menntaður, og svo framvegis. Völdin streyma um okkur þvers og kruss, eins og við tilheyrum alls kyns flokkum sem veita mismunandi völd.

Þetta snýst ekki um það hvort fólk er gott eða vont. Hvítir ríkir karlar geta verið ágætis náungar. En þeir njóta samt sem áður yfirburða vegna þess einfaldlega að vera hvítir ríkir karlar. Burt séð frá öðrum kostum og löstum. Það er ekki þannig að hvítir karlar ákveði á leynifundum að þeir eigi að hafa forréttindi, hins vegar eiga þeir oft erfitt með að koma auga á það sjálfir að þeir hafa þau, og það sem þeir gera er mjög oft til þess fallið að viðhalda þeim eða auka þau.

Þetta snýst heldur ekki um það að einstaklingum séu allar leiðir lokaðar. Við vitum að sumar konur komast í valdastóla. Sumir hommar eiga fullt af peningum. Sumir menn komast langt upp í valdapýramídann þrátt fyrir stutta skólagöngu. Svona mætti lengi telja. Það eru til ótal undantekningar. En breytir ekki því að leiðin er erfiðari fyrir suma, þeir þurfa að vinna meira fyrir “árangrinum” og þeir þurfa að laga sig að reglum og hefðum þess stigveldis sem mismunar.

Þetta snýst ekki svo mikið um það hvort fólki misbýður og hvort það móðgast eða særist. Vandinn við brandara er ekki fyrst og fremst að þeir særi tilfinningar, þó að það sé hluti af virkni þeirra. Vandinn er að þeir viðhalda eða magna upp ýmiskonar viðhorf og skilgreina hvers konar fyrirlitning og mismunun er viðtekin og eðlileg í menningunni, hver hefur völdin. Brandarar sem gera grín að þeim sem er mismunað hafa sínu hlutverki að gegna í mismununarmenningunni.

Þetta snýst ekki um að banna brandara eða banna fólki að hugsa það sem það vill eða banna skoðanir eða banna hvíta ríka karla.

Þetta snýst um að það er í heiminum raunverulegt stigveldi, valdamismunur, eða til að reyna að halda nákvæmni þá eru mörg stigveldi sem fléttast saman og vinna saman. Fólki er mismunað og fólk er útilokað, bæði opinberlega og í gegnum ýmislegt sem ekki er sýnilegt. Baráttan er gegn mismunun, útilokun og kúgun.