Tag Archives: stjórnmál

Kosningaforsetar

Mælingar sýna að eftir því sem síðasta skólastig fólks er lægra, þeim mun líklegra er það til að segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar.

Ég stenst freistinguna að segja að þetta sýni hversu mikilvægt sé að hækka menntunarstig þjóðarinnar, en samt ekki alveg.

Þegar Ólafur Ragnar var kosinn í fyrsta sinn minnir mig að ég hafi kosið hann af einhverskonar níhílískum hvötum. Mér þótti skemmtilegt að hugsa til forseta sem væri fjandmaður Davíðs og ekki vildi ég heldur fá sjálfstæðismann í embættið. En ég sá forsetann fyrst og fremst sem platfígúru og grín og bar enga virðingu fyrir því. Í einhverjum skilningi hefur það ekki breyst þó að Ólafur hafi umturnað eðli þess.

Hugmyndin um forseta sem sameiningartákn er plat í þeim skilningi að það er margt sem sundrar fólki og völdum og auði er misskipt. Við erum ekki öll á sama báti. Vigdís var plat (og hvílíkt plat!), Kristján Eldjárn var plat. Og svo framvegis. En þetta vita flestir – eða veit og veit ekki – þetta er einhver þversagnarkennd staða. Fólk veit að „þjóðin er ekki sameinuð“ og hefur aldrei verið. Samt er eitt og annað sem fólk sameinast um, enda þurfum við að umgangast og eiga í samskiptum við hvert annað, milli stétta og staða. Við hittumst öll í fjölskylduboðum og mætumst á götunni.

Sitjandi forseti hefur mest fylgi í könnunum. Líklega getur hann þakkað vinsældir sínar ákvörðunum sínum í IceSave-málinu. Og það er ekki bara vegna þess tiltekna máls heldur vegna þess að hann sýndi með því að hann er einspilari og getur verið mótvægi við ríkjandi stjórn hverju sinni. Fólk veit að hann mun beita öllum brögðum og ekki láta undan. Það sem er skemmtilega þversagnarkennt við þetta er: af hverju kjósa þing til að „ráða“ en vilja svo samt ekki að það ráði. Og að mótvægið sé þá einhver einn maður, sem velur bara þau mál sem falla að hans eiginhagsmunum til að pönkast í. Því eins og við vitum: ekki setti hann sig gegn Íraksstríðinu, og ekki gegn Kárahnjúkum. Samt voru þessi mál mjög umdeild og ekki víst að meirihluti hafi verið með þeim. Þeir sem kjósa Ólaf eru augljóslega ekki að kjósa sameiningartákn, því allir vita að mjög mörgum er tilhugsunin um hann áfram sem forseta nánast óbærileg. Þeir eru að kjósa hann sem mótvægi við þingið (og mörgum er ESB aðildarvilji þess ofarlega í huga.)

Þóra Arnórsdóttir hefur næst mesta fylgið. Hana kjósa þeir sem vilja að þingið fari með löggjafarvaldið í landinu, og þeir sem vilja í raun og veru að hlutverk forseta sé ekki pólitískt. Þóra er augljóslega gædd mörgum góðum eiginleikum, er klár og kemur vel fyrir. Upplagt til að heimsækja veik börn, veita verðlaun og hjálpa okkur að viðhalda blekkingunni/raunveruleikanum um okkur sem eina þjóð. Og kannski einhverjir sem hafa slíka ímugust á Ólafi Ragnari sjálfum að þeir vilja hann burt, en hafa kannski engar sérstakar skoðanir á embættinu.

Aðrir hafa svo minna fylgi, en ég er ekki opinber stofnun og ég nenni ekki að fara yfir aðra frambjóðendur, þó að þeir kunni að eiga jafn mikið erindi í embættið eins og þau tvö.

Ég hef reyndar forðast fréttir, þætti og auglýsingar um þessar kosningar eins og pestina, því mér finnst það allt óbærilega leiðinlegt. En nú legg ég samt mitt af mörkum í þá hít. Og geri ráð fyrir að kjósa Þóru þó að ég taki undir með ályktun Öldu, sem telur rétt að forsetaembættið verði lagt niður.

Hugsað upphátt: Glæpir og refsingar

Þetta sumar hefur verið rosalegt. Hryðjuverk í Noregi, óeirðir á Bretlandi. Fjármálakerfið höktir. Ég hef setið við tölvu og legið með tölvu, endalaust að lesa fréttir, skýringar, fræðigreinar og ekki má gleyma botnlausu þruglinu í kommenturum og bloggurum. Ég hef ætlað að skrifa oft. Ég hef ætlað að skrifa lengi. Ég skil ekki hvernig stendur á því að svona margir skrifa á netið um hluti sem þeir vita lítið um. Ég er ekki að meina að viðkomandi hafi lítið vit, eða að þeir megi ekki eða eigi ekki að hafa skoðanir. Sjálfur á ég svo erfitt með að tjá mig nema að ég hafi að minnsta kosti aðeins reynt að komast að því hvað best er vitað um viðkomandi hluti. Þetta veldur auðvitað því að ég kemst stundum ekki svo langt að byrja að skrifa áður en næstu tíðindi dynja yfir, eða ég dett í hraðskákarmaraþon á netinu eða eitthvað annað. Svo auðvitað verður maður að tala og mynda sér skoðanir án þess að kynna sér allt til hlítar.

Breivik

Ég ætlaði að skrifa um Breivik. Ég ætlaði að benda á að aðferðarfræði hans er svipuð og eignuð er al-Kaída, eins konar „open source“ hryðjuverkabarátta. Hún fer ekki fram gegnum víðfeðman strúktúr eða híerarkíur, heldur er hugmyndunum dreift, og treyst á að óháðir hópar eða einstaklingar taki til vopna.

Hryðjuverkamenn byggja baráttu sína alltaf á hugmyndum sem eru töluvert viðteknar, sem eiga sér umtalsverðan stuðning. Hugmyndin er oft eitthvað eins og að hrekja burt hernámslið, eða að reyna að þvinga stjórnvöld til að afnema eitthvert óréttlæti. En það þarf að umbreyta hugmyndinni í trúverðuga von. Til þess þarf að gera árangursríka (sem skelfilegasta) árás. Ef það tekst hefur verið sýnt fram á að skotmarkið hafi veikleika og mögulegt sé að vinna stríðið. Þannig er hryðjuverkið auglýsing og hvatning fyrir önnur skoðanasystkini, og einhver þeirra munu reyna að fylgja því eftir með frekara ofbeldi.

Allt þetta veit Breivik, þetta er ekki bara eftiráspeki fræðimanna. Hann veit líka ýmislegt um áróður og virkni fjölmiðla, hann veit að hann á sér stóran hóp „hófsamari“ samherja, að hann verði hataður og að það skiptir máli að líta ekki út eins og nasisti, það skiptir máli að orða hlutina rétt, tala ekki um að drepa eða útrýma múslimum, heldur bara um að þeir eigi að snúa aftur úr Evrópu.

Í tilfelli Breiviks er stóra hugmyndin sú að múslimar séu að yfirtaka Evrópu. Þetta er útbreidd hugmynd. Hér á landi hafa til dæmis fyrrverandi þingmenn, Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson, reynt að nýta sér þessa hugmynd og koma henni á framfæri. Bókaútgáfan Ugla hefur gefið út að minnsta kosti tvær bækur sem ganga út á þessa kenningu. (Þessi hugmynd er út í hött en ég nenni ekki að skrifa um það núna. Get vísað á þennan dóm um bókina Íslamistar og naívistar. Sú bók hlaut almennt hlýjar viðtökur á Íslandi, og marga lofsamlega dóma hægrimanna eins og á andriki.is.)

Breivik tilheyrir semsagt þeim stóra hópi fólks sem ímyndar sér að í ríku löndunum (eins og Noregi og Danmörku) sé við lýði einhverskonar fjölmenningarstefna. Þar sem innflytjendur séu boðnir velkomnir, þeim veitt allskyns fyrirgreiðsla en þeir svari með því að leggjast í leti og glæpi. Það er erfitt fyrir mig að skrifa eins og ég vilji svara þessu, því þetta er svo æpandi ranghugmynd. Bæði norrænu kratarnir og rasistarnir hafa rangt fyrir sér. Fjölmenningarstefnan hefur engin verið. Einhver fjöldi fólks hefur vissulega fengið að flytja til þessara landa, þar sem það fer beinustu leið í lægsta þrep þjóðfélagsins og vinnur láglaunastörf ef og þegar það fær að vinna. Staða þeirra er veik og þeim er mismunað bæði leynt og ljóst. Þeim er lofað aðgengi að verðleikasamfélaginu, þar sem ríkir einstaklingsfrelsi og jafnrétti en svo er í raun ekki ætlast til þess að þeir komist áfram. Jæja, nú er ég kominn út fyrir efnið, það er kannski eitthvað um þetta í áðurnefndum bókadómi. En punkturinn er: komið fyrst á fjölmenningarlegu samfélagi og þá skulum við tala saman um það hvort það „virkar“.

Ég ætlaði líka að hugsa um óeirðirnar á Englandi, en þetta er orðið gott.