Tag Archives: persónulegt

Þroskinn er lævís og lipur

Ég er ekki eins kaldhæðinn í dag og ég var. Enda var kaldhæðnin aldrei alveg einlæg. Hún var leið að marki, en ekki takmark í sjálfu sér.

Ég reyndi að hafa áhrif á lesendur og hlustendur mína. Mig langaði að fólk hætti að hafa rangar skoðanir og tæki upp réttar (mínar) skoðanir. Nú er ég aðeins að grínast, en samt ekki.

En fólk breytist líklega lítið við að fá framan í sig kaldhæðni eða vera dregið sundur í háði. Ég held að Björn Bjarnason hafi ennþá sömu gömlu góðu skoðanir sínar á Íraksstríðinu, þó að ég hafi gert grín að þeim í ljóði.

Ég hef hinsvegar breyst, og þetta er eitt af því sem hefur breyst hjá mér. Ég var að ræða þetta við félaga minn við útigrillið um helgina – hvort maður breyttist eitthvað, svona eftir að maður er orðinn rúmlega tvítugur. Breytingarnar eru að minnsta kosti oft hægfara og nánast ómeðvitaðar. Skrítnast og skemmtilegast er þegar fólk breytir alveg skoðunum sínum en telur sig hins vegar alls ekki hafa gert það, það hafi alltaf haft sínar núverandi skoðanir.

Í upphafi var orðið framorðið

Og það var orðið framorðið hjá Guði.

Nú hef ég enn og aftur startað logni. Ég meina bloggi. Vonandi til framtíðar. Til ævarandi framtíðar, eilífðarnóns.

Við störtum hérna svolitlu útgáfufélagi sem heitir Skjábjört. Ein af fyrstu útgáfunum verður rafbókin Radíó Rafauga sem inniheldur útvarpspistla eftir sjálfan mig. Þeir voru fluttir í Víðsjá árið 2004 að mig minnir, en bókin kemur út 4. júlí ef allt gengur upp.

Lommi og Margrét gerðu þessa kápumynd hér að ofan.

Þetta verður vonandi landi og þjóð til heilla og hagsbóta en þó sér í lagi sjálfum mér til gamans.

 

Skrifað inn árið

Mig hefur lengi langað til að renni á mig skrifæði. Eða bara pínulítil ritdella, nógu mikil löngun til að skrifa til þess að ég láti verða af því að gera það. Til dæmis hér. Nei, ég er að tala um meira en það. Skrifa mikið, skrifa um það hvað ég hef gert í dag. Hvar ég hef verið. Ég hef verið hér heima hjá mér en samtímis á Facebook, Youtube, netinu almennt, google scholar og svo framvegis.

Situr eitthvað eftir? Hefur eitthvað fest sig í síunni á mörkum heims og heila? Mér er orðið um megn að muna bara gróflega hvað ég hef lesið í dag. Og hvað segir það um allt sem gerðist í gær?

Í gær var áramótaskaup. Mér fannst það hvorki fyndnara né ófyndnara en fyrri skaup, þannig er það alltaf hjá mér. Mér finnst hins vegar alltaf skemmtilegra að hugsa um og greina fyndni heldur en fyndnin sjálf. Eða svona. Díalektískt samband.

Af hverju var Hildur Líf í þessu skaupi? Einn lestur: kvenfyrirlitning. Annar lestur: stéttaátök/mótsagnir. Ekki var um að ræða ádeilu á valdamikla. Kannski frekar til marks um aðgreiningu millistéttar og lágstéttar. Hildur Líf sem fulltrúi þeirra sem ná ekki upp í aðalinn, menntuðu millistéttina – hún nær ekki að mála af sér Breiðholtsdrættina. Hún er í hlutverki „heimsku stelpunnar“ sem millistéttin getur hlegið að sínum taugaveiklunarhlátri. Millistéttin þarf að réttlæta sína stöðu og trúa því að hún hafi eitthvað umfram, einhverja fágun og gáfur sem aðskilur hana frá plebbunum, sem hún óttast umfram allt að samlagast. Mýtunni um verðleikasamfélagið verður að viðhalda.

Allt þetta tilheyrir auðvitað hugmyndafræði og er því ekki „meðvituð“ strategía eða ætlun handritshöfunda. En það er bara þannig sem grínið virkar, virkni grínsins er að staðfesta (styrkja) stöðu þeirra sem eru „í hópnum sem hlær“ gagnvart öðrum hópum (sem gert er grín að.)

Auðvitað var margskonar annað grín í skaupinu og því beitt gegn valdameiri öflum (sem áhorfendur telja sig undantekningalítið ekki tilheyra).

Þetta er það sem kemur út þegar maður hugsar á blað, skjá, upphátt, eða eitthvað slíkt. Fyrstu skynhrif, hughrif, áhrif. Ég er ekki kominn lengra en að einu atriði í áramótaskaupi gærdagsins, ég mun ekki komast að deginum í dag með þessu áframhaldi. Og strax farið að dimma.

Önnur hugsun: er norska tungumál? Er skandínavíska kannski tungumál? Ég get rakið þessa spurningu, uppsprettu hennar í dag. Ég er að lesa Konuna við 1000° eftir Hallgrím Helgason. Í henni stendur (eftir minni) norska er það sem kemur út þegar heil þjóð ákveður að tala EKKI dönsku. Ég flissaði. Eins og oftar við lesturinn. Nefnilega vegna þess að norska ritmálið er danska. Og norðmenn með allar sínar málýskur og þjóðerniskennd, alltaf að reyna að sameinast um einhverja norsku sem er ekki til. Samkvæmt Wikipedíu sem ég opnaði í dag, þá eru einhverjir sammála mér um að norska-danska-sænska er alveg eins eitt mál, nú eða róf af mörgum líkum málum. Við gætum skipt þeim í tíu mál þess vegna. Ég get ekki séð nein rök til þess að tvær norskur séu sama mál frekar en ein norska og ein sænska til dæmis. Ég get varla ímyndað mér að margir hafi áhuga á að lesa þetta. En svona hlýtur það að vera ef maður heldur bara áfram að skrifa.

Næsta atriði: Notting Hill – kvikmyndin. Af hverju í ósköpunum leitar fræg amerísk leikkona í einhvern meðaldúdda í London. Hann hefur ekkert sérstakt að bjóða. Hún hefur ekkert við hann að gera. Verður líf þessarar ríku og frægu konu fyrst fullkomnað þegar hún fær sér venjulegan næs gaur til að vera með? Fáránlegt.

Jæja, nú er ég hættur að skrifa, skrifa ekki meira á þessu ári.

Persónulegt blogg?

Ég ætla að gera tilraun til að blogga persónulega. Tilgangurinn er að bjarga geðheilsu minni. Ég held að líf mitt sem doktorsnemi fari ekki vel með þessa geðheilsu. Mér finnst ég ekkert vita hvað ég er að gera í rannsóknarverkefninu, það verður flóknara og flóknara með hverjum degi. Ég missi af skilafrestum á alls konar skýrslum og gögnum sem mér er fert að skila milli þess sem ég sæki um styrki sem ég fæ ekki. Hressandi er það ekki.

Í dag er ég til dæmis að búa til svonefnda „framvinduskýrslu“ fyrir síðasta skólaár. Þar á ég nefna allt sem ég hef skrifað og lýsa fræðalestri og gera grein fyrir fundum með leiðbeinanda. Helmingurinn af öllu þessu er týndur og tröllum gefin, enda hef ég ekki tamið mér skipulögð vinnubrögð í þeim mæli að halda utan um allt svona.

Það er ekki auðvelt að halda sig að svona verki. Í dag afvegaleiddist ég til að skoða grein eftir tölfræðing um launamun kynjanna, en sá tölfræðingur gefur sér reyndar að slíkur munur sé óhugsandi vegna rökvísi kapítalistanna, sem munu alltaf átta sig á því að borgar sig ekki að mismuna kynjum. Bara hrein hagfræði. Greinin er reyndar skrifuð fyrir síðasta hrun, en ég veit ekki til þess að nein empírisk gögn styðji þessa kenningu. Það er stundum þannig að stærðfræðingar og tölfræðingar telja sig sjá hluti skýrar en aðrir þegar þeir eru í raun bara blindir og sjá ekki neitt.

Nú svo hef ég eytt tíma í að hugsa um hvort ekki sé rétt að þrengja rannsóknina mína alveg gríðarlega. Líta bara á eitthvað mjög lítið örsmæðarbrot, eins og skilning framhaldsskólanema á vigrahugtakinu, eftir því hvort þeir læra það „með gamla laginu“ eða með því að forrita tölvuleiki.

Ég geri ráð fyrir að fáir nenni að lesa þetta, en það er allt í lagi. Geðheilsan framar öllu.