Tag Archives: menntun

Ipad, nám og sköpun

Apple leyfir fólki ekki að forrita Ipad-tækin sín. Og það var reyndar kveikjan að síðustu færslu. Vegna þess að vonir eru bundnar við að slík tæki geti nýst í skólum. Og mín hugmynd um skóla sem vettvang sköpunar með stærðfræði felur í sér að nemendur búi sjálfir til rafræna gripi.

Eitt af þeim verkfærum sem eru hvað mest spennandi fyrir ungt fólk sem vill skapa tölvuleiki eða teiknimyndir er Scratch. Níu ára krakkar geta lært að nota Scratch til að búa til slíka hluti en þeir geta það ekki nema að læra í leiðinni meira í stærðfræði heldur en flestir gera á lífsleiðinni. Og það geta þau án þess að þurfa að setja neinar formúlur á minnið eða æfa reikningsdæmi.

Og Scratch var tilbúið með tengingu fyrir Ipad þannig hægt var að spila leikina á græjunni. En þá sagði Apple nei. Það gæti verið vegna þess hve öflugt Scratch-kerfið er. Krakkar gætu hreinlega forritað gripinn til að hala niður tónlist af öðrum stöðum en itunes. Því miður virkar Ipad sem komið er meira sem neyslutæki en til sköpunar. Það gæti þó breyst og á vonandi eftir að gera það.

Að skapa eða neyta

Hve margir skyldu bæði hafa heillast af fyrirlestrum Ken Robinson um sköpun og skóla og Khan Academy (Khan var líka hylltur fyrir TED fyrirlestur)? Samt eru þeir í algerri grundvallarandstöðu hvor við annan. Eiga nemendur að búa eitthvað til í skólanum eða eiga þeir að innbyrða afurðir annarra? Eiga þeir að hugsa sínar eigin hugsanir eða læra um hugsanir annarra?

Úr bókinni School is hell eftir Matt Groening (smellið til að stækka)

Nú eru hlutirnir ekki alveg svona einfaldir. En samt sem áður. Annars vegar nám sem viðtaka, kennsla sem færsla upplýsinga frá kennara til nemanda og hins vegar nám sem sköpun, eitthvað sem verður til í glímu við verkefni, með því að tala um það við aðra, með tilheyrandi gagnrýni og ögrunum og hjálp frá kennara. Hlutverk kennara er gjörólíkt, ef við tökum þessa tvo póla. Í fyrrnefnda líkaninu reynir kennarinn að „koma efninu til skila“ með sem skýrustum hætti. Hann segir nemendum hvernig hlutirnir eru. Í hinu síðarnefnda er boðorð kennarans:

Leitastu við að gera eingöngu það fyrir nemendur sem þeir geta ekki gert sjálfir ennþá.

Ekki segja nemendum það sem þeir geta sjálfir sagt. Ekki leysa verkefni fyrir þá sem þeir geta sjálfir leyst.

Mýtur eða sjálfsagðir hlutir: fyrsti þáttur af 729

„Bara ef einhver bryti þetta niður og útskýrði nógu vel – þá myndu fleiri skilja.“

„Góðir kennarar gera flókið efni einfalt.“

Maður kemst ekki hjá því að hafa alls konar skoðanir og ómeðvitaðar kenningar um allt mögulegt í heiminum. Þær byggja auðvitað á þeirri reynslu sem maður hefur og því sem maður skynjar og heldur og man. Kannski má kalla þetta „almenna skynsemi“. Fræði og vísindi reyna að gera betur en almenn skynsemi með því að safna gögnum og skoða þau mjög nákvæmlega og rökstyðja niðurstöður vandlega. Ef vísindi og fræði gæfu sömu niðurstöður og almenn skynsemi væru þau frekar lítils virði.

Nánast allir hafa gengið í skóla og þess vegna telja margir sig vita eitt og annað um menntun. Flestir hafa líka heyrt eitt og annað fullyrt um skóla hér og þar. Fólk á sextugs- og sjötugsaldri telur sig muna hvernig fólki vegnaði almennt í skólum fyrir langalöngu. Einn þeirra er Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra sem ritaði grein í Fréttablaðið í fyrradag. Var á honum að skilja að allir hafi verið vel læsir og reiknandi í gamla daga þrátt fyrir að kennarar hefðu ekki verið háskólamenntaðir. Auk þess hefði einhvern tíma verið ákveðið að nemendur þyrftu ekki að kunna neitt og aldrei standa skil á neinu. Þetta sagði faðir hans honum og spáði því að allt ætti eftir að fara til fjandans vegna þessa.

Það ætti náttúrlega að vera óþarfi að svara eða fjalla um svona vitleysu. Ef litið er kalt á staðreyndir þá eru Íslendingar miklu meira menntaðir í dag en þegar Sighvatur var í skóla. Ekki eingöngu í prófgráðum talið heldur eru miklu fleiri að fást við þekkingarsköpun með einum eða öðrum hætti og vinna störf sem krefjast mikillar þekkingar. Þetta á við um menningarstarfsemi og alls konar tækniiðnað og margt fleira. Nemendur á Íslandi eru ekkert lélegir í alþjóðlegum samanburði þó að þeir séu ekki efstir. Í gamla daga voru hinir „ólæsu“ geymdir í tossabekkjum og fengu ekki að fara í neitt nám eftir barnaskóla. Ekki nema örlítið brot af hverjum árgangi fékk inngöngu í menntaskóla.

Svo heimurinn er ekki að farast. Hitt er annað mál að sitthvað er menntun og skólaganga og allar þær klisjur sem eru Íslendingum kærar. Og margt mætti breytast í skólum. En tímarnir breytast og núna eru möguleikar þess að verða gildandi í samfélaginu án háskólaprófs sífellt að minnka. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hér því þau mál eru flókin.

Jú, ég ætlaði að minnast á eina vitleysuna í viðbót en það er sú hugmynd að nemendur þurfi ekki að læra hluti utanbókar eða taka próf og þetta hafi gerst fyrir allnokkru síðan. Þarna er ruglað saman hugmyndum og hugsjónum um betra og merkingarfyllra nám og raunverulegu skólastarfi. Hér hefur utanbókarlærdómur lifað ágætu lífi og nemendur verið prófaðir í gríð og erg. Svo ef einhver skýring er á meintum lélegum árangri þá er það kannski frekar einmitt vegna þess.

En þetta var nú ekki aðalatriðið. Það var hugmyndin um góða kennarann sem útskýrir vel. Staðreyndin er að nám er erfitt og ef þér finnst það létt þá ertu líklega ekki að læra mikið. Rannsóknir sýna til dæmis að nemendur sem horfa á kennslumyndbönd með frábærum útskýringum finnst þeir læra mjög mikið og skilja vel. En þegar betur er að gáð þá reynast þeir ekki hafa lært neitt. Heimildir um þetta eru hérna. Og best ég smelli myndbandinu inn líka.

Stærðfræði eða reikningur

Nú á dögum er vinsælt að umræða fari fram gegnum myndbönd sem fólk deilir á vefsíðum og Facebook. Hér er splunkunýtt myndband um stærðfræði sem skólafag, tölvur og reikning. Nú er ótalmargt sem flækir þau mál (ég er að skrifa doktorsritgerð um þetta og mun þar með greiða endanlega úr þeirri flækju) en megininntak þessa lestrar er ágætt.

Til sérstakrar umhugsunar er svar hans undir lokin, svo fyrir þá sem nenna ekki að horfa á allt saman skal ég setja niður kvót:

The most crazy thing is, people are giving me examples, look at this way in we got the this fantastic multimedia show to get the computer to show a student how to solve an equation by hand. This is nuts. The computer should be solving the equation. The student should be figuring out why we needed the equation in the first place, what the hell they are going to do with it.

Línuleg hugsun

Þegar ég var í skóla var miklu púðri eytt í að kenna krökkum að draga eina tölu frá annarri, helst með sem flestum tölustöfum. Útkoman voru endalausar blaðsíður af þessu:

Önnur leið til að reikna svona dæmi er að teikna línu:

(Innan þessarar aðferðar er dálítið frelsi í því hvar maður velur að koma við „á leiðinni“, svo þetta er ekki eina myndin sem maður gæti teiknað.)

Hvor aðferðin er nær því sem við raunverulega gerum þegar við reiknum í huganum? (Þið gerið þetta þegar þið metið aldur: hvernig myndirðu finna út úr því hve mörg ár eru liðin frá 1997?)

Hvers vegna ætti að kenna fyrri aðferðina? (Ég veit alveg um eina ástæðu, en hún ónýtist ef um er að ræða kennslu í því að beita aðferðinni án þess að vita hvers vegna hún virkar.)

Inn og út

Hvernig væri að gera tilraun til menntabloggs?

Ég horfi á tölvuskjá næstum allan daginn. Ég smelli á hlekki, ég slæ inn orð í leitarvélar. Ég les og horfi. Það er eins og orðin og myndirnar fari inn og út án þess að hræra við neinu innan í mér. Ég man ekki hvað ég var að skoða fyrir tíu mínútum. Í lok dags man ég nánast ekkert af því hvað ég var að lesa og skoða þann daginn.

Þetta er svipuð reynsla og af því þegar ég sat í fyrirlestrum í framhalds- og menntaskóla. Nema mér finnst þetta yfirleitt skemmtilegra núna. Oft mjög áhugavert. Samt man ég næstum ekki neitt. Nema kannski ef ég reyni að rifja upp og tékka á history möppunni.

Ég hef verið að skoða fólk sem bloggar um nám á 21. öldinni. Eins og það er stundum kallað. Helstu áhugamál þessa fólks eru venjulega bæði að gjörbreyta þurfi menntun og menntakerfum, til þess að nemendur öðlist annars konar og gagnlegri hæfni en hefur verið í boði hingað til. Að nú þurfi að leggja áherslu á sköpun, hugsun og samskipti, svo eitthvað sé nefnt. Og að menntun eigi að snúast um að efla nemendur til að raunverulega gera eitthvað sjálfir, hér og nú. Eitt af því sem fólk bindur vonir við er tölvutækni. Til dæmis að nemandi með tölvu geti gert og lært eitthvað miklu merkilegra en hægt var í gamla daga (núna). Þá er ekki verið að meina að kenna börnum á Word eða þau fari í einhver reikniæfingaforrit eða horfi á kennara flytja fyrirlestur á YouTube.

Einn af forgöngumönnum er bandaríkjamaðurinn Seymour Papert. Hann hefur skrifað um þetta síðan á sjöunda áratugnum, og reyndar bjó hann á sínum tíma til forritunarmál fyrir börn sem heitir Logo. Hugmynd hans var að leggja forritunarmál í hendur barna, sem með því gætu lært … hvað á maður að kalla það – stærðfræði, forritun, sköpun? Hér eru tekin saman átta meginhugmyndir hans um menntun (flýtiþýðing mín, hér er enski textinn og margt fleira gott):

Fyrsta hugmyndin er að læra með því að gera. Við lærum betur þegar námið er hluti af því að gera eitthvað sem okkur finnst raunverulega áhugavert. Við lærum best þegar við notum það sem við lærum til að búa til eitthvað sem okkur langar raunverulega í.

Önnur stóra hugmyndin er tækni sem efniviður. Ef maður getur notað tækni til þess að búa hluti til, þá getur maður búið til miklu áhugaverðari hluti. Og maður getur lært miklu meira með því að búa þá til. Þetta á sérstaklega við um stafræna tækni: tölvur af öllum gerðum, og þar með talið tölvustýrt Lego.

Þriðja stóra hugmyndin er erfiðisgaman. Við lærum best og við vinnum best ef við höfum gaman af því sem við erum að gera. En gaman og ánægja þýðir ekki „auðvelt“. Besta gamanið er erfiðisgaman. Íþróttahetjur vinna mjög mikið að því að bæta sig. Bestu smiðirnir njóta þess að smíða.

Fjórða stóra hugmyndin er læra að læra. Margir nemendur halda að „eina leiðin til að læra er að vera kennt.“ Þetta er það sem veldur þeim vandræðum í skóla og öðru lífi. Enginn getur kennt manni allt sem maður þarf að kunna. Maður verður að taka stjórn á eigin námi.

Fimmta stóra hugmyndin er að taka tíma – þann tíma sem þarf fyrir verkið. Margir nemendur í skóla venjast því að vera sagt á fimm mínútna eða kannski klukkutíma fresti: gerðu þetta, svo þetta, og svo það næsta. Ef einhver er ekki að segja þeim hvað þau eiga að gera fer þeim að leiðast. Lífið er ekki þannig. Ef maður ætlar að gera eitthvað sem máli skiptir verður maður að læra stjórna tímanum sjálf. Þetta er erfið staðreynd fyrir marga.

Sjötta stóra hugmyndin er stærst allra: maður getur ekki gert hlutina rétt nema nema að gera þá líka rangt. Ekkert sem máli skiptir virkar í fyrsta sinn. Eina leiðin til að laga hlutinn er að skoða gaumgæfilega hvað gerðist þegar hann virkaði ekki. Til að ná árangri þarf maður frelsi til að gera vitleysur á leiðinni.

Sjöunda stóra hugmyndin er að gera sjálfum okkur það sem við gerum nemendum okkar. Við erum alltaf að læra. Við höfum reynslu af því að gera eitthvað svipað því sem við erum að gera, en hvert skipti er samt ólíkt hinum. Við getum ekki gert okkur nákvæma hugmynd um það sem mun gerast í þetta skipti. Við njótum þess sem við erum að gera, en gerum ráð fyrir því að það verði erfitt. Við væntum þess að taka okkur tíma til að gera þetta vel. Sérhver vandræði sem við rötum í er tækifæri til að læra. Besta lexían sem við getum fært nemendum okkar er að leyfa þeim að sjá okkur glíma við að læra.

Áttunda stóra hugmyndin er við erum að ganga inn í stafrænan heim þar sem þekking á stafrænni tækni er jafn mikilvæg og lestur og skrift. Það er því mikilvægt fyrir framtíð nemenda að þeir læri um tölvur EN mikilvægast er að nota þær NÚNA til að læra um allt hitt.

Ég mæli annars mikið með þessu bloggi Sylviu Martinez, um tækni til að valdefla nemendur.

Mótsagnir skólakerfis

Höfum þetta form: fyrst kemur tilvitnun og svo kemur túlkun eða hugleiðing út frá textanum. Ég er að lesa bók sem heitir Someone Has To Fail: The Zero-Sum Game Of Public Schooling eftir David F. Labaree. Ég held að hann hafi komið við hér á landi nýlega, en það skiptir svo sem engu máli. Bókin er frá 2010 og er um bandaríska skólakerfið, en ég held að í grundvallaratriðum séu önnur skólakerfi sambærileg og svipuð.

the school system’s greatest social impact has come from its power to allocate social access and social advantage. And this was more the result of which students entered school and which graduated from it than of what they learned in between.

Hér er það sem er svo erfitt fyrir fólk sem vill breyta kennsluháttum, til dæmis í anda þeirra strauma sem kallaðir eru „framfara“ eða „róttækir“. Þær hugmyndir eru einhvern veginn í anda þess að nemendur hafi meira að segja um nám sitt og líf í skólanum, að þeir eigi sjálfir að skapa og uppgötva, frekar en að fyrirfram ákveðnu efni sé troðið í þá, og að hver og einn eigi að njóta sín og þroskast á eigin forsendum. En hvað ef skólinn snýst ekki nema að litlu leyti um nám? Hvaða hlutverk leikur skólakerfið í raun og veru?

Fyrir almenning/yfirvöld (almenning sem pólitíska veru) eru skólar kannski fyrst og fremst félagslegt stjórnunartæki. Í skólum á fólk að læra að vera góðir þjóðfélagsþegnar (eða borgarar?) — þar eru öll börn, og þau öðlast sameiginlega reynslu og allir eiga að læra það sama. Minna máli skiptir hvað það er nákvæmlega sem stendur í námsefninu, en meira að það er sameiginlegt. Í skólum eiga nemendur líka að læra að vera þjóðhagslega hagkvæmt, læra það sem „atvinnulífið“ (eða auðmagnið, kapítalið, með öðrum orðum) telur sig þurfa frá vinnuaflinu. Þetta birtist meðal annars í strúktúr skólakerfisins með ólíkum brautum og prófum (frá grunnskóla).

Fyrir almenning/einstaklinga (almenning sem safn einstaklinga, fjölskyldna eða annarra minni heilda) eru skólar tæki til þess að klifra upp metorðastiga eða viðhalda stöðu sinni þar gagnvart öðrum. Fólk vill að sín börn fái sem best tækifæri og komi sem hæst út úr samkeppninni, fái próf sem eru mikils metin og veita aðgang að peningum og völdum. Þetta hefur haft mikil áhrif á skólana, og sést vel á því hvernig það þarf sífellt hærri prófgráður til að tryggja sér yfirburði á vinnumarkaði.

Þegar ég var unglingur var skyldunámi lokið í 8. bekk. Það var alls ekki sjálfsagt að fólk færi í framhaldsskóla, hvað þá háskóla. Í dag fara nánast allir í framhaldsskóla og til þess að öðlast lágmarks starfsöryggi þarf háskólagráðu, helst meistarapróf. (Ég held að það sé dálítið ólíkt eftir löndum hve langt þessi þróun er komin. Mér skilst að víða í Evrópu sé kerfið svo að segja mettuð: vel menntuð börn menntafólks fær ekki lengur vinnu í krafti háskólaprófa.)

Skólakerfið hefur gefið millistéttinni öfluga vél til þess að viðhalda yfirburðum í stétt og stöðu. Þeir geta bæði sagt að allir hafi fengið jöfn tækifæri, því öll börn fara í skólann, og að þeirra börn séu einfaldlega svo vel heppnuð, þau eru klárust í bekknum, eða sjálfstæð og uppátækjasöm (áhættan er ekki svo mikil fyrir þau, þó að þeim gangi ekki vel í grunnskólanum). Á meðan njóta börn þeirra þess að erfa viðhorf frá foreldrum sínum sem henta vel til að ganga vel í skólanum. Og þau njóta fjárhagslegs öryggis, þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að skaffa til heimilis, og svo framvegis. Þetta er mjög raunveruleg hindrun sem millistéttarfólk eins og ég á stundum erfitt með að skilja, en það að geta ekki leyft sér að „falla“ eða á annan hátt hliðra til eða sveigja nám, setur mann í mun erfiðari stöðu en þann sem getur látið foreldra sína grípa sig og styðja.

Þetta seinna hlutverk skólans skýrir ágætlega það sem er stundum nefnt „ofuráhersla á bóknám“. Það er bara þannig að fleiri vilja verða læknar, lögfræðingar, arkítektar, ef ekki bara kennarar, hjúkrunarfræðingar eða millistjórnendur heldur en til dæmis iðnaðarmenn. Bóklegt háskólapróf er nauðsynlegt til að öðlast virðingu og völd í síauknum mæli (þó það sé varla nægjanlegt lengur). Starfsöryggi í iðngreinum er minna og það vita það allir. Það er þess vegna tilgangslaust að ætla að breyta viðhorfum almennings til þessa, þau viðhorf eru fullkomlega rökrétt.

Sú staðreynd að margir finna sig ekki í bóknámi er að mínu viti ekki ástæða til að beina fólki frá bóknámi heldur að grafast fyrir um það hvað það er við skipulag bóknáms sem gerir þetta að verkum. Það er ekkert lögmál að það sé „eins og við þekkjum það í dag“. En þá komum við aftur að mismununarhlutverkinu: ef við gerðum öllum kleift að stunda bóknám, og allir næðu góðum árangri, hvað eigum við þá að gera til þess að finna fólki misjafnan stað í stigveldinu — hvað eiga góðir menntamenn að gera til að tryggja sínum börnum yfirburði?