Tag Archives: menning

Af hverju fór Egill Helgason út af Batman myndinni í hléi?

Á Facebook tilkynnti Egill Helgason:

Fórum út í hléi á Batman. Vissi að þetta var drasl – svo af hverju var ég að fara á myndina?

Í umræðuþræðinum kemur svo eitthvað fram um of mikið ofbeldi. Við þurfum náttúrlega ekki að horfa á ofbeldi í bíó þegar raunveruleikinn slær það allt út.

Fórum út í hléi á kapítalisma. Vissi að þetta var drasl – svo af hverju var ég að fara á þetta?

Ég fór hins vegar ekki út af myndinni í hléi, mér er nær að taka undir með Slavoj frænda sem segir:

The Dark Knight Rises attests yet again to how Hollywood blockbusters are precise indicators of the ideological predicament of our societies.

Hnausþykkt og sætt hugmyndafræðilegt hunang myndi ég segja. Svo var gaman að sjá kjarnorkusprengju springa. Ég er sjúkur í kvikmyndir þar sem kjarnorkusprengja springur.

En ég er líka sjúkur í menningarmarxíska umfjöllun. Þetta þrennt hef ég lesið, auk Zizeks:

The Dark Knight Rises: Dubious and distortive

Endless Mutation: Reboots and Sequels

Batman’s political right turn

En ég hafði fyrst og fremst gaman af ofbeldinu.

Internetið er ekki til

Þegar ég var yngri var internetið ekki það sem það er núna. Þess vegna er fyndið að deila um það hver fann upp internetið. Var það bandaríski herinn? Voru það bandarískir háskólar, styrktir af hernum? Var það Tim-Berners Lee? Mozilla, Google, eða Al Gore? Hvað með þá sem lögðu grunninn, Turing, Shannon og svo framvegis. Hvað er internetið? Eru það tölvurnar, hugbúnaðurinn, staðlarnir, kaplarnir, miðlarnir, notendurnir?

Mér finnst internetið ekki nógsamlega dásamað. Internetið er merkilegasta manngerða fyrirbærið síðan ég veit ekki hvað – kannski það merkilegasta síðan tungumál komu til sögunnar. Nei það er ekki hægt að mæla svoleiðis. Hvað með prentun, landbúnað, rafveitur, pípulagnir, flugvélar, geimskutlur, kjarnorku, bólusetningar, sýklalyf, handþvott, peninga, bankakerfi, öreindahraðla, hornafræði og siðferði? Svo eitthvað sé nefnt. Örfá fyrirbæri sem snerta líf okkar, sem við lifum í, eða miðla veruleikanum, eða já, miðla milli okkar og veruleikans.

Þetta er til að minna okkur á hlutverk tækja (sem geta verið áþreifanleg, en líka í formi kerfa, aðferða, hugtaka, tákna). Allt sem við gerum er miðlað af tækjum, við gerum eiginlega aldrei neitt án einhverrar „milligöngu“. Og nú internetið með öllum sínum samskipta og táknunarleiðum. Þegar ég var ungur voru samskipti (opinber) eins og eftirfarandi ekki til:

Nú er internetið fullt af blómstrandi samskiptum þvers og kruss. Tjáningar- og samskiptamagn í umferð hefur margfaldast. Ungt fólk sem ekki er bundið af textaforminu er að láta til sín taka. Öll frábæru mynda og hreyfi-GIF-mynda bloggin, sjálfútgefin myndbönd á Youtube, og svo framvegis. Fyrir mig: rafræn fræðitímarit, gamlir sjónvarpsþættir og fótboltaleikir, tónlist. Magnið er auðvitað yfirþyrmandi, óhugsanlegt. En ó og æ það er ekki tilefni til að kvarta! Það er tilefni til að fagna! Jafnvel þótt hluti af efninu sé rusl og sumt andstyggilegt og skaðlegt, jafnvel hættulegt.

Um þessa mynd að ofan má margt segja. Í stað þess að endursegja og breyta og bæta ætla ég að nýta internetið og benda á umræðu hér, þar sem þessi túlkun kemur fram:

he’s saying the reason that women are allowed to not wear makeup is that they still look good to him.

Og má vera að þetta sé punktur sem drengurinn hugsaði ekki, eða fannst ekki hafa vægi, eða væri ósammála væri hann spurður. Samt virðist þetta liggja beint við sem túlkun. Þá er auðvitað spurningin: hvað svo? Ég veit ekki hvað svo, til dæmis hvort þessi tiltekni strákur hefur svarað, hugsað, endurskoðað, eða hvað – eða hvert framhaldið hefur verið (fyrir utan þráðinn sem ég benti á, og örfáa aðra). Ef til vill er þetta liður í aukinni vakningu ungs fólks um kynjakerfið, feðraveldið.

Kaupglaðir kommúnistar og vonda góða fólkið

Hvernig geturðu verið á móti áliðnaði og samt flogið í flugvél og drukkið bjór úr dós? Ef þú ert svona mikið á móti neysluhyggju, af hverju ertu þá alltaf í búðum að kaupa mat?

Gömul og þreytt „röksemd“ gegn einhverri skoðun er að finna það að persónum sem reyna að halda fram skoðuninni að þær séu ekki nægilega samkvæmar skoðuninni í sínu lífi. Þegar ég var að selja fólki ljóðabók fannst sumum sniðugt að skjóta á mig að nú væri ég kapítalisti með þessari sölumennsku. Á almennu formi er ásökunin svona:

Hvernig geturðu þóst vera með hinu góða þegar þú ert sjálfur svona vondur?

Sumir ganga svo langt að búa til sérstakt uppnefni um fólk sem berst gegn einhverju misrétti, nefnilega „góða fólkið“. Það er fólk sem heldur að það sé gott og vill að aðrir haldi að það sé gott, en er í rauninni ekkert betra en allir aðrir, kannski ívið verra. Aðrir nota orðið móralisti. Allt gengur þetta tal út frá því að við séum að tala um eitthvert innra eðli einstaklinga, siðferði þeirra og viðhorf. Og okkur er mjög tamt að tala á þeim nótum, tungumálið gerir ráð fyrir því. Nú hef ég til dæmis verið að ströggla við að skrifa „við tölum á þessum nótum“ í stað þess að skrifa um að „hugmyndir okkar“ séu þannig. Ég geri það vegna þess að ég trúi almennt ekki á „gott fólk“ eða „vont fólk“.

Auðvitað kannast flestir við slíka umræðu. „Tölum um að athafnir, orð og gjörðir séu góðar eða vondar en ekki manneskjurnar.“ Samt er eilílflega talað á hinn veginn, og kannski er línan dálítið óljós. Ég skrifaði athugasemd við grein eftir Guðberg Bergsson um daginn og sagði að greinin væri ógeðsleg. Það var ekki tilviljun að ég sagði ekkert um Guðberg sjálfan heldur eingöngu um greinina.

Þetta tengist einu af því sem hefur breyst í minni hugsun og tali. Þegar ég var yngri talaði ég  og hugsaði um hluti eins og sköpun og skáldskap sem eitthvað sem einstakir menn gerðu í krafti hæfileika sinna (og elju). Með gamaldags orðalagi mætti segja að ég hafi trúað á snilligáfu. En hægt og rólega hef ég sjálfur færst að því að sjá orð og athafnir einstaklinga sem einskonar speglunarbrot af hinu sameiginlega – af þeirri menningu sem við búum við saman. Allt sem við hugsum er til sem möguleiki í menningunni – orðin hafa ekki merkingu nema vegna sameiginlegs tungumáls. Auðvitað er einstaklingsmunur. Við búum í ólíkum skrokkum og upplifum ólíka menningarheima og -hópa. En hið sameiginlega/menningarlega er að mínu mati stórlega vanmetið.

Þess vegna er til dæmis svo mikilvægt að reyna að hafa áhrif á menninguna og andæfa gegnumgangandi samskipta- og samræðumynstrum sem ganga út á undirskipun kvenna (eða annarra undirskipaðra hópa). Það skiptir engu máli hvort það er „í alvörunni“ Egill Einarsson eða „hliðarsjálfið“ Gillz sem talar (ítrekað og endalaust) um kvenleika sem niðurlægjandi einkenni. Orðin eru hluti af menningunni, prentuð í dagblaðapistlum, á netinu, bókum og sjónvarpsþáttum. Orð hans eru tekin upp af strákum, þau dreifast, magnast og þróast. (Nú eða deyja út…)

Merking orða ræðst ekki af ætlun og tilgangi þess sem segir þau heldur þróast hún eftir á. Hún ræðst af viðbrögðum og viðtöku annarra á þeim, viðbrögðum við þeim viðbrögðum og svo framvegis. Og verður aldrei endanlega ákvörðuð. (Með því er ekki útilokað að sá sem sagði þau hafi ekki haft einhverja ætlun, sem viðtakendur hafa ekki skynjað.)

Ég er kominn eitthvert sem mig grunaði ekki þegar ég hóf að rita þessa færslu, enda vissi ég ekki hvað ég var að hugsa fyrr en ég skrifaði það út. Hugsunin verður til við að segja hana upphátt eða í hljóði eða skrifa hana eða slá hana á lyklaborð. Svo sit ég eftir og mér finnst eins og tungumálið hafi þvingað hugsunina í ákveðið mót og það sem stendur eftir sé ekki nákvæmlega það sem ég ætlaði að hugsa.

 

Í upphafi var orðið framorðið

Og það var orðið framorðið hjá Guði.

Nú hef ég enn og aftur startað logni. Ég meina bloggi. Vonandi til framtíðar. Til ævarandi framtíðar, eilífðarnóns.

Við störtum hérna svolitlu útgáfufélagi sem heitir Skjábjört. Ein af fyrstu útgáfunum verður rafbókin Radíó Rafauga sem inniheldur útvarpspistla eftir sjálfan mig. Þeir voru fluttir í Víðsjá árið 2004 að mig minnir, en bókin kemur út 4. júlí ef allt gengur upp.

Lommi og Margrét gerðu þessa kápumynd hér að ofan.

Þetta verður vonandi landi og þjóð til heilla og hagsbóta en þó sér í lagi sjálfum mér til gamans.

 

Skrifað inn árið

Mig hefur lengi langað til að renni á mig skrifæði. Eða bara pínulítil ritdella, nógu mikil löngun til að skrifa til þess að ég láti verða af því að gera það. Til dæmis hér. Nei, ég er að tala um meira en það. Skrifa mikið, skrifa um það hvað ég hef gert í dag. Hvar ég hef verið. Ég hef verið hér heima hjá mér en samtímis á Facebook, Youtube, netinu almennt, google scholar og svo framvegis.

Situr eitthvað eftir? Hefur eitthvað fest sig í síunni á mörkum heims og heila? Mér er orðið um megn að muna bara gróflega hvað ég hef lesið í dag. Og hvað segir það um allt sem gerðist í gær?

Í gær var áramótaskaup. Mér fannst það hvorki fyndnara né ófyndnara en fyrri skaup, þannig er það alltaf hjá mér. Mér finnst hins vegar alltaf skemmtilegra að hugsa um og greina fyndni heldur en fyndnin sjálf. Eða svona. Díalektískt samband.

Af hverju var Hildur Líf í þessu skaupi? Einn lestur: kvenfyrirlitning. Annar lestur: stéttaátök/mótsagnir. Ekki var um að ræða ádeilu á valdamikla. Kannski frekar til marks um aðgreiningu millistéttar og lágstéttar. Hildur Líf sem fulltrúi þeirra sem ná ekki upp í aðalinn, menntuðu millistéttina – hún nær ekki að mála af sér Breiðholtsdrættina. Hún er í hlutverki „heimsku stelpunnar“ sem millistéttin getur hlegið að sínum taugaveiklunarhlátri. Millistéttin þarf að réttlæta sína stöðu og trúa því að hún hafi eitthvað umfram, einhverja fágun og gáfur sem aðskilur hana frá plebbunum, sem hún óttast umfram allt að samlagast. Mýtunni um verðleikasamfélagið verður að viðhalda.

Allt þetta tilheyrir auðvitað hugmyndafræði og er því ekki „meðvituð“ strategía eða ætlun handritshöfunda. En það er bara þannig sem grínið virkar, virkni grínsins er að staðfesta (styrkja) stöðu þeirra sem eru „í hópnum sem hlær“ gagnvart öðrum hópum (sem gert er grín að.)

Auðvitað var margskonar annað grín í skaupinu og því beitt gegn valdameiri öflum (sem áhorfendur telja sig undantekningalítið ekki tilheyra).

Þetta er það sem kemur út þegar maður hugsar á blað, skjá, upphátt, eða eitthvað slíkt. Fyrstu skynhrif, hughrif, áhrif. Ég er ekki kominn lengra en að einu atriði í áramótaskaupi gærdagsins, ég mun ekki komast að deginum í dag með þessu áframhaldi. Og strax farið að dimma.

Önnur hugsun: er norska tungumál? Er skandínavíska kannski tungumál? Ég get rakið þessa spurningu, uppsprettu hennar í dag. Ég er að lesa Konuna við 1000° eftir Hallgrím Helgason. Í henni stendur (eftir minni) norska er það sem kemur út þegar heil þjóð ákveður að tala EKKI dönsku. Ég flissaði. Eins og oftar við lesturinn. Nefnilega vegna þess að norska ritmálið er danska. Og norðmenn með allar sínar málýskur og þjóðerniskennd, alltaf að reyna að sameinast um einhverja norsku sem er ekki til. Samkvæmt Wikipedíu sem ég opnaði í dag, þá eru einhverjir sammála mér um að norska-danska-sænska er alveg eins eitt mál, nú eða róf af mörgum líkum málum. Við gætum skipt þeim í tíu mál þess vegna. Ég get ekki séð nein rök til þess að tvær norskur séu sama mál frekar en ein norska og ein sænska til dæmis. Ég get varla ímyndað mér að margir hafi áhuga á að lesa þetta. En svona hlýtur það að vera ef maður heldur bara áfram að skrifa.

Næsta atriði: Notting Hill – kvikmyndin. Af hverju í ósköpunum leitar fræg amerísk leikkona í einhvern meðaldúdda í London. Hann hefur ekkert sérstakt að bjóða. Hún hefur ekkert við hann að gera. Verður líf þessarar ríku og frægu konu fyrst fullkomnað þegar hún fær sér venjulegan næs gaur til að vera með? Fáránlegt.

Jæja, nú er ég hættur að skrifa, skrifa ekki meira á þessu ári.