Tag Archives: fræði

Merkingin er ekki mín heldur allra

Ég velti fyrir mér þessum vanda:

Að skrifa áður en ég er tilbúinn. Áður en ég veit hvað ég vil segja eða hvernig ég vil segja það.

Mörgum vex í augum að skrifa. Kannski er ekki rétt að segja „vex í augum“ vegna þess að það gefur í skyn að þetta fólk ofmeti erfiðleikana, það sé í raun ekki svo erfitt að skrifa. En það er erfitt ef manni finnst það erfitt.

Að skrifa áður en mér finnst ég tilbúinn – það er: ég ekki búinn að hugsa þetta eins vel og ég vildi. Nú vantar mig orðið vulnerable. Berskjaldaður, varnarlaus.

Ég var að lesa í bók eftir Taylor Talbot, Theorizing Language. Af hverju er ég að lesa hana? Vegna þess að það var vitnað í hana í annarri bók sem ég er að lesa, Rethinking Language, Mind, and World Dialogically, eftir Per Linell. Af hverju er ég að lesa þá bók? Vegna þess að hugtakaramminn sem þar er kynntur fellur vel að mínum hugmyndum um heiminn, tungumál og merkingu og gefur mér grunn til að standa á í rannsóknum á stærðfræðinámi.

Sú sýn eða ég ætti kannski að segja „sá texti“ tengist í mínum huga ýmsu öðru sem ég hef lesið og heyrt, textabrotum Wittgensteins, afrískri speki, marxisma, Bakhtin og fleiru. En ég get ekki beinlínis fullyrt um þessi mögulegu tengsl. Ef til vill mun einhver sérfræðingur segja nei nei nei, þetta er alls ekki það sem hann átti við. En þá er því að svara að ég trúi ekki á „það sem hann á við“. Ég, eins og aðrir, túlka texta og nýti til þess alla mína reynslu og þekkingu. Það er virk athöfn að túlka texta, ekki passíf viðtaka.

Ég var að hugsa um þessa hluti og þessi tengsl áðan. Eitt af því sem Talbot talar um, eins og ég skil hann, er að tungumál (eins og íslenska) eru ekki stöðug fyrirbæri og verður ekki lýst með „málfræði“. Nú grunar mig að ég sé ekki að segja nóg, en ég mig langar ekki að skrifa langar útskýringar. Til dæmis skilur fólk mætavel texta sem er í engu samræmi við setningargerðir og málfræðilýsingar sem eru í kennslubókum. Ég hef því miður litla þekkingu á málvísindum en ég geri ráð fyrir að í þeim sé löngu búið að henda þeirri hugmynd í ruslið að lifandi tungu sé hægt að lýsa með statískum strúktúr. Það þarf ekki annað en að skoða venjulegt talmál fólks til að sjá að fólk talar nær aldrei „málfræðilega rétt“. Talbot segist ganga mun lengra en meginstraums-málvísindi sem hann segir ennþá halda í hugmyndina um tungumál sem strúktúral fyrirbæri, þó að fólk geri allskonar „villur“.

Ég ætlaði áðan að prófa aðeins að skrifa texta án þess að vera tilbúinn og án þess að reyna að skrifa setningar eins og hefðbundið er. Spurningin er þá – hvað skilja lesendur, hvað fá þeir út úr textanum. Ef til vill fer hann í taugarnar á þeim. Af hverju skrifar hann ekki rétt uppbygðan texta? Heldur hann að þetta sé nýtt – las hann ekki Tómas Jónsson metsölubók eftir Guðberg svo við nefnum ekki Ulysses eftir Joyce? Textinn er of óljós, mig vantar nánari leiðbeiningar innan textans um það hvert höfundur er að fara.

Að vitna í Wittgenstein – ódýrt trix segja sumir. „The last refuge of the scoundrel.“ En ég hef frá fyrstu kynnum fallist á þessa skilgreiningu á merkingu: merking orðs felst í notkun þess í tungumálinu. (Wittgenstein segir að þetta eigi við um stóran hluta þeirra tilvika þegar við notum hugtakið „merking orðs“). Per Linell hefur svo skrifað um ‘dialogism’ og dialogical analysis, sem mér finnst vera nánari útfærsla og konkretisering á þessu – svo úr verður tæki til að greina samtöl og texta.

Samkvæmt þessu lít ég á merkingu sem aldrei-endanlega ákvarðaða (sem minnir á eitthvað sem Derrida er þekktur fyrir en ég hef aldrei getað skilið neitt eftir hann.) Hins vegar er merking heldur ekki algerlega óákvörðuð, hún þróast í samtali og texta. Fólk skilur hvert annað, oft smám saman, það stillir sig saman. Orð eru viðbrögð við einhverju (atburði, orðum), sem kallar á viðbrögð þess sem heyrir/les. Og svo framvegis. Merking orða er ekki fyrst hjá þeim sem talar sem svo færist inn í þann sem hlustar. Merkingin er sameiginleg smíð þeirra sem taka þátt í samtali. Spurning rannsakandans er ekki: hvað á hann við heldur hver er merkingin innan samræðunnar – sem ræðst af viðbrögðum hinna. Hvað gera þeir og segja í framhaldinu?

Ég tengi þetta einnig við Ubuntu-speki sem er afrísk speki, en mér skilst að hún sé ekki ýkja gömul. Helstu einkunnarorð hennar eru eitthvað á þessa leið:

Ég er vegna þess að við erum. (Eða: ég er sá sem ég er, vegna þess hver við öll erum.)

Þessu hefur verið stillt upp sem einskonar andstæðu gömlu orða Descartes: ég hugsa, þess vegna er ég. Ég held að ég sé ekki sá fyrsti sem túlka og dreg ályktun af málspeki Wittgenstein á þá leið að Descartes gæti aldrei hafa hugsað þetta nema vegna tungumáls, sem er í eðli sínu sameiginlegt, samskiptatæki, og þess vegna hefði hann betur átt að segja: ég tala, þess vegna eru aðrir.

Nú hef ég notað langan tíma í að reyna að setja fram eitthvað af því sem ég reyndi að setja fram í fyrri færslu dagsins með ó-málfræðilegum hætti, án þess að fara alla leið með setningar, án þess að útskýra nægilega vel, án þess að huga að uppbyggingu, þræði, skýrleika. Við þetta hefur hugsun mín breyst. Þessi færsla segir ekki það sama og hin fyrri. Eða – ekki fyrir mig. Kannski sjá sumir lesendur skyldleikann, aðrir ekki. Það veltur á ýmsu. Sumum fannst ef til vill nóg að lesa hina fyrri, gátu jafnvel tengt við eitthvað sem alls ekki er hér. Öðrum finnst þessi skiljanlegri, finnst þeir núna vita meira hvað ég var að meina.