Tag Archives: femínismi

Baráttan við lestrargræðgi, með femínisma, gegn kapítalisma

Berst við tilhneiginguna til að lesa meira án þess að skrifa, án þess að hugsa. Ég les og hugsa um leið, fæ nokkrar hugmyndir. Ef ég skrifa ekkert þá gufar þetta meira og minna upp. Ég man ekki hvað ég las fyrir viku. Ég verð að lesa aðeins meira í dag, en fyrst punkta niður grein sem ég las í dag, Nancy Fraser (2009) Feminism, capitalism and the cunning of history í New Left Review 56.

Hún telur annarrar bylgju femínisma hafa verið viðbrögð við ríkiskapítalisma (state- organized capitalism) eftirstríðsáranna, sem hún greinir í fernt:

 • haghyggju (economism) – að eina breytan sem skipti máli væri efnahagur, sem ýtir öðrum þáttum mismununar út á jaðarinn
 • karlmiðjun (androcentrism) – hin viðtekna ímynd borgarans væri karl sem fyrirvinna heimilisins
 • ríkishyggja (etatism) – mætti ef til vill nefna skrifræðis- og sérfræðihyggju, þar sem allur vandi skilgreinist sem verkefni til þess hæfra sérfræðinga og stofnana, í stað þess að borgararnir sjálfir séu virkir.
 • þjóðríkishyggja (Westphalianism) – réttindi og réttlætismál eru alltaf rædd innan múra þjóðríkisins og ríkisborgara.

Fraser telur annarar-bylgu femínisma hafa sett fram róttæka gagnrýni á fyrstu þrjá þættina, en minna á hinn fjórða. Til dæmis um fyrsta atriðið segir hún (meðal annars):

Politicizing ‘the personal’, they expanded the meaning of justice, reinterpreting as injustices social inequalities that had been overlooked, tolerated or rationalized since time immemorial. Rejecting both Marxism’s exclusive focus on political economy and liberalism’s exclusive focus on law, they unveiled injustices located elsewhere—in the family and in cultural traditions, in civil society and in everyday life.

og

With the benefit of hindsight, we can say that they replaced a monistic, economistic view of justice with a broader three-dimensional understanding, encompassing economy, culture and politics.

Meginkenning Fraser er að þrátt fyrir að femínisminn hafi náð töluverðum árangri, hafi hann verið samhliða breytingum á formi kapítalismans, frá ríkiskapítalisma að nýfrjálshyggju, og hann hafi að einhverju leyti verið notaður í þágu þeirra breytinga. Til dæmis hafi hann stundum þróast út í „sjálfsmyndapólitík“ (identity politics), þar sem ofuráhersla er á viðurkenningu og sýnileika ólíkra hópa, á meðan krafan um raunverulegan efnahagslegan jöfnuð hverfur. Einnig hafi gagnrýnin á karla sem fyrirvinnur heimila farið saman við allsherjar vinnuvæðingu lífsins þar sem atvinuöryggi er minna og allir þurfa að vinna meira til að halda lífskjörum:

I am suggesting that second-wave feminism has unwittingly provided a key ingredient of the new spirit of neoliberalism. Our critique of the family wage now supplies a good part of the romance that invests flexible capitalism with a higher meaning and a moral point. […]

Once the centrepiece of a radical analysis of capitalism’s androcentrism, it serves today to intensify capitalism’s valorization of waged labour.

Hún bendir líka á hvernig gagnrýni á stofnanaræðið getur virst fara saman við kröfu nýfrjálshyggjunnar um niðurskurð og afnám afskipta ríkisins. Þetta gerist þó að markmið femínista hafi alltaf verið aukin pólitísk þáttaka og valdefling almennings, við getum kallað það lýðræðisvæðingu ríkisins en alls ekki afnám félagslegra úrræða og stuðnings.

capitalism would much prefer to confront claims for recognition over claims for redistribution, as it builds a new regime of accumulation on the cornerstone of women’s waged labour, and seeks to disembed markets from social regulation in order to operate all the more freely on a global scale.

Hún kallar eftir ákveðnari pólitík þar sem raunveruleg krafa um jöfnuð (líka yfir landamæri) fær aftur aukið vægi, í stað of mikillar áherslu á sýnileika, sjálfsmyndir, og aðgang að auðsöfnun innan kapítalismans.

Í grein Fraser er dálítið komið inn á þessa umbreytingu kapítalismans og hvernig hann hefur gleypt eða hámað í sig alla gagnrýni út frá „listrænu“ eða „frelsi“ – það er einmitt í hans þágu að (sumir) verkamenn fái að vera skapandi, frjálsir andar. Þetta tengist umræðu um menntamál og gagnrýni á „hefðbundna skóla“ sem of þröngvandi, ekki nógu frjálsa, þeir séu að steypa alla í sama mót og séu ekki nógu „einstaklingsbundnir“. Þetta er oft líka sett í samhengi við „breytta tíma“, tuttugustu og fyrstu öldina, og jafnvel opinskátt tengt við samkeppnishæfni í nútímanum. Ég held að það þurfi að spyrna kröftuglega við þessu og greina skýrt á milli skólastarfs sem er raunverulega „lýðræðisvætt“, þar sem nemendur hafa eitthvað að segja um nám sitt, annars vegar, en hins vegar þess sem miðar að því að framleiða enn fullkomnara samlagaðra vinnuafl, „framúrskarandi“ og viljuga þáttakendur í kapítalismanum.

Ég er ekki jafnréttissinni

Hugtakið jafnrétti er oft notað um þá ágætu reglu að allir skuli jafnir fyrir lögum. Líklega nær það svo einnig yfir stofnanir samfélagsins. Þannig á fólk að hafa jafnan rétt til náms í skólum, jafnan rétt til aðhlynningar á sjúkrahúsum, fá jafn mikið borgað fyrir sömu vinnu og þess háttar. Nánast enginn er tilbúinn til að segjast vera á móti þessu í sjálfu sér. Þegar til kastanna kemur er það ekki alltaf svo einfalt. Til dæmis er algengt að heyra að atvinnulausir, útlendingar og fólk með ýmsar fatlanir eigi ekki að hafa alveg sama rétt til sumra hluta.

En jafn-rétti þýðir líka þetta: allir eru jafnir sem keppendur um völd, auð og virðingu innan kerfis þar sem fólk hefur mjög misjöfn völd, auð, virðingu, þekkingu, og svo framvegis. Sjaldan er spurt spurninga á borð við:

 • hvaðan eru keppnisreglurnar?
 • hverjir njóta þess að eru þær einmitt svona?
 • af hverju ætti fólk yfirhöfuð að hafa misjöfn völd, auð og virðingu?

Eitt dæmi er skólakerfi. Eiga allir að hafa sama rétt til náms? Hvað þýðir það? Að nemendur keppi innbyrðis um eftirsótta skóla? Hér er mikilvægt að í jafnrétti er ekkert hugsað um það hvort nemendur séu í ólíkri stöðu til að stunda keppnina. Sumir nemendur eiga fátæka foreldra, aðrir ríka. Sumir nemendur eiga foreldra sem „kunna“ á menntakerfið og vita hvers konar hegðun og þekking kemur sér vel innan þess fyrir barnið. Sumir nemendur neyðast til að vinna með skóla, sumir nemendur lenda í skólum og bekkjum með metnaðarlausum kennurum og/eða samnemendum. Svo er frammistaða nemenda á prófum notuð til að veita sumum aðgang að eftirsóttu námi en ekki öðrum. Því allir nemendur hafa jafnan rétt samkvæmt hefðbundnum skilningi.

Hugtakið jafnrétti virkar þannig oft á vissan hátt til að breiða yfir ranglæti og ójöfnuð. Þeir hópar sem eru í sterkri stöðu fyrirfram viðhalda henni með því að „leikreglurnar“ henta þeim best.

Sem hópur eru konur undirskipaðar körlum. Þetta á við alls staðar, en í mismiklum mæli um allan heim. Í sumum löndum, eins og á Íslandi, ríkir eigi að síður lagalegt jafnrétti. Konur mega líka verða stórlaxar og sækja sér völd og virðingu. En þær verða að keppa á forsendum ríkjandi valdahóps, karla. Þær verða að berjast við viðteknar hugmyndir menningar okkar um kynin, það lendir á þeim að ganga með og fæða börnin, og þær eru í mun meira mæli áreittar og beittar kynferðislegu ofbeldi en karlar. Og þá er ég varla byrjaður á þeim langa lista af hlutum sem halda konum undirskipuðum sem hópi hér á landi, í dag. Þegar þær orða eitthvað um þessa hluti opinberlega fá þær yfir sig:

 • dembur af viðbjóði og lítt dulbúnum hótunum og fyrirlitningartali sem beinist gegn þeim sem konum
 • pistlum gáfumenna sem telja kvartið leiðinlegt, andlaust og kæfandi, ef ekki særandi fyrir alla góðu karlana eins og þá
 • „hrútskýringar“ á þá leið að þetta sé allt í hausnum á þeim og misskilningur
 • lærðar áhyggjur af öfgum sem séu að færa þær á ranga braut sem muni enda með blóðugu ofbeldi.

Mín afstaða er: þetta kynjakerfi og karlræði þarf að rífa upp með rótum. Konur og karlar eiga að vera jöfn og samfélagið á ekki að vera sniðið þannig að það henti körlum frekar en konum. Ég ætla að nota orð Schoolmaster Naxalite frá í gær á Facebook-þræði:

Ég á í engum vandræðum með að segja „já ég er femínisti“ en ég hef nokkrar efasemdir um jafnrétti.

(Gott er að geta gert orð annarra að sínum, við erum alltaf að því, það er kannski það sem nám er í raun og veru. En yfirleitt aðlögum við orð annarra fyrir eigin þarfir og út frá eigin reynslu. Ég hef efasemdir um að ég geti kallað mig femínista því að þó að sú barátta snúist um betri heim fyrir alla, konur og karla, þá er femínismi kvennabarátta, og ég er bara ekki insider í því.)

Internetið er ekki til

Þegar ég var yngri var internetið ekki það sem það er núna. Þess vegna er fyndið að deila um það hver fann upp internetið. Var það bandaríski herinn? Voru það bandarískir háskólar, styrktir af hernum? Var það Tim-Berners Lee? Mozilla, Google, eða Al Gore? Hvað með þá sem lögðu grunninn, Turing, Shannon og svo framvegis. Hvað er internetið? Eru það tölvurnar, hugbúnaðurinn, staðlarnir, kaplarnir, miðlarnir, notendurnir?

Mér finnst internetið ekki nógsamlega dásamað. Internetið er merkilegasta manngerða fyrirbærið síðan ég veit ekki hvað – kannski það merkilegasta síðan tungumál komu til sögunnar. Nei það er ekki hægt að mæla svoleiðis. Hvað með prentun, landbúnað, rafveitur, pípulagnir, flugvélar, geimskutlur, kjarnorku, bólusetningar, sýklalyf, handþvott, peninga, bankakerfi, öreindahraðla, hornafræði og siðferði? Svo eitthvað sé nefnt. Örfá fyrirbæri sem snerta líf okkar, sem við lifum í, eða miðla veruleikanum, eða já, miðla milli okkar og veruleikans.

Þetta er til að minna okkur á hlutverk tækja (sem geta verið áþreifanleg, en líka í formi kerfa, aðferða, hugtaka, tákna). Allt sem við gerum er miðlað af tækjum, við gerum eiginlega aldrei neitt án einhverrar „milligöngu“. Og nú internetið með öllum sínum samskipta og táknunarleiðum. Þegar ég var ungur voru samskipti (opinber) eins og eftirfarandi ekki til:

Nú er internetið fullt af blómstrandi samskiptum þvers og kruss. Tjáningar- og samskiptamagn í umferð hefur margfaldast. Ungt fólk sem ekki er bundið af textaforminu er að láta til sín taka. Öll frábæru mynda og hreyfi-GIF-mynda bloggin, sjálfútgefin myndbönd á Youtube, og svo framvegis. Fyrir mig: rafræn fræðitímarit, gamlir sjónvarpsþættir og fótboltaleikir, tónlist. Magnið er auðvitað yfirþyrmandi, óhugsanlegt. En ó og æ það er ekki tilefni til að kvarta! Það er tilefni til að fagna! Jafnvel þótt hluti af efninu sé rusl og sumt andstyggilegt og skaðlegt, jafnvel hættulegt.

Um þessa mynd að ofan má margt segja. Í stað þess að endursegja og breyta og bæta ætla ég að nýta internetið og benda á umræðu hér, þar sem þessi túlkun kemur fram:

he’s saying the reason that women are allowed to not wear makeup is that they still look good to him.

Og má vera að þetta sé punktur sem drengurinn hugsaði ekki, eða fannst ekki hafa vægi, eða væri ósammála væri hann spurður. Samt virðist þetta liggja beint við sem túlkun. Þá er auðvitað spurningin: hvað svo? Ég veit ekki hvað svo, til dæmis hvort þessi tiltekni strákur hefur svarað, hugsað, endurskoðað, eða hvað – eða hvert framhaldið hefur verið (fyrir utan þráðinn sem ég benti á, og örfáa aðra). Ef til vill er þetta liður í aukinni vakningu ungs fólks um kynjakerfið, feðraveldið.

Kaupglaðir kommúnistar og vonda góða fólkið

Hvernig geturðu verið á móti áliðnaði og samt flogið í flugvél og drukkið bjór úr dós? Ef þú ert svona mikið á móti neysluhyggju, af hverju ertu þá alltaf í búðum að kaupa mat?

Gömul og þreytt „röksemd“ gegn einhverri skoðun er að finna það að persónum sem reyna að halda fram skoðuninni að þær séu ekki nægilega samkvæmar skoðuninni í sínu lífi. Þegar ég var að selja fólki ljóðabók fannst sumum sniðugt að skjóta á mig að nú væri ég kapítalisti með þessari sölumennsku. Á almennu formi er ásökunin svona:

Hvernig geturðu þóst vera með hinu góða þegar þú ert sjálfur svona vondur?

Sumir ganga svo langt að búa til sérstakt uppnefni um fólk sem berst gegn einhverju misrétti, nefnilega „góða fólkið“. Það er fólk sem heldur að það sé gott og vill að aðrir haldi að það sé gott, en er í rauninni ekkert betra en allir aðrir, kannski ívið verra. Aðrir nota orðið móralisti. Allt gengur þetta tal út frá því að við séum að tala um eitthvert innra eðli einstaklinga, siðferði þeirra og viðhorf. Og okkur er mjög tamt að tala á þeim nótum, tungumálið gerir ráð fyrir því. Nú hef ég til dæmis verið að ströggla við að skrifa „við tölum á þessum nótum“ í stað þess að skrifa um að „hugmyndir okkar“ séu þannig. Ég geri það vegna þess að ég trúi almennt ekki á „gott fólk“ eða „vont fólk“.

Auðvitað kannast flestir við slíka umræðu. „Tölum um að athafnir, orð og gjörðir séu góðar eða vondar en ekki manneskjurnar.“ Samt er eilílflega talað á hinn veginn, og kannski er línan dálítið óljós. Ég skrifaði athugasemd við grein eftir Guðberg Bergsson um daginn og sagði að greinin væri ógeðsleg. Það var ekki tilviljun að ég sagði ekkert um Guðberg sjálfan heldur eingöngu um greinina.

Þetta tengist einu af því sem hefur breyst í minni hugsun og tali. Þegar ég var yngri talaði ég  og hugsaði um hluti eins og sköpun og skáldskap sem eitthvað sem einstakir menn gerðu í krafti hæfileika sinna (og elju). Með gamaldags orðalagi mætti segja að ég hafi trúað á snilligáfu. En hægt og rólega hef ég sjálfur færst að því að sjá orð og athafnir einstaklinga sem einskonar speglunarbrot af hinu sameiginlega – af þeirri menningu sem við búum við saman. Allt sem við hugsum er til sem möguleiki í menningunni – orðin hafa ekki merkingu nema vegna sameiginlegs tungumáls. Auðvitað er einstaklingsmunur. Við búum í ólíkum skrokkum og upplifum ólíka menningarheima og -hópa. En hið sameiginlega/menningarlega er að mínu mati stórlega vanmetið.

Þess vegna er til dæmis svo mikilvægt að reyna að hafa áhrif á menninguna og andæfa gegnumgangandi samskipta- og samræðumynstrum sem ganga út á undirskipun kvenna (eða annarra undirskipaðra hópa). Það skiptir engu máli hvort það er „í alvörunni“ Egill Einarsson eða „hliðarsjálfið“ Gillz sem talar (ítrekað og endalaust) um kvenleika sem niðurlægjandi einkenni. Orðin eru hluti af menningunni, prentuð í dagblaðapistlum, á netinu, bókum og sjónvarpsþáttum. Orð hans eru tekin upp af strákum, þau dreifast, magnast og þróast. (Nú eða deyja út…)

Merking orða ræðst ekki af ætlun og tilgangi þess sem segir þau heldur þróast hún eftir á. Hún ræðst af viðbrögðum og viðtöku annarra á þeim, viðbrögðum við þeim viðbrögðum og svo framvegis. Og verður aldrei endanlega ákvörðuð. (Með því er ekki útilokað að sá sem sagði þau hafi ekki haft einhverja ætlun, sem viðtakendur hafa ekki skynjað.)

Ég er kominn eitthvert sem mig grunaði ekki þegar ég hóf að rita þessa færslu, enda vissi ég ekki hvað ég var að hugsa fyrr en ég skrifaði það út. Hugsunin verður til við að segja hana upphátt eða í hljóði eða skrifa hana eða slá hana á lyklaborð. Svo sit ég eftir og mér finnst eins og tungumálið hafi þvingað hugsunina í ákveðið mót og það sem stendur eftir sé ekki nákvæmlega það sem ég ætlaði að hugsa.

 

Skrifað inn árið

Mig hefur lengi langað til að renni á mig skrifæði. Eða bara pínulítil ritdella, nógu mikil löngun til að skrifa til þess að ég láti verða af því að gera það. Til dæmis hér. Nei, ég er að tala um meira en það. Skrifa mikið, skrifa um það hvað ég hef gert í dag. Hvar ég hef verið. Ég hef verið hér heima hjá mér en samtímis á Facebook, Youtube, netinu almennt, google scholar og svo framvegis.

Situr eitthvað eftir? Hefur eitthvað fest sig í síunni á mörkum heims og heila? Mér er orðið um megn að muna bara gróflega hvað ég hef lesið í dag. Og hvað segir það um allt sem gerðist í gær?

Í gær var áramótaskaup. Mér fannst það hvorki fyndnara né ófyndnara en fyrri skaup, þannig er það alltaf hjá mér. Mér finnst hins vegar alltaf skemmtilegra að hugsa um og greina fyndni heldur en fyndnin sjálf. Eða svona. Díalektískt samband.

Af hverju var Hildur Líf í þessu skaupi? Einn lestur: kvenfyrirlitning. Annar lestur: stéttaátök/mótsagnir. Ekki var um að ræða ádeilu á valdamikla. Kannski frekar til marks um aðgreiningu millistéttar og lágstéttar. Hildur Líf sem fulltrúi þeirra sem ná ekki upp í aðalinn, menntuðu millistéttina – hún nær ekki að mála af sér Breiðholtsdrættina. Hún er í hlutverki „heimsku stelpunnar“ sem millistéttin getur hlegið að sínum taugaveiklunarhlátri. Millistéttin þarf að réttlæta sína stöðu og trúa því að hún hafi eitthvað umfram, einhverja fágun og gáfur sem aðskilur hana frá plebbunum, sem hún óttast umfram allt að samlagast. Mýtunni um verðleikasamfélagið verður að viðhalda.

Allt þetta tilheyrir auðvitað hugmyndafræði og er því ekki „meðvituð“ strategía eða ætlun handritshöfunda. En það er bara þannig sem grínið virkar, virkni grínsins er að staðfesta (styrkja) stöðu þeirra sem eru „í hópnum sem hlær“ gagnvart öðrum hópum (sem gert er grín að.)

Auðvitað var margskonar annað grín í skaupinu og því beitt gegn valdameiri öflum (sem áhorfendur telja sig undantekningalítið ekki tilheyra).

Þetta er það sem kemur út þegar maður hugsar á blað, skjá, upphátt, eða eitthvað slíkt. Fyrstu skynhrif, hughrif, áhrif. Ég er ekki kominn lengra en að einu atriði í áramótaskaupi gærdagsins, ég mun ekki komast að deginum í dag með þessu áframhaldi. Og strax farið að dimma.

Önnur hugsun: er norska tungumál? Er skandínavíska kannski tungumál? Ég get rakið þessa spurningu, uppsprettu hennar í dag. Ég er að lesa Konuna við 1000° eftir Hallgrím Helgason. Í henni stendur (eftir minni) norska er það sem kemur út þegar heil þjóð ákveður að tala EKKI dönsku. Ég flissaði. Eins og oftar við lesturinn. Nefnilega vegna þess að norska ritmálið er danska. Og norðmenn með allar sínar málýskur og þjóðerniskennd, alltaf að reyna að sameinast um einhverja norsku sem er ekki til. Samkvæmt Wikipedíu sem ég opnaði í dag, þá eru einhverjir sammála mér um að norska-danska-sænska er alveg eins eitt mál, nú eða róf af mörgum líkum málum. Við gætum skipt þeim í tíu mál þess vegna. Ég get ekki séð nein rök til þess að tvær norskur séu sama mál frekar en ein norska og ein sænska til dæmis. Ég get varla ímyndað mér að margir hafi áhuga á að lesa þetta. En svona hlýtur það að vera ef maður heldur bara áfram að skrifa.

Næsta atriði: Notting Hill – kvikmyndin. Af hverju í ósköpunum leitar fræg amerísk leikkona í einhvern meðaldúdda í London. Hann hefur ekkert sérstakt að bjóða. Hún hefur ekkert við hann að gera. Verður líf þessarar ríku og frægu konu fyrst fullkomnað þegar hún fær sér venjulegan næs gaur til að vera með? Fáránlegt.

Jæja, nú er ég hættur að skrifa, skrifa ekki meira á þessu ári.

Þar sem eymdin er verst er vændið mest … eða er það öfugt?

Nýjasta fræðaæðið mitt er að lesa um sálfræði skoðanamyndunar. Ég er til dæmis að lesa bókina A Mind of its Own: How Your Brain Distorts and Deceives (ég kann ákveðna leið við að útvega hana rafrænt sem ég gæti ljóstrað upp ef einhver hefur áhuga), og vefsíðuna http://youarenotsosmart.com. Það sem virðist margfaldlega staðfest er að við látum rök og staðreyndir ekki ráða skoðunum okkar eða hugmyndum. Hvernig skoðanir myndast og þróast er ekki ljóst, en fer að einhverju leyti eftir félagslegu umhverfi og með hverjum við flokkum okkur sjálf, hverjir aðrir eru með okkur í liði. Þetta er ein líklega ein ástæðan fyrir því hvers vegna internet-deilur leiða aldrei til neins. Því það skortir í sjálfu sér aldrei mótrök gegn neinum málstað, og sér í lagi er auðvelt að finna vitleysur, ónákvæmni og göt í stuttum textum. Tungumálið hefur svo lága upplausn og svo litlu er hægt að koma til skila í textanum sjálfum. Til að skilja texta þarf ekki bara að lesa innihaldið heldur kemur líka til „útihald“ – allt það sem ekki er sagt, en er sá grundvöllur sem textinn hvílir á, og hann verður að vera að einhverju leyti sameiginlegur þeim sem eiga í samræðunni. Til dæmis, ef annar talar íslensku en hinn kínversku og hvorugir bæði málin, þá er erfitt að eiga í samræðu. Yfirleitt er þó um einhvern lúmskari mun að ræða. Báðir telja sig tala sama mál, en þeir leggja þó ólíkan skilning í ýmislegt.

Ég skrifaði færslu í fyrradag um vændi. Ég vitnaði til fræðigreina sem staðfesta að líf í vændi er ömurlegt. Hvorug greinin er skrifuð af feminískum fræðimönnum og í hvorugri þeirra er því haldið fram að bann við vændi leysi nokkurn vanda. Því er heldur ekki haldið fram að vændi leiði til fíkniefnaneyslu. Því er bara einfaldlega haldið fram að líf í vændi sé ömurlegt, og að þær manneskjur sem lifa í vændi sé í miklu meiri hættu en aðrar manneskjur að verða fyrir ofbeldi og að lifa ömurlegra lífi en aðrir. Ég sagði að ég teldi að það gæti verið betra að reyna að efla fólk sem stundar vændi á ýmsa vegu fremur en að banna það. Þó væru rök til þess að banna kaup á vændi hér á landi eins og í öðrum löndum þar sem á að vera hægt að tryggja fólki betra hlutskipti.

Viðbrögðin sem ég fékk var grein Evu Hauksdóttur, sem hefst á því að femínistum eru ekki vandaðar kveðjurnar, þeir sakaðir um að ljúga og bulla og að hafa annarlegar hvatir:

tilgangur fórnarlambsfemnista er ekki sá að halda uppi málefnalegri umræðu heldur að einoka hana. Þetta snýst ekkert um velferð vændiskvenna, hvað þá sjálfsákvörðunarrétt þeirra, heldur er markmiðið að festa í sessi hina ógeðfelldu hugmynd um kynjastríð, þar sem konan er undirskipuð, í rauninni fædd fórnarlamb og nánast allar gjörðir karlsins snúast um það að ná henni á sitt vald.

Ekkert af þessu er rökstutt, enda getur Eva ekki séð inn í sálir feminísta. Persónulega þekki ég engan slíkan sem hefur þetta fáránlega markmið, að ég viti. Ég geri yfirleitt ekki ráð fyrir að fólk sé hálfvitar svona fyrirfram. En mér finnst svona texti mjög ólíklegur til að leiða til gagnlegra skoðanaskipta, og reyndar er hann móðgandi og særandi.

Ég kannast heldur ekki við þetta kynjastríð sem Eva nefnir. Hvaða femínistar tala um kynjastríð? Þeir femínistar sem ég les, og þeir eru allnokkrir, tala hins vegar oft um feðraveldið. Samfélag er feðraveldi að svo miklu leyti sem karlar hafa forréttindi umfram konur. Þetta er bæði einfalt og flókið, vegna þess að ólík staða karla og kvenna kemur fram á ótal vegu, bæði leynt og ljóst. Feðraveldið er þess vegna ekki það sama og „karlar“ og því er aldrei haldið fram að feðraveldið sé ákvörðun tiltekinna karla eða allra karla, einhverskonar samsæri eða að það sé til staðar vegna þess að karla langi til að vera vondir við konur. Margir karlar taka þetta hins vegar persónulega og fara í vörn. Það þarf að skipta aðeins um sjónarhorn til að skilja þetta. Sannleikurinn er sá að gildi feðraveldisins geta verið „að verki“ á ýmsum stöðum og ólíkum sviðum. Það getur verið að verki í einstaklingum, bæði konum og körlum, persónulegum samskiptum, og stofnunum, fyrirtækjum, fjölmiðlum, og ýmsum hópum samfélagsins. Þetta þýðir ekki að konur séu alltaf kúgaðar af körlum og engir karlar séu kúgaðir, bæði af öðrum körlum eða konum. Þetta þýðir ekki að það séu ekki einhverjar konur í valdastöðum. En nú er ég kominn langt út fyrir efnið.

Fyrstu efnislegu orð Evu um grein mína eru að hnýta í greinina sem ég vitna fyrst til því að höfundar hafi ekki haft rænu á

að gera greinarmun á fíklum og konum sem ekki eiga við slík vandamál að etja.

Og Eva bendir á að margar margar konur fara út í vændi til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu. Þær deyja semsagt ekki vegna þess að þær eru í vændi heldur vegna þess að lifa áhættusömu lífi.

Hér er freistandi að grípa til samlíkingar því Eva er mjög hrifin af samlíkingum. Því þetta hljómar óneitanlega svipað því þegar sagt er: byssur drepa ekki fólk, fólk drepur fólk. Það hefur enginn haldið því fram að fólk deyi beinlínis úr vændi, við það að taka við peningum fyrir afnot af líkama. Báðar greinarnar ganga út á að lýsa heimi vændis, sem er einnig heimur ofbeldis og fíkniefnaneyslu. Enginn heldur því fram að við það að taka við fyrsta þúsundkallinum grípi mann löngun í fíkniefni eða dauða. Reyndar get ég ekki skilið þessa fullyrðingu um að konur leiðist út í vændi til að fjármagna fíkniefnaneyslu öðruvísi en svo að margar þær manneskjur sem stunda vændi myndu ekki gera það nema vegna þess að þær eiga við fíkniefnavanda að stríða. Segir það ekki eitthvað um vændi? Er vændi eins og hver önnur vinna? Sem þú tekur ekki að þér nema að vera fíkniefnasjúklingur?

Næsta efnislega gagnrýni Evu gengur út á að umræða um vændi sem vandamál svipi til umræðu um samkynhneigð sem vandamál. Ég sé ekki hvað það á að sýna. Ég hef kannski eitthvað misskilið söguna en vændi hefur, eftir því sem ég best veit, meira og minna verið umborið í aldanna rás, mun frekar en samkynhneigð. En í mínum huga er bara eðlismunur á þessu tvennu: kynlíf milli einstaklinga sem langar að stunda kynlíf annars vegar og afnot eins (yfirleitt karls) af líkama annars (yfirleitt konu) gegn greiðslu – það er kynlíf sem ekki hefði farið fram nema vegna greiðslunnar.

Hún segir að lífslíkur samkynhneigðra séu lélegri en gagnkynhneigðra, en:

Á sama hátt er það ekki umdeilt að meiri líkur eru á að vændiskona verði fyrir líkamsárás í vinnunni en bankagjaldkeri en það veltur á feminiskri afstöðu rannsakenda hvort hlutfallið er nær því að vera 10% eða 90%.

Nú eru greinarnar sem ég vitna í, eins og áður sagði, ekki ritaðar af feminískum fræðimönnum. Og þar eru alveg óumdeilanlegar tölur, hvorki túlkaðar upp né niður, þú ert átján sinnum líklegri að verða myrt sem starfandi vændiskona en meðalkona í Colorado Springs. Það eru ekki 10% eða 90% heldur 1700% hærri líkur. En hér er líklega þess að geta að ekki var greint á milli vændiskvenna sem stunduðu fíkniefnaneyslu eða lifðu á annan hátt áhættusömu lífi og hinna, sem gerðu það ekki. Svo bendir Eva á grein í sama tímariti sem fjallar um lífslíkur homma í New York á árunum 1978-1988 og ég átta mig ekki á því hvernig sú grein á að draga úr réttmæti þessarar greinar. Það er væntanlega augljóst að lífslíkur homma á þessum stað og þessum tíma hafa verið verri en annarra vegna HIV faraldursins, enda er það niðurstaða þeirrar greinar. Hvorki í þeirri grein, né þeirri sem ég vitna til, er kveðinn upp nokkur siðferðilegur dómur, eða lagt til að samkynhneigð verði læknuð eða vændi bannað.

Næst kemur einhver skrípaleikur þar sem orðið „samkynhneigð“ er sett í staðinn fyrir „vændi“ og fyllt upp með einhverjum tilbúnum tölum og augljósu kjaftæði. Þar næst kemur:

Greinin sem ég vísa í er vond. Hún er vond af sömu ástæðum og grein Ingóllfs og túlkun hans á tölum um þær hættur sem vændiskonur búa við. Þar er nefnilega gengið út frá því að vandamál þessa fólks stafi af kynhegðun þess.

Þetta er rangt. Það stendur ekki í þeim greinum sem ég vísa til að vandamál fólks stafi af kynhegðun þess og ég segi það ekki og meina það ekki. Vændi þrífst í eymd og nærist af eymd. Það er samtvinnað eymd. Þeir sem stunda vændi eru mun líklegri en aðrir til að eiga við önnur stór vandamál að etja, svosem fíkniefnaneyslu, hafa verið beittir ofbeldi, vera fátækir og hafa fáa kosti í lífinu. Þetta gerist ekki við það að það fer að selja sig. Hins vegar er vændi oft hluti af „neikvæðum spíral“, og ég hef séð að það er umdeilt hvort algengara sé að fíkniefnaneysla hefjist af alvöru almennt fyrir eða eftir að fólk er farið að stunda vændi.

Nú er það ekki mín skoðun að bann við vændi eyði eymd heimsins. Það útrýmir ekki einu sinni vændi. Ég veit ekki hvað er best að gera. Ég get ímyndað mér að gæti verið allt í lagi fyrir konu að þiggja greiðslu fyrir kynlíf, ef hún hefði hvort sem er viljað stunda það. En að vera háður því til framfærslu að láta hvern sem borgar ríða mér, ég á bágt með að trúa því að einhver velji það sem hefur um eitthvað að velja. Og það er bæði byggt á tilfinningu og því að hreint tölfræðilega þá kýs fólk ekki að stunda vændi nema það sé í einhverjum verulegum öðrum vandræðum.

Lokaorð Evu eru á þá leið að fólk eigi að fá að stjórna sér sjálft. Mér finnst hún fremur sverja sig í ætt við frjálshyggjusinna á borð við Milton Friedman en samfélagslega hugsandi anarkista eins og ég hef alltaf talið hana vera. Það hlýtur að skipta máli hvaða valkosti fólk hefur og hvernig samfélagið lifir sem heild. Eiga allir að fá að eiga byssur og sprengjur? Eiga bankar að bjóða fólki verðtryggð hávaxtalán? Gengistryggð bílalán? Eru það ekki frjáls viðskipti? Á fólk að borga skatta? Eiga ekki að vera neinar hömlur á því sem fólk má gera, svo fremi sem allir sem koma beint inn í það samþykki? Í okkar samfélagi fer þessu víðsfjarri. Er mikilvægt að hafa frelsi til að kaupa aðgang að líkama annarra?

Einhver nefndi barnagirnd og kynlíf með börnum. Af hverju er það ekki leyft, ef barnið samþykkir? Því svaraði Eva til að börn væru ósjálfráða, hefðu ekki forsendur til að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvort, hvernig og með hverjum þau stunda kynlíf, né heldur líkamsþroska til þess að þola líkamlegt samræði án þess að vera í stórkostlegri hættu á því að skaðast af því. Það að vera ósjálfráða er lagatæknilegt atriði, og mörg börn þola líkamlegt samræði líkamlega, löngu áður en þau verða 18 ára. Það er hins vegar þetta með forsendurnar – og ég spyr nú bara hvort þeir sem leiðast út í vændi til að fjármagna fíkniefnaneyslu hafi forsendur til að velja vændi eða ekki vændi.

Ég veit ekki hvort nokkur von er til að nokkur lesi svona langan texta á netinu. Líklega munu þeir sem trúa því innst inni að vændi sé eins og hver önnur vinna eða kynhegðun ekki breyta þeirri trú. Ekki heldur þó að þeim sé bent á meira en hundrað greinar sem sýna staðfastlega að vændi er venjulega ekki frjálst val manneskju sem hefur um eitthvað að velja. Það eru til greinar á móti, sérstaklega er einn maður sem heitir Ronald Weitzer sem skrifar mikið greinar fylgjandi vændi. Honum hefur svo sem verið svarað ágætlega. En það er eins og stendur í ljóðinu: „alltaf hægt að finna sér sérfræðing með doktorspróf sem er sammála“.

Ég mun ekki framar svara þeim sem halda fram að fólk sem er þeim ósammála sé það vegna illra fyrirætlana eða heimsku.

Vændi og vinna

Ef trúa má læknisfræðitímaritum þá er vændi versta atvinnugrein í heimi. Í stórri langtímarannsókn frá Bandaríkjunum var dánartíðni vændiskvenna metin sexföld á við meðaltalið, en morðtíðnin átjánföld. (Sjá í British Medical Journal: Mortality in a Long-term Open Cohort of Prostitute Women.) Höfundar telja að vísu að þetta séu of lágar tölur, þær eru algert lágmark og byggjast á staðfestum dauðsföllum. Þeir telja líklegt að þeir hafi misst af einhverjum. Ég skoðaði tvær aðrar greinar (í British Medical Journal og Lancet) sem segja það sama: vændi er hættulegasta og mest heilsuspillandi starf sem til er.

Nú er það ekki óhjákvæmileg afleiðing þessara staðreynda að besta ákvörðunin sé að banna vændi með lögum að viðlögðum refsingum fyrir þá sem bjóða það eða kaupa það. Svo virðist sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telji skynsamari leið vera að gera vændi löglegt en beita í staðinn öðrum kraftmiklum aðferðum til þess að hjálpa fólki sem er í vændi, efla vald þess og stöðu, reyndar með það fyrir augum að það geti að lokum sagt skilið við þetta hlutverk. (Sjá í Lancet: Sex-work harm reduction.) En hér ber að hafa í huga að við erum einkum að tala um praktískar leiðir fyrir fólk sem býr ekki í ríkum sósíaldemókratískum löndum. Ef aðrir möguleikar til framfærslu eru engir eða verulega vondir er ekki skynsamlegt að vændi sé glæpsamlegt.

Af hverju fór ég að skrifa þetta og hver er punkturinn? Svarið er að ég sé fólk, sem að ýmsu öðru leyti virðist skynsamt, talar eins og vændi sé eins og hver önnur vinna. Það er það ekki. Og mér finnst eiginlega óskiljanlegt hvers vegna sama fólk telur að þetta sé á einhvern hátt „ósannað“. Auk þess séu til dæmi um fólk sem vilji stunda vændi. Og margt annað sem fólk gerir til að framfleyta sér sé ömurlegt. Þetta tvennt síðarnefnda er alveg rétt. En það breytir því ekki að á alla raunvísindalega mælikvarða (dánartíðni, sjúkdómar, tíðni árása) er vændi versta starf sem til er, að minnsta kosti þar sem það hefur verið kannað.

Ég get líka vel fallist á að það kunni að vera rétt að leyfa vændi en ég held að það fari eftir samfélaginu. Í norrænu velferðarsamfélagi eru góð rök fyrir því að banna vændiskaup með lögum, vegna þess að við eigum að geta boðið öllum upp á aðra betri valkosti. Það kann að vera skynsamlegt að fara aðrar leiðir annars staðar og leggja frekar í aðgerðir til að hjálpa og lágmarka þann skaða sem fólk í vændi verður fyrir.

Ungur, hvítur og ríkur

Þeir sem þetta lesa eru flestir hvítir Íslendingar. Í krafti þess njóta þeir forréttinda og yfirburða yfir flestum jarðarbúum. Sumir lesendur eru karlar, og þeir njóta þess vegna forskots umfram konur á ótal vegu. Einhverjir eru streit og þeir njóta forréttinda þess vegna. Sjálfsagt eru þeir flestir ágætlega settir í stétt, kannski dæmigerðir millistéttarborgarar, misþrúgaðir af skuldum, en fæstir í raunverulegri fátækt. Þeir njóta þess. Að auki mætti telja sem forréttindi að vera ekki-fatlaður, grannur, menntaður, og svo framvegis. Völdin streyma um okkur þvers og kruss, eins og við tilheyrum alls kyns flokkum sem veita mismunandi völd.

Þetta snýst ekki um það hvort fólk er gott eða vont. Hvítir ríkir karlar geta verið ágætis náungar. En þeir njóta samt sem áður yfirburða vegna þess einfaldlega að vera hvítir ríkir karlar. Burt séð frá öðrum kostum og löstum. Það er ekki þannig að hvítir karlar ákveði á leynifundum að þeir eigi að hafa forréttindi, hins vegar eiga þeir oft erfitt með að koma auga á það sjálfir að þeir hafa þau, og það sem þeir gera er mjög oft til þess fallið að viðhalda þeim eða auka þau.

Þetta snýst heldur ekki um það að einstaklingum séu allar leiðir lokaðar. Við vitum að sumar konur komast í valdastóla. Sumir hommar eiga fullt af peningum. Sumir menn komast langt upp í valdapýramídann þrátt fyrir stutta skólagöngu. Svona mætti lengi telja. Það eru til ótal undantekningar. En breytir ekki því að leiðin er erfiðari fyrir suma, þeir þurfa að vinna meira fyrir “árangrinum” og þeir þurfa að laga sig að reglum og hefðum þess stigveldis sem mismunar.

Þetta snýst ekki svo mikið um það hvort fólki misbýður og hvort það móðgast eða særist. Vandinn við brandara er ekki fyrst og fremst að þeir særi tilfinningar, þó að það sé hluti af virkni þeirra. Vandinn er að þeir viðhalda eða magna upp ýmiskonar viðhorf og skilgreina hvers konar fyrirlitning og mismunun er viðtekin og eðlileg í menningunni, hver hefur völdin. Brandarar sem gera grín að þeim sem er mismunað hafa sínu hlutverki að gegna í mismununarmenningunni.

Þetta snýst ekki um að banna brandara eða banna fólki að hugsa það sem það vill eða banna skoðanir eða banna hvíta ríka karla.

Þetta snýst um að það er í heiminum raunverulegt stigveldi, valdamismunur, eða til að reyna að halda nákvæmni þá eru mörg stigveldi sem fléttast saman og vinna saman. Fólki er mismunað og fólk er útilokað, bæði opinberlega og í gegnum ýmislegt sem ekki er sýnilegt. Baráttan er gegn mismunun, útilokun og kúgun.