Tag Archives: Dewey

Speglaðu þetta ef þú getur I

Í bókinni Lýðræði, réttlæti og menntun skrifar Ólafur Páll Jónsson um hugmyndir pragmatista (verkhyggjusinnum) eins og John Dewey, um nám, þannig (bls. 38):

Þannig leggja forsprakkar verkhyggjunnar allir áherslu á að það að öðlast þekkingu sé ekki ferli sem einkennist af því að taka við upplýsingum (t.d. í gegnum skynfærin) og vinna úr þeim (t.d. með hugsun), heldur virkt ferli þar sem þekkingaröflunin byggir á rannsókn þar sem þekkingin er ekki bara útkoma úr rannsókninni heldur hluti af virku ferli.

Þetta gæti líka verið einföld lýsing á ríkjandi hugmyndum innan stærðfræðimenntunar um gott stærðfræðinám.

Því miður er þetta víðsfjarri veruleika flestra skólastofa. Og ég sé enga leið til að samræma þetta því sem kallað hefur verið „spegluð kennsla“ eða „vendikennsla“. Ég útiloka ekkert, ef ég fæ einhverntíma dæmi um slíkt þá er væri það frábært. Grunnhugmyndin um slíka kennslu virðist vera að láta nemendur horfa á útskýringarmyndbönd heima sem undirbúi þá til að leysa verkefni í skólanum. Þannig geti kennari sleppt fyrirlestrum í skólanum, en í staðinn hjálpað nemendum í verkefnavinnu. Kannski getur þetta gengið í einhverjum námsgreinum. En þetta víxlar röðinni eins og lýst var í textabrotinu um pragmatisma. Rannsóknin kemur fyrst. Í því ferli verður þekkingin til. Rannsókn er ekki það að læra fyrst um einhver hugtök eða aðferðir sem síðan er beitt til að leysa verkefnin. Rannsókn er ferlið þar sem hugtökin og aðferðirnar verða til.

Erfitt að spegla þetta ferli!

Erfitt að spegla þetta ferli!

Hér er önnur tilvitnun sem mér finnst passa á þessum stað, sem erfitt er að samræma við kennslu ef kennsla er það að veita upplýsingar eða útskýringar. (Haft eftir Nitas Moshovits-Hadar í bókinni Developing thinking in algebra, eftir Mason, Graham og Johnston-Wilder)

every mathematical ‘fact’ or ‘result’, every technical term, signals a surprise that was experienced by someone, which led to its development and use, and that it is possible to re-enter and re-create that surprise for learners.

(Ég hef alls ekki alltaf getað farið leið rannsóknarnálgunar í stærðfræðikennslu, jafnvel bara frekar sjaldan og að litlu leyti, því miður. Ástæður þess eru margs konar, og mætti telja bæði skort á námsefni eða skort á tíma/orku til þess að búa til slíkt efni, samræmd lokapróf hópa, væntingar nemenda og margt fleira. Allt hlutir sem hægt er að vinna á, en taka tíma og orku.)

Agi

Stundum ganga fyrirætlanir manns um kennslu og nám ekki upp. Nemendur læra ekki það sem maður vildi. Kannski skildu þeir ekki verkefnið, fundu enga merkingu í því, áttuðu sig ekki á því hver tilgangurinn var eða hvað það var sem kennarinn (ég) ætlaðist til. Stundum birtist þetta í fíflalátum, stundum í ásökunum, stundum í því að nemendur gera eitthvað allt annað eins og að sinna samskiptum á facebook í símanum.

Það er langt síðan ég las fyrst greinar og bækur Alfie Kohn og fleiri, eins og John Dewey, sem benda á að venjulega eru „agamál“ hugsuð út frá því hvernig hægt er að fá nemendur til að gera það sem kennarinn vill en ekki út frá því á hverju nemendur þurfa að halda eða hvort það sem ætlast er til að þeir geri sé áhugavert fyrir þá, hvort þeir hafi forsendur til að takast á við það, sjá/búa til merkingu í því og svo framvegis. Mín reynsla er að þegar ég einbeiti mér að því það hvort viðfangsefnin og skipulagið henti nemendum þannig að þeir finni fyrir virðingu og öryggi og hafi raunhæfar forsendur og stuðning við að skilja þau, hverfa „agavandamál“. Hér er gömul og góð tilvitnun í Dewey:

The chief source of the „problem of discipline“ in schools is that … a premium is put on physical quietude; on silence, on rigid uniformity of posture and movement; upon a machine-like simulation of the attitudes of intelligent interest. The teachers’ business is to hold the pupils up to these requirements and to punish the inevitable deviations which occur.
–                – John Dewey, Democracy and Education (1916)

Þetta eru einkunnarorð bókarinnar Beyond Discipline: From Compliance to Community eftir Alfie Kohn, sem ég fletti í með morgunkaffinu.