Samræðu- eða klækjastjórnmál

Þau tala um að þau vilji ekki lengur gömlu stjórnmálin, klækjastjórnmálin, þræturnar og plottin. Þau vilja ekki nálgast stjórnmál eins og kappleik milli flokka heldur þjónustu við íbúa. Þau vilja allt fyrir opnum tjöldum, samráð og fagmennsku. Þau vilja ekki vera föst í gömlum hugtökum eins og hægri og vinstri.

Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á Lincoln í Háskólabíó í gær. Lincoln var bæði hugsjónamaður og klækjarefur. Ég hélt ég væri að fara á hyllimynd um mikla hetju með hreint hjarta. Þetta var ekki þannig mynd. En ekki heldur mynd til að sýna myrkur og breyskleika sérhvers manns því öll höfum við djöfla að draga og svo framvegis. Takk fyrir það. Lincoln vildi afnema þrælahald í Bandaríkjunum og var tilbúinn að beita mútum, mannslífum og lagaklækjum. Kvikmyndin er aðallega af fundum, fortölum og plottum. Spurningin um þrælahald er sett í samband við hagsmuni, ásamt öðru, Suðurríkin töldu sig ekki geta keppt við landbúnað norðursins án þrælavinnu. Eftirminnilegt þegar einn þingmaðurinn spurði hvað næst – kosningaréttur kvenna? við mikið baul.

Þessi mynd er ólík Django, sem ég sá um daginn, og gerist líka á dögum þrælahalds í Bandaríkjunum. Sú mynd er ofbeldisveisla fyrir augað, þar sem blóðið spýtist út um allt,  draumur um uppfyllingu hefndarinnar og mjög fullnægjandi sem slík, spilar beint á frumstæðar kenndir. Hvíta fólkið í Suðurríkjunum er sýnt sem ófreskjur, heimskt fólk sem hefur nautn af því að niðurlægja og kvelja svertingja, ekki vottur af mennsku til í því.

Sagði einhver hugmyndafræði?

Það er akkúrat í hugmyndinni um „hrein“ stjórnmál, án klækja, án hægri og vinstri, sem hugmyndafræðin er sterkust. Við teljum okkur trú um að mikilvægar ákvarðanir séu teknar opinberlega, af skynsemi og í samráði, en mikilvægar ákvarðanir eru hins vegar, og verða áfram, teknar í litlum herbergjum og þær eru og verða ekki byggðar á skynsamlegri rökvísi heldur út frá hagsmunum, fordómum, og ekki síst ómeðvitaðri fylgispekt við ríkjandi hugmyndafræði (kapítalisma). Það er sú hugmyndafræði sem segir meðal annars: við verðum einfaldlega að skera niður, við, við getum ekkert annað en allir aðrir hefðu gert hvort sem er, þetta er bara Excel-skjal og það er ekkert annað í boði. Hvort sem við erum Besti flokkurinn eða sá versti.

Django sýnir okkur svo aðrar hliðar hugmyndafræði, til dæmis þá að fólk sé einfaldlega gott eða vont, gáfað eða heimskt, og að við náum markmiðum okkar með því að drepa vonda og heimska fólkið (sem vill svo til að auðvelt er að tengja við staðalmyndir um heimska hvíta suðurríkjabúa, “trailer trash”, fátækan sveitalýð). Virkar eðlilega í samhengi við aftökustefnu Bandaríkjaforseta í dag.

Lincoln sýnir stjórnmál í raunsærra ljósi. En hún sýnir auðvitað ekki allar hliðar málsins. Hún dvelur ekki við hernaðinn (hundruð þúsunda drepin) og hún sýnir ekki pólitíska baráttu svertingja sjálfra fyrir afnámi þrælahalds, manna eins og Frederick Douglass (ég veit sama og ekkert um þá baráttu.)

Kannski hafa allir misst trú á þingræði af því tagi sem Lincoln hafði fyrir vettvang. Allir telja sig að minnsta kosti sjá í gegnum það. Að það sé ekki „fyrir fólkið“, sé skrípaleikur, innihaldslaus kappleikur milli flokka. Margir virðast halda að þingmenn séu vitlausara eða verra fólk en gengur og gerist. Nú er freistandi að nota hugmynd frá Zizek: allir sjá í gegnum þingræðið en ímynda sér á sama tíma að það séu einhverjir aðrir sem trúi ennþá á það (eins og það er). Sumir fjarlægja sig frá því og tala endalaust um það hvað þingið sé lélegt (en þeir beygja sig engu að síður undir vald þess og reyna ekki að breyta því). Aðrir sjá að allt snýst um yfirborð, klæki og sýndarmennsku en telja það eðlilegan hluta leiksins, og lifa sig inn í hann, kjósa rétt og reyna að fá aðra til að kjósa líka rétt. Enn aðrir trúa því að hægt sé að „endurreisa“ það, eða bjarga því: með betri kosningareglum, eins og persónukjöri, eða meira beinu lýðræði, kannski með tölvum, eða kannski samstöðu um að leggja hugmyndafræðilegan ágreining til hliðar og vinna í sátt og samlyndi að praktískum lausnum á þeim vandamálum sem upp koma.

Hugmyndin um að „bjarga lýðræðinu“ er tálsýn. Valdabaráttan fer fram með öllum tiltækum ráðum. Ekkert er jafn skýrt og línan milli hægri og vinstri, og ég sé spurninguna í dag bara sem þá hvort við höfum áfram vinstri hægristjórn eða fáum hægri hægristjórn. Sem skiptir auðvitað máli, þó að flest sé í raun og veru fyrirfram ákveðið af kapítalísku gangverki og hugmyndafræði. Það er hún sem framleiðir og réttlætir sjálfkrafa sultarlaun stundakennara við Háskóla Íslands, enn verri laun þeirra sem þrífa Háskóla Íslands, takmarkanir á tækifærum til náms við Háskóla Íslands (gegnum „náttúrulegar“ reglur um framvindu náms), og svo framvegis. (Ég nefni bara atriði kringum H.Í. vegna þess að ég þekki þann heim núna, ég er þar á daginn.)