Róttæk kennslufræði

Ég var áðan með námsstofu í Róttæka sumarháskólanum sem nefndist Róttæk kennslufræði II (framhald frá því í fyrra). Ég vona að þeir sem mættu hafi farið út einhverju bættari og að þetta hafi ekki verið leiðinlegt. Allmargir mættu og úr mörgum ólíkum áttum. Ég er ekki viss um að ég sé nógu flinkur að „stjórna umræðum“. En ég ákvað reyndar, í þetta skipti, að vera með fyrirlestur – með innleggjum úr sal. Ég vildi reyna að koma á framfæri nokkrum fræðilegum hugtökum, sem hægt er að nota til að hugsa með, um skólakerfið. Það eru marxísk hugtök eins og skiptagildi, notagildi og firring, og „tákrænn auður“ frá Bourdieu. Ég lagði til að þáttakendur kynntu sér 2 „almennar“ greinar sem eru dæmigerðar fyrir opinbera umræðu um námskrár: hvaða efni á að kenna í skólum? (Í þessu tilviki: er nauðsynlegt að kenna algebru í skólum?) Auk þess benti ég á fræðilega grein, sem er reyndar töluvert erfiður lestur. En, eins og á við um öll réttnefnd fræði og vísindi, þá veitir hún innsýn og fer undir yfirborðið. Tenglar á greinarnar eru á síðunni minni um stærðfræði/menntun.