Rómantískar gamanmyndir: Crazy, stupid, love

Þessi rómantíska gamanmynd hefst á því að eiginkona segist vilja skilnað. Fram kemur að hjónabandsvandræðin stafa af einhverskonar áunnu tengslaleysi hjónanna, þau (og sérstaklega hann) hafa orðið viðskila við sjálf sig, drauma sína og lífsvilja. Í myndinni er karlinn (sem er kominn á fimmtugsaldur) sýndur (stuttlega) á nútímalegum sálarlausum skrifstofuvinnustað, og gefið er til kynna (með samtölum og athugasemdum um klæðaburð og útlit) að hann hafi „gefið eftir“ karlmennsku sína. Í stuttu máli þá er hann sýndur sem fórnarlamb „rútínu“ nútímalífs, eins og gert er t.d. líka í American Beauty, Fight Club og mörgum fleiri myndum, sem gera hann að aumingja. Þetta veldur því að konan hans missir áhugann á honum, eða að minnsta kosti er það þannig að konan áttar sig á því að líf þeirra er orðið innantómt og leiðinlegt.

Hér er þá ekki farið í að sýna ástæðu þess að fólk tapar lífsviljanum, sem er kapítalismi, það er að segja: vinnan sem tekur yfir lífið og sýgur orkuna úr okkur svo við getum ekki nært okkur andlega. Nei, þess í stað felst vandinn í ímyndinni – karlinn þarf að fara í klippingu og kaupa sér dýrari föt sem passa betur á hann.

crazystupid

Það er ekki þannig að þetta sé með öllu fráleitt. Yngri spaði tekur karlinn að sér og býr til úr honum fyrirtaks höslara. Gaman að fylgjast með því. En svo taka við ýmsar fleiri klisjur, og þeirra má auðvitað njóta sem áhorfandi, þó þær séu skaðleg hugmyndafræði.

Einkum tvennt er truflandi. Hið fyrra er „ástarhrellirinn“, karlinn sem lætur sér ekki segjast en heldur alltaf áfram að reyna við/ásækja kven-viðfang sitt. Karlinn stelst inn í garðinn hjá fyrrverandi konunni sinni, fylgist með henni inn um gluggann, og skipuleggur „grand gesture“ til að reyna að vinna hana aftur (lætur börnin leiða hana með bundið fyrir augun í garðinn þeirra þar sem hann hefur endurskapað mínígolfvöll eins og þann sem þau sóttu í tilhugalífinu fyrir áratugum.) Hitt, sem er þó verra, er að sonur karlsins, sem er þrettán ára, ofsækir barnapíuna sína (sem er sautján ára) mjög aggressíft og hættir því aldrei. Mjög furðulegt undirplott. Hún biður hann þráfaldlega um að hætta að senda sér skilaboð, setja á svið ástarjátningar fyrir framan alþjóð, og svo framvegis, en undir lok myndar heldur strákurinn útskriftarræðu í skólanum þar sem hann játar enn og aftur ást sína á henni. Og nú kemur það klikkaðasta. Eftir ræðuna kemur hún til hans skælbrosandi, segir honum að gefast ekki upp, (hver veit eftir nokkur ár), og lætur hann hafa nektarljósmyndir af sjálfri sér til að runka sér yfir á meðan (við sjáum fyrstu merkin um að hann sé skotin í henni þegar hún gengur inn á hann vera að runka sér, yfir henni). Reyndar voru þetta myndir sem voru ætlaðar pabba hans. Hún var nefnilega skotin í honum (ein hliðarsagan), en merkilegt nokk, þá er hún ekki hvött til að halda þeim ástar-eltingarleik áfram. Enda ná hjónin aftur saman í lokin.

Þessi hliðarsaga um barnapíuna er alveg batshit crazy, svo notuð séu orð sem henni eru lögð í munn. Hún verður ástfangin af fjölskylduföðurnum og leiðin sem hún sér til að vekja athygli hans á sér er að gefa honum nektarljósmyndir af sér. Kona er eingöngu fagur gripur, viðfang og ílát. Þarf ekki að taka fram að við kynnumst henni ekki sem hugsandi manneskju með neina dýpt eða vídd. Hún er bara þarna sem þráhyggju-ástarviðfang sonarins á meðan hana dreymir um föðurinn og reynir að gerast ástarviðfang hans með myndum af nöktum líkama sínum.

Þetta algenga þema, karlinn sem lætur sér ekki segjast, þó að kona hafi hafnað honum margoft og beðið hann að láta sig í friði, af því hann elskar hana svo mikið er verulega twisted. Það gerir lítið úr konum og orðum þeirra. Það segir að það sé ekkert að marka neitun þeirra, nei þýðir já. Þetta er hrellihegðun. En það er næstum alltaf verðlaunað í kvikmyndum – aldrei gefast upp, hún mun á endanum láta undan og sjá hvað þú elskar hana mikið, sérstaklega ef þú gerir eitthvað fáránlega grand. Það er ekki eins og þær séu sjálfar færar um að vita hvað þær vilja.