Persónulegt blogg?

Ég ætla að gera tilraun til að blogga persónulega. Tilgangurinn er að bjarga geðheilsu minni. Ég held að líf mitt sem doktorsnemi fari ekki vel með þessa geðheilsu. Mér finnst ég ekkert vita hvað ég er að gera í rannsóknarverkefninu, það verður flóknara og flóknara með hverjum degi. Ég missi af skilafrestum á alls konar skýrslum og gögnum sem mér er fert að skila milli þess sem ég sæki um styrki sem ég fæ ekki. Hressandi er það ekki.

Í dag er ég til dæmis að búa til svonefnda „framvinduskýrslu“ fyrir síðasta skólaár. Þar á ég nefna allt sem ég hef skrifað og lýsa fræðalestri og gera grein fyrir fundum með leiðbeinanda. Helmingurinn af öllu þessu er týndur og tröllum gefin, enda hef ég ekki tamið mér skipulögð vinnubrögð í þeim mæli að halda utan um allt svona.

Það er ekki auðvelt að halda sig að svona verki. Í dag afvegaleiddist ég til að skoða grein eftir tölfræðing um launamun kynjanna, en sá tölfræðingur gefur sér reyndar að slíkur munur sé óhugsandi vegna rökvísi kapítalistanna, sem munu alltaf átta sig á því að borgar sig ekki að mismuna kynjum. Bara hrein hagfræði. Greinin er reyndar skrifuð fyrir síðasta hrun, en ég veit ekki til þess að nein empírisk gögn styðji þessa kenningu. Það er stundum þannig að stærðfræðingar og tölfræðingar telja sig sjá hluti skýrar en aðrir þegar þeir eru í raun bara blindir og sjá ekki neitt.

Nú svo hef ég eytt tíma í að hugsa um hvort ekki sé rétt að þrengja rannsóknina mína alveg gríðarlega. Líta bara á eitthvað mjög lítið örsmæðarbrot, eins og skilning framhaldsskólanema á vigrahugtakinu, eftir því hvort þeir læra það „með gamla laginu“ eða með því að forrita tölvuleiki.

Ég geri ráð fyrir að fáir nenni að lesa þetta, en það er allt í lagi. Geðheilsan framar öllu.

2 thoughts on “Persónulegt blogg?

  1. Guðrún Elsa

    Já! Meira svona persónulegt, að minnsta kosti í og með.

  2. Magnús

    Skýrslur eru óþolandi. Verstar af öllu er að það er endalaus eftispurn eftir þeim frá svona akademískum stofnunum og setrum og styrkveitendum. Eins og að það lesi þetta einhver. En það eru alltaf einhverjir aðrir sem þurfa á upplýsingunum að halda, ekki þeir sem þú ert að skila til – eitthvað hærra authoritet sem þarf að vita með hverjum þú hefur netverkað með síðustu þrjá mánuði, því það authoritet þarf að réttlæta styrkjafé fyrir einhverju enn hærra authoriteti sem þarf tölfræði. Einhverstaðar situr svo einhver bjúrókrat og mælir einhverja tíðni birtinga og funda og tengslamyndunar og ákveður hvort það eigi að veita peningum hingað eða þangað.

Comments are closed.