Nokkrir hlutir sem ég las í vikunni sem mér fannst áhugaverðir

Á sunnudegi eftir morgunsopa en fyrir messu ætla ég að telja upp og vísa á nokkra hluti sem ég las í vikunni og mér tekst að rifja upp.

Stanley Fish Turned Careerism Into a Philosophy Gott dæmi um tilraun til „slátrunar“ þar sem þekktur einstaklingur er tekinn fyrir og lítið gert úr honum. Stundum les maður svona grein án þess að vita neitt um viðfangið, og þetta er dæmi um það. Ég sé samt að mér finnst þetta augljóslega ósanngjörn grein. Það sem vakti athygli mína var þó dálítið þessi punktur sem greinarhöfundur er upptekinn af, en telur vera banal observasjón: allt er háð sögu, samhengi og aðstæðum. Hann gerir mikið úr því hve mikið hug- og félagsvísindafólk gerir úr þessu, eins og þeir séu alltaf að enduruppgötva þessa augljósu staðreynd og segja frá henni eins og um nýja og merkilega þekkingu sé að ræða. Ég er ósammála grunntóni greinarinnar. Mér finnst eins og þessi „augljósa staðreynd“ gleymist næstum alltaf og það þurfi alltaf að enduruppgötva hana, um alla hluti, og það sé einmitt oft mjög mikils virði að greina nákvæmlega hvernig tilteknir hlutir eru háðir sögu, samhengi og aðstæðum. Okkur er ekki tamt að hafa þetta í huga í hversdagslegum athöfnum og hugsunum.

Hvað er að okkur?  Rýni í kvikmynd um vændiskaup vestrænna kvenna í fátækum löndum, og viðbrögð áhorfenda. Ég á eftir að sjá myndina en mun gera það. Sér í lagi vegna þess að ég man vel eftir mynd eftir sama höfund, Import-Export, sem er rosaleg. Ég fór út í tætlum af þeirri mynd. Hún veitir dýpri tilfinningalega innsýn í kapítalisma sem þarf til fylla út í fræðilegu myndina af því djöfullega kerfi.

Blurred Lines and Rape Culture: Seeing What’s In Front of Us Um nauðgunarmenningu í popptextanum við lagið Blurred Lines og umræðuna sem hefur skapast um það.

Bækur sem eru efst „í lestri“, „á náttborðinu“:

Human Wishes / Enemy Combatant (Edmond Caldwell) Skáldsaga. Sögumaður lýsir hversdagslegum skynjunum og hugrenningum. Meðal annars segir hann oft frá þeirri tilfinningu að finnast maður sjálfur vera grunsamlegur, eða hvort maður sé grunsamlegur, hvort öðrum muni finnast maður vera grunsamlegur.

Start Where You Are: A Guide to Compassionate Living (Pema Chödrön) Einhverskonar innleiðing í búddíska lífsspeki. Alltaf er maður að reyna að skilja sjálfan sig og tilveruna betur þó að maður hafi löngu áttað sig á að það er ómögulegt.