Mýtur eða sjálfsagðir hlutir: fyrsti þáttur af 729

„Bara ef einhver bryti þetta niður og útskýrði nógu vel – þá myndu fleiri skilja.“

„Góðir kennarar gera flókið efni einfalt.“

Maður kemst ekki hjá því að hafa alls konar skoðanir og ómeðvitaðar kenningar um allt mögulegt í heiminum. Þær byggja auðvitað á þeirri reynslu sem maður hefur og því sem maður skynjar og heldur og man. Kannski má kalla þetta „almenna skynsemi“. Fræði og vísindi reyna að gera betur en almenn skynsemi með því að safna gögnum og skoða þau mjög nákvæmlega og rökstyðja niðurstöður vandlega. Ef vísindi og fræði gæfu sömu niðurstöður og almenn skynsemi væru þau frekar lítils virði.

Nánast allir hafa gengið í skóla og þess vegna telja margir sig vita eitt og annað um menntun. Flestir hafa líka heyrt eitt og annað fullyrt um skóla hér og þar. Fólk á sextugs- og sjötugsaldri telur sig muna hvernig fólki vegnaði almennt í skólum fyrir langalöngu. Einn þeirra er Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra sem ritaði grein í Fréttablaðið í fyrradag. Var á honum að skilja að allir hafi verið vel læsir og reiknandi í gamla daga þrátt fyrir að kennarar hefðu ekki verið háskólamenntaðir. Auk þess hefði einhvern tíma verið ákveðið að nemendur þyrftu ekki að kunna neitt og aldrei standa skil á neinu. Þetta sagði faðir hans honum og spáði því að allt ætti eftir að fara til fjandans vegna þessa.

Það ætti náttúrlega að vera óþarfi að svara eða fjalla um svona vitleysu. Ef litið er kalt á staðreyndir þá eru Íslendingar miklu meira menntaðir í dag en þegar Sighvatur var í skóla. Ekki eingöngu í prófgráðum talið heldur eru miklu fleiri að fást við þekkingarsköpun með einum eða öðrum hætti og vinna störf sem krefjast mikillar þekkingar. Þetta á við um menningarstarfsemi og alls konar tækniiðnað og margt fleira. Nemendur á Íslandi eru ekkert lélegir í alþjóðlegum samanburði þó að þeir séu ekki efstir. Í gamla daga voru hinir „ólæsu“ geymdir í tossabekkjum og fengu ekki að fara í neitt nám eftir barnaskóla. Ekki nema örlítið brot af hverjum árgangi fékk inngöngu í menntaskóla.

Svo heimurinn er ekki að farast. Hitt er annað mál að sitthvað er menntun og skólaganga og allar þær klisjur sem eru Íslendingum kærar. Og margt mætti breytast í skólum. En tímarnir breytast og núna eru möguleikar þess að verða gildandi í samfélaginu án háskólaprófs sífellt að minnka. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hér því þau mál eru flókin.

Jú, ég ætlaði að minnast á eina vitleysuna í viðbót en það er sú hugmynd að nemendur þurfi ekki að læra hluti utanbókar eða taka próf og þetta hafi gerst fyrir allnokkru síðan. Þarna er ruglað saman hugmyndum og hugsjónum um betra og merkingarfyllra nám og raunverulegu skólastarfi. Hér hefur utanbókarlærdómur lifað ágætu lífi og nemendur verið prófaðir í gríð og erg. Svo ef einhver skýring er á meintum lélegum árangri þá er það kannski frekar einmitt vegna þess.

En þetta var nú ekki aðalatriðið. Það var hugmyndin um góða kennarann sem útskýrir vel. Staðreyndin er að nám er erfitt og ef þér finnst það létt þá ertu líklega ekki að læra mikið. Rannsóknir sýna til dæmis að nemendur sem horfa á kennslumyndbönd með frábærum útskýringum finnst þeir læra mjög mikið og skilja vel. En þegar betur er að gáð þá reynast þeir ekki hafa lært neitt. Heimildir um þetta eru hérna. Og best ég smelli myndbandinu inn líka.

4 thoughts on “Mýtur eða sjálfsagðir hlutir: fyrsti þáttur af 729

 1. Svava Pétursdóttir

  Þetta með myndböndin er athyglisvert í ljósi þess að mín rannsókn sýnir að kennarar eru í auknum mæli að nota myndbönd og þá sérlega stutt myndskeið eins og af youtube í kennslu. Sem sagt ekki sem eina leiðin til að koma þekkingu til nemenda heldur oft sem hluta af innleggi, umræðuvaka eða hreinlega til að vekja áhuga. Annar kostur er líka að með myndskeiðum er auðvelt að gera fyrirbæri í náttúruvísindum sýnileg sem ekki er svo gott að gera með öðrum miðlum. Þess vegna má ekki afskrifa myndskeið, sem höfundur þessa myndbands gerir alls ekki heldur leggur áherslu á að vinna þurfi með forhugmyndir nemenda í myndskeiðinu eða samhliða því.

 2. admin

  Það skiptir væntanlega mestu hvað er á myndskeiðinu og hvernig það er notað. Myndskeið sem sýnir einhvern „útskýra“ hugtak eða fyrirbæri gerir mjög lítið gagn. Myndbönd þar sem fyrirbæri eru sýnd og áhorfendur eiga svo að velta fyrir sér, tala um, spá fyrir um hvað gerist, eða eitthvað slíkt, eru allt annað mál.

  1. Bjarnheiður

   Já, ég er sammála því. Það þýðir ekki bara að ýta á play og ætla myndbandinu að kenna krökkunum heldur þarf myndbandið að vera þáttur í einhverju, notað effektíft og hvatt til samræðna og annarrar úrvinnslu á eftir. Ida Semey hefur rannsakað notkun myndefnis í sambandi við læsi þegar hún kennir spænsku, sérstaklega áhugavert hvernig hún segir frá mikilvægi þess að tilgangur myndbandsins sé ljós og skýr frá upphafi til að notkun þess gagnist eitthvað.

Comments are closed.