Mótsagnir skólakerfis

Höfum þetta form: fyrst kemur tilvitnun og svo kemur túlkun eða hugleiðing út frá textanum. Ég er að lesa bók sem heitir Someone Has To Fail: The Zero-Sum Game Of Public Schooling eftir David F. Labaree. Ég held að hann hafi komið við hér á landi nýlega, en það skiptir svo sem engu máli. Bókin er frá 2010 og er um bandaríska skólakerfið, en ég held að í grundvallaratriðum séu önnur skólakerfi sambærileg og svipuð.

the school system’s greatest social impact has come from its power to allocate social access and social advantage. And this was more the result of which students entered school and which graduated from it than of what they learned in between.

Hér er það sem er svo erfitt fyrir fólk sem vill breyta kennsluháttum, til dæmis í anda þeirra strauma sem kallaðir eru „framfara“ eða „róttækir“. Þær hugmyndir eru einhvern veginn í anda þess að nemendur hafi meira að segja um nám sitt og líf í skólanum, að þeir eigi sjálfir að skapa og uppgötva, frekar en að fyrirfram ákveðnu efni sé troðið í þá, og að hver og einn eigi að njóta sín og þroskast á eigin forsendum. En hvað ef skólinn snýst ekki nema að litlu leyti um nám? Hvaða hlutverk leikur skólakerfið í raun og veru?

Fyrir almenning/yfirvöld (almenning sem pólitíska veru) eru skólar kannski fyrst og fremst félagslegt stjórnunartæki. Í skólum á fólk að læra að vera góðir þjóðfélagsþegnar (eða borgarar?) — þar eru öll börn, og þau öðlast sameiginlega reynslu og allir eiga að læra það sama. Minna máli skiptir hvað það er nákvæmlega sem stendur í námsefninu, en meira að það er sameiginlegt. Í skólum eiga nemendur líka að læra að vera þjóðhagslega hagkvæmt, læra það sem „atvinnulífið“ (eða auðmagnið, kapítalið, með öðrum orðum) telur sig þurfa frá vinnuaflinu. Þetta birtist meðal annars í strúktúr skólakerfisins með ólíkum brautum og prófum (frá grunnskóla).

Fyrir almenning/einstaklinga (almenning sem safn einstaklinga, fjölskyldna eða annarra minni heilda) eru skólar tæki til þess að klifra upp metorðastiga eða viðhalda stöðu sinni þar gagnvart öðrum. Fólk vill að sín börn fái sem best tækifæri og komi sem hæst út úr samkeppninni, fái próf sem eru mikils metin og veita aðgang að peningum og völdum. Þetta hefur haft mikil áhrif á skólana, og sést vel á því hvernig það þarf sífellt hærri prófgráður til að tryggja sér yfirburði á vinnumarkaði.

Þegar ég var unglingur var skyldunámi lokið í 8. bekk. Það var alls ekki sjálfsagt að fólk færi í framhaldsskóla, hvað þá háskóla. Í dag fara nánast allir í framhaldsskóla og til þess að öðlast lágmarks starfsöryggi þarf háskólagráðu, helst meistarapróf. (Ég held að það sé dálítið ólíkt eftir löndum hve langt þessi þróun er komin. Mér skilst að víða í Evrópu sé kerfið svo að segja mettuð: vel menntuð börn menntafólks fær ekki lengur vinnu í krafti háskólaprófa.)

Skólakerfið hefur gefið millistéttinni öfluga vél til þess að viðhalda yfirburðum í stétt og stöðu. Þeir geta bæði sagt að allir hafi fengið jöfn tækifæri, því öll börn fara í skólann, og að þeirra börn séu einfaldlega svo vel heppnuð, þau eru klárust í bekknum, eða sjálfstæð og uppátækjasöm (áhættan er ekki svo mikil fyrir þau, þó að þeim gangi ekki vel í grunnskólanum). Á meðan njóta börn þeirra þess að erfa viðhorf frá foreldrum sínum sem henta vel til að ganga vel í skólanum. Og þau njóta fjárhagslegs öryggis, þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að skaffa til heimilis, og svo framvegis. Þetta er mjög raunveruleg hindrun sem millistéttarfólk eins og ég á stundum erfitt með að skilja, en það að geta ekki leyft sér að „falla“ eða á annan hátt hliðra til eða sveigja nám, setur mann í mun erfiðari stöðu en þann sem getur látið foreldra sína grípa sig og styðja.

Þetta seinna hlutverk skólans skýrir ágætlega það sem er stundum nefnt „ofuráhersla á bóknám“. Það er bara þannig að fleiri vilja verða læknar, lögfræðingar, arkítektar, ef ekki bara kennarar, hjúkrunarfræðingar eða millistjórnendur heldur en til dæmis iðnaðarmenn. Bóklegt háskólapróf er nauðsynlegt til að öðlast virðingu og völd í síauknum mæli (þó það sé varla nægjanlegt lengur). Starfsöryggi í iðngreinum er minna og það vita það allir. Það er þess vegna tilgangslaust að ætla að breyta viðhorfum almennings til þessa, þau viðhorf eru fullkomlega rökrétt.

Sú staðreynd að margir finna sig ekki í bóknámi er að mínu viti ekki ástæða til að beina fólki frá bóknámi heldur að grafast fyrir um það hvað það er við skipulag bóknáms sem gerir þetta að verkum. Það er ekkert lögmál að það sé „eins og við þekkjum það í dag“. En þá komum við aftur að mismununarhlutverkinu: ef við gerðum öllum kleift að stunda bóknám, og allir næðu góðum árangri, hvað eigum við þá að gera til þess að finna fólki misjafnan stað í stigveldinu — hvað eiga góðir menntamenn að gera til að tryggja sínum börnum yfirburði?