Mannréttindi fólks af röngum uppruna

Hatur, ótti og fyrirlitning á útlendingum eru þrástef í okkar menningu og kannski víðast hvar. Hér gæti verið rétt að gera nánari grein fyrir því hvað „útlendingur“ þýðir í þessu samhengi. Til dæmis telst hvítt millistéttarfólk yfirleitt ekki til þessa hóps, svo ekki sé talað um kvikmyndastjörnur. En þetta getur verið dálítið breytilegt. Í dag eru hinir ógnandi útlendingar aðallega brúnt fólk frá fátækum löndum. Rætt er um slíkt fólk á þann hátt að ljóst er að það er í raun ekki talið til manna, það er ekki talið sjálfsagt að það njóti mannréttinda. Það er einfaldlega gengið út frá því að það eigi ekki að hafa frelsi til að ferðast, setjast að og vinna hér á landi.

Við lesum um þessa útlendinga í leiðurum íhaldsblaða og heyrum um þau úr munnum stjórnmálamanna, en líka á kaffistofum og heimilum. Áróður í fjölmiðlum virkar ekki nema að hann eigi sér hljómgrunn. Heimamenn eru tilbúnir að trúa alls konar vitleysu upp á þessa útlendinga og alhæfa út frá fréttum um einstök atvik og flökkusögur verða að staðreyndum. Á móti kemur að glæpir og einkennilegt háttalag heimamanna eru útskýrð sem undantekningar. [Nema að heimamaðurinn tilheyri einhverjum undirskipuðum hópi, þá er þetta skýrt út frá eiginleikum hópsins, til dæmis femínistar, atvinnulausir, latte-lepjarar osfr.] Engum dettur í hug að vara við hvítum kristnum millistéttarkarlmönnum þó svo að þeir séu yfirgnæfandi fjöldi í hópi fjöldamorðinga í ríku löndunum. Og þá er ég ekkert að tala um stríðsgleði þeirra og tilhneigingu til að drepa fólk með sprengjum úr flugvélum. Þessi ótti/fyrirlitning hefur verið rannsökuð út frá mörgum sjónarhornum, cognitive-sálfræðilegu, marxísku, þjóðfræðilegu og fleirum og allnokkrar kenningar til. Ég fer ekki nánar út í það hér, verð bara á léttu nótunum.

Árið 1998 birti Davíð Oddsson í Morgunblaðinu afar smekklausan „jólasálm“, sem ég birti með örlitlum breytingum í bókinni Handsprengja í morgunsárið. Ég gerði það aðallega til að sýna botnlausa hræsni þessa manns. Hugsið ykkur bara: annars vegar að yrkja „jólasálm“ og fá hann meira að segja fluttan í ríkisútvarpinu og hins vegar að gefa samþykki sitt fyrir hönd þjóðarinnar á innrás og stríði sem hefur kostað hundruð þúsunda mannslífa. Hér að ofan getur að líta skjáskot af sálminum, með nótum, úr opnu Morgunblaðsins 24. desember 1998 (opið á timarit.is).

En tilefni þessa pistils (loksins!) er auðvitað leiðari Morgunblaðsins frá því í gær, þar sem flóttamenn eru hrakyrtir, Ísraelsríki er hampað, og varað við íslamistum. Ég sá á Facebook að Hjálmtýr Heiðdal hafði bent á hliðstæðu – í Morgunblaðinu 7. apríl 1938. Efnislega er merkingin svipuð og í Morgunblaðinu 25. júlí 2012.

Hvernig orð sem þessi fara saman við kærleiksboðskap eins og þann sem menn lesa úr sögunni um Jesú Krist skil ég ekki. „Hefði ég ekki kærleika væri ég ekki neitt“ eins og þar stendur. Hvernig þau samrýmast hugmyndinni um mannréttindi skil ég ekki heldur. En reynslan sýnir, jafnt sem rannsóknir, að maður er ekki eitt heldur margt. Hræsnin er erfið að  uppræta. Allt í lagi að reyna samt.