Kosningaforsetar

Mælingar sýna að eftir því sem síðasta skólastig fólks er lægra, þeim mun líklegra er það til að segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar.

Ég stenst freistinguna að segja að þetta sýni hversu mikilvægt sé að hækka menntunarstig þjóðarinnar, en samt ekki alveg.

Þegar Ólafur Ragnar var kosinn í fyrsta sinn minnir mig að ég hafi kosið hann af einhverskonar níhílískum hvötum. Mér þótti skemmtilegt að hugsa til forseta sem væri fjandmaður Davíðs og ekki vildi ég heldur fá sjálfstæðismann í embættið. En ég sá forsetann fyrst og fremst sem platfígúru og grín og bar enga virðingu fyrir því. Í einhverjum skilningi hefur það ekki breyst þó að Ólafur hafi umturnað eðli þess.

Hugmyndin um forseta sem sameiningartákn er plat í þeim skilningi að það er margt sem sundrar fólki og völdum og auði er misskipt. Við erum ekki öll á sama báti. Vigdís var plat (og hvílíkt plat!), Kristján Eldjárn var plat. Og svo framvegis. En þetta vita flestir – eða veit og veit ekki – þetta er einhver þversagnarkennd staða. Fólk veit að „þjóðin er ekki sameinuð“ og hefur aldrei verið. Samt er eitt og annað sem fólk sameinast um, enda þurfum við að umgangast og eiga í samskiptum við hvert annað, milli stétta og staða. Við hittumst öll í fjölskylduboðum og mætumst á götunni.

Sitjandi forseti hefur mest fylgi í könnunum. Líklega getur hann þakkað vinsældir sínar ákvörðunum sínum í IceSave-málinu. Og það er ekki bara vegna þess tiltekna máls heldur vegna þess að hann sýndi með því að hann er einspilari og getur verið mótvægi við ríkjandi stjórn hverju sinni. Fólk veit að hann mun beita öllum brögðum og ekki láta undan. Það sem er skemmtilega þversagnarkennt við þetta er: af hverju kjósa þing til að „ráða“ en vilja svo samt ekki að það ráði. Og að mótvægið sé þá einhver einn maður, sem velur bara þau mál sem falla að hans eiginhagsmunum til að pönkast í. Því eins og við vitum: ekki setti hann sig gegn Íraksstríðinu, og ekki gegn Kárahnjúkum. Samt voru þessi mál mjög umdeild og ekki víst að meirihluti hafi verið með þeim. Þeir sem kjósa Ólaf eru augljóslega ekki að kjósa sameiningartákn, því allir vita að mjög mörgum er tilhugsunin um hann áfram sem forseta nánast óbærileg. Þeir eru að kjósa hann sem mótvægi við þingið (og mörgum er ESB aðildarvilji þess ofarlega í huga.)

Þóra Arnórsdóttir hefur næst mesta fylgið. Hana kjósa þeir sem vilja að þingið fari með löggjafarvaldið í landinu, og þeir sem vilja í raun og veru að hlutverk forseta sé ekki pólitískt. Þóra er augljóslega gædd mörgum góðum eiginleikum, er klár og kemur vel fyrir. Upplagt til að heimsækja veik börn, veita verðlaun og hjálpa okkur að viðhalda blekkingunni/raunveruleikanum um okkur sem eina þjóð. Og kannski einhverjir sem hafa slíka ímugust á Ólafi Ragnari sjálfum að þeir vilja hann burt, en hafa kannski engar sérstakar skoðanir á embættinu.

Aðrir hafa svo minna fylgi, en ég er ekki opinber stofnun og ég nenni ekki að fara yfir aðra frambjóðendur, þó að þeir kunni að eiga jafn mikið erindi í embættið eins og þau tvö.

Ég hef reyndar forðast fréttir, þætti og auglýsingar um þessar kosningar eins og pestina, því mér finnst það allt óbærilega leiðinlegt. En nú legg ég samt mitt af mörkum í þá hít. Og geri ráð fyrir að kjósa Þóru þó að ég taki undir með ályktun Öldu, sem telur rétt að forsetaembættið verði lagt niður.