Kennarar hætti að væla

Einu sinni var ég að furða mig á því að Kringlan væri full af fólki á sunnudögum, heilu fjölskyldurnar á rölti og á skyndibitastöðunum gúffandi í sig pítsum. Ég nefndi þetta svo við manneskju sem ég kannast við, það var á fegurri stað, við gamla kirkjugarðinn í vesturbænum. Svona miðað við mitt fegurðarskyn í samræmi við minn habitus. Hún sagði mér að hætta að pirra mig, að það væri í fínu lagi þótt einhverjir vildu nota hvíldardaga til að vera í Kringlunni. Auðvitað er það rétt, en nú er ég að endurhugsa. Umkvörtun mín var ekki persónuleg, hún var samfélagsleg. Hvað segir það um samfélag að stór hluti fólks skuli kjósa sér þessa dægradvöl? Ég er að hugsa um þetta sem spurningu, ekki að leggja til Kringlufólk sé fordæmt eða því bannað að stunda staðinn eða að það væri betra að það sæti heima og hlustaði á sinfóníur af hljómplötum. Það er samt eitthvað rangt við þetta. Ég ætla bara að standa við það. Kannski er þetta til merkis um tómleika í lífi fólks, það reynir að fylla tómið með neysluvörum. Finnst því í alvörunni svona gaman í Kringlunni? Kannski ætti að kanna það. “Það er sunnudagur og sólin skín. Hvað langar mig helst að gera í dag? Hanga í Kringlunni?”

En aftur að samræðuháttum íslenskra eða skort á þeim. Á vefsíðunni http://maurildi.blogspot.com/ birtist pistill um daginn sem upplýsti nokkur atriði um kjör og vinnu kennara. Eitt af kommentum var svohljóðandi:

Eitt sem er merkilegt með kennara, þeir fara í kennaranámið vitandi hvaða laun eru í boði og hvaða vinnuframlag þarf að skila en um leið og fólk útskrifast með kennsluréttindi að þá er það fyrsta sem gerist að fólk fer að væla yfir kjörum sínum. […]
Ef þér líkar ekki starfið eða kjörin, lærðu þá eitthvað annað, það er enginn að neyða þig í kennaranám.

Ég var svo glaður en samt dapur að sjá hvernig þetta fellur að því sem ég skrifaði í fyrradag. Kommentari hugsar ekki um samfélagið sem heild. Mér finnst ólíklegt að hann vilji samfélag án kennara, en það er raunar eina rökrétta niðurstaðan sem hann gæti fengið út úr þessu. Þá niðurstöðu mætti kannski ræða, en ekki út frá þessum forsendum. Í kommentinu birtast líka það einkenni á vanþroska hugsun að líta á fólk sem orðinn hlut. Það er næstum eins og “kennari” sé náttúruleg kategóría af fólki — sem er krónískt vælandi yfir aðstæðum sem það sækir engu að síður í. Nú er ég að reyna að segja eitthvað í stuttu máli sem er kannski flóknara. En ég er að reyna að grafast fyrir um það hvort það geti verið einhver hugsun á bak við þetta komment, eða hugsandi vera. Gæti hún kannski haldið að við fengjum betri kennara ef við réðum betra fólk sem kennara? Það væri þá fólk sem vildi kenna vel fyrir lág laun. Stundum er reyndar sagt að það sé hægt að ráða betra fólk með því að bjóða hærri laun, að það sé einhver fylgni milli launaupphæðar og “gæða” umsækjenda um stöðu. Hrunið afsannar það í eitt skipti fyrir öll, ef einhver var í vafa. Engu að síður eru léleg starfsskilyrði ekki líkleg til að leiða til betri starfsemi. Fólk getur bætt sig, sérstaklega ef það fær stuðning og þroskavænleg skilyrði. Það sem ekki bætir fólk er til dæmis að lítilsvirða það (svo sem með lélegum launum) og takmarka sjálfræði þess (svo sem eins og að stjórna og hafa eftirlit með athöfnum þess í smáatriðum). Úr menntakerfinu hrökklast fólk sem hefði (eins og flest fólk) getað orðið góðir kennarar. Svo spurningin til kommentarans væri þá: er það þetta sem þú vilt? Eða er kommentið sprottið af lögmálinu um jafna ömurð:

Mitt líf er ömurlegt og þess vegna er ekki nema sanngjarnt að ykkar líf verði það líka.

Kannski er kommentarinn óhamingjusamur maður, undir hælnum á kapítalinu, þræll skulda og lélegs sjónvarps. Við hann segi ég: rís upp maður! Settu þig í samband við aðra sem vilja vinna að frelsun manna! Berstu fyrir kjörum þínum og allra annarra!

Ég vona að þetta skiljist, þetta er dálítið knappt. En við þá sem hugsa „hvað, þetta er bara einhver vitleysingur, leyfðu honum að vera það í friði“ segi ég: þið hafið ekki alveg skilið inntakið í þessum pistli.