Inn og út

Hvernig væri að gera tilraun til menntabloggs?

Ég horfi á tölvuskjá næstum allan daginn. Ég smelli á hlekki, ég slæ inn orð í leitarvélar. Ég les og horfi. Það er eins og orðin og myndirnar fari inn og út án þess að hræra við neinu innan í mér. Ég man ekki hvað ég var að skoða fyrir tíu mínútum. Í lok dags man ég nánast ekkert af því hvað ég var að lesa og skoða þann daginn.

Þetta er svipuð reynsla og af því þegar ég sat í fyrirlestrum í framhalds- og menntaskóla. Nema mér finnst þetta yfirleitt skemmtilegra núna. Oft mjög áhugavert. Samt man ég næstum ekki neitt. Nema kannski ef ég reyni að rifja upp og tékka á history möppunni.

Ég hef verið að skoða fólk sem bloggar um nám á 21. öldinni. Eins og það er stundum kallað. Helstu áhugamál þessa fólks eru venjulega bæði að gjörbreyta þurfi menntun og menntakerfum, til þess að nemendur öðlist annars konar og gagnlegri hæfni en hefur verið í boði hingað til. Að nú þurfi að leggja áherslu á sköpun, hugsun og samskipti, svo eitthvað sé nefnt. Og að menntun eigi að snúast um að efla nemendur til að raunverulega gera eitthvað sjálfir, hér og nú. Eitt af því sem fólk bindur vonir við er tölvutækni. Til dæmis að nemandi með tölvu geti gert og lært eitthvað miklu merkilegra en hægt var í gamla daga (núna). Þá er ekki verið að meina að kenna börnum á Word eða þau fari í einhver reikniæfingaforrit eða horfi á kennara flytja fyrirlestur á YouTube.

Einn af forgöngumönnum er bandaríkjamaðurinn Seymour Papert. Hann hefur skrifað um þetta síðan á sjöunda áratugnum, og reyndar bjó hann á sínum tíma til forritunarmál fyrir börn sem heitir Logo. Hugmynd hans var að leggja forritunarmál í hendur barna, sem með því gætu lært … hvað á maður að kalla það – stærðfræði, forritun, sköpun? Hér eru tekin saman átta meginhugmyndir hans um menntun (flýtiþýðing mín, hér er enski textinn og margt fleira gott):

Fyrsta hugmyndin er að læra með því að gera. Við lærum betur þegar námið er hluti af því að gera eitthvað sem okkur finnst raunverulega áhugavert. Við lærum best þegar við notum það sem við lærum til að búa til eitthvað sem okkur langar raunverulega í.

Önnur stóra hugmyndin er tækni sem efniviður. Ef maður getur notað tækni til þess að búa hluti til, þá getur maður búið til miklu áhugaverðari hluti. Og maður getur lært miklu meira með því að búa þá til. Þetta á sérstaklega við um stafræna tækni: tölvur af öllum gerðum, og þar með talið tölvustýrt Lego.

Þriðja stóra hugmyndin er erfiðisgaman. Við lærum best og við vinnum best ef við höfum gaman af því sem við erum að gera. En gaman og ánægja þýðir ekki „auðvelt“. Besta gamanið er erfiðisgaman. Íþróttahetjur vinna mjög mikið að því að bæta sig. Bestu smiðirnir njóta þess að smíða.

Fjórða stóra hugmyndin er læra að læra. Margir nemendur halda að „eina leiðin til að læra er að vera kennt.“ Þetta er það sem veldur þeim vandræðum í skóla og öðru lífi. Enginn getur kennt manni allt sem maður þarf að kunna. Maður verður að taka stjórn á eigin námi.

Fimmta stóra hugmyndin er að taka tíma – þann tíma sem þarf fyrir verkið. Margir nemendur í skóla venjast því að vera sagt á fimm mínútna eða kannski klukkutíma fresti: gerðu þetta, svo þetta, og svo það næsta. Ef einhver er ekki að segja þeim hvað þau eiga að gera fer þeim að leiðast. Lífið er ekki þannig. Ef maður ætlar að gera eitthvað sem máli skiptir verður maður að læra stjórna tímanum sjálf. Þetta er erfið staðreynd fyrir marga.

Sjötta stóra hugmyndin er stærst allra: maður getur ekki gert hlutina rétt nema nema að gera þá líka rangt. Ekkert sem máli skiptir virkar í fyrsta sinn. Eina leiðin til að laga hlutinn er að skoða gaumgæfilega hvað gerðist þegar hann virkaði ekki. Til að ná árangri þarf maður frelsi til að gera vitleysur á leiðinni.

Sjöunda stóra hugmyndin er að gera sjálfum okkur það sem við gerum nemendum okkar. Við erum alltaf að læra. Við höfum reynslu af því að gera eitthvað svipað því sem við erum að gera, en hvert skipti er samt ólíkt hinum. Við getum ekki gert okkur nákvæma hugmynd um það sem mun gerast í þetta skipti. Við njótum þess sem við erum að gera, en gerum ráð fyrir því að það verði erfitt. Við væntum þess að taka okkur tíma til að gera þetta vel. Sérhver vandræði sem við rötum í er tækifæri til að læra. Besta lexían sem við getum fært nemendum okkar er að leyfa þeim að sjá okkur glíma við að læra.

Áttunda stóra hugmyndin er við erum að ganga inn í stafrænan heim þar sem þekking á stafrænni tækni er jafn mikilvæg og lestur og skrift. Það er því mikilvægt fyrir framtíð nemenda að þeir læri um tölvur EN mikilvægast er að nota þær NÚNA til að læra um allt hitt.

Ég mæli annars mikið með þessu bloggi Sylviu Martinez, um tækni til að valdefla nemendur.

3 thoughts on “Inn og út

 1. Hafþór Guðjónsson

  Hugmyndirnar sem þú setur fram minna mig á höfunda eins og Guy Claxton og Lauren Resnick, já og frábæra bók sem ég er að lesa um þessar mundir og heitir New Kinds of Smart- how the science of learnable intelligence is changing education eftir Bill Lucas og Guy Claxton. Meginboðskapur bókarinnar er að greind sér hrapallega misskilið hugtak. Við höfum tilheigingu til að hugsa um nemendur sem fastar stærðir, að þeir séu svona og svona; sumir greindir, aðrir heimskir og allt þar á milli og að skólastarf geti lítið sem ekkert breytt þessu. Í bókinni er grafið undan þessum skilningi, dregnar fram rannsóknir og skólastarf sem sýna að þetta er einfaldlega gamaldags bábiljur.

 2. admin

  Sæll Hafþór!

  Claxton er einmitt í nokkru uppáhaldi hjá mér, og ég verð að skoða þessa bók hans og Lucas um greind. Ég hef mínar tilfinningar um greind að töluverðu leyti frá Carol Dweck, las Mindset eftir hana og er núna að glugga í Self-theories sem er oft vitnað til. Hún er frekar pósitífískur sálfræðingur en hefur komist að því að það skiptir miklu máli um það hvernig fólki vegnar í skóla hvort það trúi því sjálft að greind sé „föst stærð“ eða eitthvað sem hægt er að breyta/bæta.

 3. Guðný

  Ég hef verið að fylgjast með umræðum varðandi 21. aldar nám í nokkur ár og finnst almennt séð mikið varið í þessar pælingar. Lykillinn er auðvitað þessi hugmynd um að í nútímasamfélagi sé ekki nóg að læra utanbókar fyrir próf, því upplýsingar og hæfni á svo mörgum sviðum úreldist orðið það hratt að fólk þurfi að vera viðbúið og tilbúið að vera að læra alla ævi, annars breytist það bara í risaeðlur.
  Þar af leiðandi eigi nám að ganga út á að læra að læra.

  Annað atriði sem lögð er áhersla á og ég hef sérstakan áhuga á eru hinar ýmsu tegundir læsis s.s. menningarlæsi, tæknilæsi og miðlalæsi.
  Miðlalæsið er t.d. nokkuð sem ég sjálf tel að mætti vinna mikið meir með í skólakerfinu. Samtíminn er þess eðlis að við erum að drukkna í upplýsingum frá hinum ýmsu tegundum miðla, kvikmyndir, auglýsingar, tónlist,tölvuleikir… Allt eru þetta miðlar sem segja okkur eitthvað. En kunnum við að lesa rétt úr þessum upplýsingum? Vitum við muninn á auglýsingu og fróðleik? Þekkjum við áróður frá almennum upplýsingum?
  Hvað með börnin okkar? Halda þau ekki flest að allt sem þau lesa eða sjá í sjónvarpinu sé sannleikur?
  Ég held að það sé fátt mikilvægara til að vinna með unglingunum okkar með en einmitt þetta. „Learning by doing“ og skapandi vinna eru einmitt heppilegar leiðir til þess að vinna með þetta efni, t.d. má hugsa sér að nemendur búi til eigin auglýsingar fyrir jafnvel eitthvað sem þeir átta sig á að sé algjört drasl en þeir þurfa samt að velta fyrir sér markhóp og finna leiðir til að heilla hann. Síðan mætti í framhaldinu skoða raunverulegar auglýsingar og athuga hvort nemendur geti spurt sig spurninga varðandi þær eftir að hafa sjálfir þurft að nota markaðstrikkin. Svipaðar aðferðir má hugsa sér í sambandi við annað efni t.d. pólítískan áróður.

  Kannski smá útúrdúr, en þó ekki. Rakst í gær á þennan pistil (umsögn um bók) sem tengist þessu óendanlega upplýsingaflæði sem herjar á okkur. Margir góðir punktar strax þarna í pistlinum,
  http://hjalli.com/2012/02/06/heilsusamlegt-upplysingaaedi/

Comments are closed.