Í tilefni Gay Pride

Cathy J. Cohen er fræðimaður dagsins, og grein hennar Punks, Bulldaggers, and Welfare Queens: The Radical Potential of Queer Politics? er fræðigrein dagsins. Viðar Þorsteinsson vinur minn sendi mér þessa grein í dag, þegar við vorum að ræða um róttæka kennslufræði. Það er mögnuð tilviljun að eitt megininntak greinarinnar kom skýrt fram í orðum Páls Óskars Hjálmtýssonar í kvöldfréttum sjónvarpsins.

Bryndís Björgvinsdóttir sló orð Páls á lyklaborð og birti á Facebook:

Mér finnst gay-pride hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttinabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarks mannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu – inni á internetinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa. Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi, það er hvítur straight karlmaður í jakkafötum hægri sinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: „Helvítis femínisti, helvítis kéllingar, helvítis hommar, helvítis þið, blíh, blah!“ Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú.

Cathy er svört lesbía sem kennir í háskóla. Hún hefur að sumu leyti forréttindi umfram marga nemendur sína, til dæmis þá sem búa við fjárhagslegt óöryggi og eru af lægri stétt. En hinir sömu nemendur eiga það til að líta niður á hana, vegna þess að hún er lesbía. Sjálfsmynd fólks og staða er samsett úr mörgu, við tilheyrum öll mörgum hópum, og höfum mismunandi valdastöðu innan hópanna. Engu að síður getur verið gagn að flokkunum: kynþáttur/litur, kyn, stétt, kynhneigð, trú, og fleiri. Þó eru mörk slíkra flokka auðvitað fljótandi, og einstaklingar geta færst milli þeirra og fallið utan þeirra. Þeir sem eru hvítir straight karlmenn með peninga eru þó í æðsta forréttindahópi fólks á jörðinni, eins og allir vita. Ef þú vilt komast í æðsta flokkinn en skortir eitthvert þessara einkenna er eins gott að þú lærir að þóknast þeim eða vera eins og þeir. Margaret Thatcher er kona og það eru líka hommar í frjálshyggjufélaginu.

Only through recognizing the many manifestations of power, across and within categories, can we truly begin to build a movement based on one’s politics and not exclusively on one’s identity.

En of einfalt er að skipta fólki í valdhafandi eða valdalausa, kúgara eða fórnarlömb, óvini eða félaga. Það að einhver tilheyri kúguðum hópi þýðir ekki endilega að hann vilji frelsun þess hóps, hvað þá annarra hópa. Það er því lykilatriði fyrir okkur sem viljum berjast fyrir frelsi og jöfnuði allra manneskja að gerast meðvituð um alla kerfisbundna kúgun og mismunun og sameinast í hreyfingu sem byggir á einmitt þessu pólitíska markmiði en ekki eingöngu út frá okkar eigin sjálfsmynd eða sem einstaklingi í minnihlutahópi (til dæmis sem hinsegin, kona, öryrki…) Við eigum að gerast róttækir femínistar og róttæk hinsegin, og eigum einmitt að láta til okkar taka og berjast fyrir undirokaða innflytjendur, flóttamenn, atvinnulausa, fatlaða, tekjulága, konur, hinsegin fólk, aldraða. Róttækni á að verða hluti af okkar sjálfsmynd.

Út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú!