Forstjórar og Tiger Woods

Margar bandarískar bækur „almenns efnis“ hefjast á lítilli sögu um einhvern sem var einu sinni venjulegur maður (yfirleitt ekki kona) en er í dag forstjóri risafyrirtækis (CEO) eða Tiger Woods, eða hugsanlega einhver annar íþróttamaður eða frægur fiðlu- eða píanóleikari. Allt í lagi, bækurnar sem ég er að tala um eru á einn eða annan hátt um árangur eða betra líf, en ég er ekki að meina bara sjálfshjálparbækur eða hvernig-verðurðu-ríkur bækur. Þetta á líka við um bækur um menntun, sem eru þær sem ég les mest af.

Vandinn er að ég hef engan áhuga á þessum forstjórum og lít ekki á þá sem fyrirmyndir af neinu tagi og myndi aldrei taka neitt mark á því sem þeir segja, umfram hvaða random manneskju sem er. Og allar bækurnar sem nefna Tiger Woods, það þarf nú eitthvað að fara að uppfæra þær, ég nenni ekki að lesa meira um þann skíthæl.

Einhvers staðar er kennd sú kenning í BNA að svona bækur verði að vera byggðar upp sem safn af lýsandi sögum sem eiga sér ljóslifandi söguhetjur með nafni og uppruna. Oft eru fengnir sérfræðingar í slíkri ritun til að hjálpa fræðimönnum að setja fram sín almennu vísindi, pælingar og staðreyndir, þannig að almenningur nenni að lesa og hrífast með.

Mér finnst þetta óþarfa málalengingar og frekar til að grynnka hugsunina.