Einlæg og vönduð spurning um mikilvægt efni

Ég sendi Vísindavefnum spurningu sem er hnitmiðuð, einlæg og um mikilvægt efni, nefnilega um laun stundakennara við Háskóla Íslands.

Nú er ég stundakennari við Háskóla Íslands og launin eru 1794 krónur á tímann. (Þess má geta að ég er bara með meistarapróf og launin væru um 100 krónum hærri á tímann ef ég hefði doktorspróf.)

Samanlagt sinna stundakennarar um þriðjungi allrar kennslu við skólann. Skýring rektors og skólayfirvalda á þessu er auðvitað að stofnunin sé fjársvelt, hún fær ekki peninga úr ríkissjóði til að geta borgað meira. Ég hef aldrei heyrt orð um þetta frá stjórnvöldum, en þau myndu augljóslega líka segja að það væru einfaldlega ekki til peningar. Hrunið og svona. Launin voru að vísu ekkert betri fyrir hrun, en þá var líka hægristjórn.

Þetta eru „lókal“ skýringar og svara því auðvitað alls ekki hvers vegna þessi laun eru miklu lægri en önnur laun fólks með sambærilega menntun, til dæmis fastráðinna starfsmanna Háskólans, eða kennara almennt. Mig langar að vita hvað sérfræðingar háskólans segja um þetta, þó að ég, amatör á sviði hagfræði og verkalýðsbaráttu, geti komið með tilgátur. Hagfræðingurinn myndi líklega tala um framboð og eftirspurn. Háskólinn kemst einfaldlega upp með að borga svona lítið á meðan einhver eru tilbúin að vinna fyrir þetta kaup. Hann myndi þó líklega þurfa að taka inn í myndina skort á verkalýðssamtökum þessa hóps, þá staðreynd að hann er tvístraður og samansettur úr fólki úr mjög ólíkum áttum. Bæði er um að ræða nemendur, nýútskrifaða og svo ráðsett fólk úr atvinnulífinu. Sumar þeirra verða að taka hvaða tilboði sem er til að skrimta, aðrir líta á kennsluna sem hobbí eða góða leið til að halda tengslum við akademíuna. Ég sé engan annan mun á fastráðnum starfsfólki og stundakennurum. Ekki skortir fólk sem vill fá fasta stöðu og myndi gera það fyrir minna.

Það hefur semsagt tekist, eða það hefur gerst smám saman, að markaðsvæða þessa starfstétt. Sem er draumur frjálshyggjumannsins um allar stéttir: að brjóta niður samtakamátt launafólks þannig að það verði bara hver fyrir sig, einangruð í sínu horni.

Rétt er að geta þess að þetta er ekki séríslensk þróun. Ég held að þetta sé alls staðar eins og fylgir líka aukinni aðsókn í háskóla, stækkun þess skólastigs. Það er nefnilega þversögn í stefnu og hugmyndafræði vestrænna samfélaga: bæði er talað um menntun sem gæði fyrir samfélagið allt, það er að það sé betra fyrir samfélagið að „hækka menntunarstig þjóðarinnar“ (það auki hagvöxt og svo framvegis), en það er líka alltaf verið að skera niður og spara og draga úr útgjöldum ríkisins til að auka skilvirkni og hagkvæmni.

Það er áhugavert að vita hvort spurningin telst „á verksviði“ vísindavefsins. Eitt af því áhugaverða við skólakerfi er hvaða efni eru tabú innan þeirra. Til dæmis forðast kennarar eins og heitan eldinn að ræða við nemendur um helstu ágreiningsefnin í samfélaginu, áhugaverðustu málin: um völd, kynlíf og dauða. Á vísindavefnum er fullt af efni um samfélagsleg mál en skyldi hlutverk háskólans í valdakerfinu vera of stór biti?

2 thoughts on “Einlæg og vönduð spurning um mikilvægt efni

Comments are closed.