Skólastærðfræði og hugmyndafræði

Ég logga mig inn. Án fyrirheita. Veit ekki hvað verður úr.

Rannsóknarspurningar:

Hvaða ástæðu hafa nemendur til að reyna að læra stærðfræði í skólanum? (Ekki hvaða ástæður eru mögulegar eða æskilegar, heldur hvaða ástæða er í raun og veru fyrir því?) Stungið hefur verið upp á tveimur mælistikum: að hve miklu leyti leggja nemendur sig fram vegna þess að þeir trúa því að stærðfræði muni nýtast þeim utan skólakerfisins, í samfélaginu, og að hve miklu leyti gera þeir það vegna þess að þeir trúa því að það hjálpi þeim innan skólakerfisins, til að komast upp um bekk, útskrifast, og svo framvegis. Einnig getur verið að þeir geri það án nokkurrar ástæðu: þeir bara eru þarna, og þetta er það sem maður gerir í skólanum. Þetta mætti ef til vill orða sem spurningu um notagildi eða skiptagildi, því notagildi hlutar er það gildi sem hann hefur í sjálfum sér, en skiptagildið felst í því á hverju er hægt að skipta fyrir hann. Við getum farið með þetta lengra í Marxismanum, og tekið fram að stærðfræðiþekking er auðvitað ekki hlutur sem hægt er að nota beint eða skipta á fyrir eitthvað annað, nema í yfirfærðri merkingu. Stærðfræðiþekking getur hins vegar gagnast beint (t.d við ýmsa tæknilega lausnaleit, verkfræðileg efni osfr.) og það má nota prófgráður til að afla hærri launa. Það er, launamanneskja með mikla stærðfræðiþekkingu getur selt vinnuafl sitt dýrar vegna þess að hún getur „unnið betur“ (þe. aflað vinnuveitanda meiri virðisauka í framleiðslunni). Á móti kemur að hún hefur þegar unnið mikið verk (við að tileikna sér stærðfræðina).

Með hvaða tengslahætti fást þeir við stærðfræðina? Hér hef ég búið til íslenskt orð, tengslahætti, af því ég kann ekki að spyrja að þessu beint út, án skýringa. Það sem ég á við er: hvers eðlis er skuldbinding nemenda við námið, eða eru þeir alls ekki skuldbundnir og sýna þeir jafnvel andspyrnu, óvirka eða virka? Nánar tiltekið: hella þeir sér yfir verkefnin, eins og þeir gleymi sér í leiknum (þó að þeir sjái ekki að verkefnin hafi neitt raunverulegt gildi í sjálfum sér) eða halda þeir kaldri fjarlægð (gera eins lítið og hægt er, af því þeir verða að gera það, en eru sannfærðir um að stærðfræðin hafi ekkert notagildi)?

Geta nýir kennsluhættir haft einhver áhrif á þetta? Getur einn kennari sem tekur við nemendum sem vanir eru hefðbundinni skólastærðfræði gert eitthvað til að breyta því hvernig nemendur fást við stærðfræði eða ástæðum þeirra? Getur hann gengið í smiðju fræðimanna og hugsuða, og tekið í gagnið tölvutækni, umbreytt stærðfræðinni svo að í stað þess að hún sé iðja þar sem markmið nemenda er fyrst og fremst framleiðsla á merkingarlausum runum af táknum (til að fullnægja kröfum skólans) verði hún merkingarbær og lærdómsrík?

Eru þetta ekki spurningar sem þarf að skoða í ljósi bakgrunns nemenda og þess hvað þeir geta séð fyrir sér núna og framundan og ekki síst hugmyndafræði og hvernig skólarnir raungera og (endur-)framleiða hana (eða þær, það eru vissulega ólíkir straumar og iður í fljóti þingræðiskapítalismans)? Þetta er skólakerfi þar sem skólastærðfræði leikur það hlutverk að lögmæta mismunun, stimpla fólk, greina og mæla. Það veitir „eðlilegan“ grunn fyrir ákvarðanir um áframhaldandi skólagöngu, atvinnuhorfur og sjálfsmynd/sjálfstraust.

One thought on “Skólastærðfræði og hugmyndafræði

  1. Borghildur Jósúadóttir

    Einn kennari getur breytt því hvernig nemendur sem hafa lært hefðbundna stærðfræði fást við stærðfræði.
    Nemendur telja almennt að stærðfræði sé mjög mikilvæg fyrir framtíðina, vita samt ekki alveg af hverju. Gera sér heldur ekki grein fyrir því hvort að stærðfræði hjálpar þeim við annað nám.
    Þarf að skoða þetta betur, er orðin frekar syfjuð núna enda klukkan orðin 24:00.

Comments are closed.