Ég er ekki jafnréttissinni

Hugtakið jafnrétti er oft notað um þá ágætu reglu að allir skuli jafnir fyrir lögum. Líklega nær það svo einnig yfir stofnanir samfélagsins. Þannig á fólk að hafa jafnan rétt til náms í skólum, jafnan rétt til aðhlynningar á sjúkrahúsum, fá jafn mikið borgað fyrir sömu vinnu og þess háttar. Nánast enginn er tilbúinn til að segjast vera á móti þessu í sjálfu sér. Þegar til kastanna kemur er það ekki alltaf svo einfalt. Til dæmis er algengt að heyra að atvinnulausir, útlendingar og fólk með ýmsar fatlanir eigi ekki að hafa alveg sama rétt til sumra hluta.

En jafn-rétti þýðir líka þetta: allir eru jafnir sem keppendur um völd, auð og virðingu innan kerfis þar sem fólk hefur mjög misjöfn völd, auð, virðingu, þekkingu, og svo framvegis. Sjaldan er spurt spurninga á borð við:

 • hvaðan eru keppnisreglurnar?
 • hverjir njóta þess að eru þær einmitt svona?
 • af hverju ætti fólk yfirhöfuð að hafa misjöfn völd, auð og virðingu?

Eitt dæmi er skólakerfi. Eiga allir að hafa sama rétt til náms? Hvað þýðir það? Að nemendur keppi innbyrðis um eftirsótta skóla? Hér er mikilvægt að í jafnrétti er ekkert hugsað um það hvort nemendur séu í ólíkri stöðu til að stunda keppnina. Sumir nemendur eiga fátæka foreldra, aðrir ríka. Sumir nemendur eiga foreldra sem „kunna“ á menntakerfið og vita hvers konar hegðun og þekking kemur sér vel innan þess fyrir barnið. Sumir nemendur neyðast til að vinna með skóla, sumir nemendur lenda í skólum og bekkjum með metnaðarlausum kennurum og/eða samnemendum. Svo er frammistaða nemenda á prófum notuð til að veita sumum aðgang að eftirsóttu námi en ekki öðrum. Því allir nemendur hafa jafnan rétt samkvæmt hefðbundnum skilningi.

Hugtakið jafnrétti virkar þannig oft á vissan hátt til að breiða yfir ranglæti og ójöfnuð. Þeir hópar sem eru í sterkri stöðu fyrirfram viðhalda henni með því að „leikreglurnar“ henta þeim best.

Sem hópur eru konur undirskipaðar körlum. Þetta á við alls staðar, en í mismiklum mæli um allan heim. Í sumum löndum, eins og á Íslandi, ríkir eigi að síður lagalegt jafnrétti. Konur mega líka verða stórlaxar og sækja sér völd og virðingu. En þær verða að keppa á forsendum ríkjandi valdahóps, karla. Þær verða að berjast við viðteknar hugmyndir menningar okkar um kynin, það lendir á þeim að ganga með og fæða börnin, og þær eru í mun meira mæli áreittar og beittar kynferðislegu ofbeldi en karlar. Og þá er ég varla byrjaður á þeim langa lista af hlutum sem halda konum undirskipuðum sem hópi hér á landi, í dag. Þegar þær orða eitthvað um þessa hluti opinberlega fá þær yfir sig:

 • dembur af viðbjóði og lítt dulbúnum hótunum og fyrirlitningartali sem beinist gegn þeim sem konum
 • pistlum gáfumenna sem telja kvartið leiðinlegt, andlaust og kæfandi, ef ekki særandi fyrir alla góðu karlana eins og þá
 • „hrútskýringar“ á þá leið að þetta sé allt í hausnum á þeim og misskilningur
 • lærðar áhyggjur af öfgum sem séu að færa þær á ranga braut sem muni enda með blóðugu ofbeldi.

Mín afstaða er: þetta kynjakerfi og karlræði þarf að rífa upp með rótum. Konur og karlar eiga að vera jöfn og samfélagið á ekki að vera sniðið þannig að það henti körlum frekar en konum. Ég ætla að nota orð Schoolmaster Naxalite frá í gær á Facebook-þræði:

Ég á í engum vandræðum með að segja „já ég er femínisti“ en ég hef nokkrar efasemdir um jafnrétti.

(Gott er að geta gert orð annarra að sínum, við erum alltaf að því, það er kannski það sem nám er í raun og veru. En yfirleitt aðlögum við orð annarra fyrir eigin þarfir og út frá eigin reynslu. Ég hef efasemdir um að ég geti kallað mig femínista því að þó að sú barátta snúist um betri heim fyrir alla, konur og karla, þá er femínismi kvennabarátta, og ég er bara ekki insider í því.)

9 thoughts on “Ég er ekki jafnréttissinni

 1. Halldór

  Svo til jafnt kynjahlutfall eða rétt yfir 40% og á leiðinni upp síðustu 40 ár á Alþingi, kvenkyns forsætisráðherra, kvenkyns biskup, 37% fylgi við forsetaframboð kvenkyns forseta í forsetaframboði 2012 (svo ekki sé minnst á að þegar hefur verið kvenkyns forseti), meirihluti skráðra nemanda á öllum skólasviðum ofar grunnskóla eru kvenkyns.

  Fólk segir að samfélagið sé karllægt, en ég bara sé það ekki. Ekki af því að ég vil ekki sjá það, ég bara fæ aldrei að sjá það. Það sem karlar hafa á sínum meirihluta er að vera í algjörum meirihluta nauðgara, fá harðari refsingar fyrir glæpi, eru líklegri til sjálfsmorðs og geðsjúkdóma og ólíklegri til að leita sér hjálpar við vandamálum í lífum þeirra.

  Ég veit að kvenfólk á í vandræðum, til dæmis með óútskýrðan launamun, en ég bara því miður sé ekki karllægan heim á Íslandi.

 2. Ragnar Þór Pétursson

  Gefum okkur að allur kjarni pistilsins sé réttur og að völdum, auði og virðingu sé misskipt og allt þrennt sé að meðaltali meira hjá körlum en konum vegna þess að leiðir til valda, auðs og virðingar séu þeim kerfislega auðfærari.

  Hver ákvað að völd, auður og virðing væri það sem stefna ætti að og beita samfélagslegu valdi til að jafna og auka?

  Getur verið að þessi samfélagsskekkja sé svo almenn og viðvarandi einmitt vegna þess að hún er tilkomin vegna þess að (hluti) karla á vissum aldri hefur allltaf haft vald yfir umræðunni og ásýnd samfélags og sett þar á toppinn gildi sem hreint ekki eru lýsandi fyrir þarfir og væntingar annarra en þeirra sem líða fyrir of hátt testósterónmagn – eða þrælslund við það norm sem það hefur skapað?

 3. ingo Post author

  Halldór – mig langar til að segja þér að þú berir ábyrgð á því að upplýsa þig sjálfur. Þú segist ekki sjá að samfélagið sé karllægt, og nefnir tölur um hlutfall kvenna á alþingi og víðar. Í fyrsta lagi: ennþá eru konur á Alþingi um og undir 40% og hafa aldrei farið yfir 50%. En látum það vera. Ég skrifaði grein hér: http://www.knuz.is/2011/11/tonaur-tanaur-og-kjotaur-i-drasl.html
  þar sem er aðeins farið yfir nokkra hluti í þessu sambandi. Meðal annars kem ég inn á það að flestir karlar eru vissulega frekar „valdalitlir“ – þeir eru yfirleitt undir hælnum á einhverjum sem er venjulega líka karl. Það má líka nefna launamun og misjafna virðingu stétta: eftir því sem konur eru stærra hlutfall, þeim mun lægri er virðingin og launin. (Þetta er ekki algilt – en þetta er vel mælanleg tilhneiging.) Þú gætir líka flett upp tölum um kynferðisofbeldi (skýrsla Velferðarráðuneytis), en um það bil 1 af hverjum 4 konum hefur orðið fyrir slíku. Svo gætirðu hlustað á konur sem geta sagt þér hvar þær finna fyrir mismunun, fyrirlitningu, vera ekki teknar alvarlega, vera hótað og svo framvegis.

  Ragnar – ég næ þessu ekki alveg hjá þér með völd, auð og virðingu. Þetta eru ekki einföld hugtök eins og þú veist, en ég hugsa þetta bara hversdagslega. Valdi er beitt til hindra fólk í að gera hluti og fólk getur þurft vald til að gera hluti. Þetta er brot af því sem vald getur þýtt. En ég meina vald ekki sem eitthvað absólút já eða nei dæmi. Við erum öll í valdastöðum gagnvart einhverjum öðrum. Stundum „með minna vald“, stundum meira. Auður er svo hluti af valdi, eða er eitt birtingarform þess. Og það er í mínum huga grunnþörf hvers og eins að vera virt sem manneskja. Er ekki betra samfélag þar sem hver og einn hefur sem mest vald á sínum eigin aðstæðum auk þess að hafa jafn mikið og aðrir að segja um heildarsamfélagið, þar sem auði er ekki freklega misskipt (auður er líka vald) og þar sem hver og einn nýtur virðingar (þó auðvitað í einhverju samræmi við framlag sitt)? Ég veit að ég hef hér horft burt frá ýmsu sem getur komið hérna inn í, eins og að við verðum að taka tillit til þess að fólk hefur misjafna getu og áhuga til að gera hluti og svo framvegis, „from each according to his ability, to each according to his need“ eins og Marx sagði í enskri þýðingu. En það má skrifa langt mál um „flækjandi þætti“.

  Það sem þú segir í lokin getur verið rétt, en þrátt fyrir allt hefur margt breyst og er að breytast (en ég skal ekki segja á hvaða veg það þróast). Það getur meira að segja verið að jafnréttisbarátta hafi skilað miklu og eigi eftir að skila meiru.

  Að lokum: punkturinn í þessari grein er að hugtakið „jafnrétti“ er próblematískt, og getur hulið manni sýn á mikilvæga hluti eins og aðstöðumun og að það eru raunverulega „leikreglur“ í gangi sem þarf að átta sig á og eru ekki komnar frá guði eða náttúrunni heldur eru þær sjálfar pólítísk og sögulega tilkomin fyrirbæri sem barist er um.

 4. Ragnar Þór Pétursson

  Það sem ég á við er að pistill þinn greinir (réttilega) milli jafnréttis og jöfnuðar. Þú segir að kynin eigi að vera jöfn. Einu vísbendingarnar um það hvað skuli jafna eru þessi þrjú hugtök sem þú nefndir í annarri málsgrein og ég tók upp eftir þér. Ég geri mér grein fyrir að þetta eru margræð hugtök, sérstaklega völd og virðing. Velti því samt fyrir mér hvort svona grunn áhersla á jöfnuð krefjist þess ekki að menn hafi mjög greinargóðar hugmyndir um það hvað skuli jafna.

  Ég velti því líka fyrir mér hvort völd, auður og virðing í auðmælanlegum einingum séu ekki einmitt eitthvað sem alls ekki skuli stefnt að því að jafna, því ekkert af þessu feli í sér neitt það sem skiptir grundvallarmáli.

  Svona eins og ef við myndum ákveða að jafna menntakerfið og ákveða að jafna einkunnir – sem væri eiginlega ofboðslega andstyggileg hugmynd. Gott menntakerfi held ég gæti vel komist af án einkunna yfirhöfuð.

  Þannig held ég að gott samfélag þurfi ekki á því að halda að telja hausa í stjórnunarstöðum eða rýna í laun. Og meðan barátta fyrir bættu samfélagi snýst um jöfnuð á þessum auðmælanlegu þáttum þá innihaldi hún kerfislæga villu. Breytileiki í eina tiltekna, testóserónknúna átt er túlkaður sem viðfangsefni jöfnuðar.

  Segjum að við værum báðir jafnaðarmenn og gerðum báðir þennan fyrirvara um raunverulegan jöfnuð og táknrænan. Ég teldi hinsvegar að það sem jafna skyldi væri … tja, hamingja.

  Og að viðfangsefni vísindanna væri að finna leiðir til rannsókna á hamingju og hamingjuaukandi leiðum. Við gerðum félagsfræðirannsóknir, sálfræðirannsóknir og hagfræðirannsóknir. Settum hamingjuna á námskrá og sem grunnmarkmið ríkisvaldsins.

  Ég prófaði að gúgla slíkar rannsóknir og komst að því að einhverjar rannsóknir benda til þess að hamingja í einhverri mælanlegri mynd sé meiri meðal kvenna en karla og að munurinn ykist eftir því sem yfirborðsmæld slagsíða var meiri karlameginn (t.d. í Pakistan og slíkum ríkjum).

  Nú veit ég að allur alvöru femínismi vill jafna í allar áttir. En ég hlýt að spyrja hvort sjónarhorn, sem túlkar mun karla og kvenna þannig að hærri gildi karlamegin skuli teljast pósitíf – og verða um leið leiðarljós breytinga á högum kvenna, skapi ekki brjálæðislega hættu á því að verstu lestirnir í fari karla (hormónadrifin samkeppnis- og sýndarmennska) verði ekki að æðstu gæðum?

  Eða svo ég einfaldi þetta í spurningu. Tökum auð, virðingu og völd út fyrir sviga. Samþykkjum að okkur beri að jafna (í alvöru) mun karla og kvenna.

  Hvað eigum við að jafna?

 5. Halldór

  Ég veit að þær eru um og yfir 40%, það var einmitt það sem ég sagði. 2009 voru kosin 36 karlar inná Alþingi og 27 konur. Á 40 árum hefur þetta farið frá einhverjum 10% upp í yfir 40% og það er ekkert sem segir að þetta minnki, þvert á móti er það á uppleið. Ennþá er ekki jafn hlutfall kvenna, en miðað við 40 árin og hlutfall í prósentutölu er greinilegt að jafnréttið er að skila sér, og það á einni eða tveimur kynslóðum. Án efa er þetta baráttumönnum þess tíma að þakka.

  Er ég ábyrgur fyrir að upplýsa mig? Ég veit ekki hvað fólk vill satt að segja. Á einn bóginn vill fólk að þetta sé kennt í grunnskóla, svo snemma á lífsleið fólks, og barist fyrir því að “fræða”, en þegar ég bið fólk um að gera grein fyrir sér þá er mér bent á að ég sé sjálfur ábyrgur fyrir að upplýsa mig. Það er bara ekki satt. Þú ert að staðhæfa, þú berð alla ábyrgð á að sýna gild sönnunargögn. Það er algjörlega á þér komið að rétta fram gögn fyrir því sem þú segir, eins getur þú beðið mig um hið sama.

  Ég veit að fólk myndi eflaust benda beint á nauðgunarrannsóknir, jafnvel þó að þær geti sýnt mjög misjafnar niðurstöður og verið framkvæmdar og túlkað gögn hlutlægslega, það eru ekki allar rannsóknir jafn góðar. Karlmenn eru ekki þeir einu sem nauðga, og konur eru ekki eini hópurinn sem er nauðgað. Ég er samt á því sama og feministar að þetta er vandamál sem að augljóslega bitnar á konum. Ég er hinsvegar algjörlega hlessa yfir aðferðum sem feministar taka. Ég hef sjálfur fundið fyrir mismunun og fyrirlitningu. Mér hefur verið hótað, bæði af stelpum og strákum. Það er algjör vitleysa að segja fólki að tala við einhvern sem hefur þolað þetta, og ætlast til að það styðji þá staðhæfingu að þetta sé kerfisbundið.

  Fólk verður að ákveða sig. Hvort vill það upplýsa og fræða fólk um þessar hættur, eða vill það bara tala og tala og segja fólki að fræða sig sjálft um hvort það sé í raun að segja satt.

 6. ingo Post author

  Halldór – Stundum er gott að breyta sjónarhorninu af konum og því sem þær þurfa að þola og yfir á karla. Það eru karlar sem dómínera, kúga, nauðga, fremja glæpi, fara á hausinn, búa til Icesave og svo framvegis. ÞETTA ÞÝÐIR EKKI AÐ KONUR GERI EKKI SLÍKA HLUTI LÍKA ÞEGAR ÞÆR KOMAST Í ÞÆR AÐSTÆÐUR. Þetta snýst alls ekki um að konur séu „betri“ en karlar. En þetta sýnir hverjir eru í aðstæðum og hafa vald til að gera þessa hluti. Draumur femínista ER EKKI að konur fái líka að gera þessa hluti, og þetta þýðir EKKI að allir karlar geri eða vilji gera slíka hluti.
  Annars veit ég ekki hvort ég get hjálpað þér. Þó það séu til mýgrútur rannsókna sem sýnir fram á kerfislæga kynjamismunun, þá er þetta ekki svo augljóst og einfalt að það þurfi ekki að hafa fyrir því og pæla í því. Hér er ein góð bók: http://www.amazon.com/Gender-Knot-Revised-Unraveling-Patriarchal/dp/1592133835
  Þú getur líka gert það með þeirri hversdagslegu aðferð að tala við konur eða með því að horfa á sjónvarpið og telja valdafólk og aðalsöguhetjur. Þú gætir líka hafa lesið greinina sem ég benti þér á þar sem farið er í gegnum mörg svið þar sem karlar dómínera. Ég held að þú verðir að spyrja þig hvort þú sért opinn fyrir þessum möguleika yfirhöfuð. Ef ekki skiptir engu hvað ég bendi þér á.

  Ragnar – ef þú heldur að ég telji valdastöðu og virðingu mælanlegar stærðir, eða yfirhöfuð stærðir sem hægt er að raða eftir röð, þá er það rangt. Eitt aðalatriðið fyrir mér er að ég er á móti strúktúrnum sem slíkum, ekki því hverjir eru hvar í honum. Þetta er fundamental munur á mér og „krötum“. Ég efast um að jöfnuði verði náð með því að reyna að „gefa öllum jöfn tækifæri“ til að keppa um takmörkuð völd. Ég vil leggja niður keppnina sjálfa. Þannig að ég er alveg sammála um einkunnir – við þurfum engar einkunnir. Þær hafa eingöngu merkingu sem hluti af keppni. Er það ekki ljóst af því sem ég sagði? Hins vegar er „strúktúr“ bara orð og öll tengsl, eins og valdatengsl, eru breytileg og á stöðugu (en oft mjög hægu) floti. Og ég er þrátt fyrir ofangreint (á meðan útópían lætur bíða eftir sér) fullkomlega styðjandi allrar viðleitni til að ná meira jafnrétti innan strúktúrsins. (Líka vegna þess að það getur í sjálfu sér haft áhrif á strúktúrinn.) Svo að ég styð bæði borgaralega eða hófsama femínista og róttæka femínista.

 7. Halldór

  Ég er opinn, og ég geri mér alveg grein fyrir því að í dag eru konur lægri stétt heldur en karlar.

  Ætli ég taki það ekki bara nærri mér þær aðferðir feminista sem þær kjósa að nota. Ég er feministi í tilliti til hugsunarhátts og viðhorfs, en ég er ekki feministi í tilliti til þess klúbbs, aðferða og umræðu sem að er í brennidepli á Íslandi.

  Mér finnst þessi grein þín mjög góð, ég vil ekki að þú haldir annað. En ég verð að mótmæla algerlega að það sé rétt mynd á hlutum að tala við sérstakar konur eða horfa á sjónvarp.

  Síðan er þetta mýgrútur af rannsóknum um kerfislæga misnotkun, en ég hef aldrei séð eina einustu rannsókn um þetta sérstaka vandamál; kerfisbundin misnotkun sem einskorðast við kyn. Að túlka allskonar rannsóknir og tölfræði sem kerfisbundna misnotkun er varla sambærilegt við rannsóknir sem að fjalla sérstaklega um kerfisbundna misnotkun (sem að eru ekki framkvæmdar af hagaðilum).

 8. Ragnar Þór Pétursson

  Ég er svosem ekki að krefjast þess að þú verjir einhverjar skoðanir sem ég túlka sem þínar. Ég er bara að reyna að fylgja eftir pælingu sem kviknaði við lesturinn hjá þér.

  Þú leggur nefnilega áherslu á jöfnuð. Jöfnuður ber með sér einhverjar mælanlegar stærðir (hversu yfirborðskennt sem það verður í framkvæmd). Þú nefndir líka sjálfur auð, virðingu og völd (þar með ætla ég ekki að þú teljir að samfélagið snúist aðeins um þetta þrennt, alls ekki, en staðreyndin er sú að jafnaðarmennska í framkvæmd snýst að stærstum hluta um að jafna eitthvað af þessu þrennu).

  Ég er sammála þér um held ég flest – en vil vekja athygli á því, að mér virðist sem svo að vel megi leggja fram þá tilgátu að mælanlegur munur kynjanna felst ekki síst í rótttækri samkeppnishneigð og -áráttu sumra karla. Þessi samkeppnishneigð leiðir af sér menntakerfi sem er drifið áfram af samjöfnuði og goggunarröð og félagslegt módel sem eimir af því sama, að ekki sé talað um opinbert kerfi og vinnumarkað. Margofið stigveldi sem heldur mönnum uppteknum við að skríða nær ímynduðum toppi eða öllu heldur skríða ofar öðrum. Launamunur og vegtyllumunur held ég komi ekki síst til af þessu.

  Það að taka gagnrýnilaust upp sem réttlætismál að jafna verði launamun kynjanna og hlutverk í stjórnunarstöðum etc… þá held ég að mögulega sé verið að gefa samkeppninni of mikið vægi. Einhverskonar júniversal-gildi. Ég sé enga röklega leið til þess að fjölga konum í ábyrgðarstöðum eða jafna launamun leiði sjálfkrafa til þess að áherslan á laun og vegtyllur minnki – nema þá þannig að karlar finni leið til að láta einhverja aðra vitleysi gilda sífellt meira (eins og gerst hefur eftir að konur náðu yfirburðastöðu í menntakerfinu og karlar þurftu eftir sem áður að réttlæta betri stöðu sína – og gengisfelldu menntun á móti einhverjum illa skilgreindum þáttum öðrum).

  Auk þess þarf að hafa í huga þegar maður gerir greinarmun á rétti til jöfnuðar og raunverulegum jöfnuði að öllum er fullfrjálst að hafna „tækifærum“ sem í boði eru. Það að tiltekinn hópur nýti þau ekki þarf ekki að vera til marks um skekkta samkeppnisstöðu eða slæga félagslega stöðu – það getur þvert á móti verið t.d. merki um skynsemi eða sæmilega stönduga sjálfsmynd.

  Þess vegna velti ég upp þeirri hugmynd að stefna að jöfnuði á hamingju eða farsæld. Það er í sjálfu sér ekki mikið erfiðara að skilgreina hana en virðingu eða völd – og hún er miklu eðlilegri mælikvarði á gæði samfélags og tilgang samfélagsbaráttu.

  Ég skoðaði þessar litlu rannsóknir sem til eru aðeins betur og samkvæmt þeim er skýr kynjamunur á hamingju eða lífssælu. Karlar eru vansælir frameftir æfinni en verða sáttari þegar á líður. Konur hefja lífið hamingjusamar en tapa hamingjunni þegar líður á. Sú tilgáta var sett fram að konur tapi að einhverju leyti hamingjunni vegna þess að þær nái ekki markmiðum (um völd og auð) en karlar nái þeim frekar.

  Nú held ég konur séu almennt ekki bláeygar og þjáðar af óraunhæfum hugmyndum um eigin frama frameftir ævinni. Hugsanlega má vera að samkeppnisþjóðfélag karlanna sé einmitt óhamingjuvaldur beggja kynja. Karlar þjást af samkeppniskvíða frá unglingsaldri en konum fer að finnast þær misheppnaðar þegar líða fer á vegna þess að samfélagið allt (þar með talið barátta jafnréttissinna) hamrar því sífellt inn að allt snúist um auð og völd.

  Konur virðast hamingjusamari á þeim tímapunkti lífsins þegar þær eru ekki að eltast við auð og völd. Karlar virðast með það á heilanum frá upphafi.

  En, punkturinn er þessi, ef hamingja er sett sem markmiðið þá opnast miklu stærra svið jöfnuðar fyrir okkur. Og þá getur hreinlega verið skynsamlegt að hætta að einblína á launamun eins og há laun hafi eitthvað gildi í sjálfum sér. Nær væri að setja einhver neðri mörk um nægjanleika og beita svo samfélagsvaldinu til þess að skapa samfélag sem reynir að gera jarðveginn frjóan fyrir farsæld. Þeir sem vilja eltast við peninga, af báðum kynjum, gera það þá áfram – en njóta ekki ofurathygli út á það og fá að vera sæl svín í drafinu meðan aðrir reyna að verða að mönnum.

Comments are closed.