Category Archives: menntun

Vita nemendur hvernig þeim hentar best að læra?

Menntavísindi og kennslufræði eru ekki raunvísindi og það er ekki hægt að setja fram algild lögmál á borð við náttúrulögmál í eðlisfræði. Það sem er algerlega öruggt er ekki sérlega áhugavert. Kennsla og nám eiga sér stað í samfélagi og tengslum og áhrifaþættirnir eru ótal margir og þar á meðal eru tilfinningar einstaklinga, uppbygging samfélaga, félagslegar aðstæður, líkamlegur mismunur, bara til að nefna örfáa hluti. Ofan á þetta leggst svo að fólk greinir á um það hver séu endanleg markmið menntunar: hvað viljum við fyrir börn, unglinga og fullorðið fólk sem er í skóla? Hvers konar samfélag viljum við byggja, hvaða eiginleika viljum við rækta? Allt þetta skiptir máli þegar rætt er um það sem kunna að virðast einfaldar spurningar eins og „hvernig er best að kenna stærðfræði?“

Engu að síður er til margskonar og margbrotin þekking á þessum málefnum. En nú langaði mig bara til að minnast á eitt og gleyma á meðan hinum stóru samhengjum. Hugsum okkur dæmigerðan nemanda í „venjulegum skóla“. Margir slíkir nemendur (en ekki allir) temja sér ýmsa hegðun og skoðanir sem eru ekki gagnlegar fyrir nám. (Það sama má ef til vill segja um kennara.) Hér eru nokkrar:

 • Að nám felist aðallega í því að taka við upplýsingum til þess að skila síðar í sem óbreyttustu formi (td á prófi). [Nám í samræmi við metnaðarfull markmið felur í sér skilning og að geta beitt þekkingu við nýjar aðstæður.]
 • Að það skili árangri að endurlesa námsefni fyrir próf, jafnvel aftur og aftur. [Þetta getur skilað skammtímaárangri á einföldum þekkingarprófum en virkar ekki til lengri tíma eða fyrir próf sem reyna á beitingu eða skilning.]
 • Að maður viti vel sjálfur hvernig manni gengur að læra tiltekið efni eða námsgrein. [Hver kannast ekki við að „skilja það þegar kennarinn sagði það í tímanum“ en geta svo ekki leyst verkefni á eigin spýtur þegar á reynir?]
 • Að það sé mjög mikilvægt að hlýða á fyrirlestra og ná að skrá hjá sér sem mest af því sem kemur fram í fyrirlestrinum.

Fyrsta atriðið er kannski dálítið margbrotið, því það er bæði um markmið (jafnvel gildi) og leiðir. Seinni þrjú atriðin eru einfaldari og margar rannsóknir styðja það að þetta séu ógagnleg viðhorf. Mjög sennilegt er að of lítið sé gert til þess að kenna nemendum að læra (og mögulega er þessi þekking ekki heldur nógu útbreidd meðal kennara.) Svo svarið við spurningunni í titlinum er nei: nemendur vita yfirleitt ekki hvernig þeim sjálfum hentar best að læra, að minnsta kosti ekki nema að þeir ígrundi það mjög vandlega og rannsaki sína eigin námshætti og viðhorf í ljósi þeirrar þekkingar sem til er á þessum hutum.

Nokkur vandamál

Ættum við að vera að tala um

 • hnattræna hlýnun (og hinar gríðarlegu, ófyrirséðu, afleiðingar hennar, sem gætu meðal annars falist í hörmungum af áður óþekktri stærðargráðu)
 • ofbeldi (stríð, borgarastríð, innrásir, drónaárásir, götuglæpi)
 • stéttaskiptingu (hundrað ríkustu einstaklingar heims (efsta 0.000001429 prósentið) bættu meiri auði við sinn auð á árinu (240 milljarði dollara) en þarf til að eyða sárasta hungri á jörðinni fjórum sinnum)
 • kynjakúgun (samfélagið er karlræði (karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta í valdastöðum), menningin er karlmiðuð og karlmiðjuð (ríkjandi hugmyndir um hvað er gott, æskilegt og eðlilegt eru tengdar karlmennsku og karlar eru í brennidepli í öllum fréttum og miðlum.)
 • rasisma (það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika þína í heiminum, réttindi þín til búsetu, öryggis, sanngjarnrar meðferðar o.s.fr. af hvaða uppruna þú ert)
 • mismunun vegna fötlunar (það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika þína í heiminum, til að „tilheyra“ samfélagi, til að sækja nám, atvinnu, búsetu, og fyrir öryggi þitt o.s.fr., hvort líkami þinn hentar ríkjandi viðmiðum.)
 • mismunun vegna hinsegin kynferðis (það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika þína í heiminum, til að „tilheyra“ samfélagi og fyrir persónulegt öryggi þitt o.s.fr., hvort kynferði/kynhneigð hentar ríkjandi viðmiðum.)
 • fátækt, ójöfnuð til heilsu og menntunar, ungbarnadauða, og svo framvegis.

Mér finnst þessir hlutir mikilvægir. Mikilvægari en „fegursta orð íslenskrar tungu“, árangur fótboltaliða, réttritun, hornafallareglur, fjármálalæsi, tæknimenntun, og margt fleira. En mér sýnist að í skólum landsins fái þessir hlutir litla umfjöllun og litla umhugsun. Kannski einhverja, en mun meiri tíma er varið í aðra hluti.

Ég ætla þetta ekki að vera reiðilestur. Ekki ásökum um hræsni. Það er ekki hægt að vera alltaf að hugsa um þessa hluti. Nema auðvitað fyrir þau sem finna þá á eigin skinni. Þau komast ekki hjá því. Við hvítu ófötluðu millistéttarkarlarnir þurfum þess ekki. En skólarnir? Opinber umræða? Það væri vel þess virði að auka vitund um þessa hluti og reyndar meira: skoða þá í gagnrýnu ljósi og beita rannsóknum og kenningum félagsvísinda.

Þetta eru ekki „staðreyndir lífsins“, hið eðlilega ástand, óskyldir hlutir, óskiljanleg vandamál. Þetta eru afleiðingar valdadreifingar, sögu kúgunar og ofbeldis, eignarhalds á stofnunum svo sem lögreglu, hers, skóla, dómstóla, fangelsa, fjölmiðla. Mismununin og óréttlætið á sér stað „í verki“ á hverjum degi, alls staðar. Við sem einstaklingar framkvæmum það, viðhöldum því, eða (sjaldnar) vinnum gegn því, á hverjum degi. Það er alltaf auðveldast að gera bara „eins og tíðkast“, fara leið minnstu mótstöðu. En við sem einstaklingar getum ekki breytt kerfinu ein og sér. Einstaklingshyggja er blindgata. Við björgum ekki umhverfinu með því að nota persónulega bláar tunnur og kaupa metan-bíl. Misskiptingu og fátækt verður ekki útrýmt með söfnunum hjálparsamtaka.

Bestu orðin sem ég þekki yfir þetta margslungna, samþætta kerfi kúgunar og misréttis eru kapítalismi og feðraveldi, sem ætti kannski að vera eitt hugtak því hvorutveggja nærir og mótar hvort annað.

Aldrei skilja lesanda eftir með spurninguna „hver er punkturinn?“ las ég áðan. Hannaðu reynsluna út frá lokamarkmiðinu las ég líka áðan í öðrum texta. Hvað viltu að komi út úr þessum lestri? Það sem ég var að hugsa um (sem oftar) er hversu erfitt er að tala um eitthvað sem máli skiptir í skólum. Þeir eru hugsaðir til að viðhalda ríkjandi menningu og viðmiðum og þess vegna er gagnrýni þar inni erfið. Hvernig er hægt að gera skólana að opnari vettvangi? Einu sinni sagði ég að það væru þrír hlutir sem merkilegt væri að nánast aldrei væru ræddir í skólanum, en eru hlutir sem allir hafa brennandi áhuga á. Ég bætti við einum enn og þá eru það:

 • vald
 • kynlíf
 • dauði
 • nautnir

Segjum þetta.

Baráttan við lestrargræðgi, með femínisma, gegn kapítalisma

Berst við tilhneiginguna til að lesa meira án þess að skrifa, án þess að hugsa. Ég les og hugsa um leið, fæ nokkrar hugmyndir. Ef ég skrifa ekkert þá gufar þetta meira og minna upp. Ég man ekki hvað ég las fyrir viku. Ég verð að lesa aðeins meira í dag, en fyrst punkta niður grein sem ég las í dag, Nancy Fraser (2009) Feminism, capitalism and the cunning of history í New Left Review 56.

Hún telur annarrar bylgju femínisma hafa verið viðbrögð við ríkiskapítalisma (state- organized capitalism) eftirstríðsáranna, sem hún greinir í fernt:

 • haghyggju (economism) – að eina breytan sem skipti máli væri efnahagur, sem ýtir öðrum þáttum mismununar út á jaðarinn
 • karlmiðjun (androcentrism) – hin viðtekna ímynd borgarans væri karl sem fyrirvinna heimilisins
 • ríkishyggja (etatism) – mætti ef til vill nefna skrifræðis- og sérfræðihyggju, þar sem allur vandi skilgreinist sem verkefni til þess hæfra sérfræðinga og stofnana, í stað þess að borgararnir sjálfir séu virkir.
 • þjóðríkishyggja (Westphalianism) – réttindi og réttlætismál eru alltaf rædd innan múra þjóðríkisins og ríkisborgara.

Fraser telur annarar-bylgu femínisma hafa sett fram róttæka gagnrýni á fyrstu þrjá þættina, en minna á hinn fjórða. Til dæmis um fyrsta atriðið segir hún (meðal annars):

Politicizing ‘the personal’, they expanded the meaning of justice, reinterpreting as injustices social inequalities that had been overlooked, tolerated or rationalized since time immemorial. Rejecting both Marxism’s exclusive focus on political economy and liberalism’s exclusive focus on law, they unveiled injustices located elsewhere—in the family and in cultural traditions, in civil society and in everyday life.

og

With the benefit of hindsight, we can say that they replaced a monistic, economistic view of justice with a broader three-dimensional understanding, encompassing economy, culture and politics.

Meginkenning Fraser er að þrátt fyrir að femínisminn hafi náð töluverðum árangri, hafi hann verið samhliða breytingum á formi kapítalismans, frá ríkiskapítalisma að nýfrjálshyggju, og hann hafi að einhverju leyti verið notaður í þágu þeirra breytinga. Til dæmis hafi hann stundum þróast út í „sjálfsmyndapólitík“ (identity politics), þar sem ofuráhersla er á viðurkenningu og sýnileika ólíkra hópa, á meðan krafan um raunverulegan efnahagslegan jöfnuð hverfur. Einnig hafi gagnrýnin á karla sem fyrirvinnur heimila farið saman við allsherjar vinnuvæðingu lífsins þar sem atvinuöryggi er minna og allir þurfa að vinna meira til að halda lífskjörum:

I am suggesting that second-wave feminism has unwittingly provided a key ingredient of the new spirit of neoliberalism. Our critique of the family wage now supplies a good part of the romance that invests flexible capitalism with a higher meaning and a moral point. […]

Once the centrepiece of a radical analysis of capitalism’s androcentrism, it serves today to intensify capitalism’s valorization of waged labour.

Hún bendir líka á hvernig gagnrýni á stofnanaræðið getur virst fara saman við kröfu nýfrjálshyggjunnar um niðurskurð og afnám afskipta ríkisins. Þetta gerist þó að markmið femínista hafi alltaf verið aukin pólitísk þáttaka og valdefling almennings, við getum kallað það lýðræðisvæðingu ríkisins en alls ekki afnám félagslegra úrræða og stuðnings.

capitalism would much prefer to confront claims for recognition over claims for redistribution, as it builds a new regime of accumulation on the cornerstone of women’s waged labour, and seeks to disembed markets from social regulation in order to operate all the more freely on a global scale.

Hún kallar eftir ákveðnari pólitík þar sem raunveruleg krafa um jöfnuð (líka yfir landamæri) fær aftur aukið vægi, í stað of mikillar áherslu á sýnileika, sjálfsmyndir, og aðgang að auðsöfnun innan kapítalismans.

Í grein Fraser er dálítið komið inn á þessa umbreytingu kapítalismans og hvernig hann hefur gleypt eða hámað í sig alla gagnrýni út frá „listrænu“ eða „frelsi“ – það er einmitt í hans þágu að (sumir) verkamenn fái að vera skapandi, frjálsir andar. Þetta tengist umræðu um menntamál og gagnrýni á „hefðbundna skóla“ sem of þröngvandi, ekki nógu frjálsa, þeir séu að steypa alla í sama mót og séu ekki nógu „einstaklingsbundnir“. Þetta er oft líka sett í samhengi við „breytta tíma“, tuttugustu og fyrstu öldina, og jafnvel opinskátt tengt við samkeppnishæfni í nútímanum. Ég held að það þurfi að spyrna kröftuglega við þessu og greina skýrt á milli skólastarfs sem er raunverulega „lýðræðisvætt“, þar sem nemendur hafa eitthvað að segja um nám sitt, annars vegar, en hins vegar þess sem miðar að því að framleiða enn fullkomnara samlagaðra vinnuafl, „framúrskarandi“ og viljuga þáttakendur í kapítalismanum.

Róttæk kennslufræði

Ég var áðan með námsstofu í Róttæka sumarháskólanum sem nefndist Róttæk kennslufræði II (framhald frá því í fyrra). Ég vona að þeir sem mættu hafi farið út einhverju bættari og að þetta hafi ekki verið leiðinlegt. Allmargir mættu og úr mörgum ólíkum áttum. Ég er ekki viss um að ég sé nógu flinkur að „stjórna umræðum“. En ég ákvað reyndar, í þetta skipti, að vera með fyrirlestur – með innleggjum úr sal. Ég vildi reyna að koma á framfæri nokkrum fræðilegum hugtökum, sem hægt er að nota til að hugsa með, um skólakerfið. Það eru marxísk hugtök eins og skiptagildi, notagildi og firring, og „tákrænn auður“ frá Bourdieu. Ég lagði til að þáttakendur kynntu sér 2 „almennar“ greinar sem eru dæmigerðar fyrir opinbera umræðu um námskrár: hvaða efni á að kenna í skólum? (Í þessu tilviki: er nauðsynlegt að kenna algebru í skólum?) Auk þess benti ég á fræðilega grein, sem er reyndar töluvert erfiður lestur. En, eins og á við um öll réttnefnd fræði og vísindi, þá veitir hún innsýn og fer undir yfirborðið. Tenglar á greinarnar eru á síðunni minni um stærðfræði/menntun.

Tími tilkominn að tengja

Gagnstætt því sem margir halda er Internetið mikil dásemd. Mikilfenglegra en orð fá lýst. Ég mun hella úr kaffibollanum yfir næsta mann sem segir í kaldhæðnu gríni að hann þoli ekki netið, það sé bóla, tímaþjófur, eða dregur með nokkrum hætti úr jákvæðum áhrifum þess á lífið.

Eitt af því sem netið hefur gefið mér, er aðgangur að þekkingu, innblæstri og tengingu við hugsun annnara um stærðfræðimenntun, nám og kennslu. Ef ég hefði ekki haft internetið, ég veit ekki hvað ég hefði getað gert – væri sjálfsagt löngu hættur að spá í kennslu og farinn að forrita einhverjar auglýsingar eða hirða um geitur. Ela! Ela! myndi ég kalla. Hér er eitt uppáhald mitt í dag. Kannski skrifa ég um og tengi á önnur uppáhöld síðar.

Dan Meyer – hann er með mikið af frumlegu og góðu kennsluefni, auk pælinga um menntun og menntakerfi. Skapar og tekur þátt í „opinberri umræðu framsækinna stærðfræðikennara í Bandaríkjunum“ svo ég búi til hugtak. Ein af hugmyndum hans er „stærðfræði í þremur þáttum“ (sjá opið verkefnasafn).

Stærðfræði í þremur þáttum nýtir sér sígilda byggingu frásagna:

 1. Kynntu megintogstreitu sögunnar/verkefnisins á skýran, sjónrænan, lifandi hátt, með eins fáum orðum og mögulegt er.
 2. Aðalpersónan/nemandinn sigrast á hindrunum, nýtir sér bjargir og þróar ný tól og nýja getu.
 3. Leyst er úr togstreitunni og gert tilbúið fyrir næstu sögu/bindi/sequel…

Hér er fyrsti þáttur eins verkefnis:

Hvað á Fry í bankanum í dag?

Skoðið svo alla þrjá þættina í heild sinni hér.

Meiri pening fyrir góða kennara

Væri ekki sniðugt að borga skilvirkum kennurum hærri laun en hinum lélegri?

Sem betur fer heyrist þessi spurning eða krafa ekki mikið í umræðunni hér á landi. Þó hef ég lesið eina eða tvær blaðagreinar þar sem þetta er lagt til. Það að trúa því að þetta geti verið góð hugmynd er háð því að maður hafi ákveðna tegund af sýn á manneskjur og samfélag. Þessa sýn má finna víða en hún er algengust meðal svokallaðra hægrimanna.

En hún er röng. Hún er ekki bara vond af prinsippástæðum, pólítík eða siðferði. Kenningin um að upptaka peningalegra hvata af þessu tagi fyrir kennara hefur nýlega verið rannsökuð nokkuð ítarlega. Og í ljós hefur komið að hún stenst enga skoðun.

Hér eru tenglar á fréttir og útdrætti um nokkrar nýlegar bandarískar rannsóknir:

Rannsókn National Center on Performance Incentives at Vanderbilt University’s Peabody College of education and human develoment og RAND Corporation í Nashville.

Rannsókn National Bureau of Economic Research á hvatakerfi sem komið var á hjá kennurum í New York.

Rannsókn RAND Corporation á hinu sama, og

Frétt New York Times (2011) um það þegar hvatakerfið þar var loks afnumið (vegna einskis árangurs).

Veruleikinn samræmist ekki einfeldningslegri sýn hægrimannsins.

Af nauðsyn eða venju

Hvers vegna er 2 + 3 x 5 = 2 + 15 = 17 rétt en 2 + 3 x 5 = 5 x 5 = 25 rangt?

Ég skrifaði einu sinni Facebook status um þetta efni vegna þess að margir voru að reikna út úr stæðum eins og 2+2+2+2+2+2+2 x 0. Og þá skiptir máli hver er svokölluð „forgangsröð aðgerða“.

Ég reyndi að svara spurningunni. Af hverju er „margföldun á undan samlagningu“? Ef þú hefur ekki velt því fyrir þér skaltu gera það núna. Svarið kemur neðar.

Dave Hewitt skiptir skólanámsefni í stærðfræði í tvennt (því miður er tímaritið hér ekki í landsáskrift): hið viðtekna (það sem helgast af viðteknum venjum) og hið nauðsynlega (eiginleikar og vensl). Kennsla á hinu fyrrnefnda snýst um að styðja minnið en hið síðarnefnda snýst um að mennta vitundina. Einhvern veginn verður maður að frétta af hinu viðtekna en það er hægt að komast að hinu nauðsynlega með hugsun.

Sígilt dæmi utan stærðfræðinnar: á íslensku merkið orðið „hundur“ hund. Það er venja. En orðið „hundur“ verður ekki útskýrt með vísan í neina eiginleika hunda. Enda eru allt önnur orð notuð um hunda í mörgum tungumálum. Auðvitað er hægt að ræða það hvernig orð (og aðrar venjur) eru tilkomin.

Dæmi um hið nauðsynlega gæti verið „ef þú tekur eitt skref til hægri og svo jafn stórt skref til vinstri lendirðu aftur á þeim stað sem þú varst“. (Bestu dæmin um hið nauðsynlega eru innan stærðfræðinnar.)

Stærðfræði snýst um hið nauðsynlega. Að sjálfsögðu þarf líka að láta nemendur vita um orð og venjur en orð og venjur hafa ekkert stærðfræðilegt innihald. Samkvæmt minni reynslu eiga margir mjög erfitt með að greina á milli hins viðtekna og hins nauðsynlega í stærðfræði og það er vegna þess að iðulega er hvorutveggja kynnt með nákvæmlega sama hætti og enginn greinarmunur gerður.

Skarpir lesendur og þeir sem vissu svarið allan tímann geta líklega sagt svarið núna. Ástæðan fyrir því að 2 + 3 x 5 = 2 + 15 = 17 er að það er venja. „Margföldun á undan samlagningu“ er venja sem hefur ekkert stærðfræðilegt innihald. „Reglan“ er hins vegar til nokkurra þæginda til lesturs og skrifa á stærðfræðilegum textum.

Í skólum er yfirleitt allt of mikil áhersla á hið viðtekna á kostnað hins nauðsynlega. Og oft er ekki greint á milli. Á myndinni hér að ofan er gott dæmi um verkefni sem sóar bæði tíma og orku nemenda. Fullkomlega tilgangslaus æfing.

Ipad, nám og sköpun

Apple leyfir fólki ekki að forrita Ipad-tækin sín. Og það var reyndar kveikjan að síðustu færslu. Vegna þess að vonir eru bundnar við að slík tæki geti nýst í skólum. Og mín hugmynd um skóla sem vettvang sköpunar með stærðfræði felur í sér að nemendur búi sjálfir til rafræna gripi.

Eitt af þeim verkfærum sem eru hvað mest spennandi fyrir ungt fólk sem vill skapa tölvuleiki eða teiknimyndir er Scratch. Níu ára krakkar geta lært að nota Scratch til að búa til slíka hluti en þeir geta það ekki nema að læra í leiðinni meira í stærðfræði heldur en flestir gera á lífsleiðinni. Og það geta þau án þess að þurfa að setja neinar formúlur á minnið eða æfa reikningsdæmi.

Og Scratch var tilbúið með tengingu fyrir Ipad þannig hægt var að spila leikina á græjunni. En þá sagði Apple nei. Það gæti verið vegna þess hve öflugt Scratch-kerfið er. Krakkar gætu hreinlega forritað gripinn til að hala niður tónlist af öðrum stöðum en itunes. Því miður virkar Ipad sem komið er meira sem neyslutæki en til sköpunar. Það gæti þó breyst og á vonandi eftir að gera það.

Að skapa eða neyta

Hve margir skyldu bæði hafa heillast af fyrirlestrum Ken Robinson um sköpun og skóla og Khan Academy (Khan var líka hylltur fyrir TED fyrirlestur)? Samt eru þeir í algerri grundvallarandstöðu hvor við annan. Eiga nemendur að búa eitthvað til í skólanum eða eiga þeir að innbyrða afurðir annarra? Eiga þeir að hugsa sínar eigin hugsanir eða læra um hugsanir annarra?

Úr bókinni School is hell eftir Matt Groening (smellið til að stækka)

Nú eru hlutirnir ekki alveg svona einfaldir. En samt sem áður. Annars vegar nám sem viðtaka, kennsla sem færsla upplýsinga frá kennara til nemanda og hins vegar nám sem sköpun, eitthvað sem verður til í glímu við verkefni, með því að tala um það við aðra, með tilheyrandi gagnrýni og ögrunum og hjálp frá kennara. Hlutverk kennara er gjörólíkt, ef við tökum þessa tvo póla. Í fyrrnefnda líkaninu reynir kennarinn að „koma efninu til skila“ með sem skýrustum hætti. Hann segir nemendum hvernig hlutirnir eru. Í hinu síðarnefnda er boðorð kennarans:

Leitastu við að gera eingöngu það fyrir nemendur sem þeir geta ekki gert sjálfir ennþá.

Ekki segja nemendum það sem þeir geta sjálfir sagt. Ekki leysa verkefni fyrir þá sem þeir geta sjálfir leyst.

Mýtur eða sjálfsagðir hlutir: fyrsti þáttur af 729

„Bara ef einhver bryti þetta niður og útskýrði nógu vel – þá myndu fleiri skilja.“

„Góðir kennarar gera flókið efni einfalt.“

Maður kemst ekki hjá því að hafa alls konar skoðanir og ómeðvitaðar kenningar um allt mögulegt í heiminum. Þær byggja auðvitað á þeirri reynslu sem maður hefur og því sem maður skynjar og heldur og man. Kannski má kalla þetta „almenna skynsemi“. Fræði og vísindi reyna að gera betur en almenn skynsemi með því að safna gögnum og skoða þau mjög nákvæmlega og rökstyðja niðurstöður vandlega. Ef vísindi og fræði gæfu sömu niðurstöður og almenn skynsemi væru þau frekar lítils virði.

Nánast allir hafa gengið í skóla og þess vegna telja margir sig vita eitt og annað um menntun. Flestir hafa líka heyrt eitt og annað fullyrt um skóla hér og þar. Fólk á sextugs- og sjötugsaldri telur sig muna hvernig fólki vegnaði almennt í skólum fyrir langalöngu. Einn þeirra er Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra sem ritaði grein í Fréttablaðið í fyrradag. Var á honum að skilja að allir hafi verið vel læsir og reiknandi í gamla daga þrátt fyrir að kennarar hefðu ekki verið háskólamenntaðir. Auk þess hefði einhvern tíma verið ákveðið að nemendur þyrftu ekki að kunna neitt og aldrei standa skil á neinu. Þetta sagði faðir hans honum og spáði því að allt ætti eftir að fara til fjandans vegna þessa.

Það ætti náttúrlega að vera óþarfi að svara eða fjalla um svona vitleysu. Ef litið er kalt á staðreyndir þá eru Íslendingar miklu meira menntaðir í dag en þegar Sighvatur var í skóla. Ekki eingöngu í prófgráðum talið heldur eru miklu fleiri að fást við þekkingarsköpun með einum eða öðrum hætti og vinna störf sem krefjast mikillar þekkingar. Þetta á við um menningarstarfsemi og alls konar tækniiðnað og margt fleira. Nemendur á Íslandi eru ekkert lélegir í alþjóðlegum samanburði þó að þeir séu ekki efstir. Í gamla daga voru hinir „ólæsu“ geymdir í tossabekkjum og fengu ekki að fara í neitt nám eftir barnaskóla. Ekki nema örlítið brot af hverjum árgangi fékk inngöngu í menntaskóla.

Svo heimurinn er ekki að farast. Hitt er annað mál að sitthvað er menntun og skólaganga og allar þær klisjur sem eru Íslendingum kærar. Og margt mætti breytast í skólum. En tímarnir breytast og núna eru möguleikar þess að verða gildandi í samfélaginu án háskólaprófs sífellt að minnka. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hér því þau mál eru flókin.

Jú, ég ætlaði að minnast á eina vitleysuna í viðbót en það er sú hugmynd að nemendur þurfi ekki að læra hluti utanbókar eða taka próf og þetta hafi gerst fyrir allnokkru síðan. Þarna er ruglað saman hugmyndum og hugsjónum um betra og merkingarfyllra nám og raunverulegu skólastarfi. Hér hefur utanbókarlærdómur lifað ágætu lífi og nemendur verið prófaðir í gríð og erg. Svo ef einhver skýring er á meintum lélegum árangri þá er það kannski frekar einmitt vegna þess.

En þetta var nú ekki aðalatriðið. Það var hugmyndin um góða kennarann sem útskýrir vel. Staðreyndin er að nám er erfitt og ef þér finnst það létt þá ertu líklega ekki að læra mikið. Rannsóknir sýna til dæmis að nemendur sem horfa á kennslumyndbönd með frábærum útskýringum finnst þeir læra mjög mikið og skilja vel. En þegar betur er að gáð þá reynast þeir ekki hafa lært neitt. Heimildir um þetta eru hérna. Og best ég smelli myndbandinu inn líka.