Category Archives: kapítalismi

Nokkur vandamál

Ættum við að vera að tala um

 • hnattræna hlýnun (og hinar gríðarlegu, ófyrirséðu, afleiðingar hennar, sem gætu meðal annars falist í hörmungum af áður óþekktri stærðargráðu)
 • ofbeldi (stríð, borgarastríð, innrásir, drónaárásir, götuglæpi)
 • stéttaskiptingu (hundrað ríkustu einstaklingar heims (efsta 0.000001429 prósentið) bættu meiri auði við sinn auð á árinu (240 milljarði dollara) en þarf til að eyða sárasta hungri á jörðinni fjórum sinnum)
 • kynjakúgun (samfélagið er karlræði (karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta í valdastöðum), menningin er karlmiðuð og karlmiðjuð (ríkjandi hugmyndir um hvað er gott, æskilegt og eðlilegt eru tengdar karlmennsku og karlar eru í brennidepli í öllum fréttum og miðlum.)
 • rasisma (það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika þína í heiminum, réttindi þín til búsetu, öryggis, sanngjarnrar meðferðar o.s.fr. af hvaða uppruna þú ert)
 • mismunun vegna fötlunar (það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika þína í heiminum, til að „tilheyra“ samfélagi, til að sækja nám, atvinnu, búsetu, og fyrir öryggi þitt o.s.fr., hvort líkami þinn hentar ríkjandi viðmiðum.)
 • mismunun vegna hinsegin kynferðis (það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika þína í heiminum, til að „tilheyra“ samfélagi og fyrir persónulegt öryggi þitt o.s.fr., hvort kynferði/kynhneigð hentar ríkjandi viðmiðum.)
 • fátækt, ójöfnuð til heilsu og menntunar, ungbarnadauða, og svo framvegis.

Mér finnst þessir hlutir mikilvægir. Mikilvægari en „fegursta orð íslenskrar tungu“, árangur fótboltaliða, réttritun, hornafallareglur, fjármálalæsi, tæknimenntun, og margt fleira. En mér sýnist að í skólum landsins fái þessir hlutir litla umfjöllun og litla umhugsun. Kannski einhverja, en mun meiri tíma er varið í aðra hluti.

Ég ætla þetta ekki að vera reiðilestur. Ekki ásökum um hræsni. Það er ekki hægt að vera alltaf að hugsa um þessa hluti. Nema auðvitað fyrir þau sem finna þá á eigin skinni. Þau komast ekki hjá því. Við hvítu ófötluðu millistéttarkarlarnir þurfum þess ekki. En skólarnir? Opinber umræða? Það væri vel þess virði að auka vitund um þessa hluti og reyndar meira: skoða þá í gagnrýnu ljósi og beita rannsóknum og kenningum félagsvísinda.

Þetta eru ekki „staðreyndir lífsins“, hið eðlilega ástand, óskyldir hlutir, óskiljanleg vandamál. Þetta eru afleiðingar valdadreifingar, sögu kúgunar og ofbeldis, eignarhalds á stofnunum svo sem lögreglu, hers, skóla, dómstóla, fangelsa, fjölmiðla. Mismununin og óréttlætið á sér stað „í verki“ á hverjum degi, alls staðar. Við sem einstaklingar framkvæmum það, viðhöldum því, eða (sjaldnar) vinnum gegn því, á hverjum degi. Það er alltaf auðveldast að gera bara „eins og tíðkast“, fara leið minnstu mótstöðu. En við sem einstaklingar getum ekki breytt kerfinu ein og sér. Einstaklingshyggja er blindgata. Við björgum ekki umhverfinu með því að nota persónulega bláar tunnur og kaupa metan-bíl. Misskiptingu og fátækt verður ekki útrýmt með söfnunum hjálparsamtaka.

Bestu orðin sem ég þekki yfir þetta margslungna, samþætta kerfi kúgunar og misréttis eru kapítalismi og feðraveldi, sem ætti kannski að vera eitt hugtak því hvorutveggja nærir og mótar hvort annað.

Aldrei skilja lesanda eftir með spurninguna „hver er punkturinn?“ las ég áðan. Hannaðu reynsluna út frá lokamarkmiðinu las ég líka áðan í öðrum texta. Hvað viltu að komi út úr þessum lestri? Það sem ég var að hugsa um (sem oftar) er hversu erfitt er að tala um eitthvað sem máli skiptir í skólum. Þeir eru hugsaðir til að viðhalda ríkjandi menningu og viðmiðum og þess vegna er gagnrýni þar inni erfið. Hvernig er hægt að gera skólana að opnari vettvangi? Einu sinni sagði ég að það væru þrír hlutir sem merkilegt væri að nánast aldrei væru ræddir í skólanum, en eru hlutir sem allir hafa brennandi áhuga á. Ég bætti við einum enn og þá eru það:

 • vald
 • kynlíf
 • dauði
 • nautnir

Segjum þetta.