Author Archives: ingo

Jafnfirða punktar

Til þess að stærðfræðiverkefni skapi frjóar rökræður nemenda á milli þarf að kvikna sjálfsprottin þörf fyrir slíkar rökræður. Til að stærðfræðilegt nám fari fram verður rökræðan að þróast frá hinu „sjónræna“ og að stærðfræðilegum afleiðslurökum, rök til þess að útskýra og staðfesta tilgátur sem vakna við það að leika sér, prófa og horfa á það sem gerist.

Í einu verkefni sem sagt er frá í grein Prusak, Hershkowitz og Schwarz (2012) eru nemendur beðnir að finna miðasölu stað í rétthyrningslaga skemmtigarði þar sem jafn langt er í alla hornpunkta garðsins (vegna þess að þar eru tækin staðsett).

Mynd af skemmtigarðinum úr grein

Hægt er að fást við verkefnið á mismunandi vegu, bæði með hreinni rúmfræði og með því að nýta hnitakerfi. Ég tók út „raunverulega samhengið“ (sem er dálítið gervilegt, þó það sé ekki mjög langt frá því að geta verið „raunverulega raunverulegt“) í GeoGebru-útgáfu af verkefninu sem ég setti inn á GeoGebruvefinn:

Ég veit ekki hver er besta spurningin til að byrja á: „hvar er rauði punkturinn“, „hvernig á að reikna út staðsetninguna á rauða punktinum“, „gætirðu gefið uppskrift að því hvernig hægt er að teikna rauða punktinn á nákvæmlega réttum stað“ eða annað.

Vitnað í: 

Prusak, Hershkowitz og Schwarz, 2012. From visual reasoning to logical necessity through argumentative design

Vita nemendur hvernig þeim hentar best að læra?

Menntavísindi og kennslufræði eru ekki raunvísindi og það er ekki hægt að setja fram algild lögmál á borð við náttúrulögmál í eðlisfræði. Það sem er algerlega öruggt er ekki sérlega áhugavert. Kennsla og nám eiga sér stað í samfélagi og tengslum og áhrifaþættirnir eru ótal margir og þar á meðal eru tilfinningar einstaklinga, uppbygging samfélaga, félagslegar aðstæður, líkamlegur mismunur, bara til að nefna örfáa hluti. Ofan á þetta leggst svo að fólk greinir á um það hver séu endanleg markmið menntunar: hvað viljum við fyrir börn, unglinga og fullorðið fólk sem er í skóla? Hvers konar samfélag viljum við byggja, hvaða eiginleika viljum við rækta? Allt þetta skiptir máli þegar rætt er um það sem kunna að virðast einfaldar spurningar eins og „hvernig er best að kenna stærðfræði?“

Engu að síður er til margskonar og margbrotin þekking á þessum málefnum. En nú langaði mig bara til að minnast á eitt og gleyma á meðan hinum stóru samhengjum. Hugsum okkur dæmigerðan nemanda í „venjulegum skóla“. Margir slíkir nemendur (en ekki allir) temja sér ýmsa hegðun og skoðanir sem eru ekki gagnlegar fyrir nám. (Það sama má ef til vill segja um kennara.) Hér eru nokkrar:

  • Að nám felist aðallega í því að taka við upplýsingum til þess að skila síðar í sem óbreyttustu formi (td á prófi). [Nám í samræmi við metnaðarfull markmið felur í sér skilning og að geta beitt þekkingu við nýjar aðstæður.]
  • Að það skili árangri að endurlesa námsefni fyrir próf, jafnvel aftur og aftur. [Þetta getur skilað skammtímaárangri á einföldum þekkingarprófum en virkar ekki til lengri tíma eða fyrir próf sem reyna á beitingu eða skilning.]
  • Að maður viti vel sjálfur hvernig manni gengur að læra tiltekið efni eða námsgrein. [Hver kannast ekki við að „skilja það þegar kennarinn sagði það í tímanum“ en geta svo ekki leyst verkefni á eigin spýtur þegar á reynir?]
  • Að það sé mjög mikilvægt að hlýða á fyrirlestra og ná að skrá hjá sér sem mest af því sem kemur fram í fyrirlestrinum.

Fyrsta atriðið er kannski dálítið margbrotið, því það er bæði um markmið (jafnvel gildi) og leiðir. Seinni þrjú atriðin eru einfaldari og margar rannsóknir styðja það að þetta séu ógagnleg viðhorf. Mjög sennilegt er að of lítið sé gert til þess að kenna nemendum að læra (og mögulega er þessi þekking ekki heldur nógu útbreidd meðal kennara.) Svo svarið við spurningunni í titlinum er nei: nemendur vita yfirleitt ekki hvernig þeim sjálfum hentar best að læra, að minnsta kosti ekki nema að þeir ígrundi það mjög vandlega og rannsaki sína eigin námshætti og viðhorf í ljósi þeirrar þekkingar sem til er á þessum hutum.

Leiðir beint og á ská

Þegar ég fer frá Hringbraut niður á Lækjartorg þá fer ég oftast inn Ásvallagötu af Hofsvallagötu, að kirkjugarðinum, niður á Suðurgötu og þangað að Aðalstræti/Kirkjustræti og yfir Austurvöll. Þegar ég fer í hina áttina fer ég frekar upp alla Túngötuna og svo niður Hofsvallagötu að Hringbraut. Ég velti því stundum fyrir mér á þessum gönguferðum af hverju ég fer ekki sömu leið, og þetta á við um fleiri svona ferðalög: ekki sama leið frá A til B og frá B til A. Er ég ómeðvitað að reyna að „stytta“ leiðina?

En hér er stærðfræðileg spurning sem hægt er að brjóta heilann um:

Lengd leiðarinnar milli A og B er 2 í fyrsta dæminu (lengst til vinstri). Hve langt er á milli eftir hinum leiðunum? Og: ef við vinnum meira með miðjumyndina, fjölgum „tröppunum“, hvernig breytist vegalengdin? [Og ef hún breytist ekki, væri ekki hægt að fá mynd sem er næstum alveg eins og síðasta myndin, svo nálægt að upplausnin í tölvuskjánum gæti ekki sýnt muninn?]

Netafræði: hve margir vegir?

Netafræði er ein grein stærðfræðinnar. Hún kemur líka fyrir í verkfræði og í félagsvísindum. Stærðfræðingar rekja upphaf greinarinnar til svissneska stærðfræðingsins Euler, sem skrifaði fyrstu ritgerðina sem hægt er að segja að falli undir netafræði, árið 1735. Í greininni leysti hann litla þraut sem íbúar borgarinnar Königsberg (sem nú heitir Kaliningrad og tilheyrir Rússlandi) höfðu gaman af því að velta fyrir sér. Hún var um það hvort hægt væri að fara í gönguferð um borgina þannig að farið væri yfir allar sjö brýrnar yfir fljótið Pregel sem rann gegnum borgina, og bara einu sinni yfir hverja brú. Á síðari tímum hefur stærðfræðingum (og mér) þótt skemmtilegt að reyna að vekja áhuga nemenda á netafræði með því að kynna þessa þraut.

Ekki fyrir svo ýkja löngu kynntist ég þó annarri hugmynd: að kynna netafræði gegnum viðfangsefni um félagsleg tengslanet. Greining slíkra neta hefur orðið stærra og stærra umfjöllunarefni, bæði vegna þróunar í félagsvísindum og ekki síður vegna þess að nú í dag tilheyrir fólk stórum félagslegum tengslanetum á internetinu eins og til dæmis á Facebook, og að auki er nú hægt að geyma upplýsingar um stór tengslanet í tölvum og reikna út hluti sem áður hefði tekið gríðalegan tíma.

Svo spurningin er hvort er áhugaverðara fyrir nemendur: hreinar stærðfræðiþrautir, eins og um brýrnar í Königsberg, eða framsetningar á félagslegum strúktúrum, eins og um tengslanet og hvernig hlutir (eins og skilaboð, orðrómar, sjúkdómar, og svo framvegis) flæða um þau?

Í þessu hefti er núna reynt að byrja á tengslanetum:

Rúmfræðibók Descartesar frá 1637

Hér má sjá aðra blaðsíðu í viðauka við bókina Orðræða um aðferð (Discours de la méthode) eftir René Descartes. Viðaukinn heitir Rúmfræðin (La Geometrie) og er talin marka upphaf hnitarúmfræði.

Descartes bls 2

Hönnun síðunar er falleg og athyglisvert að notaðar eru hliðarmálsgreinar („hliðarnótur“) til að gera uppbygginguna skýra.

Þó er innihaldið ennþá áhugaverðara. Efri myndin sýnir hvernig hægt er að margfalda saman tvær tölur með rúmfræðilegri teikningu, ef einingarlengd er gefin. Á myndinni ákveðum við að einingin sé strikið AB (sem telst þá hafa lengdina 1). Tölurnar sem margfalda á saman samsvara strikunum BC og BD. Þau strik má teikna hvernig sem er, svo lengi sem lengdirnar samsvari tölunum sem á að margfalda saman. Þá er teiknað strikið AC og svo er teiknuð lína gegnum D þannig að það sé samsíða AC og fundinn skurðpunktur þeirrar línu og línunnar BC. Sá skurðpunktur er nefndur E. Núna er lengd striksins BE jöfn margfeldi lengda strikanna BC og BD. Ef við leyfum okkur að slá saman strikum og lengdum þeirra, þá er semsagt BC x BD = BE.

Á neðri myndinni er sýnt hvernig hægt er að „reikna“ ferningsrót með teikningu, það er að segja, að teikna strik þannig að lengd þess sé ferningsrót gefinnar lengdar. Hér er ætlunin að finna ferningsrót GH, og einingin er FG. Við finnum miðju FH og nefnum þann punkt K. Teiknum hring með miðju í K (og geisla KH) og teiknum hornrétta línu frá G og finnum skurðpunkt þeirrar línu og hringsins, sem við nefnum I. Þá er strikið GI ferningsrótin sem við vildum finna.

Því sem haldið er fram hér að ofan hefur ekkert verið rökstutt, en það er eftirlátið lesendum að sannfærast um réttmæti þess. Það er hægt að nota sér einslögun þríhyrninga (og þá staðreynd að lengd AB er 1) til að sjá að margföldunin virkar, en fyrir rótardráttinn gæti þurft að þekkja setningu Þalesar og beita einslögun á þríhyrningana FIH og FGI. Þau sem kunna eitthvað í hnitarúmfræði ættu líka að geta tjáð myndirnar á því tungumáli og séð að þetta passar.

Eins og fram kom í upphafi færslunnar er þetta blaðsíða 2 í texta sem talinn er upphaf hnitarúmfræði og venjulega hnitakerfið sem öll læra í skólanum heitir þess vegna líka „kartesíska hnitakerfið“ (Cartesian coordinates) höfundinum til heiðurs. Það sem hann gerði í Rúmfræði var að tengja saman reikning og rúmfræði, þannig að nota mætti rúmfræði til að leysa vandamál í reikningi og algebru, og öfugt. Á síðunni sem sýnd er túlkar hann margföldun, deilingu og ferningsrótardrátt sem aðgerðir á línustrikum, sem var nýjung! Skoðið síðuna aftur og látið gæsahúðina hríslast eftir hryggsúlunni.

Verk í vinnslu 1

Ég hef í mörg ár haft ákafan áhuga á því hvernig fólk myndar sér og viðheldur skoðunum sínum og heimsmynd, svo ekki sé talað um allar óorðuðu ómeðvituðu forsendurnar sem krauma undir eins og ormar undir steini. Hægt er að tengja þetta við heimspeki, þekkingarfræði, og þrotaðar pælingar um það hvort hlutir geti verið bæði grænir og bláir á sama tíma og hve mörg viskískot þarf að drekka áður en verufræðilega sönnun Anselms á tilvist Guðs fer að meika sens. (Guð er fullkomnasta vera sem hægt er að ímynda sér. Vera sem er til er fullkomnari en vera sem er ekki til. Þar af leiðandi er Guð til.)

En ég hef meiri áhuga á þessu í praxís og hvernig fólk ályktar í raun og veru. Þrátt fyrir fögur orð um sjálfstæði og gagnrýna hugsun myndum við okkur yfirleitt skoðanir og „þekkingu“ fyrst og leitum að, eða finnum upp, rök og ástæður seinna.

Mig minnir að ég hafi lesið um þetta fyrst (þannig að það hafi vakið nóga athygli mína) hjá Páli Skúlasyni. Ég held að greinin heiti „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ og hefur verið vinsælt lesefni í allskonar kúrsum, allavega vinsælt meðal kennara þessara námskeiða. Í þessari grein er meðal annars bent á að maður hefur tilhneigingu til að sækjast í staðfestingar skoðanna sinna, fremur en að reyna að fella þær út gildi. Í gamla daga var þetta útskýrt með því að við læsum Moggann eða Þjóðviljann eftir því hvort við tryðum á kapítalíska heterópatríarkíið eða kommúníska heterópatríarkíið en núna kennum við reikniritum Facebook um. Þetta á að minnsta kosti að vera andstætt því sem stundum er sagt vera vísindaleg aðferð, en lífið er ekki vísindi og vísindi eru það oft ekki heldur. Stundum er því haldið fram að vísindaleg aðferð gangi út á að setja fram tilgátur, byggðar á kenningum, og láta svo reyna á þær til hins ítrasta, reyna bókstaflega í alvöru að afsanna þær. Þetta er auðvitað ekki endilega það sem er gert, því þá væri erfiðara að fá styrki úr samkeppnissjóðum og birtingar í fræðilegum tímaritum.

Vísindaleg aðferð:

  1. Þú skalt ekki ljúga mikið.
  2. Ef mældur raunveruleiki getur ekki með nokkru móti komið heim og saman við kenninguna verðurðu að breyta kenningunni eitthvað örlítið eða viðurkenna að það eigi enn eftir að lagfæra nokkur smáatriði.
  3. Fyrri liðir eiga ekki við í styrkumsóknum.

Ég er að sjálfsögðu undantekning frá þessu vinnulagi.

Gagnrýnin hugsun felst samkvæmt Páli Skúlasyni í því „að fallast ekki á neina skoðun, hvaðan sem hún kemur, nema maður rannsaki hvað í henni fellst og geti fundið fullnægjandi rök fyrir henni.“ Þetta þýðir strax að það er vonlaust að ástunda gagnrýna hugsun, meðal annars vegna þess að

  1. Heilinn myndar sér strax skoðun án meðvitaðrar hugsunar og finnur svo fullnægjandi rök eftirá, sama hver skoðunin er.
  2. Maður hefur nauðsynlega allt of margar skoðanir til að nokkur einasti möguleiki sé til að rannsaka þær allar af nokkru viti.

Ég hugsa um þetta úr tveimur áttum.

Í fyrsta lagi er til yndislegur litteratúr í sálfræði um það að heilinn noti tvö kerfi. Eitt sem virkar hratt, nánast ómeðvitað, lýsum því með heitum eins og „innsæi“ og „tilfinningum“. Það hefur í þessum fræðum hlotið hið skáldlega nafn „system 1“. Hitt kerfið virkar miklu hægar og er meðvituð, það sem kalla mætti rökhugsun – sem krefst áreynslu og veldur sársauka í heilanum. Flestir forðast þetta kerfi í lengstu lög. Þetta kerfi heitir hinu undursamlega nafni „system 2“. Þessum kerfum er lýst í bókinni „Thinking, Fast and Slow“ eftir Daniel Kahnemann, sem er sálfræðingur en hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir þessa pælingu. (Látum eiga sig að Nóbelsverðlaun í hagfræði eru ekki endilega góðs viti.) Annað efni úr sömu átt eru verk David Dunning og félaga. Kannski þekkja allir í dag hin rómuðu Dunning-Kruger áhrif: heimskt fólk er of heimskt til að fatta hvað það er heimskt. Ég myndi orða þetta kurteisar í viðurvist viðkvæmra sála (af hverju ekki „sálna“?) og er svosem víðtækara en akkúrat þetta. Til dæmis telja fjórar af hverjum fimm manneskjum sig vera betri bilstjóra en meðalbílstjóri og betra ljóðskáld en meðalljóðskáld, og betri í því að greina lygafréttir frá alvöru pródúksjón en venjulegur auli.

Það er þó ekki minna skemmtilegt að nálgast þetta út frá gagnrýnum fræðum og sálgreiningu. Þá er hver einstaklingur og hans heili ekki í brennidepli heldur við öll sem heild og allar þær leyndu langanir og forsendur sem eru undir og bakvið allt sem við gerum og segjum. Fólk verður oft mjög ringlað eða jafnvel reitt þegar þessir hlutir eru skoðaðir og ormar skríða úr holum steinsins í bláhvítu ljósi. Tvö stig ef þið þekkið þessa vísun.

Setning Kópernikusar

Í rússneskri bók frá 1978 segir í inngangi frá „setningu Kópernikusar“:

Screenshot 2016-08-15 12.17.23

Það er frekar erfitt að sjá þetta fyrir sér. Ég sá fyrir mér einhverjar krúsídúllur, litla hringi sem punkturinn myndi ferðast eftir. En það er ekki það sem gerist. Allir ættu að prófa að sjá þetta fyrir sér, og horfa svo ef til vill á þetta:

each dot moves in a straight line (x-post r/woahdude)

Reyndar er algert lykilatriði að minni hringurinn hafi nákvæmlega hálft þvermál (eða radíus) stóra hringsins. Ef það er ekki þannig gerast aðrir hlutir…