Að skapa eða neyta

Hve margir skyldu bæði hafa heillast af fyrirlestrum Ken Robinson um sköpun og skóla og Khan Academy (Khan var líka hylltur fyrir TED fyrirlestur)? Samt eru þeir í algerri grundvallarandstöðu hvor við annan. Eiga nemendur að búa eitthvað til í skólanum eða eiga þeir að innbyrða afurðir annarra? Eiga þeir að hugsa sínar eigin hugsanir eða læra um hugsanir annarra?

Úr bókinni School is hell eftir Matt Groening (smellið til að stækka)

Nú eru hlutirnir ekki alveg svona einfaldir. En samt sem áður. Annars vegar nám sem viðtaka, kennsla sem færsla upplýsinga frá kennara til nemanda og hins vegar nám sem sköpun, eitthvað sem verður til í glímu við verkefni, með því að tala um það við aðra, með tilheyrandi gagnrýni og ögrunum og hjálp frá kennara. Hlutverk kennara er gjörólíkt, ef við tökum þessa tvo póla. Í fyrrnefnda líkaninu reynir kennarinn að „koma efninu til skila“ með sem skýrustum hætti. Hann segir nemendum hvernig hlutirnir eru. Í hinu síðarnefnda er boðorð kennarans:

Leitastu við að gera eingöngu það fyrir nemendur sem þeir geta ekki gert sjálfir ennþá.

Ekki segja nemendum það sem þeir geta sjálfir sagt. Ekki leysa verkefni fyrir þá sem þeir geta sjálfir leyst.