Monthly Archives: febrúar 2015

Brot af vinnu kennara

Nýtt vinnumat framhaldsskólakennara var fellt. Um það má margt segja, en það verður ekki hér. Hér eru tveir hlutir sem ég hef unnið að og búið til, sem virðist ekki gert ráð fyrir að ég geri samkvæmt kjarasamningi, því tíminn sem það tekur að búa svona til er svo sannarlega miklu meiri en 20 mínútur „á kennslustund“. Inn í vinnumatið er nefnilega ekki tekið framleiðsla á námsefni, þróun nýjunga, eða annað slíkt. Ég birti þetta hér ef einhver skyldi vilja nota þetta, eða fá hugmyndir af því að sjá þetta.

1. Mannfjöldi á Íslandi

Þetta er búið til á vefsíðunni Desmos. Í skjalinu er tafla yfir mannfjölda á Íslandi samkvæmt Hagstofunni. Einnig er þar vísisfall með stikum sem hægt er að breyta, og annað fall sem er línufall. Hægt er að sjá og fela föllin með því að smella á hringina vinstra megin við þau.

Hægt er að nota tölurnar til að æfa einfaldan prósentureikning (hve mikið fjölgaði Íslendingum á árabilinu ….?) eða „flóknari“ prósentureikning (um hve mörg prósent fjölgaði Íslendingum að meðaltali á árabilinu …?) eða til að kynna vísisvöxt og vísisföll og það að finna stærðfræðilegt líkan (hvaða fall fellur best að gögnunum, hvernig er hægt að spá fyrir um framtíðina?)

2. Hitastig í Reykjavík

Í skjalinu er tafla yfir mánaðarlegt meðalhitastig í Reykjavík samkvæmt Veðurstofunni, frá 1. janúar 2011 til 1. janúar 2015. Einnig er þar sínusfall með stikum sem hægt er að breyta.

Hægt er að nota tölurnar til að kynna það að finna stærðfræðilegt líkan af lotubundum fyrirbærum með hornaföllum (hvaða fall fellur best að gögnunum, hvernig er hægt að spá fyrir um framtíðina?) Hér er ekkert farið út í flóknari líkön sem gætu virkað betur (bæta við fleiri bylgjum ofan á), en þó er þetta dæmi um eitthvað þar sem þarf annað en línulegt, veldis- eða vísisfall.

 

Forstjórar og Tiger Woods

Margar bandarískar bækur „almenns efnis“ hefjast á lítilli sögu um einhvern sem var einu sinni venjulegur maður (yfirleitt ekki kona) en er í dag forstjóri risafyrirtækis (CEO) eða Tiger Woods, eða hugsanlega einhver annar íþróttamaður eða frægur fiðlu- eða píanóleikari. Allt í lagi, bækurnar sem ég er að tala um eru á einn eða annan hátt um árangur eða betra líf, en ég er ekki að meina bara sjálfshjálparbækur eða hvernig-verðurðu-ríkur bækur. Þetta á líka við um bækur um menntun, sem eru þær sem ég les mest af.

Vandinn er að ég hef engan áhuga á þessum forstjórum og lít ekki á þá sem fyrirmyndir af neinu tagi og myndi aldrei taka neitt mark á því sem þeir segja, umfram hvaða random manneskju sem er. Og allar bækurnar sem nefna Tiger Woods, það þarf nú eitthvað að fara að uppfæra þær, ég nenni ekki að lesa meira um þann skíthæl.

Einhvers staðar er kennd sú kenning í BNA að svona bækur verði að vera byggðar upp sem safn af lýsandi sögum sem eiga sér ljóslifandi söguhetjur með nafni og uppruna. Oft eru fengnir sérfræðingar í slíkri ritun til að hjálpa fræðimönnum að setja fram sín almennu vísindi, pælingar og staðreyndir, þannig að almenningur nenni að lesa og hrífast með.

Mér finnst þetta óþarfa málalengingar og frekar til að grynnka hugsunina.