Monthly Archives: nóvember 2014

Skrif mín endurspegla ekki skoðanir mínar

Skrif mín endurspegla ekki skoðanir vinnuveitenda minna. Ég veit ekki hvers vegna ég eða aðrir þurfa að taka þetta fram. Ég er lasinn, með nokkrar kommur. Vitundin betri en nokkru sinni, mýkri og ljúfari, en röddin er ekki sem best. Ég er heima með kvef á meðan hagvöxturinn bíður, veruleikinn skrifaði ummæli við sína eigin mynd.

Skrif mín endurspegla ekki skoðanir vina minna. Ég hugsa ekki og því er ég ekki til er gömul rökvilla en ég endurspegla samt skoðanir vina minna, hjá því verður ekki komist. Uppáhalds orðið mitt er ekki ég heldur við, eða kannski ljósmóðir, húsfreyr eða dalalæða, ef ekki maríutásur. Ljóðskáld vekja yfirleitt ekki athygli nema þau hafi eitthvað umfram góðan skáldskap fram að færa. Ekki er nóg að hafa vel þurrt púður heldur þarf líka kveikiþráð og tunnu af bensíni. Ljóðið commented on her own innlegg.

Spegilmynd mín endurskrifar ekki sögu mína. Saga mín er saga annarra, saga áhrifa, saga endurspeglana. Ef ljóðskáldið hefur brennandi raust, dökk augu og glóandi réttlætiskennd getur það selt margar bækur. Formæli það foreldrum sínum á götumáli leita ég að því á netinu og set í blogg:

They fuck you up, your mum and dad.
    They may not mean to, but they do.
They fill you with the faults they had
    And add some extra, just for you.

 

Þetta er úr ljóði eftir Philip Larkin sem virðist hafa verið fremur hræðileg persóna að einhverju leyti en á móti kemur að við erum flest hræðilegar persónur að einhverju leyti. Maltviskífélagið líkar við stöðu hjá Einar Benediktsson.

Skrif mín endurspegla ekki ástand mitt. Orð mín eru fengin að gjöf. Ég rændi þeim á pirate bay. Ég hleraði þau gegnum stoðveggi. Ég sá þau í bók sem gluggaði í en keypti ekki. Ég man þau ekki rétt. Ég hugsa og þess vegna eru aðrir til. Utangarðsmenn geta stundum selt ljóð ef þeir taka undir áhyggju og þráhyggju millistéttarinnar gagnvart minnihlutahópnum sem þeir tilheyra. Magma energy sem kann að meta mynd sem Einar Benediktsson á.

Skrif mín endurspegla alls ekki skoðanir rasista eða miðaldra vinstrikvenna. Ég er af því við erum. Ég las það án leyfis á netinu. Ég afrita orð, sum enda í glærusýningu sem ég held á þriðjudaginn. Ég færi til orð, hér og nú, hætti við, spegla mig í viðbrögðum sem ég sé framundan. Munu þau auka virðingu mína í samfélaginu, munu þau auka aðdáun á mér? Það þarf bæði að leggja saman og draga frá, meta þetta heildstætt. Einar Benediktsson uppfærði stöðu sína.

Einar Ben sagði hún það er ekkert til sem heitir Einar Ben

Einar Ben segiði, en ég hef aldrei lesið Einar Ben, aðeins heyrt nafnið í ræðum og séð stafina á bókarkili. Nokkra frasa hef ég heyrt eignaða honum, „aðgát skal gjörð þá áfengi haft er um hönd hér á jörð“, „ég elska þig skítkalda sker“ og „mávurinn er heiðarlegastur fugla.“ Eitthvað er sjálfsagt til í þessu eins og öllum öðrum frösum. Þeir heilla mig ekki, en henta vel góðborgurum og ræðuskrifurum stjórnmálamanna. Ég útiloka ekki að þetta sé kveðskapur, en margt hefur verið hugsað síðan 1783 og ekki allt á íslensku.

Frekar vil ég þá Stephan G. sem hafði hugsun og hugsjónir sem ég skil eða Þorstein Erlingsson sem hafði það líka, þótt ég hafi lengi haft leið á kvæðinu Í Hlíðarendakoti. Ég tengdi það alltaf við einhver barnalegheit og skátastarfsemi, fann ekki húmorinn í því, það talaði ekki til mín. Enda samið handa hundrað árum eldra fólki sem bjó í öðru landi í annarri sveit sem þekkti hvorki fótbolta né tölvuleiki, hvað þá Michael Jackson og Wham! En sósíalisti og guðleysingi var Þorsteinn og ég kann að meta það. Á íslensku má alltaf finna svar sem er stutt, stuðlað og alveg út í hött.

Handhafar vestrænnar menningar, langmenntaðir í evrópskum fræðum og listum, telja Einar Ben eiga erindi við börnin í skólunum. En það á líka boðháttur sagna í 2. persónu, svo ekki sé minnst á þolfallið góða og orðstofnana, ef marka má samræmd próf í „íslensku“. Við aðdáendur viðtengingarháttar bíðum svo eftir hinni miklu endurreisn. Yxu víur orti afi minn til að gera grín að stafsetningarkennslu en er vísan bara notuð í stafsetningarkennslu. Allar dýpstu, fegurstu og fyndnustu hugsmíðar sem fólk hefur skapað er umbreytt í steinrunnið skólaefni. Íslenskt kvef er hreinasta kvef í heimi, ég fagna því daglega.

Það er alltaf gott að velta fyrir sér tilgangi skólagöngu og þess efnis og verkefna sem nemendur eru látnir fást við. Hvað er íslenskukennsla? Fer ritsmíðum nemenda hrakandi? Geta þeir ekki lengur tjáð sig nema í chat-glugga? Nota þeir alltaf færri og færri orð? Gott ef satt væri? Hærra nýtingarhlutfall, skilvirkari samskipti, aukinn hagnaður. Ísland getur orðið ríkasta land í heimi og heimskasta ríki á landabréfinu.

Þessi pistill er skrifaður gegn Einari Ben. Hann er skrifaður gegn íslensku. Hann er skrifaður undir áhrifum veiru eða bakteríu sem veldur höfuðverk og nefrennsli. Hann er ekki skrifaður af leiða heldur gleði. Hann er skrifaður með kvefi. Hann er skrifaður þegar síðasta stofnun lýðveldisins hefur loksins úthýst sínu ræstingarfólki. Alls staðar annars staðar þar sem ég hef komið í vistarverur ríkisins hafa ræstingar verið lagðar í hendur fjármagnsins, eigenda ræstingarfyrirtækja sem geta tekið sinn skerf og borgað sínu fólki lægri laun en umsjónarmenn fasteigna ríkisins geta gert án þess að skammast sín. Þetta er markaðsvélin sem malar. Gangar háskólans eru skúraðir á kaupi sem er jafnvel lægra en kaup stundakennara og það dugar ekki til framfærslu á Íslandi. Auk þess sem fólkið missir reglulega vinnuna þegar einn fjármagnseigandi undirbýður hinn og telur sig geta rekið fólk til að skúra ennþá hraðar á enn lægra kaupi. Því miður eru til tvö Íslönd.

Allt í lagi, ég er reiður. Ég elska þig stormur, en ég gef skít í ríkisstjórnina. Hún var kosin með 51.1% greiddra atkvæða. Hún er hugmyndafræðileg hraðlest á teinum sem enda út í Herdísarvík. í þá átt að færa eignir og viðfangsefni úr sameign og samábyrgð til einkaaðila, það er fjármagnseigenda. Hún gerir það með markvissu fjársvelti stofnana, svo sem skóla og spítala, og lætur innviðina grotna smám saman niður þangað til allir fá nóg og samþykkja yfirtöku. Orð eru dýr og var ég löngum læknir minn og prestur. Rauðagullssinfónían er spiluð aftur og aftur á fullu blasti og heldur fyrir mér vöku. Aðgát skal höfð í nærveru karla sem ráða. Kveikjum ekki í jólatrénu, frelsum ekki fangana, brjótum ekki rúður. Kvefið hefur talað, og það talar íslensku. Ég mótmæli gíslatöku ljóðsins og smættun þess í hestavísur og koníak. Engan dag ljóðsins og niður með Einar Benn!