Monthly Archives: maí 2014

Fasistar og hálfvitar

[Í tilefni af uppgangi útlendingahaturs í landinu og því að kistan.is er dauð, endurbirti ég ritdóm um bók sem kom út á Íslandi fyrir nokkrum árum. Ég held að ritdómurinn geti staðið sem upplýsandi grein þó að lesandi hafi ekki áhuga á þessari bók sem fjallað er um.]

um íslamista og naívista

1. Orðræða um aðferð

Árið 1667 lýsti hollenski heimspekingurinn Spinoza aðferðarfræði sinni við að rannsaka viðkvæm viðfangsefni sem fólk hefur sterkar tilfinningar til, eins og stjórnmál og hagfræði:

Ég hef lagt mig fram um að hæðast ekki að, harma ekki, eða fordæma mannlegar gjörðir, heldur að skilja þær; og í þessu skyni hef ég litið á tilfinningar, eins og ást, hatur, reiði, öfund, metnað, samúð, og aðrar hræringar hugans, ekki í ljósi mannlegra lasta, heldur sem eiginleika þeirra, alveg eins og hiti, kuldi, stormur, þrumur og þess háttar fyrirbæri eru eiginleikar lofthjúpsins. (Sjá Tractatus Politicus, brotið var fundið og þýtt héðan.)

Að undanförnu hefur verið töluverð umræða um múslima í Evrópu, sérstaklega eftir svonefnt „skopmyndamál“ í Danmörku. Inn í þá umræðu tengjast svo fyrirbæri eins og stríðsrekstur Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda í löndum múslima, hryðjuverk og hernám Ísraels í Palestínu. Full þörf er á bókum um þessi flóknu og eldfimu mál, enda hafa margir áhyggjur af samtökum herskárra múslima. Við þurfum svo sannarlega vandaða greiningu á því hverjar þær hreyfingar eru, í hverju aðdráttarafl þeirra felst, hvert umfang þeirra er og hvernig þær virka, en síðast en ekki síst skynsamlegt mat á því hve hættuleg þær kunni að vera. Við verðum einnig að velta því fyrir okkur hvernig við getum brugðist við og bætt úr þeim vanda sem við kunnum að vera í.

Það er alveg ljóst að þau Karen Jespersen og Ralf Pittelkow, höfundar Íslamista og naívista (Ugla, 2007), telja sannarlega mikla hættu vera á ferðum. Á kápu bókarinnar segir hvorki meira né minna en að „ný ógn“ steðji að frelsi Vesturlanda: „Það er íslamisminn sem byggir á öfgakenndum skilningi á íslam.“ Þessi stóru orð þarfnast gildra röksemda, en svo virðist sem margir hafi sannfærst um þau af lestri bókarinnar. Íslamistar og naívistar hefur fengið nokkuð jákvæða athygli, bæði hjá sjónvarpsmanninum Agli Helgasyni og Ágústi Borgþóri Sverrissyni, sem ritaði lofsamlega um hana í tímaritinu Þjóðmál. Því er ekki úr vegi að skoða hvernig höfundum tekst að skýra út fyrir okkur ógnina sem steðjar að Vesturlöndum.

2. Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu, vofa Íslamismans.

Hverjir eru þá þessir íslamistar og fyrir hverju eru þeir að berjast? Við fáum svarið fljótt:

Endanlegt markmið íslamista er að skapa íslamskt alheimsríki, sem byggist á strangri og bókstaflegri útgáfu af sharía – sem sagt forskriftum í Kóraninum og í frásögnum af ævi og skoðunum Múhameðs spámanns. (bls. 12)

Þessi skilgreining er ekki studd heimildum og því er erfitt fyrir lesandann að meta það hvort meintir íslamistar séu yfirhöfuð til annars staðar en í hugum höfunda, eða hvort höfundar eru bara að segja eitthvað sem þeir hafa lesið eða heyrt einhversstaðar, til dæmis á kaffistofunni á vinnustað sínum. Mun sterkara hefði verið að benda á einhver slík samtök og vitna í samþykktir þeirra eða önnur gögn, því sannarlega eru til samtök sem aðhyllast ‘íslamisma’ af því tagi sem lýsingin á við um, og þau eru nefnd á nokkrum stöðum í bókinni – án þess þó að vitnað sé til þeirra eigin orða, yfirlýsinga eða samþykkta. Fyrir lesendur þessa ritdóms má benda á síðu samtakanna Hizb ut-Tahrir, sem eru ein af þeim samtökum sem nefnd eru í bókinni.

Eftir því sem höfundar segja, stafar mesta hættan ekki af íslömskum hryðjuverkamönnum, heldur miklu frekar af ýmsum pólitískum og félagslegum kröfum íslamista. Þó er erfitt að átta sig nákvæmlega á þessu, annars vegar vegna þess að á köflum er mikið gert úr meintum stuðningi múslima við hryðjuverk og hins vegar vegna þess að þó að víðast hvar sé rætt um samtök múslima í Danmörku og kröfur þeirra er stundum er hoppað yfir til Saudi-Arabíu eða Íran og farið að óttast um að klerkastjórnin þar komist yfir kjarnorkuvopn (bls. 18).

Íslamisma er lýst sem hliðstæðu við alræðisstefnur á borð við nasisma og sovét-kommúnisma. Bókin hefst á því að sagt er frá gömlu leikriti eftir Max Frisch, leikrit sem sjá má sem lýsingu á því hvernig nasistar komust til valda í Þýskalandi fyrir átakafælni og barnaskap almennings. Eftir því sem næst verður komist eru samskonar atburðir að gerast núna í Danmörku og víðar í Evrópu: herskáir múslimar nýta sér andvaraleysi okkar, og barnslega trú á að þeir séu ekki að stefna á heimsyfirráð, til að koma á umræddum Sharia-lögum og klerkaveldi.

Til sögunnar eru nefndir nokkrir leiðtogar íslamismans, til dæmis Yusuf al-Qaradawi og hinn kunni Tariq Ramadan, “sem er íslamisti sem kann að tala tungum tveim” (44). Þetta vakti áhuga minn: hver er þessi Tariq Ramadan og hvernig fer hann að því að tala tungum tveim? Það hefði auðveldað mér að elta þennan þráð að hafa atriðisorðaskrá í bókinni, en því miður er engin slík, sem er reyndar algengur galli á íslenskum bókum. Ég fann nafn Ramadans nefnt á fimm stöðum í bókinni, yfirleitt er hann kallaður íslamisti og vitnað til bókar á frönsku, Le Sabre et le Coran eftir Paul Landau. Eftir því sem næst verður komist með leit á internetinu er Landau í hópi fólks sem aðhyllist þá kenningu að Tariq Ramadan sé einhverskonar úlfur í sauðagæru, eða eins og stendur í Íslamistum og naívistum, að hann hafi „nútímalegt útlit“ og „þægilegt viðmót“ en viðhorf hans séu „rétttrúnaður út í gegn.“ (111)

Ramadan hefur kennt við Oxford-háskóla, Erasmus-háskólann í Rotterdam og víðar, skrifað fjölda bóka og unnið sem ráðgjafi fyrir stjórnvöld á Bretlandi og fyrir Evrópusambandið. Meginboðskapur hans er sá að Kóraninn verði stöðugt að endurtúlka og að múslimar í Evrópu verði að finna sér sjálfsmynd sem evrópskir múslimar, sem samræmist því samfélagi sem þeir búa í. (Sjá Salih R., „The Backward and the New: National, Transnational and PostNationalIslamin Europe“ íJournal of Ethnic & Migration Studies; Sept. 2004, Vol. 30 Issue 5, 995-1011) Samt er Tariq Ramadan umdeildur maður, því til dæmis fékk hann ekki vegabréfsáritun til Bandaríkjanna árið 2004 og varð því að segja af sér sem prófessor við Notre Dame-háskólann í Indiana, þar sem yfirvöld héldu því fram að hann hefði styrkt samtök sem tengdust Hamas á árunum 1998-2002. (Hann mátti reyndar ekki heldur ferðast til Túnis, Saudi-Arabíu og Egyptalands vegna baráttu sinnar gegn dauðarefsingum og grýtingum, sjá Walker M (2006) „Europe’s mosque hysteria.“ The Wilson Quarterly)

Um Ramadan virðist hafa skapast lítill iðnaður meðal manna sem vilja meina að hann segi eitt við „Vesturlandabúa“ og annað við múslima. Í Íslamistum og naívistum stendur að Ramadan hafi sett „spurningamerki við það hvort Osama bin Laden hefði verið að verki“ (78) í árásánum 11. september 2001 skömmu eftir að þær áttu sér stað. Þetta á að sýna fram á að Ramadan sé íslamisti sem styðji ofbeldi. Fullyrðingin er ekki studd heimild en ef leitað er á netinu kemur í ljós að þessi fullyrðing á rætur að rekja til viðtals sem tekið var við Ramadan 22. september 2001, þar sem hann sagði: „Líkurnar [á sekt bin Ladens] eru miklar, en mörgum spurningum er ósvarað … En hverjir sem þeir eru, bin Laden eða aðrir, þá er nauðsynlegt að finna þá og dæma.“ Maður spyr sig hvernig þetta styðji þá skoðun að Ramadan sé hættulegur íslamisti. Ég fletti bókinni margoft í leit að frekara efni um Ramadan, og fann nafn hans á blaðsíðum 16, 44, 78, 111, 154 og 236 – hvergi er að finna nein rök fyrir þessari skoðun. Þeir sem vilja kynna sér orð Ramadans, geta lesið viðtöl og greinar eftir hann á vefsíðu hans.

Nú má vera að einhverjum finnist smásmygli að eltast við einstakt atriði á borð við innistæðulausar alhæfingar bókarinnar um Tariq Ramadan, en staðreyndin er sú að þetta er langt því frá eina dæmið um eitthvað sem haldið er fram í bókinni án þess að vitnað sé til heimilda og stenst síðan ekki skoðun. Fjölmargar staðhæfingar bókarinnar eru úr lausi loftu gripnar, og aðrar eru ótrúverðugar og kalla á frekari skýringar. Því fara tvær grímur að renna á lesandann. Hvert er markmiðið með þessari bók? Á blaðsíðum 18 og 20 eru nefndar nokkrar ástæður til að óttast íslamisma, þar á meðal sú fráleita hugmynd að múslimar fjölgi sér svo ört í Evrópu að þeir verði fljótlega meirihluti í ýmsum borgum, en þessi fullyrðing er endurtekin að minnsta kosti þrisvar í bókinni. Ágætlega var fjallað um bækurnar tvær sem eru helsta heimild höfunda Íslamista og naívista fyrir þessari kenningu í ritdómi í Financial Times eftir Simon Kuper, og má með sanni segja að það sé um niðursöllun að ræða.

Fullyrðingar sem þessar, ásamt gífuryrðum um að ógnin sem að okkur steðji jafnist á við nasismann, eiga sér því greinilega ekki rætur í raunveruleikanum, en vekja mann engu að síður til umhugsunar: Hvað er það sem er Pittelkow og Jespersen svo heilagt, að þau kunna sér ekki hóf í uppspuna og rangfærslum til að verja það? Sú hugmynd sem gegnsýrir bókina er nefnilega af toga fortíðarþrár, eða nostalgíu. Við gætum nefnt hana Matadorsþrá – þetta er hugmyndin um að einu sinni hafi litla Danmörk verið friðsæl og frjáls, líkt og í samnefndum sjónvarpsþáttum sem margir Íslendingar muna eftir. Með greiningu í anda Slavoj Zizek að vopni blasir við að höfundarnir (og aðrir Danir sama sinnis) eru í raun að gera múslima að blórabögglum fyrir allt „það sem er að“ í Danmörku og þar með breiða yfir flóknari samfélagslegan veruleika sem veldur því að heimurinn er ekki eins og hann var þegar Pittelkow og Jespersen voru ung, ef hann var einhvern tímann í raun þannig. Höfundarnir þrá tálsýnina um heildstætt samfélag, og til að auðvelda sér heilabrotin við að skýra eða sættast við að slíkt samfélag er ekki raunin kenna þau valdaráni og undirróðursstarfsemi múslima um. Á blaðsíðu 134 er fjallað um kröfur múslima um „sérmeðferð“, og segir þar: „Ef fallist yrði á alla halarófuna af sérkröfum og hún útfærð á landsvísu, værum við þar með komin með tvær þjóðir í sama landi og samheldi landsmanna væri úr sögunni.“

Eftir lestur á þessum kafla og fleirum keimlíkum í Íslamistum og naívistum er dálítið furðuleg tilfinning að lesa formála Óraplágu Zizeks, eftir Andra Fannar Ottósson og Steinar Örn Atlason, sem er nánast eins og bein umfjöllun um fyrrnefndu bókina: „Segja má að þarna sé grunnvirkni hugmyndafræðinnar komin: frávarp á innra vandamáli sjálfrar formgerðar samfélagsins yfir á einhvern ytri aðila sem sagður er hindra framför í átt að heildstæðara samfélagi. Og um leið viðheldur hún órunum – útópíunni – um að hið heildstæða fyrirmyndarsamfélag sé mögulegt ef aðeins væri hægt að útiloka hinn óvelkomna aðila.“ (27)

Ýmis vandamál í Danmörku eru vissulega tengd bæði múslimum og öðrum innflytjendum, því þar, eins og í öðrum ríkum löndum, vinna innflytjendur úr fátækari löndum láglaunastörfin og halda hagkerfunum gangandi, en njóta lítillillar virðingar og hafa enn minni völd. Af þessu sprettur einangrun, gettómyndun, tortryggni og beiskja sem hefur verið fylgifiskur þeirrar stéttarstöðu frá því löngu áður en innflytendur tóku hana yfir. Óttinn við lágstéttarfólk og gettó hefur lengi fylgt vestrænni borgarastétt – en hugmyndafræði íslamófóbíunnar gerir þeim sömu góðborgunum kleift að taka upp skammlaust hatur í þeirra garð. Enda beinist þessi ótti ekki eingöngu að múslimum, heldur líka kristnum Pólverjum eða bara fátæku fólki hvaðanæva úr heiminum. Gott dæmi um þennan ótta mátti sjá í viðtali Egils Helgasonar við Þórdísi Backman í Kiljunni, þar sem auðheyrt var að gagnrýni hennar á Íslam og múslima var liður víðtækara óþoli gegn öllum sem talist geta „utanaðkomandi“ eða „ólíkir“ þegar horft er til uppruna eða trúarbragða.

Ástæðan fyrir því að Jespersen og Pittelkow þora ekki að ganga um í Mjölnerparken er sú sama og hvítir menn hafa til að forðast Harlem í New York: þau eru hrædd um að fátæklingarnir ræni þau. Jespersen og Pittelkow tekst ekki að sannfæra lesandann um að ótti þeirra við Íslam og múslima sé annað en hinn gamalkunni ótti borgarastéttarinnar um að eigin völd, fé og forréttindastöðu kunni að ganga þeim úr greipum í návígi við hinn svanga, þann sem er örvæntingarfullur og þarf að berjast fyrir viðurværi sínu – almenn og gamalkunn xenófóbía sem á sér ótal birtingarmyndir út í gegnum sögu borgaralegrar samfélagsgerðar á Vesturlöndum, allt frá fasisma til hægri-pópúlisma dagsins í dag.

3. Hryllilegar sögur

Þó að höfundar geri þann fyrirvara á sínu máli að ekki séu allir múslimar íslamistar, eru þeir afar gjarnir á að slá þessum hópum saman, stundum lymskulega og án þess að lesandinn verði þess beinlínis áskynja, en stundum er reynt að styðja þá fullyrðingu rökum að múslimar séu nær allir ofstopamenn. Til að sýna fram á að Íslamismi njóti hylli meðal almennings í múslimaheiminum er sagt frá skoðanakönnun sem sjónvarpsstöðin Al-Jazeera gerði meðal áhorfenda sinna. Áhorfendur voru spurðir hvort þeir styddu Osama bin Laden. 49,9% sögðu já en 50,1% sögðu nei. Við fáum engar frekari skýringar í bókinni á því hvernig þetta var kannað, hvaða orðalag var notað, eða nákvæmlega hvenær og hvernig var spurt. Það eina sem við fáum að vita er að höfundar lásu þetta í International Herald Tribune, þann 9. júní 2006.

Nú vita allir að til eru skoðanakannanir sem sýna hvað sem er, og því er mikilvægt að vanda mjög til verksins þegar vitnað er til þeirra. Ein stór og vönduð Gallup-könnun sýnir að 4% Saudi-araba telja árásir á saklausa geta verið fullkomlega réttlætanlegar og 2% Írana, en í Bandaríkjunum er talan 6%. Sama könnun sýnir að um það bil 80% íbúa í Saudi-Arabíu styðja fullt jafnrétti karla og kvenna á öllum sviðum – um þetta má lesa nánar í nýlegri bók frá Gallup, Who Speaks For Islam?: What a Billion Muslims Really Think. Höfundar Íslamista og naívista hafa hins vegar ekki áhuga á því hvað múslimum finnst í raun og veru, og vitna aðeins til þeirra kannanna sem styðja tilgátu þeirra um að þeir séu margir stuðningsmenn hryðjuverka.

Á víð og dreif um bókina eru fullyrðingar eins og: „… íslamisminn er töluverð valdablokk nú á dögum, og honum vex ískyggilega ásmegin bæði í múslimalöndum og meðal múslima í Evrópu.“ (bls. 202) Fullyrðingin er hinsvegar ekki studd neinum vísunum í raunveruleikann og því er engin leið að sannreyna hana. Sannfæringarmáttur bókarinnar veltur einkum á stökum hryllingssögum, en af þeim er nóg í verkinu og er ályktað af þeim, ýmist um Íslamista, eða múslima. „Dönsk kona sem var búsett í Saudi-Arabíu, hefur sagt frá konu nokkurri sem lést af barnsförum af því maður hennar vildi ekki leyfa keisaraskurð“ (bls. 68, vitnað í frétt í Berlingske Tidende). Sagt er frá hroðalegum dauða hinnar 17 ára Sohane Benziane, sem var brennd lifandi í frönsku innflytjendagettói árið 2002 (bls. 167, heimildar ekki getið, en það má lesa um þetta mál á netinu).

Um Íran er þetta sagt: „Grýting, hýðing, og fleiri harkalegar refsingar í nafni íslams er einnig nokkuð sem konur eiga yfir höfði sér í Íran, ef þær eru dæmdar fyrir samræði utan hjónabands (jafnvel þótt um nauðgun sé að ræða) eða því um lík brot á reglum sharía.” (69) Engin heimild er gefin, og ekki skýrt hvort eða hvernig þessi skelfilegi siður, að grýta fólk, tengist íslamisma í Íran eða Evrópu. Slíkra skýringa væri kannski sérstaklega þörf í ljósi þess að ekki er minnst á grýtingar í Kóraninum, en þær eru hins vegar fyrirskipaðar bæði í Gamla testamentinu og í Hadith þótt við teljum slíkt athæfi ekki hluta af okkar menningu eða siðum. Frásagnir af slíku fylla okkur engu að síður viðbjóði, viðbjóði sem Íslamistar og naívistar reyna að tengja við heilu múslimalöndin, til dæmis þegar því er lýst að grýting sé „nokkuð sem konur eiga yfir höfði sér í Íran“ án þess að minnsta tilraun sé gerð til að skýra í hvar, hvenær eða í hvaða samhengi slíkt eigi sér stað í landinu. Með þessu sem og öðrum dæmum svíkja höfundarnir fyrirvara sína um að þeir séu ekki á móti múslimum heldur bara herskáum múslimum. Að þylja upp dæmi sem þessi kalla óhjákvæmilega fram tilfinningu um að á meðal múslima almennt tíðkist hryllileg meðferð á konum.

Ósanngjarn og lítillækkandi málflutningur um einstök dæmi sem ætlað er að sýna múslima í sem dekkstu ljósi er hvarvetna í bókinni, en þó er gerð tilraun til að sýna að þeir séu í raun einnig hlægilegir, á blaðsíðu 195: „Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, fór þó út yfir allan þjófabálk, þegar hann æsti sig upp í að líkja Múhameðsteikningunum við ‘glæpi gegn mannkyninu’“. Ekki er vitnað til heimildar, svo ég fór á netið og reyndi að finna ummælin. Þau fundust ekki, en hinsvegar sagði Erdogan, samkvæmt Washington Post, „Á sama hátt og við lítum á gyðingahatur sem glæp gegn mannkyni, er íslamófóbía líka glæpur gegn mannkyni“ (Sjá hér ).

Út í gegnum bókina eru dæmi um hvernig ruglað er, eða blandað saman, samtökum herskárra múslima, almennum múslimum, og svo stjórnvöldum í múslimalöndum. Á bls. 239 er múslimalöndum gefin ráð: „Þessum löndum verður ekkert ágengt ef þau tileinka sér ekki gagnrýna hugsun.“ En hvernig geta lönd hugsað? Um hvern er verið að tala? Þessi litli greinarmunur, sem gerður er á stjórnvöldum annars vegar og almenningi hins vegar, gerir umfjöllunina óskýra. Saudi-Arabía er til dæmis hreinræktað konungsveldi, og almenningur hefur lítið frelsi. Hryðjuverkasamtök Osama bin Laden eru fyrst og fremst í baráttu gegn konungsfjölskyldunni þar, svo þar takast á annars vegar alræðisstjórn (sem gefur sig vissulega út fyrir að stjórna í krafti trúar) og hins vegar íslamistar. Í mörgum múslimalöndum eru stjórnvöld á hinn bóginn alls ekki trúarleg, heldur einmitt veraldleg, svo sem í Egyptalandi og Jórdaníu, og alls staðar eru samtök íslamista í andstöðu við stjórnvöld, ef ekki bönnuð. Almenningur lendir svo þarna á milli.

Það væri, í þessu samhengi, mjög áhugavert að fá að vita hvar skopmyndunum af Múhameð var mótmælt og hvernig, en höfundar telja málið marka „söguleg þáttaskil“ (41). En við fáum í sjálfu sér ekki margt að vita um deiluna. Voru mótmælin almenn eða skipulögð af tilteknum hópum með tiltekna hagsmuni? Af hverju urðu mótmælin svona ofbeldisfull í Jórdaníu á meðan þau voru engin í Marokkó? Af hverju heyrðist ekkert úr fátækrahverfum Frakklands, sem oft eru nefnd í bókinni sem gróðrastía íslamista? Hverjir voru það sem létust í mótmælunum? Voru það ef til vill mótmælendurnir sjálfir, skotnir af veraldlegri lögreglu? Um þetta fáum við ekkert að vita. Höfundar hafa hvorki áhuga á því hvernig múslimar í Evrópu né í löndum Íslam upplifðu deiluna, hvað þá að takast á við margbreytilegan pólitískan veruleika sem var bakgrunnur mótmælanna í hverju landi fyrir sig.

Jespersen og Pittelkow horfast ekki í augu við þá raun að í Danmörku varð teiknimyndamálið fyrst og fremst til þess að stíflur brustu og sú djúpa gjá sem þar er milli fátækra innflytjenda og hvítra Dana kom í ljós. En túlkun bókarinnar er þessi: skopmyndadeilan kom til vegna þess að íslamistar sáu sér leik á borði í baráttu sinni fyrir að íslamísera Evrópu. „Hér var mál sem bauð upp á sóknarfæri gegn Vesturlöndum.“ (36) „Múhameðsdeilan er því hluti af stærra ferli sem íslamistar sjá fyrir sér í Evrópu, þar sem hlutfall múslima muni vaxa ört. Þeir telja hlutverk sitt vera hernám.“ (45) Fullyrðingar sem þessar eru studdar einstökum herskáum ummælum úr ýmsum áttum, án þess að lesandi fái að vita samhengið og sum þeirra eru úr heimildum sem eru eldri en skopmyndamálið. En það er auðvitað enginn vandi að finna óteljandi herská ummæli um hvað sem er – eða er það almenn skoðun kristinna manna að það hafi átt að „sprengja Afganistan aftur á steinöld“ eins og sumir sögðu Bandaríkjunum eftir 11. september 2001?

4. Ofurnæfur

Að mati höfunda Íslamista og naívista snerist Múhameðsteikningamálið um þetta: íslamistar vilja afnema málfrelsi á Vesturlöndum. Þetta er skref í þá átt að brjóta Evrópu undir Íslam. En í Danmörku og öðrum Vesturlöndum eru líka svokallaðir naívistar. Það er fólk sem áttar sig ekki á því að íslamistar eru í fullri alvöru að vinna markvisst að hernáminu. Naívistar eru þeir sem töldu Múhameðsdeiluna snúast um að „virða trúartilfinningu fólks“ (44). Nú getur vel verið að margir hafi horft þannig á málið, en hérna vantar þriðja möguleikann: Múhameðsdeilan á rót sína að rekja til þess hver staða múslima er í Danmörku, þar sem þeim er opinberlega kennt um stór vandamál í dönsku samfélagi á borð við glæpi og þeir sakaðir um að mergsjúga velferðarkerfið og vera ekki nógu „danskir“. Þannig var árás Jótlandspóstsins kornið sem fyllti mælinn. Múslimar kröfðust þess að vera ekki hafðir fyrir rangri sök, þeim fannst að í myndunum fælist sama andúð á múslimum og birst hafði um árabil í dönskum fjölmiðlum og lítillækað þá með ýmsu móti.

Í mínum huga er þetta líklegri leið til þess að skilja það sem gerðist en að gera ráð fyrir að hatur á málfrelsi ráði viðbrögðum manna, en ég geng einmitt út frá hugmyndum í anda Spinoza, að það sé ekki ómögulegt að skilja mannlega hegðun og atferli, jafnvel þótt málin séu flókin og tilfinningar blandist í spilin. Ég kaupi ekki þá kenningu, án góðra raka, að milljónir manna þrái helsi en ekki frelsi, að hatur á lýðræði og málfrelsi sé svona öflug hvatning. Múslimar vilja almennt frelsi og lýðræði eins og aðrir. Ef margir leita í samtök íslamista er það vegna þess að það er skortur á betri valmöguleikum. Það er lítillega minnst á þetta í bókinni, því það er viðurkennt að erfið staða ungra múslima í Danmörku skýri að hluta hvers vegna þeir kunni að ganga til liðs við róttækar trúarhreyfingar. Mér er illskiljanlegt að þetta skuli ekki vega þyngra, því það virðist augljóst að einmitt þarna eru tækifærin til að berjast gegn uppgangi íslamisma ef það er okkar helsta hugarangur: að búa til vænleg skilyrði fyrir múslima til að lifa sem fullgildir þegnar í samfélaginu. En í umfjöllun bókarinnar um skopmyndamálið vantar einmitt meiri upplýsingar um hvernig þau skilyrði eru í Danmörku. Við fáum nánast ekkert að vita um innflytjendapólitík í landinu þó að hér sem annars staðar sé gengið út frá hinni fáránlegu kenningu um að múslimar verði ört stærri hluti af íbúum Evrópu vegna þess að þeir fjölgi sér meira en innfæddir.

5. Lokaorð

Maður hlýtur að spyrja sig: af hverju uppnefnir bókin fyrirfram alla þá sem ekki fallast á kenningu hennar? Styður það málflutninginn eða ættum við að hafa varann á? Ég hef hér tekið dæmi nánast af handahófi til að sýna hvernig heimildir eru valdar til að styðja hugmyndir höfundanna, algerlega án tillits til þess hvort heimildirnar séu traustar eða viðeigandi. Hvernig á að meta bók sem inniheldur hverja fullyrðinguna af fætur annarri án þess að gera neina tilraun til þess að rökstyðja þær, eða yfirhöfuð útskýra þær, auk þess sem uppgefnar heimildir eru fáar og rýrar, einkum dönsk dagblöð? Hvernig er hægt að taka alvarlega bók um múslima þar sem ekki er leitast við að kynna viðhorf eða sýn múslima?

Mig langar að gera orð Simons Kuper úr áðurnefndum ritdómi Financial Times að mínum: þetta er ein af þessum bókum sem hefst á fyrirvara um að ætlunin sé alls ekki að halda því fram að allir múslimar séu í heilögu stríði, en síðan er tekið til við að „sýna fram á“ hvernig múslimar eru í raun að taka yfir Evrópu. Við fáum þó ekki að vita fjöldatölur um innflytjendur eða múslima, þó að sífellt sé hamrað á því að múslimar verði æ stærri hluti af íbúum Evrópu. Jespersen og Pittelkow leggja sig ekki fram um að skilja, heldur eyða þau púðrinu í að fordæma og ala á ótta. Okkur eru sagðar hryllingssögur af íslamistum og gefnir tveir valkostir: stríð við þá eða uppgjöf. „Það er úrslitaatriði að vera fastur fyrir.“ (237)

Þeir sem vilja reyna að komast til botns í þeim vanda sem fjölmenningarsamfélög hljóta að standa frammi fyrir eru gerðir hlægilegir og þeir sem trúa ekki hræðsluáróðrinum eru uppnefndir „naívistar“. Lausn bókarinnar er að krefjast „aðlögunnar“ innflytjenda, en notkun höfunda á því hugtaki er villandi. Í fyrsta lagi mætti segja að innflytjendur hefðu einmitt aðlagast mjög vel: þeir eru þar sem þeim var komið fyrir, þeir hafa aðlagast samfélagsstöðu þar sem menntunarleysi, fátækt og trúarofsi eru hlutskipti manna. Í öðru lagi mætti kalla þessa lausn að berja höfðinu við steininn, eða, eins og Eiríkur Bergmann Einarsson komst að orði í sjónvarpsþættinum Kiljunni, að hella bensíni á eld. Því það er alveg sama hvað höfundum bókarinnar eða öðrum finnst um það hvort „fjölmenningarsamfélagið“ gangi ekki upp, samfélög nútímans eru fjölmenningarleg, og því verður ekki breytt nema að menn vilji hefja stórfellda framleiðslu á gasklefum. Spurningin er hvað við ætlum að gera til að bæta samfélagið: að búa til grýlur úr ákveðnum samfélagshópum eða skapa öllum skilyrði til að lifa við virðingu, frelsi, öryggi og hamingjuleit. Það þarf ekki að taka fram að slíkt samfélag er aðeins fjarlægt markmið, en það er verðugt engu að síður.