Monthly Archives: júlí 2013

Flatarmál rétthyrnings sem fall af hliðarlengd

Á að nota svona forritildi til að sýna eða eiga nemendur að geta búið svona til sjálfir?

Hægt er að hreyfa x-gildið til (flatarmál ef farið er yfir í neikvæða hluta x-áss er reiknað neikvætt samkvæmt venju um heildun.)

Ég ímynda mér að hægt sé að nota svona til þess að undirbúa og búa til merkingu fyrir heildun. Fyrir mig (þe. einhvern sem kann eitthvað í stærðfræði) er lítið mál að búa til svona skjal í GeoGebru. En það er spurning hvort það er ekki of flókið fyrir flesta nemendur sem eru á því stigi að vera að læra um föll og heildun. Samt er þetta nú ekki mjög flókið …

 

Létt sumarblogg

Nú skín sólin eins og auga djöfulsins. Á milli þess sem við laugumst mildum regnúða. Sumarið er tilvalið til að taka upp nýtt áhugamál: pólitísk fjárhættuspil. Eins og allir vita sem lesa Facebook færslur mínar vann ég 20 evrur í getraunum í vikunni. Ég lagði 44.44 evrur undir á að Ólafur Grímsson vísaði lækkun á veiðigjaldi ekki til þjóðarinnar.

Org_vedmal

 

Sumir trúðu mér ekki, en þetta gerðist í alvörunni. Stuðullinn sem ég fékk var 1.45. Nú sé ég eftir því að hafa ekki sett meira undir, enda var ég nokkuð viss um að þetta færi svona. Reyndar er tvennt í þessu.

  • Ef ég hefði tapað, hefði ég litið svo á að ég hefði „borgað“ fyrir að fá þjóðaratkvæðagreiðslu, það hefði líka glatt mig, ég hef gaman af kosningum, þær eru gott sjónvarp.
  • Sigur er sigur, í beinhörðum peningum (evrum), auk þess sem útkoma á þessa leið staðfestir tilgátur mínar um valdamenn og peninga, Ólaf Ragnar og fjármagnið í landinu.

Nú er bara spurning í hvað ég set evrurnar. Þar sem ég er langt undir neysluviðmiðum í innkomu finnst mér ég eiga skilið að gera gott við mig. Ég gæti hugsað mér hvítvínsflösku og einhverja cutting-edge bók um vald/kapítal. Nú eða skáldsögu þar sem aðalpersónan smám saman brjálast á eigin snilligáfu andspænis köldum heimi sem neitar að skilja snilldina og sjálf hennar leysist upp í móki í löngum ofskynjunarlegum kafla sem gerist á dýnu á sjúkrahúsi, einhverju hæli, eða í viðbjóðslegu eiturbæli.

Ég stend í rústum horfins heims

Flest gömlu bloggin sem ég las eru meira og minna rústir með brotnum tenglum og horfnum athugasemdum.

Mig langar að blogga en ég veit ekki alveg hvernig. Mig langar að segja örlítið meira en kemst í facebook-status en kannski ekki mikið meira. Og fyrir hvern?

Rithöfundar segjast sumir „skrifa fyrir sjálfa sig“ en það getur ekki verið alveg rétt. Þeir skrifa fyrir sjálfa sig en líka aðra. Þeir meina kannski að þeir skrifi ekki til að þóknast pabba og mömmu, eða til að þóknast sínum eigin hugmyndum um hinn „almenna hinn“, dæmandi röddum, eða eigin súperegói, sínum eigin innri gagnrýnisröddum.

Ég blogga til að halda þræði.

Í dag langar mig að muna eftir þessu:

Hér eru tvær staðalmyndir, og eitthvað til í báðum (kannski, eða ekki, hvað veit ég):

Ég veit ekki hve margir hugsanlegir lesendur hafa forsendur til að skilja eða hlæja að þessu gríni. Kannski eingöngu þau sem fylgdust bæði spennt með „deilunni um póstmódernisma“ í Íslandi á árunum 1997-1998 sem endaði með money-shot fyrirlestri Þorsteins Gylfasonar í hátíðarsal Háskóla Íslands og sáu viðtalið um daginn við Chomsky sem lýsti því yfir að Zizek væri vitleysingur. Eða enn jafnvel enn færri. Sjálfur leitaði ég uppi umfjöllun, athugasemdir og komment um þetta viðtal við Chomsky. Ég las líka greinar eftir Alan Sokal á sínum tíma, þegar hann „afhjúpaði“ póstmódernismann. Það var á þeim tíma sem ég var að læra stærðfræði á meistarastigi og var líklega ennþá hallur undir þá hugmynd að rökgreiningarheimspeki væri eina heimspekin.

Síðar þroskaðist ég, en meira um það síðar, eða aldrei. Hins vegar hef ég oft heyrt mæta raunvísindamenn, stærðfræðinga og verkfræðinga, tala eins og þeir skilji alls ekki hvernig hugmyndafræði stjórnar bæði þeirra eigin athöfnum og orðum sem og annarra, og fullyrða gjarnan allskonar hluti sem þeir hafa engar röksemdir fyrir nema viðteknar hugmyndir. Sem þeir, merkilegt nokk, halda oft að séu þeirra eigin frumsmíð og engum öðrum hafi dottið í hug áður. Mér dettur í hug tölvupóstur sem ég sá á póstlista í vetur, þar sem einn vísindakarl sagði, eftir að hafa farið mikinn um óvísindalegt eðli femínista:

Svo velti ég því stundum fyrir mér hvort herferðin gegn nauðgunum ætti að svissa úr „nei þýðir nei“ í „já þýðir já“.

Já, mig langaði mikið til að benda honum á leitarvélina google eða aðra sambærilega tækni.