Monthly Archives: júní 2013

Jöfn tækifæri til stærðfræðináms leiða ekki til jöfnuðar

Hér er mjög áhugaverður og góður fyrirlestur um stærðfræðimenntun og jöfnuð, í bandarísku samhengi:

Uri Treisman’s „Keeping Our Eyes on the Prize“ – NCTM 2013 frá Dan Meyer á Vimeo.

Allir sem hafa snefil af áhuga á stærðfræðimenntun eða samhengi menntakerfa og samfélags ættu að horfa á þennan fyrirlestur. Flest (eða allt) sem Uri segir er skynsamlegt og rétt. Ekki lesa meira nema að horfa á hann.

Ég myndi þó vilja ganga miklu lengra í róttækri greiningu. Eitt af því sem ég hugsa alltaf þegar ég heyri eða les svona framsækna menntapólitíska orðræðu verður best útskýrt með því að vísa í eitt af gröfunum sem sýnd eru í fyrirlestrinum:

Myndin sýnir að hlutfall starfa sem krefjast engrar eða mjög lítillar þekkingar hefur aukist og líka hlutfall starfa sem krefjast mjög mikillar þekkingar. Það má líka líta á hana sem vitnisburð um aukin ójöfnuð í tekjum. Þau störf sem eru vinstra megin, og krefjast lítillar skólagöngu eða skilgreindrar þekkingar, eru að stórum hluta störf í þjónustu: afgreiðsla í búðum og á veitingastöðum, símsvörun, þrif. Og hér kemur röksemdarfærslan sem ég get ekki alveg skilið:

Það verður að veita öllum tækifæri til (jafn góðs) náms, óháð stétt, kyni, húðlit, og svo framvegis. Þannig fái allir tækifæri til að vinna sig upp, að öðlast stöðu ofar þeirri sem foreldrar barnsins eru í.

En mín spurning er: hver á að skúra gólfin? Eða í lengra máli: láglaunastörfin sem krefjast ekki skólagöngu eru mikilvæg og þau eru ekki að fara neitt. Nákvæmlega jafn marga þarf til að vinna þau, sama hvert menntunarstigið og brottfallshlutfallið er í landinu. En hér gerir Uri fyrirvara, og segir að almennur vilji í BNA sé einmitt ekki til jöfnuðar heldur til jafnra tækifæra. Fólk sé sátt við ójöfnuð svo lengi sem leiðir séu til þess að færast úr fátækt, fyrir þá sem leggja nógu hart að sér. Svo það sem hann er að segja, og ég les/heyri mjög oft, er þá að skólakerfið eigi að vera mekanismi til að styðja „sanngjarna“ mismunun, þannig að hinir góðu og duglegu komist áfram en hinir slakari sitji eftir – að því gefnu að tækifærin sjálf séu jöfn, að allir nemendur hljóti „jafn góða kennslu“, í „jafn góðum skólum“. Þessar hugmyndir eru auðvitað til komnar vegna þess að fátækt barns er besta spágildið fyrir árangur í skólanum, og börn betur stæðra hljóta almennt miklu betri tækifæri til náms en hin.

En í mínum huga gengur þetta ekki upp. Vandinn er ekki að skólakerfið gefi „náttúrlega hæfileikaríkum en fátækum börnum í minnihlutahópum“ ekki næg tækifæri til að læra og ná þannig lengra í menntakerfinu og þar með betri stöðu í þjóðfélaginu. Vandinn er að í þjóðfélaginu er stór og vaxandi hluti allra starfa þar sem launin eru mjög lág, atvinnuöryggi lítið og sjálfræði í starfi lítið eða ekkert. Nýfrjálshyggjan er líka að grafa undan þessu þrennu á mörgum sviðum þar sem starfsfólk hefur yfirleitt langa skólagöngu. Mætti þar nefna háskólana, sem reiða sig í sífellt auknum mæli á verktaka (til að vinna þjónustustörf og þrif) og stundakennara (til kennslu).