Monthly Archives: apríl 2013

Ögun og lífvald

Í síðustu færslu skrifaði ég örlítið um námslán og hvernig reglur um þau stjórna líkömum þegna landsins og því hvernig fólk hugsar um sig sem góða/fullnægjandi þegna eða vonda/lélega þegna.

Eitt af því sem dýpst er inngróið í hugmyndafræði nútímans (kapítalisma) er einstaklingshyggja. Hún er svo sjálfsögð að við tökum ekki eftir henni, hún lítur út eins og almenn skynsemi. Allt uppeldislegt regluverk innrætir hana og gengur út frá henni, þó svo að í orði kveðnu sé hún stundum falin. Gengið er út frá því að velgengni sé á ábyrgð hvers og eins, í stað þess að spyrja um það hvers konar manneskjum og hagsmunum uppbygging samfélagsins þjónar. Sértu atvinnulaus skaltu átta þig á því að vandinn er hjá þér, ekki stjórnvöldum eða gangverki atvinnulífins. Þú ert ekki nógu framtakssamur, jákvæður, skipulagður.

Frétt dagsins sem sýnir þetta er á Guardian, um innihaldslaust persónuleikapróf sem atvinnulausum er gert að taka. Hugmyndin að baki prófinu er kenning um að hafa megi „jákvæð áhrif“ á fólk með skilaboðum eins og þeim sem prófinu er væntanlega ætlað að flytja. Prófið segist mæla jákvæða eiginleika (sem ætlast er til að fólk rækti með sér, til að koma sér úr atvinnuleysinu) en svörin virðast ekki hafa áhrif á niðurstöðu prófsins. Atvinnuleysinu valda skortur á eiginleikum eins og „ást á námi“, „forvitni“ og „frumleika“. Ef fólk neitar að taka prófið getur það misst bæturnar.

Það er nefnilega aldrei nógu vont og niðurlægjandi að vera bara fátækur eða atvinnulaus. Samfélagið leitar sífellt leiða til að ítreka að staðan er einstaklingnum sjálfum að kenna, afleiðing lélegs persónuleika, galla í vitsmunalífinu ef ekki sálinni. Fólki er gert að standa í tilgangslausum biðröðum, fara í tilgangslaus viðtöl, taka tilgangslaus próf, fylla út tilgangslaus eyðublöð, og svo framvegis. Inngrip í lífið. Ef þú ert ekki í vinnu ertu vondur þegn og léleg manneskja og það þarf að láta þig heyra það, helst á hverjum degi.

Geogebruprófun

Grípið í punktinn A og færið hann til. Hvað gerist? Verkefnið er að lýsa því hvernig punkturinn B er háður punktinum A.

Þetta er dæmi um fallavensl. Við segjum: punkturinn B er fall af punktinum A.
Þessu falli má lýsa með ýmsum óformlegum hætti, en líka á nákvæmu tungumáli stærðfræðinnar. Til dæmis getum við sagt að punkturinn B sé miðpunktur línustriksins frá A til C (ef við teiknuðum slíkt strik).
Ef við kæmum þessu fyrir í hnitakerfi og létum C=(0,0) og A=(x,y), hvert væri þá hnit B?

Munurinn á hægri og vinstri I

Viðtekin sannindi eru að mesta afrek Margaret Thatcher hafi verið Tony Blair og „Nýi Verkamannaflokkurinn“. Að minnsta kosti er markaðsvæðing samfélagsins, orðræðunnar og hugmynda fólks staðreynd. Vinstrið færðist langt til hægri.

Ég fór að fletta á tímarit.is vegna þess að ég sá auglýsingu frá Samfylkingunni þar sem stóð að hún vildi breyta reglum LÍN á þann veg að greiðslur námslána yrðu mánaðarlegar. Ég man nefnilega eftir því þegar reglunum var breytt á hinn veginn, árið 1992, frá því að vera mánaðarlega yfir í að vera eftirágreiddar, samkvæmt árangri á prófum í lok annar. Forveri Samfylkingarinnar, Alþýðuflokkurinn, stóð að þeim breytingum ásamt Sjálfstæðisflokki. Rökin voru, eins og alltaf, að landið hefði ekki efni á því að gera þetta ekki, gott ef lánasjóðurinn stefndi ekki „í gjaldþrot“. Það er áhugavert að Framsóknarmenn sýndu þessu harða andstöðu á sínum tíma og líka námsmenn sjálfir.

Að hluta hefur sú ákvörðun líklega verið gerð til að styrkja bankana, að minnsta kosti var augljós afleiðing að þeir fengu meiri viðskipti. Hin ástæðan er „lífvald“ (svo ég noti fræðilegt heiti): ríkið stjórnar lífi og líkömum þegnanna með ýmsum aðferðum, reglum og stofnunum. Með því að setja námsmenn í þá klemmu að fá ekki framfærslu sína fyrr en eftir annarpróf eiga námsmenn að halda sig að náminu, í stað þess að „sóa tímanum“, sem hefur í för með sér aukin „kostnað“ Háskólans vegna lengri skólasetu og seinkun á námslokum og þar af leiðandi hugsanlega styttri starfsævi og minni framleiðslu. Þannig er þetta inngrip í líf fólks og skerðing á frelsi þeirra, í þágu „skilvirkni“ kerfisins og framleiðni einstaklinga.

Eitt af einkennum sigurs nýfrjálshyggjunnar er líklega að í dag dregur nánast enginn í efa að það sé sjálfsagt að greiðslur námslána (lífsframfæri námsmanna) haldist í hendur við „fullnægjandi námsárangur.“ Nú á meira að segja að herða enn frekar á þessu. Í nýlegu frumvarpi (sem ekki var afgreitt á nýliðnu þingi) er lagt til að námsmenn sem ljúka námi á þeim hraða sem kerfið skilgreinir sem fullnægjandi fái að losna undan afborgunum námslána þegar þeir hafa borgað aftur 75% lánsins (þ.e. væntanlega 75% af höfuðstól plús vextir og verðbætur). Í flestum tilfellum þýðir þetta þá ekki annað en að greiðslubyrði menntamanna hverfur þegar þeir eru orðnir miðaldra. Ég geri ráð fyrir því að heimilt sé að veita undanþágur vegna meiriháttar veikinda eða skilgreindra fatlana. Þetta veitir þeim augljóslega forskot sem þurfa ekki að vinna með námi eða sinna börnum, eða takast á við námsleiða og vilja minnka álagið, hvað þá skipta um námsgrein og svo framvegis. Í stuttu máli miðar frumvarpið að því að herða enn á ögunarvaldi ríkisins/markaðarins yfir líkömum þegnanna. Réttlætingin er eingöngu fólgin í hagkvæmni- og skilvirknisrökum, og þau ganga hérna beinlínis gegn frelsi og reisn námsmanna. Þetta er hluti af markaðsvæðingu lífsins (námstími = kostnaður). Og er fagnað af öllum flokkum og námsmannahreyfingum. Líklega er verið að minnka þann skórkostlega kostnað sem við höfum af námsmönnum sem nenna ekki að ljúka námi á tilsettum tíma.

Á persónulegum nótum: lögin eru auðvitað ekki afturvirk, en ég hefði aldrei náð nægum árangri til að fá niðurfellingu. Til þess var ég ekki nógu duglegur og einbeittur, ekki nógu viss um hvað ég vildi, ég var „slæmur þegn“.