Monthly Archives: mars 2013

Skólastærðfræði og hugmyndafræði

Ég logga mig inn. Án fyrirheita. Veit ekki hvað verður úr.

Rannsóknarspurningar:

Hvaða ástæðu hafa nemendur til að reyna að læra stærðfræði í skólanum? (Ekki hvaða ástæður eru mögulegar eða æskilegar, heldur hvaða ástæða er í raun og veru fyrir því?) Stungið hefur verið upp á tveimur mælistikum: að hve miklu leyti leggja nemendur sig fram vegna þess að þeir trúa því að stærðfræði muni nýtast þeim utan skólakerfisins, í samfélaginu, og að hve miklu leyti gera þeir það vegna þess að þeir trúa því að það hjálpi þeim innan skólakerfisins, til að komast upp um bekk, útskrifast, og svo framvegis. Einnig getur verið að þeir geri það án nokkurrar ástæðu: þeir bara eru þarna, og þetta er það sem maður gerir í skólanum. Þetta mætti ef til vill orða sem spurningu um notagildi eða skiptagildi, því notagildi hlutar er það gildi sem hann hefur í sjálfum sér, en skiptagildið felst í því á hverju er hægt að skipta fyrir hann. Við getum farið með þetta lengra í Marxismanum, og tekið fram að stærðfræðiþekking er auðvitað ekki hlutur sem hægt er að nota beint eða skipta á fyrir eitthvað annað, nema í yfirfærðri merkingu. Stærðfræðiþekking getur hins vegar gagnast beint (t.d við ýmsa tæknilega lausnaleit, verkfræðileg efni osfr.) og það má nota prófgráður til að afla hærri launa. Það er, launamanneskja með mikla stærðfræðiþekkingu getur selt vinnuafl sitt dýrar vegna þess að hún getur „unnið betur“ (þe. aflað vinnuveitanda meiri virðisauka í framleiðslunni). Á móti kemur að hún hefur þegar unnið mikið verk (við að tileikna sér stærðfræðina).

Með hvaða tengslahætti fást þeir við stærðfræðina? Hér hef ég búið til íslenskt orð, tengslahætti, af því ég kann ekki að spyrja að þessu beint út, án skýringa. Það sem ég á við er: hvers eðlis er skuldbinding nemenda við námið, eða eru þeir alls ekki skuldbundnir og sýna þeir jafnvel andspyrnu, óvirka eða virka? Nánar tiltekið: hella þeir sér yfir verkefnin, eins og þeir gleymi sér í leiknum (þó að þeir sjái ekki að verkefnin hafi neitt raunverulegt gildi í sjálfum sér) eða halda þeir kaldri fjarlægð (gera eins lítið og hægt er, af því þeir verða að gera það, en eru sannfærðir um að stærðfræðin hafi ekkert notagildi)?

Geta nýir kennsluhættir haft einhver áhrif á þetta? Getur einn kennari sem tekur við nemendum sem vanir eru hefðbundinni skólastærðfræði gert eitthvað til að breyta því hvernig nemendur fást við stærðfræði eða ástæðum þeirra? Getur hann gengið í smiðju fræðimanna og hugsuða, og tekið í gagnið tölvutækni, umbreytt stærðfræðinni svo að í stað þess að hún sé iðja þar sem markmið nemenda er fyrst og fremst framleiðsla á merkingarlausum runum af táknum (til að fullnægja kröfum skólans) verði hún merkingarbær og lærdómsrík?

Eru þetta ekki spurningar sem þarf að skoða í ljósi bakgrunns nemenda og þess hvað þeir geta séð fyrir sér núna og framundan og ekki síst hugmyndafræði og hvernig skólarnir raungera og (endur-)framleiða hana (eða þær, það eru vissulega ólíkir straumar og iður í fljóti þingræðiskapítalismans)? Þetta er skólakerfi þar sem skólastærðfræði leikur það hlutverk að lögmæta mismunun, stimpla fólk, greina og mæla. Það veitir „eðlilegan“ grunn fyrir ákvarðanir um áframhaldandi skólagöngu, atvinnuhorfur og sjálfsmynd/sjálfstraust.

Draumar kratans og stærðfræðimenntun

Mér finnst að öll laun eigi að vera jöfn. Þetta gerir mig líklega að öfgajafnaðarmanni – orð sem sumar segja að geti ekki haft merkingu. Ég geri mér grein fyrir að hugmyndin fellur ekki að ríkjandi samfélagsskipulagi og er algerlega út úr því korti, algert rof, fullkomlega ekki hugsanlegt í okkar kerfi.

Ég hef undanfarið verið að taka saman drauma kratans, safna saman fögrum draumum hins jarðbundna jafnaðarmanns um jöfnuð innan kapítalisma. Þetta hobbí kallast á við ákveðna krítíska fræðilega umræðu um stærðfræðimenntun. Í gær skrifaði ég um Popkewitz, sem er undir áhrifum Foucault, en nú er það grein Pais, A critical approach to equity (2012), sem er meira undir áhrifum frá Zizek.

Pais gagnrýnir stærðfræðimenntun (fræðasviðið) fyrir að leita lausna á vandanum sem felst í ójöfnum tækifærum, aðgengi og árangri í skólastærðfræði með því að vera sífellt að reyna að finna upp og reyna „betri leiðir“ til að kenna stærðfræði. Þannig gangi hún út frá því (og framleiðir þá hugmynd) að vandinn sé tæknilegur og hægt sé að laga hann, eiginlega sé vandinn eins og sjúkdómur sem við séum að lækna. En þar með ímyndum við okkur að við séum með „annars heilbrigðan líkama“. Gert er ráð fyrir að með hlutum eins og bættri kennaramenntun, auknu frelsi nemenda í skólum, meiri virðingu fyrir fjölbreytileika nemenda, og nýtingu tölvutækni megi leysa vandann.

Ef einhver skyldi vera að lesa þetta utan mín og einhverra sérfræðinga, þá er jafnaðarvandinn fólgin í því að árangur nemenda í stærðfræði á mörgum skólastigum hefur mikil áhrif á sjálfsmynd og sjálfstraust og tækifæri þeirra til frekara náms og starfa (og þar með tekjumöguleika) svo eitthvað sé nefnt. Og árangri er venjulega mjög misskipt eftir stéttum.

Pais segir að með þessu sé verið að tala á sama hátt og talað er um vandamál í kapítalismanum: á honum séu ótal agnúar, það koma upp kreppur og stundum er gripið til neyðarráðstafana, vegna „undantekninga“. Þannig ímyndum við okkur að kerfið okkar sé ófullkomin birtingarmynd hins raunverulega sanna kerfis, sem við stefnum að, við jafnaðarmenn, og með faglega skipulögðu stuðningskerfi, velferðarkerfi og skattlagningu munum við smám saman gera lífið bærilegra og jafnara. Bara ef okkur tekst að vinna á göllunum. En nú er ég eitthvað að endurtaka gömul stef.

En við Marxistar vitum betur. Kapítalisminn er ekki bilaður, hann er bilunin sjálf.

for  the  standard  capitalist  view,  crises  are  “temporary,  correctable glitches” in the functioning of the system, while from the Marxist point, they are  its  moment  of  truth,  the  “exception”  which  only  allows  us  to  grasp  the functioning of the system. (Žižek, 2007, p. 6)

Og Pais setur semsagt fram hliðstæðu:

In the same way that, for capitalism, achieving social equity is a matter of correcting market mechanisms (increasing taxation of private profit, governmental limitations  on capital speculation, the criminalisation of individual magnates, etc.), similarly the vast majority of research on equity to achieve equity in school mathematics is a matter of  developing better teaching and learning strategies.

Og á sama hátt og ójöfnuður er grundvöllur kapítalismans er ójöfnuður grundvöllur skólastærðfræðinnar. Það sem við höldum að sé bara vandamál til að leysa svo við getum fengið „stærðfræði fyrir alla“ er í raun kjarni kerfisins:

In our case, the “universal Lie” is no more than the slogan “mathematics for all”, the “repressed truth” being the crude reality of those who year after year continue to fail in school mathematics. The systematic failure of people  in school mathematics points towards the system’s antagonistic character: the condition of impossibility of realizing the common goal (mathematics for all) is simultaneously its condition of possibility. That is, what makes schooling such an efficient modern practice is precisely its capability of excluding people by means of promotion. Thus, schooling is possible […] only to the extent that universal schooling, where everybody will be successful, remains impossible.

Þetta er hugmyndafræði. Hún felur dulbýr „tilgang“ sinn á sama tíma og hún raungerir hann. „Stærðfræði fyrir alla“ hylur yfir það hneyksli að skólakerfið hendir út og hafnar fjölda fólks undir lýðræðislegu yfirskyni.

The antagonistic character of social reality – the crude reality that in order for some to succeed others have to fail – is the necessary real which needs to be concealed so that the illusion of social cohesion can be kept.

Önnur gagnrýni Pais er svo á þá fullyrðingu að stærðfræði sé góð fyrir einstaklinga. Krítískir fræðimenn á þessu sviði hafa yfirleitt alltaf rökstutt að stærðfræði hafi raunverulegt mikilvægi fyrir alla, sérstaklega minnihlutahópa, undirskipaða og undirokaða. Með stærðfræði fái þeir hugartól sem færi þeim áhrifamátt og aukið vald. En Pais er ekki tilbúinn að taka þessu sem gefnu, enda er erfitt að færa sönnur á það almennt og yfirleitt að stærðfræði hafi slíkt gildi í sjálfu sér. Gagndæmið er í raun æpandi: flest fólk hefur mjög litla skólastærðfræði á sínu valdi en tekst eigi að síður að komast af, elska, og berjast um völd og áhrif. Hins vegar er ljóst að stærðfræði er mikilvæg fyrir nemendur vegna skólakerfisins og tilheyrandi orðræðu um að hún sé mikilvæg. Hér er rétt að minnast á að út frá sjónarmiði stærðfræðinga notar margt fólk stærðfræði í lífi og starfi. En það þarf ekki að þýða að það hafi lært að gera það í skólanum. Margar rannsóknir sýna að fólk lærir eða skapar sér þessar „stærðfræðilegu aðferðir“ utan skólans, og það lítur jafnvel ekki á það sem það er að gera sem stærðfræði. Og er alveg spurning hvort á að líta á það sem stærðfræði, vegna þess að það sem fólk gerir er oftast bundið tilteknum aðstæðum, tækjum, verkaskiptingu, tilteknum markmiðum og svo framvegis.

Ég á nú eitthvað eftir af þessari grein, geri hlé, en nótera að í samræmi við kenningu Althussers þá kemur hér fram sýn á skólakerfið sem hugmyndafræðilegt stjórntæki ríkisins, lykiltæki í endurframleiðslu kapítalismans.

 

 

 

Framsækin kennslufræði framleiðir vandamál

Stærðfræðimenntun framleiðir sín eigin vandamál.

Með því að lýsa því yfir að stærðfræðiþekking og stærðfræðileg hugsun sé „nauðsynleg fyrir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi“ (til að taka dæmi um orðun, sem ég bjó til núna, en gæti staðið í námskrá) er verið að búa til bæði „fullnægjandi“ og „ófullnægjandi“ nemendur. Með þessu er búinn til „skortur“, við förum að horfa á börn út frá því hvað þau skortir (í stærðfræðiþekkingu), og við (stærðfræðimenntun) ímyndum okkur að við þurfum að bæta úr þessum skorti, kortleggja hvernig nemendur standa, hvaða þætti þá skortir og hvaða þættir eru í lagi, jafnvel framúrskarandi. Með öðrum orðum búum við til kort, eða  „hnitakerfi“ (með mörgum ásum þar sem við teljum upp alla nauðsynlega hæfni sem nemendur eiga að tileinka sér) þar sem við getum staðsett og fylgst með nemendum. Í sinni grófustu mynd birtist þetta í einkunnum og greininingum. Við búum til fyrirbæri eins og „barn sem glímir við stærðfræðierfiðleika“ eða „nemandi sem er skapandi og gagnrýninn og getur tjáð sig með stærðfræði“ og svo framvegis. Við hugsum okkur að verkefni stærðfræðimenntunar sé að leysa þetta vandamál, að breyta öllum nemendum í „góða stærðfræðinga“, það er nemendur sem eru „fullnægjandi“ út frá einhverjum viðmiðum okkar um stærðfræðilega hæfni, og það muni hafa í för með sér einhverskonar lausnir á samfélagslegum vandamálum, stærðfræðileg hæfni muni frelsa nemendur, valdefla þá, gera þá að skapandi og greinandi borgurum, og jafna tækifæri til náms, virtra starfa og áhrifa.

Um þetta fjallar Thomas Popkewitz í greininni The Alchemy of the Mathematics Curriculum: Inscriptions and the Fabrication of the Child (2004). Gagnrýni hans beinist að (a) því hvernig framsækin kennslufræði, með áherslu sinni á „þrautalausnir“, „samvinnu“ og „námssamfélag“, lögmætir vísindi og vísindamenn sem handhafa hinnar sönnu þekkingar á öllum sviðum mannlegrar tilveru, og (b) hvernig framsækin kennslufræði leggur áherslu á menntun „fyrir alla“, með jöfnuð í fyrirrúmi, samtímis því sem hún leiðir til kennslufræði sem flokkar, aðgreinir og útilokar sum börn frá þátttöku.

Ég hef verið að bjástra við að reyna að endursegja röksemdirnar úr þessari grein, en það hefur reynst dálítið erfitt. Popkewitz byggir á hugmyndum Foucault þegar hann talar um áletrunartæki (inscription devices), sem eru tæki sem einhver notar til að kortleggja fyrirbæri þannig að stjórn náist á þeim, það er, tilteknir flokkar og hugtök. Punkturinn er að kortagerðin sjálf framleiðir hlutina sem síðan er hægt að fylgjast með og stjórna. Það eru samansöfn slíkra áletrunartækja sem færa „akademíska stærðfræði“ yfir í skólastærðfræði og koma skipulagi á hana. Fræðigreinin stærðfræði verður að markmiðum, aðferðum og  inntaki skólastærðfræði, sem á lítið skylt við fræðigreinina, heldur snýr hún að því að móta sál skólabarnsins, og gera það að meðfærilegum framtíðarborgara. Í námskrám er þannig talað (meðal annars) um æskilega hegðun (ekki með því orði, en það er talað um það hvað nemendur eiga að vera að gera), persónuleika (viðhorf) og hæfni. Þessi hugtök hafa í sjálfu sér ekkert að gera með stærðfræði sem fræðigrein. Markmiðið er að framleiða nemendur sem hafi tiltekin tengsl við skólastærðfræði.

Framsækin kennslufræði leggur gjarnan áherslu á frelsi nemenda. Þeir eiga sjálfir að vera höfundar eigin þekkingar (í samræðu við kennara, sem ögrar þeim með verkefnum og spurningum og krefur nemendur um rök og skýringar: heldur uppi fræðilegu plani). Þannig eiga nemendur að tileinka sér viðmið fræðanna um vinnubrögð, röksemdir, afmörkun viðfangsefna, hvaða spurninga er hægt að spyrja – að gera þau að sínum. Og þau eiga líka að tileikna sér eiginleika eins og vinnusemi, sjálfstæði, áhuga og forvitni. Með þessu, segir Popkewitz, er verið að búa til „ábyrga þjóðfélagsþegna“.

En hér erum við komin að kjarnavanda frjálslyndrar hugmyndafræði: hvernig á að stjórna frjálsum borgurum? Til þess þurfum við einmitt áletrunartæki svo við getum fylgst með og flokkað borgarana, borið þá saman hvor við annan og við staðlana sjálfa. Og við þurfum, sem borgarar, að tileinka okkur þessa staðla sjálf, gera þau að okkar eigin viðmiði fyrir okkur sjálf, þannig að okkur finnist þeir eðlilegir og sjálfsagðir. Eins og Zizek segir þá eru einkunnarorð frjálslynds lýðræðis:

þú hefur frelsi til að gera það sem þú vilt, svo framarlega sem þú velur rétt.

Og í skólanum lærum við að velja rétt, af fúsum og frjálsum vilja. Þetta er dálítið nákvæm hliðstæða við framsækna kennlufræði sem miðar að því að láta nemendur komast að því sem við höfum fyrirfram ákveðið að þeir eigi að komast að. En þeir hafa eitthvert frelsi í því hvaða leið þeir fara að hinu fyrirfram ákveðna markmiði.

En til að draga aftur saman í lokin: það er einmitt vegna stærðfræðimenntunar og hennar þrotlausu leitar að leiðum (sem aldrei finnast) til að veita nemendum bráðnauðsynlegan aðgang að stærðfræðiþekkingu, sem vandinn er til, það hennar vegna sem að útbreiddur skortur á stærðfræði verður raunverulegt fyrirbæri og vandamál til að leysa.

Samræðu- eða klækjastjórnmál

Þau tala um að þau vilji ekki lengur gömlu stjórnmálin, klækjastjórnmálin, þræturnar og plottin. Þau vilja ekki nálgast stjórnmál eins og kappleik milli flokka heldur þjónustu við íbúa. Þau vilja allt fyrir opnum tjöldum, samráð og fagmennsku. Þau vilja ekki vera föst í gömlum hugtökum eins og hægri og vinstri.

Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á Lincoln í Háskólabíó í gær. Lincoln var bæði hugsjónamaður og klækjarefur. Ég hélt ég væri að fara á hyllimynd um mikla hetju með hreint hjarta. Þetta var ekki þannig mynd. En ekki heldur mynd til að sýna myrkur og breyskleika sérhvers manns því öll höfum við djöfla að draga og svo framvegis. Takk fyrir það. Lincoln vildi afnema þrælahald í Bandaríkjunum og var tilbúinn að beita mútum, mannslífum og lagaklækjum. Kvikmyndin er aðallega af fundum, fortölum og plottum. Spurningin um þrælahald er sett í samband við hagsmuni, ásamt öðru, Suðurríkin töldu sig ekki geta keppt við landbúnað norðursins án þrælavinnu. Eftirminnilegt þegar einn þingmaðurinn spurði hvað næst – kosningaréttur kvenna? við mikið baul.

Þessi mynd er ólík Django, sem ég sá um daginn, og gerist líka á dögum þrælahalds í Bandaríkjunum. Sú mynd er ofbeldisveisla fyrir augað, þar sem blóðið spýtist út um allt,  draumur um uppfyllingu hefndarinnar og mjög fullnægjandi sem slík, spilar beint á frumstæðar kenndir. Hvíta fólkið í Suðurríkjunum er sýnt sem ófreskjur, heimskt fólk sem hefur nautn af því að niðurlægja og kvelja svertingja, ekki vottur af mennsku til í því.

Sagði einhver hugmyndafræði?

Það er akkúrat í hugmyndinni um „hrein“ stjórnmál, án klækja, án hægri og vinstri, sem hugmyndafræðin er sterkust. Við teljum okkur trú um að mikilvægar ákvarðanir séu teknar opinberlega, af skynsemi og í samráði, en mikilvægar ákvarðanir eru hins vegar, og verða áfram, teknar í litlum herbergjum og þær eru og verða ekki byggðar á skynsamlegri rökvísi heldur út frá hagsmunum, fordómum, og ekki síst ómeðvitaðri fylgispekt við ríkjandi hugmyndafræði (kapítalisma). Það er sú hugmyndafræði sem segir meðal annars: við verðum einfaldlega að skera niður, við, við getum ekkert annað en allir aðrir hefðu gert hvort sem er, þetta er bara Excel-skjal og það er ekkert annað í boði. Hvort sem við erum Besti flokkurinn eða sá versti.

Django sýnir okkur svo aðrar hliðar hugmyndafræði, til dæmis þá að fólk sé einfaldlega gott eða vont, gáfað eða heimskt, og að við náum markmiðum okkar með því að drepa vonda og heimska fólkið (sem vill svo til að auðvelt er að tengja við staðalmyndir um heimska hvíta suðurríkjabúa, „trailer trash“, fátækan sveitalýð). Virkar eðlilega í samhengi við aftökustefnu Bandaríkjaforseta í dag.

Lincoln sýnir stjórnmál í raunsærra ljósi. En hún sýnir auðvitað ekki allar hliðar málsins. Hún dvelur ekki við hernaðinn (hundruð þúsunda drepin) og hún sýnir ekki pólitíska baráttu svertingja sjálfra fyrir afnámi þrælahalds, manna eins og Frederick Douglass (ég veit sama og ekkert um þá baráttu.)

Kannski hafa allir misst trú á þingræði af því tagi sem Lincoln hafði fyrir vettvang. Allir telja sig að minnsta kosti sjá í gegnum það. Að það sé ekki „fyrir fólkið“, sé skrípaleikur, innihaldslaus kappleikur milli flokka. Margir virðast halda að þingmenn séu vitlausara eða verra fólk en gengur og gerist. Nú er freistandi að nota hugmynd frá Zizek: allir sjá í gegnum þingræðið en ímynda sér á sama tíma að það séu einhverjir aðrir sem trúi ennþá á það (eins og það er). Sumir fjarlægja sig frá því og tala endalaust um það hvað þingið sé lélegt (en þeir beygja sig engu að síður undir vald þess og reyna ekki að breyta því). Aðrir sjá að allt snýst um yfirborð, klæki og sýndarmennsku en telja það eðlilegan hluta leiksins, og lifa sig inn í hann, kjósa rétt og reyna að fá aðra til að kjósa líka rétt. Enn aðrir trúa því að hægt sé að „endurreisa“ það, eða bjarga því: með betri kosningareglum, eins og persónukjöri, eða meira beinu lýðræði, kannski með tölvum, eða kannski samstöðu um að leggja hugmyndafræðilegan ágreining til hliðar og vinna í sátt og samlyndi að praktískum lausnum á þeim vandamálum sem upp koma.

Hugmyndin um að „bjarga lýðræðinu“ er tálsýn. Valdabaráttan fer fram með öllum tiltækum ráðum. Ekkert er jafn skýrt og línan milli hægri og vinstri, og ég sé spurninguna í dag bara sem þá hvort við höfum áfram vinstri hægristjórn eða fáum hægri hægristjórn. Sem skiptir auðvitað máli, þó að flest sé í raun og veru fyrirfram ákveðið af kapítalísku gangverki og hugmyndafræði. Það er hún sem framleiðir og réttlætir sjálfkrafa sultarlaun stundakennara við Háskóla Íslands, enn verri laun þeirra sem þrífa Háskóla Íslands, takmarkanir á tækifærum til náms við Háskóla Íslands (gegnum „náttúrulegar“ reglur um framvindu náms), og svo framvegis. (Ég nefni bara atriði kringum H.Í. vegna þess að ég þekki þann heim núna, ég er þar á daginn.)

Einlæg og vönduð spurning um mikilvægt efni

Ég sendi Vísindavefnum spurningu sem er hnitmiðuð, einlæg og um mikilvægt efni, nefnilega um laun stundakennara við Háskóla Íslands.

Nú er ég stundakennari við Háskóla Íslands og launin eru 1794 krónur á tímann. (Þess má geta að ég er bara með meistarapróf og launin væru um 100 krónum hærri á tímann ef ég hefði doktorspróf.)

Samanlagt sinna stundakennarar um þriðjungi allrar kennslu við skólann. Skýring rektors og skólayfirvalda á þessu er auðvitað að stofnunin sé fjársvelt, hún fær ekki peninga úr ríkissjóði til að geta borgað meira. Ég hef aldrei heyrt orð um þetta frá stjórnvöldum, en þau myndu augljóslega líka segja að það væru einfaldlega ekki til peningar. Hrunið og svona. Launin voru að vísu ekkert betri fyrir hrun, en þá var líka hægristjórn.

Þetta eru „lókal“ skýringar og svara því auðvitað alls ekki hvers vegna þessi laun eru miklu lægri en önnur laun fólks með sambærilega menntun, til dæmis fastráðinna starfsmanna Háskólans, eða kennara almennt. Mig langar að vita hvað sérfræðingar háskólans segja um þetta, þó að ég, amatör á sviði hagfræði og verkalýðsbaráttu, geti komið með tilgátur. Hagfræðingurinn myndi líklega tala um framboð og eftirspurn. Háskólinn kemst einfaldlega upp með að borga svona lítið á meðan einhver eru tilbúin að vinna fyrir þetta kaup. Hann myndi þó líklega þurfa að taka inn í myndina skort á verkalýðssamtökum þessa hóps, þá staðreynd að hann er tvístraður og samansettur úr fólki úr mjög ólíkum áttum. Bæði er um að ræða nemendur, nýútskrifaða og svo ráðsett fólk úr atvinnulífinu. Sumar þeirra verða að taka hvaða tilboði sem er til að skrimta, aðrir líta á kennsluna sem hobbí eða góða leið til að halda tengslum við akademíuna. Ég sé engan annan mun á fastráðnum starfsfólki og stundakennurum. Ekki skortir fólk sem vill fá fasta stöðu og myndi gera það fyrir minna.

Það hefur semsagt tekist, eða það hefur gerst smám saman, að markaðsvæða þessa starfstétt. Sem er draumur frjálshyggjumannsins um allar stéttir: að brjóta niður samtakamátt launafólks þannig að það verði bara hver fyrir sig, einangruð í sínu horni.

Rétt er að geta þess að þetta er ekki séríslensk þróun. Ég held að þetta sé alls staðar eins og fylgir líka aukinni aðsókn í háskóla, stækkun þess skólastigs. Það er nefnilega þversögn í stefnu og hugmyndafræði vestrænna samfélaga: bæði er talað um menntun sem gæði fyrir samfélagið allt, það er að það sé betra fyrir samfélagið að „hækka menntunarstig þjóðarinnar“ (það auki hagvöxt og svo framvegis), en það er líka alltaf verið að skera niður og spara og draga úr útgjöldum ríkisins til að auka skilvirkni og hagkvæmni.

Það er áhugavert að vita hvort spurningin telst „á verksviði“ vísindavefsins. Eitt af því áhugaverða við skólakerfi er hvaða efni eru tabú innan þeirra. Til dæmis forðast kennarar eins og heitan eldinn að ræða við nemendur um helstu ágreiningsefnin í samfélaginu, áhugaverðustu málin: um völd, kynlíf og dauða. Á vísindavefnum er fullt af efni um samfélagsleg mál en skyldi hlutverk háskólans í valdakerfinu vera of stór biti?