Monthly Archives: febrúar 2013

Djókfrelsi hvíta mannsins

Ég horfði ekki á Óskarinn. En ég hef fylgst með viðbrögðum við gríninu sem kynnirinn Seth McFarlane bauð upp á. Það er eitthvað mjög nútímalegt við að fylgjast með atburðum sem þessum á netinu, á félagsmiðlunum, twitter, facebook og youtube. Bandarískir femínistar, sem flestir eru mjög „borgaralegir“ og meginstraumur þess heldur sig vel innan hugmyndafræðilegra ramma kapítalísks þingræðis, brugðust við af tiltölulega miklum krafti. Þeir bentu á að góður partur af „húmornum“ byggðist á kvenfyrirlitningu, smættingu kvenna í kynfæri sín, klisjum um eðli kvenna og svo framvegis. Enn meiri þungi er í máli svartra femínista vegna þess hvernig 9 ára Quvenzhané Wallis var notuð sem leikhlutur í brandara um meinta barnagirnd George Clooney.

Nú er það jafn fyrirsjáanlegt og hversdagslegt og að eftir bjartan daginn kemur nótt, að hvítir karlar um heim allan reka um ramakvein vegna gagnrýninnar. Þeir taka yfir kommentaþræði hvarvetna og tuða um húmorsleysi og málfrelsi, eða fara að útskýra brandarana og eðli satírunnar fyrir konum, sem þeir ætla að þær geti ekki skilið, greyin.

En þær skilja brandarana mætavel. Þær hafa heyrt þá áður. Þær heyra svona grín daglega. Þeir eru ekki nýjir. Þeir afhjúpa ekki neitt. Þær vita vel að „þeir eru ekki meintir bókstaflega.“ En hvers vegna finnst körlum svona skemmtilegt að segja endalaust þessa sömu gömlu brandara um konur sem þeir þó „meina ekki bókstaflega“? Hvað segir þessi þörf fyrir að gera kaldhæðið grín að konum og sínum eigin tilfinningum og samskiptum við þær. Hugmyndafræðin er að konur séu kynlífsgripir, brjóst, píkur og uppspretta leiðinda (þegar þær tala í stað þess að leggjast og bjóða líkama sinn). Svo er þessi sérstaka rasíska vídd. Það er í lagi að gefa í skyn að ekki-hvítir séu frumstæðir og dýrslegir, og börn eru engin undantekning.

Brandarar eru einhver beinasta leiðin sem við höfum að raunverulegum gildum og hugmyndafræði. Í þeim getum við sagt það sem ekki má segja, við getum afneitað því að þá eigi að skilja bókstaflega. En á sama tíma er áhugavert að einfaldlega taka þá bókstaflega og rýna í þemun og mynstrin. Í ljós koma nefnilega mjög ákveðin þrástef. Kannski meira síðar, en nú er ég að stela af tíma mínum sem á að fara í annað. Hins vegar vildi ég aðallega halda utan um nokkrar greinar um þetta Óskars-mál. Kannski til að sýna hvernig bandarískar konur hafa upplifað þetta og greint.

New Yorker

The Atlantic

Bitch Magazine

Jezebel

Thinkprogress

Black girl dangerous

Buzzfeed

The Rumpus

— Viðbætur 3. mars —

Bust magazine

Salon

Feministing 

pistill í Guardian

annar pistill í Guardian

 

 

Draumar kratans og draumar íhaldsmannsins

Íhaldsmaðurinn nefnir oft gamla daga sem viðmið, gullöldina, þegar fólk talaði íslenzku, þegar börnin voru kurteisari, þægari og grennri, nemendur betri, og what not. En sumir kratar líta einnig með glýju í augum til fortíðar í ljóma.

Almennt held ég að ein leið til að lýsa lausnarhugmyndunum um skólakerfi sé svona skipting:

Íhaldsmaðurinn telur lausnina fólgna í að auka beina stjórnun, og útiloka óæskilegt fólk frá einhverju. Vandi í skólakerfi gæti þá verið leystur með samræmdum prófum sem ákvarða áframhald og aðgengi nemenda að menntun, fastheldnu skipulagi, stífum römmum, skýrum og stýrandi námskrám. (Þetta er svona gróflega í samræmi við kenningu Lakoff um hugmynd íhaldsmannsins um yfirvald sem hinn stranga föður.)

Kratinn telur lausnina fólgna í betri vinnubrögðum, aukinni þekkingu og fagmennsku, og þess vegna oft meira frelsi þeirra sem um málin fjalla. Vandi í skólakerfi gæti þá verið leystur með meira sjálfsforræði kennara, frjálsari námskrá, áherslu á sköpun og hvatningarkerfum, að hver og einn fái að njóta sín á sínum forsendum. (Þetta er þá í samræmi við kenningu Lakoffs aftur um hugmynd frjálslynda mannsins um yfirvald sem hið nærandi foreldri.)

Ég hef lesið margar bækur eftir krata eins og ég lýsi því, og séð mörg myndbönd. Ég er meðvitaður um að ég nota kratahugtakið hérna yfir ansi marga, sem gætu haft margar ólíkar hugmyndir um ýmislegt. En það er lítið hægt að segja nema að alhæfa.

En ég ætlaði að nefna í lokin: ég hef heyrt og lesið marga sem tala um hvorutveggja í einu, eins og þeir séu bæði kratar og íhaldsmenn. Það finnst mér alltaf jafn undarlegt. Er hægt að hafa sitt lítið af hvoru? Og þá er, til að byrja með, ágætt að hugsa um það út frá hvaða stöðu/stétt maður talar/hugsar. Hvaða nemendur eiga að njóta og/eða eru færir um að njóta kratíska skólans? Eiga allir skólar að vera jafn góðir, með jafn vel menntaða kennara og sömu bjargir? (Hugsið um íslenska framhaldsskóla.) Eiga skólarnir að vera „mismunandi“? (Hvað ræður því hver fer hvert?) Er líklegt að menntaðri foreldrar beini börnum sínum í betri skólana? Er líklegra að börn betur stæðra foreldra hafi meiri möguleika á að stunda „óhefðbundnara“ nám?

Og enn aftar, lokin fyrir aftan lokin: ég var að lesa frétt á rúv.is um skólastefnu stjórnmálaflokka. Í stuttu máli hafa þeir enga stefnu um menntun, svo sjáanlegt sé. (Þetta er þá í samræmi við grein Ólafs Páls Jónssonar frá 2007, „Skóli og menntastefna“). En þeir vilja þó „meiri tengingu við atvinnulíf“. Hvað segir það um hugmyndafræði? Að almenningur þjóni hagsmunum atvinnurekenda (auðvaldið eða kapítalið, fyrir þá sem þekkja það orð). Að menntakerfið sé til að framleiða vinnuafl fyrir kapítalið. „Flestir flokkarnir leggja áherslu á einhvers konar eflingu verk-, tækni- og starfsnáms.“ Mér finnst alltaf felast í þessari áratuga gömlu tuggu undarlegt vanmat á fólki. Það vita allir hvaða leiðir veita mesta möguleika til að öðlast virðingu (og sjálfsforræði, svo ekki sé sagt laun, starfsöryggi, völd) í okkar samfélagi. Það er með háskólamenntun. Það dugar ekkert auglýsingaátak til þess að breyta því.

Ég sé að hér er margt ósagt.

Ég datt út

Einkennilegt hvernig tíminn líður. Hverfur. Gufar upp.

Einn og hálfur mánuður frá síðustu færslu, og ég sem lofaði mér að blogga daglega.

Try Again. Fail again. Fail better.

Ég hef komist að því að mér finnst skemmtilegast að lesa, hugsa og skrifa um hugmyndafræði, ideology. Að skoða og afhjúpa hugmyndir, sannindi og forsendur athafna fólks og virkni kerfa. Ég er að sjóða saman núna, það þarf að skilgreina þetta betur (ekki endilega þrengra). Að baki (!) liggur sú forsenda að þessir hlutir séu ekki augljósir, að það séu mótsagnir á milli þess sem er opinbert og umtalað og hins sem er falið eða bælt. Og þar með kemur upp tengingin við sálgreiningu, eins og Zizek og fleiri nýta sér. Hér tek ég eftir myndmáli sem ég nota, og kemst varla hjá: staðsetningarsetningum og orðum sem gera greinarmun á því sem er hið ytra, ofaná, yfirborð, uppi, og þess sem er hið innra, undir, í djúpinu, niðri, að baki. Ég nota þetta bæði þegar ég reyni að draga fram (!) útlínur þess hvað ég á við þegar ég nota orðið hugmyndafræði, en líka þegar ég reyni að segja frá því hvernig ég vil, á þessum tímapunkti, draga fram (!) eða upp mínar eigin ástæður, forsendur, hugmyndir, og svo framvegis.

Ég er semsagt að skrifa til þess að rannsaka sjálfan mig og hvað ég vil sem rannsakandi í stærðfræðimenntun. Því það hefur vafist fyrir mér. Ég hef talið að ég vildi styðja og hjálpa stærðfræðinemendum og kennurum. Ein útgáfa af því er að forma rannsóknina sem samvinnuverkefni með kennara að þróun námsefnis og athugun á því hvernig það efni virkar. Þá er eftir að svara því hvaða erindi slíkt verkefni á við fræðin. Hvaða spurningu er ég að svara, eða get ég svarað? Annað sem kemur upp (!) er spurningin: hvert er markmiðið með stærðfræðinámi/kennslu í skólum? (Hvernig á að meta það hvort eða hvernig námsefni virkar?)

Þessar spurningar eru nærtækar og mikilvægar vegna þess að út frá sjónarmiði stærðfræðimenntunar er skólastærðfræði í vissum skilningi algerlega misheppnuð. Hugsjón hennar (opinberlega) er að stærðfræði sé góð fyrir mann, það er að segja að með því að læra stærðfræði geti fólk öðlast meiri, dýpri, víðari skilning á veruleikanum og aukið athafnagetu sína í heiminum, öðlast meira sjálfsforræði og haft áhrif á samfélagið. Á móti þessu talar svo sú staðreynd að flestir nemendur læra mjög litla stærðfræði. Og kannski nánast ekkert umfram það sem þeir gætu lært sjálfir án þess að ganga í skóla. Óteljandi rannsóknir sýna fram á að nemendur á öllum stigum geta ekki nýtt sér skólastærðfræði til neins. Þess vegna segjum við í stærðfræðimenntun: bara ef kennslu/námskrá/X yrði breytt, ef við finndum réttu leiðirnar, þá gætum við loksins veitt öllum aðgang að afli og fegurð stærðfræðinnar.  En alltaf er eitthvað í veginum. Viðhorf kennara og „vanþekking“ þeirra á stærðfræði, námskrár með sínum röngu áherslum, kennslufyrirkomulag (stundaskrár og hópaskiptingar), samræmd próf, eða nemendur sem vilja ekki læra (vegna þess að þeir skynja ekki og skilja ekki hvað er gott fyrir þá). Semsagt ótal atriði sem má rannsaka og reyna að laga.

En þá sagði Zizek – eða ég hef þetta eftir honum (og já, hann er karlremba): Þegar við höldum að við höfum fundið þau atriði sem þyrfti að laga, allt þetta sem þyrfti alls ekki að vera eins og það er (samræmd próf, léleg námskrá, heftandi skólaskipulag), þessi atriði sem virðast þvælast fyrir markmiðum (hér: nám) – þá skulum við athuga hvort það séu ekki einmitt þau atriði sem eru kjarni kerfisins.

Samkvæmt þessu er virkni menntakerfisins ekki menntun heldur einmitt samræmd próf (til að flokka fólk og viðhalda skiptingu), léleg námskrá (til að tryggja að nemendur læri ekkert nema hefðina), heftandi skólaskipulag (til að hafa stjórn á ungu fólki, halda þeim í skóla svo foreldrarnir geti selt kapítalinu vinnuafl sitt) og svo framvegis.

Og þar með þarf maður að fara að skoða það hvað maður er eiginlega að gera.