Monthly Archives: júní 2012

Kaupglaðir kommúnistar og vonda góða fólkið

Hvernig geturðu verið á móti áliðnaði og samt flogið í flugvél og drukkið bjór úr dós? Ef þú ert svona mikið á móti neysluhyggju, af hverju ertu þá alltaf í búðum að kaupa mat?

Gömul og þreytt „röksemd“ gegn einhverri skoðun er að finna það að persónum sem reyna að halda fram skoðuninni að þær séu ekki nægilega samkvæmar skoðuninni í sínu lífi. Þegar ég var að selja fólki ljóðabók fannst sumum sniðugt að skjóta á mig að nú væri ég kapítalisti með þessari sölumennsku. Á almennu formi er ásökunin svona:

Hvernig geturðu þóst vera með hinu góða þegar þú ert sjálfur svona vondur?

Sumir ganga svo langt að búa til sérstakt uppnefni um fólk sem berst gegn einhverju misrétti, nefnilega „góða fólkið“. Það er fólk sem heldur að það sé gott og vill að aðrir haldi að það sé gott, en er í rauninni ekkert betra en allir aðrir, kannski ívið verra. Aðrir nota orðið móralisti. Allt gengur þetta tal út frá því að við séum að tala um eitthvert innra eðli einstaklinga, siðferði þeirra og viðhorf. Og okkur er mjög tamt að tala á þeim nótum, tungumálið gerir ráð fyrir því. Nú hef ég til dæmis verið að ströggla við að skrifa „við tölum á þessum nótum“ í stað þess að skrifa um að „hugmyndir okkar“ séu þannig. Ég geri það vegna þess að ég trúi almennt ekki á „gott fólk“ eða „vont fólk“.

Auðvitað kannast flestir við slíka umræðu. „Tölum um að athafnir, orð og gjörðir séu góðar eða vondar en ekki manneskjurnar.“ Samt er eilílflega talað á hinn veginn, og kannski er línan dálítið óljós. Ég skrifaði athugasemd við grein eftir Guðberg Bergsson um daginn og sagði að greinin væri ógeðsleg. Það var ekki tilviljun að ég sagði ekkert um Guðberg sjálfan heldur eingöngu um greinina.

Þetta tengist einu af því sem hefur breyst í minni hugsun og tali. Þegar ég var yngri talaði ég  og hugsaði um hluti eins og sköpun og skáldskap sem eitthvað sem einstakir menn gerðu í krafti hæfileika sinna (og elju). Með gamaldags orðalagi mætti segja að ég hafi trúað á snilligáfu. En hægt og rólega hef ég sjálfur færst að því að sjá orð og athafnir einstaklinga sem einskonar speglunarbrot af hinu sameiginlega – af þeirri menningu sem við búum við saman. Allt sem við hugsum er til sem möguleiki í menningunni – orðin hafa ekki merkingu nema vegna sameiginlegs tungumáls. Auðvitað er einstaklingsmunur. Við búum í ólíkum skrokkum og upplifum ólíka menningarheima og -hópa. En hið sameiginlega/menningarlega er að mínu mati stórlega vanmetið.

Þess vegna er til dæmis svo mikilvægt að reyna að hafa áhrif á menninguna og andæfa gegnumgangandi samskipta- og samræðumynstrum sem ganga út á undirskipun kvenna (eða annarra undirskipaðra hópa). Það skiptir engu máli hvort það er „í alvörunni“ Egill Einarsson eða „hliðarsjálfið“ Gillz sem talar (ítrekað og endalaust) um kvenleika sem niðurlægjandi einkenni. Orðin eru hluti af menningunni, prentuð í dagblaðapistlum, á netinu, bókum og sjónvarpsþáttum. Orð hans eru tekin upp af strákum, þau dreifast, magnast og þróast. (Nú eða deyja út…)

Merking orða ræðst ekki af ætlun og tilgangi þess sem segir þau heldur þróast hún eftir á. Hún ræðst af viðbrögðum og viðtöku annarra á þeim, viðbrögðum við þeim viðbrögðum og svo framvegis. Og verður aldrei endanlega ákvörðuð. (Með því er ekki útilokað að sá sem sagði þau hafi ekki haft einhverja ætlun, sem viðtakendur hafa ekki skynjað.)

Ég er kominn eitthvert sem mig grunaði ekki þegar ég hóf að rita þessa færslu, enda vissi ég ekki hvað ég var að hugsa fyrr en ég skrifaði það út. Hugsunin verður til við að segja hana upphátt eða í hljóði eða skrifa hana eða slá hana á lyklaborð. Svo sit ég eftir og mér finnst eins og tungumálið hafi þvingað hugsunina í ákveðið mót og það sem stendur eftir sé ekki nákvæmlega það sem ég ætlaði að hugsa.

 

Kosningaforsetar

Mælingar sýna að eftir því sem síðasta skólastig fólks er lægra, þeim mun líklegra er það til að segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar.

Ég stenst freistinguna að segja að þetta sýni hversu mikilvægt sé að hækka menntunarstig þjóðarinnar, en samt ekki alveg.

Þegar Ólafur Ragnar var kosinn í fyrsta sinn minnir mig að ég hafi kosið hann af einhverskonar níhílískum hvötum. Mér þótti skemmtilegt að hugsa til forseta sem væri fjandmaður Davíðs og ekki vildi ég heldur fá sjálfstæðismann í embættið. En ég sá forsetann fyrst og fremst sem platfígúru og grín og bar enga virðingu fyrir því. Í einhverjum skilningi hefur það ekki breyst þó að Ólafur hafi umturnað eðli þess.

Hugmyndin um forseta sem sameiningartákn er plat í þeim skilningi að það er margt sem sundrar fólki og völdum og auði er misskipt. Við erum ekki öll á sama báti. Vigdís var plat (og hvílíkt plat!), Kristján Eldjárn var plat. Og svo framvegis. En þetta vita flestir – eða veit og veit ekki – þetta er einhver þversagnarkennd staða. Fólk veit að „þjóðin er ekki sameinuð“ og hefur aldrei verið. Samt er eitt og annað sem fólk sameinast um, enda þurfum við að umgangast og eiga í samskiptum við hvert annað, milli stétta og staða. Við hittumst öll í fjölskylduboðum og mætumst á götunni.

Sitjandi forseti hefur mest fylgi í könnunum. Líklega getur hann þakkað vinsældir sínar ákvörðunum sínum í IceSave-málinu. Og það er ekki bara vegna þess tiltekna máls heldur vegna þess að hann sýndi með því að hann er einspilari og getur verið mótvægi við ríkjandi stjórn hverju sinni. Fólk veit að hann mun beita öllum brögðum og ekki láta undan. Það sem er skemmtilega þversagnarkennt við þetta er: af hverju kjósa þing til að „ráða“ en vilja svo samt ekki að það ráði. Og að mótvægið sé þá einhver einn maður, sem velur bara þau mál sem falla að hans eiginhagsmunum til að pönkast í. Því eins og við vitum: ekki setti hann sig gegn Íraksstríðinu, og ekki gegn Kárahnjúkum. Samt voru þessi mál mjög umdeild og ekki víst að meirihluti hafi verið með þeim. Þeir sem kjósa Ólaf eru augljóslega ekki að kjósa sameiningartákn, því allir vita að mjög mörgum er tilhugsunin um hann áfram sem forseta nánast óbærileg. Þeir eru að kjósa hann sem mótvægi við þingið (og mörgum er ESB aðildarvilji þess ofarlega í huga.)

Þóra Arnórsdóttir hefur næst mesta fylgið. Hana kjósa þeir sem vilja að þingið fari með löggjafarvaldið í landinu, og þeir sem vilja í raun og veru að hlutverk forseta sé ekki pólitískt. Þóra er augljóslega gædd mörgum góðum eiginleikum, er klár og kemur vel fyrir. Upplagt til að heimsækja veik börn, veita verðlaun og hjálpa okkur að viðhalda blekkingunni/raunveruleikanum um okkur sem eina þjóð. Og kannski einhverjir sem hafa slíka ímugust á Ólafi Ragnari sjálfum að þeir vilja hann burt, en hafa kannski engar sérstakar skoðanir á embættinu.

Aðrir hafa svo minna fylgi, en ég er ekki opinber stofnun og ég nenni ekki að fara yfir aðra frambjóðendur, þó að þeir kunni að eiga jafn mikið erindi í embættið eins og þau tvö.

Ég hef reyndar forðast fréttir, þætti og auglýsingar um þessar kosningar eins og pestina, því mér finnst það allt óbærilega leiðinlegt. En nú legg ég samt mitt af mörkum í þá hít. Og geri ráð fyrir að kjósa Þóru þó að ég taki undir með ályktun Öldu, sem telur rétt að forsetaembættið verði lagt niður.

Þroskinn er lævís og lipur

Ég er ekki eins kaldhæðinn í dag og ég var. Enda var kaldhæðnin aldrei alveg einlæg. Hún var leið að marki, en ekki takmark í sjálfu sér.

Ég reyndi að hafa áhrif á lesendur og hlustendur mína. Mig langaði að fólk hætti að hafa rangar skoðanir og tæki upp réttar (mínar) skoðanir. Nú er ég aðeins að grínast, en samt ekki.

En fólk breytist líklega lítið við að fá framan í sig kaldhæðni eða vera dregið sundur í háði. Ég held að Björn Bjarnason hafi ennþá sömu gömlu góðu skoðanir sínar á Íraksstríðinu, þó að ég hafi gert grín að þeim í ljóði.

Ég hef hinsvegar breyst, og þetta er eitt af því sem hefur breyst hjá mér. Ég var að ræða þetta við félaga minn við útigrillið um helgina – hvort maður breyttist eitthvað, svona eftir að maður er orðinn rúmlega tvítugur. Breytingarnar eru að minnsta kosti oft hægfara og nánast ómeðvitaðar. Skrítnast og skemmtilegast er þegar fólk breytir alveg skoðunum sínum en telur sig hins vegar alls ekki hafa gert það, það hafi alltaf haft sínar núverandi skoðanir.

Deilingarleikni spáir fyrir um árangur í stærðfræði

Þekking barna á almennum brotum og deilingu spáir fyrir um gengi þeirra síðar meir í stærðfræði, segir í nýlegri grein (Early Predictors of High School Mathematics Achievement). Ég sá þetta á einu af stærðfræði/menntunar-bloggunum sem ég les reglulega, The Aperiodical.

Ályktanir höfunda greinarinnar eru að það þurfi að leggja mun meiri áherslu á skilning kennara og nemenda á því hvað deiling er, því að vanskilningur á nákvæmlega því sviði standi nemendum fyrir þrifum í frekara stærðfræðinámi. Án þess að fara djúpt í þau rök sem þeir leggja fram þessu til stuðnings verður að skoða vel hvort

  • þekking á einhverjum öðrum afmörkuðum sviðum gæti einnig gefið jafn góðar spár,
  • þekking á þessum tilteknu atriðum séu bara eitt „merki“ um ójafnan skilning nemenda á stærðfræði almennt,
  • þessi „framtíðarvandræði“ væru minni eða engin ef stærðfræðikennsla í skólum í framhaldinu væri öðruvísi en hún er.

Undir lokin benda höfundar á að sýnt hafi verið í öðrum rannsóknum að kennarar í Bandaríkjunum hafi lítinn skilning á deilingu og brotum, til dæmis geti þeir flestir ekki útskýrt hvers vegna deiling með broti er margföldun með brotinu „viðsnúnu“. Greinin er ekki birt í tímariti um stærðfræðimenntun enda erum við í því samfélagi að reyna að hætta að tala um hluti út frá því að það sé eitthvað að kennurum.

— viðbót —

Berglind Gísladóttir spurði mig á Facebook út í síðustu efnisgreinina, og benti svo á að það væri mikilvægt að vita um og skilja þann vanda sem felst í of lítilli stærðfræðiþekkingu kennara og ekki mætti fegra eða fela hann. Ég er alveg sammála því og auðvitað er mikilvægt að halda áfram að rannsaka það. Persónulega tilheyri ég þó þeim sem vilja reyna að færa brennipunktinn: Annars vegar á hluti sem virka, jákvæð inngrip, stuðning, og hins vegar á þá kerfislægu þætti sem hindra framfarir – frekar en að einblína á þekkingu og skilning kennara.

Í upphafi var merkingin

Og merkinguna sköpum við saman. Stærsta vandamál flestra í tengslum við stærðfræði er að hún hefur ekki merkingu fyrir þeim. Stærðfræðinám er (eins og annað nám) flókið fyrirbæri og ekki víst að hægt sé að ná því með einfaldri skilgreiningu. Ég geng eins og stendur út frá vinnuskilgreiningu sem hefur tvær hliðar:

  1. Að læra stærðfræði er að gefa fyrirbærum stærðfræðilega merkingu. Merking felst í tengslum milli framsetninga, hugtaka og hluta.
  2. Að læra stærðfræði er að auka möguleika sína til að hafa áhrif á heiminn með stærðfræði (stærðfræðilegri hugsun, tungumáli, röksemdum).

Í þessu tvennu hefur afar mörgu og miklu verið þjappað saman í stutt mál.

Spurningin er hvernig best er að styðja stærðfræðilega merkingarsköpun.

Í upphafi var orðið framorðið

Og það var orðið framorðið hjá Guði.

Nú hef ég enn og aftur startað logni. Ég meina bloggi. Vonandi til framtíðar. Til ævarandi framtíðar, eilífðarnóns.

Við störtum hérna svolitlu útgáfufélagi sem heitir Skjábjört. Ein af fyrstu útgáfunum verður rafbókin Radíó Rafauga sem inniheldur útvarpspistla eftir sjálfan mig. Þeir voru fluttir í Víðsjá árið 2004 að mig minnir, en bókin kemur út 4. júlí ef allt gengur upp.

Lommi og Margrét gerðu þessa kápumynd hér að ofan.

Þetta verður vonandi landi og þjóð til heilla og hagsbóta en þó sér í lagi sjálfum mér til gamans.