Hvernig geturðu verið á móti áliðnaði og samt flogið í flugvél og drukkið bjór úr dós? Ef þú ert svona mikið á móti neysluhyggju, af hverju ertu þá alltaf í búðum að kaupa mat?
Gömul og þreytt „röksemd“ gegn einhverri skoðun er að finna það að persónum sem reyna að halda fram skoðuninni að þær séu ekki nægilega samkvæmar skoðuninni í sínu lífi. Þegar ég var að selja fólki ljóðabók fannst sumum sniðugt að skjóta á mig að nú væri ég kapítalisti með þessari sölumennsku. Á almennu formi er ásökunin svona:
Hvernig geturðu þóst vera með hinu góða þegar þú ert sjálfur svona vondur?
Sumir ganga svo langt að búa til sérstakt uppnefni um fólk sem berst gegn einhverju misrétti, nefnilega „góða fólkið“. Það er fólk sem heldur að það sé gott og vill að aðrir haldi að það sé gott, en er í rauninni ekkert betra en allir aðrir, kannski ívið verra. Aðrir nota orðið móralisti. Allt gengur þetta tal út frá því að við séum að tala um eitthvert innra eðli einstaklinga, siðferði þeirra og viðhorf. Og okkur er mjög tamt að tala á þeim nótum, tungumálið gerir ráð fyrir því. Nú hef ég til dæmis verið að ströggla við að skrifa „við tölum á þessum nótum“ í stað þess að skrifa um að „hugmyndir okkar“ séu þannig. Ég geri það vegna þess að ég trúi almennt ekki á „gott fólk“ eða „vont fólk“.
Auðvitað kannast flestir við slíka umræðu. „Tölum um að athafnir, orð og gjörðir séu góðar eða vondar en ekki manneskjurnar.“ Samt er eilílflega talað á hinn veginn, og kannski er línan dálítið óljós. Ég skrifaði athugasemd við grein eftir Guðberg Bergsson um daginn og sagði að greinin væri ógeðsleg. Það var ekki tilviljun að ég sagði ekkert um Guðberg sjálfan heldur eingöngu um greinina.
Þetta tengist einu af því sem hefur breyst í minni hugsun og tali. Þegar ég var yngri talaði ég og hugsaði um hluti eins og sköpun og skáldskap sem eitthvað sem einstakir menn gerðu í krafti hæfileika sinna (og elju). Með gamaldags orðalagi mætti segja að ég hafi trúað á snilligáfu. En hægt og rólega hef ég sjálfur færst að því að sjá orð og athafnir einstaklinga sem einskonar speglunarbrot af hinu sameiginlega – af þeirri menningu sem við búum við saman. Allt sem við hugsum er til sem möguleiki í menningunni – orðin hafa ekki merkingu nema vegna sameiginlegs tungumáls. Auðvitað er einstaklingsmunur. Við búum í ólíkum skrokkum og upplifum ólíka menningarheima og -hópa. En hið sameiginlega/menningarlega er að mínu mati stórlega vanmetið.
Þess vegna er til dæmis svo mikilvægt að reyna að hafa áhrif á menninguna og andæfa gegnumgangandi samskipta- og samræðumynstrum sem ganga út á undirskipun kvenna (eða annarra undirskipaðra hópa). Það skiptir engu máli hvort það er „í alvörunni“ Egill Einarsson eða „hliðarsjálfið“ Gillz sem talar (ítrekað og endalaust) um kvenleika sem niðurlægjandi einkenni. Orðin eru hluti af menningunni, prentuð í dagblaðapistlum, á netinu, bókum og sjónvarpsþáttum. Orð hans eru tekin upp af strákum, þau dreifast, magnast og þróast. (Nú eða deyja út…)
Merking orða ræðst ekki af ætlun og tilgangi þess sem segir þau heldur þróast hún eftir á. Hún ræðst af viðbrögðum og viðtöku annarra á þeim, viðbrögðum við þeim viðbrögðum og svo framvegis. Og verður aldrei endanlega ákvörðuð. (Með því er ekki útilokað að sá sem sagði þau hafi ekki haft einhverja ætlun, sem viðtakendur hafa ekki skynjað.)
Ég er kominn eitthvert sem mig grunaði ekki þegar ég hóf að rita þessa færslu, enda vissi ég ekki hvað ég var að hugsa fyrr en ég skrifaði það út. Hugsunin verður til við að segja hana upphátt eða í hljóði eða skrifa hana eða slá hana á lyklaborð. Svo sit ég eftir og mér finnst eins og tungumálið hafi þvingað hugsunina í ákveðið mót og það sem stendur eftir sé ekki nákvæmlega það sem ég ætlaði að hugsa.