Monthly Archives: október 2011

Persónulegt blogg?

Ég ætla að gera tilraun til að blogga persónulega. Tilgangurinn er að bjarga geðheilsu minni. Ég held að líf mitt sem doktorsnemi fari ekki vel með þessa geðheilsu. Mér finnst ég ekkert vita hvað ég er að gera í rannsóknarverkefninu, það verður flóknara og flóknara með hverjum degi. Ég missi af skilafrestum á alls konar skýrslum og gögnum sem mér er fert að skila milli þess sem ég sæki um styrki sem ég fæ ekki. Hressandi er það ekki.

Í dag er ég til dæmis að búa til svonefnda „framvinduskýrslu“ fyrir síðasta skólaár. Þar á ég nefna allt sem ég hef skrifað og lýsa fræðalestri og gera grein fyrir fundum með leiðbeinanda. Helmingurinn af öllu þessu er týndur og tröllum gefin, enda hef ég ekki tamið mér skipulögð vinnubrögð í þeim mæli að halda utan um allt svona.

Það er ekki auðvelt að halda sig að svona verki. Í dag afvegaleiddist ég til að skoða grein eftir tölfræðing um launamun kynjanna, en sá tölfræðingur gefur sér reyndar að slíkur munur sé óhugsandi vegna rökvísi kapítalistanna, sem munu alltaf átta sig á því að borgar sig ekki að mismuna kynjum. Bara hrein hagfræði. Greinin er reyndar skrifuð fyrir síðasta hrun, en ég veit ekki til þess að nein empírisk gögn styðji þessa kenningu. Það er stundum þannig að stærðfræðingar og tölfræðingar telja sig sjá hluti skýrar en aðrir þegar þeir eru í raun bara blindir og sjá ekki neitt.

Nú svo hef ég eytt tíma í að hugsa um hvort ekki sé rétt að þrengja rannsóknina mína alveg gríðarlega. Líta bara á eitthvað mjög lítið örsmæðarbrot, eins og skilning framhaldsskólanema á vigrahugtakinu, eftir því hvort þeir læra það „með gamla laginu“ eða með því að forrita tölvuleiki.

Ég geri ráð fyrir að fáir nenni að lesa þetta, en það er allt í lagi. Geðheilsan framar öllu.

Þar sem eymdin er verst er vændið mest … eða er það öfugt?

Nýjasta fræðaæðið mitt er að lesa um sálfræði skoðanamyndunar. Ég er til dæmis að lesa bókina A Mind of its Own: How Your Brain Distorts and Deceives (ég kann ákveðna leið við að útvega hana rafrænt sem ég gæti ljóstrað upp ef einhver hefur áhuga), og vefsíðuna http://youarenotsosmart.com. Það sem virðist margfaldlega staðfest er að við látum rök og staðreyndir ekki ráða skoðunum okkar eða hugmyndum. Hvernig skoðanir myndast og þróast er ekki ljóst, en fer að einhverju leyti eftir félagslegu umhverfi og með hverjum við flokkum okkur sjálf, hverjir aðrir eru með okkur í liði. Þetta er ein líklega ein ástæðan fyrir því hvers vegna internet-deilur leiða aldrei til neins. Því það skortir í sjálfu sér aldrei mótrök gegn neinum málstað, og sér í lagi er auðvelt að finna vitleysur, ónákvæmni og göt í stuttum textum. Tungumálið hefur svo lága upplausn og svo litlu er hægt að koma til skila í textanum sjálfum. Til að skilja texta þarf ekki bara að lesa innihaldið heldur kemur líka til „útihald“ – allt það sem ekki er sagt, en er sá grundvöllur sem textinn hvílir á, og hann verður að vera að einhverju leyti sameiginlegur þeim sem eiga í samræðunni. Til dæmis, ef annar talar íslensku en hinn kínversku og hvorugir bæði málin, þá er erfitt að eiga í samræðu. Yfirleitt er þó um einhvern lúmskari mun að ræða. Báðir telja sig tala sama mál, en þeir leggja þó ólíkan skilning í ýmislegt.

Ég skrifaði færslu í fyrradag um vændi. Ég vitnaði til fræðigreina sem staðfesta að líf í vændi er ömurlegt. Hvorug greinin er skrifuð af feminískum fræðimönnum og í hvorugri þeirra er því haldið fram að bann við vændi leysi nokkurn vanda. Því er heldur ekki haldið fram að vændi leiði til fíkniefnaneyslu. Því er bara einfaldlega haldið fram að líf í vændi sé ömurlegt, og að þær manneskjur sem lifa í vændi sé í miklu meiri hættu en aðrar manneskjur að verða fyrir ofbeldi og að lifa ömurlegra lífi en aðrir. Ég sagði að ég teldi að það gæti verið betra að reyna að efla fólk sem stundar vændi á ýmsa vegu fremur en að banna það. Þó væru rök til þess að banna kaup á vændi hér á landi eins og í öðrum löndum þar sem á að vera hægt að tryggja fólki betra hlutskipti.

Viðbrögðin sem ég fékk var grein Evu Hauksdóttur, sem hefst á því að femínistum eru ekki vandaðar kveðjurnar, þeir sakaðir um að ljúga og bulla og að hafa annarlegar hvatir:

tilgangur fórnarlambsfemnista er ekki sá að halda uppi málefnalegri umræðu heldur að einoka hana. Þetta snýst ekkert um velferð vændiskvenna, hvað þá sjálfsákvörðunarrétt þeirra, heldur er markmiðið að festa í sessi hina ógeðfelldu hugmynd um kynjastríð, þar sem konan er undirskipuð, í rauninni fædd fórnarlamb og nánast allar gjörðir karlsins snúast um það að ná henni á sitt vald.

Ekkert af þessu er rökstutt, enda getur Eva ekki séð inn í sálir feminísta. Persónulega þekki ég engan slíkan sem hefur þetta fáránlega markmið, að ég viti. Ég geri yfirleitt ekki ráð fyrir að fólk sé hálfvitar svona fyrirfram. En mér finnst svona texti mjög ólíklegur til að leiða til gagnlegra skoðanaskipta, og reyndar er hann móðgandi og særandi.

Ég kannast heldur ekki við þetta kynjastríð sem Eva nefnir. Hvaða femínistar tala um kynjastríð? Þeir femínistar sem ég les, og þeir eru allnokkrir, tala hins vegar oft um feðraveldið. Samfélag er feðraveldi að svo miklu leyti sem karlar hafa forréttindi umfram konur. Þetta er bæði einfalt og flókið, vegna þess að ólík staða karla og kvenna kemur fram á ótal vegu, bæði leynt og ljóst. Feðraveldið er þess vegna ekki það sama og „karlar“ og því er aldrei haldið fram að feðraveldið sé ákvörðun tiltekinna karla eða allra karla, einhverskonar samsæri eða að það sé til staðar vegna þess að karla langi til að vera vondir við konur. Margir karlar taka þetta hins vegar persónulega og fara í vörn. Það þarf að skipta aðeins um sjónarhorn til að skilja þetta. Sannleikurinn er sá að gildi feðraveldisins geta verið „að verki“ á ýmsum stöðum og ólíkum sviðum. Það getur verið að verki í einstaklingum, bæði konum og körlum, persónulegum samskiptum, og stofnunum, fyrirtækjum, fjölmiðlum, og ýmsum hópum samfélagsins. Þetta þýðir ekki að konur séu alltaf kúgaðar af körlum og engir karlar séu kúgaðir, bæði af öðrum körlum eða konum. Þetta þýðir ekki að það séu ekki einhverjar konur í valdastöðum. En nú er ég kominn langt út fyrir efnið.

Fyrstu efnislegu orð Evu um grein mína eru að hnýta í greinina sem ég vitna fyrst til því að höfundar hafi ekki haft rænu á

að gera greinarmun á fíklum og konum sem ekki eiga við slík vandamál að etja.

Og Eva bendir á að margar margar konur fara út í vændi til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu. Þær deyja semsagt ekki vegna þess að þær eru í vændi heldur vegna þess að lifa áhættusömu lífi.

Hér er freistandi að grípa til samlíkingar því Eva er mjög hrifin af samlíkingum. Því þetta hljómar óneitanlega svipað því þegar sagt er: byssur drepa ekki fólk, fólk drepur fólk. Það hefur enginn haldið því fram að fólk deyi beinlínis úr vændi, við það að taka við peningum fyrir afnot af líkama. Báðar greinarnar ganga út á að lýsa heimi vændis, sem er einnig heimur ofbeldis og fíkniefnaneyslu. Enginn heldur því fram að við það að taka við fyrsta þúsundkallinum grípi mann löngun í fíkniefni eða dauða. Reyndar get ég ekki skilið þessa fullyrðingu um að konur leiðist út í vændi til að fjármagna fíkniefnaneyslu öðruvísi en svo að margar þær manneskjur sem stunda vændi myndu ekki gera það nema vegna þess að þær eiga við fíkniefnavanda að stríða. Segir það ekki eitthvað um vændi? Er vændi eins og hver önnur vinna? Sem þú tekur ekki að þér nema að vera fíkniefnasjúklingur?

Næsta efnislega gagnrýni Evu gengur út á að umræða um vændi sem vandamál svipi til umræðu um samkynhneigð sem vandamál. Ég sé ekki hvað það á að sýna. Ég hef kannski eitthvað misskilið söguna en vændi hefur, eftir því sem ég best veit, meira og minna verið umborið í aldanna rás, mun frekar en samkynhneigð. En í mínum huga er bara eðlismunur á þessu tvennu: kynlíf milli einstaklinga sem langar að stunda kynlíf annars vegar og afnot eins (yfirleitt karls) af líkama annars (yfirleitt konu) gegn greiðslu – það er kynlíf sem ekki hefði farið fram nema vegna greiðslunnar.

Hún segir að lífslíkur samkynhneigðra séu lélegri en gagnkynhneigðra, en:

Á sama hátt er það ekki umdeilt að meiri líkur eru á að vændiskona verði fyrir líkamsárás í vinnunni en bankagjaldkeri en það veltur á feminiskri afstöðu rannsakenda hvort hlutfallið er nær því að vera 10% eða 90%.

Nú eru greinarnar sem ég vitna í, eins og áður sagði, ekki ritaðar af feminískum fræðimönnum. Og þar eru alveg óumdeilanlegar tölur, hvorki túlkaðar upp né niður, þú ert átján sinnum líklegri að verða myrt sem starfandi vændiskona en meðalkona í Colorado Springs. Það eru ekki 10% eða 90% heldur 1700% hærri líkur. En hér er líklega þess að geta að ekki var greint á milli vændiskvenna sem stunduðu fíkniefnaneyslu eða lifðu á annan hátt áhættusömu lífi og hinna, sem gerðu það ekki. Svo bendir Eva á grein í sama tímariti sem fjallar um lífslíkur homma í New York á árunum 1978-1988 og ég átta mig ekki á því hvernig sú grein á að draga úr réttmæti þessarar greinar. Það er væntanlega augljóst að lífslíkur homma á þessum stað og þessum tíma hafa verið verri en annarra vegna HIV faraldursins, enda er það niðurstaða þeirrar greinar. Hvorki í þeirri grein, né þeirri sem ég vitna til, er kveðinn upp nokkur siðferðilegur dómur, eða lagt til að samkynhneigð verði læknuð eða vændi bannað.

Næst kemur einhver skrípaleikur þar sem orðið „samkynhneigð“ er sett í staðinn fyrir „vændi“ og fyllt upp með einhverjum tilbúnum tölum og augljósu kjaftæði. Þar næst kemur:

Greinin sem ég vísa í er vond. Hún er vond af sömu ástæðum og grein Ingóllfs og túlkun hans á tölum um þær hættur sem vændiskonur búa við. Þar er nefnilega gengið út frá því að vandamál þessa fólks stafi af kynhegðun þess.

Þetta er rangt. Það stendur ekki í þeim greinum sem ég vísa til að vandamál fólks stafi af kynhegðun þess og ég segi það ekki og meina það ekki. Vændi þrífst í eymd og nærist af eymd. Það er samtvinnað eymd. Þeir sem stunda vændi eru mun líklegri en aðrir til að eiga við önnur stór vandamál að etja, svosem fíkniefnaneyslu, hafa verið beittir ofbeldi, vera fátækir og hafa fáa kosti í lífinu. Þetta gerist ekki við það að það fer að selja sig. Hins vegar er vændi oft hluti af „neikvæðum spíral“, og ég hef séð að það er umdeilt hvort algengara sé að fíkniefnaneysla hefjist af alvöru almennt fyrir eða eftir að fólk er farið að stunda vændi.

Nú er það ekki mín skoðun að bann við vændi eyði eymd heimsins. Það útrýmir ekki einu sinni vændi. Ég veit ekki hvað er best að gera. Ég get ímyndað mér að gæti verið allt í lagi fyrir konu að þiggja greiðslu fyrir kynlíf, ef hún hefði hvort sem er viljað stunda það. En að vera háður því til framfærslu að láta hvern sem borgar ríða mér, ég á bágt með að trúa því að einhver velji það sem hefur um eitthvað að velja. Og það er bæði byggt á tilfinningu og því að hreint tölfræðilega þá kýs fólk ekki að stunda vændi nema það sé í einhverjum verulegum öðrum vandræðum.

Lokaorð Evu eru á þá leið að fólk eigi að fá að stjórna sér sjálft. Mér finnst hún fremur sverja sig í ætt við frjálshyggjusinna á borð við Milton Friedman en samfélagslega hugsandi anarkista eins og ég hef alltaf talið hana vera. Það hlýtur að skipta máli hvaða valkosti fólk hefur og hvernig samfélagið lifir sem heild. Eiga allir að fá að eiga byssur og sprengjur? Eiga bankar að bjóða fólki verðtryggð hávaxtalán? Gengistryggð bílalán? Eru það ekki frjáls viðskipti? Á fólk að borga skatta? Eiga ekki að vera neinar hömlur á því sem fólk má gera, svo fremi sem allir sem koma beint inn í það samþykki? Í okkar samfélagi fer þessu víðsfjarri. Er mikilvægt að hafa frelsi til að kaupa aðgang að líkama annarra?

Einhver nefndi barnagirnd og kynlíf með börnum. Af hverju er það ekki leyft, ef barnið samþykkir? Því svaraði Eva til að börn væru ósjálfráða, hefðu ekki forsendur til að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvort, hvernig og með hverjum þau stunda kynlíf, né heldur líkamsþroska til þess að þola líkamlegt samræði án þess að vera í stórkostlegri hættu á því að skaðast af því. Það að vera ósjálfráða er lagatæknilegt atriði, og mörg börn þola líkamlegt samræði líkamlega, löngu áður en þau verða 18 ára. Það er hins vegar þetta með forsendurnar – og ég spyr nú bara hvort þeir sem leiðast út í vændi til að fjármagna fíkniefnaneyslu hafi forsendur til að velja vændi eða ekki vændi.

Ég veit ekki hvort nokkur von er til að nokkur lesi svona langan texta á netinu. Líklega munu þeir sem trúa því innst inni að vændi sé eins og hver önnur vinna eða kynhegðun ekki breyta þeirri trú. Ekki heldur þó að þeim sé bent á meira en hundrað greinar sem sýna staðfastlega að vændi er venjulega ekki frjálst val manneskju sem hefur um eitthvað að velja. Það eru til greinar á móti, sérstaklega er einn maður sem heitir Ronald Weitzer sem skrifar mikið greinar fylgjandi vændi. Honum hefur svo sem verið svarað ágætlega. En það er eins og stendur í ljóðinu: „alltaf hægt að finna sér sérfræðing með doktorspróf sem er sammála“.

Ég mun ekki framar svara þeim sem halda fram að fólk sem er þeim ósammála sé það vegna illra fyrirætlana eða heimsku.

Vændi og vinna

Ef trúa má læknisfræðitímaritum þá er vændi versta atvinnugrein í heimi. Í stórri langtímarannsókn frá Bandaríkjunum var dánartíðni vændiskvenna metin sexföld á við meðaltalið, en morðtíðnin átjánföld. (Sjá í British Medical Journal: Mortality in a Long-term Open Cohort of Prostitute Women.) Höfundar telja að vísu að þetta séu of lágar tölur, þær eru algert lágmark og byggjast á staðfestum dauðsföllum. Þeir telja líklegt að þeir hafi misst af einhverjum. Ég skoðaði tvær aðrar greinar (í British Medical Journal og Lancet) sem segja það sama: vændi er hættulegasta og mest heilsuspillandi starf sem til er.

Nú er það ekki óhjákvæmileg afleiðing þessara staðreynda að besta ákvörðunin sé að banna vændi með lögum að viðlögðum refsingum fyrir þá sem bjóða það eða kaupa það. Svo virðist sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telji skynsamari leið vera að gera vændi löglegt en beita í staðinn öðrum kraftmiklum aðferðum til þess að hjálpa fólki sem er í vændi, efla vald þess og stöðu, reyndar með það fyrir augum að það geti að lokum sagt skilið við þetta hlutverk. (Sjá í Lancet: Sex-work harm reduction.) En hér ber að hafa í huga að við erum einkum að tala um praktískar leiðir fyrir fólk sem býr ekki í ríkum sósíaldemókratískum löndum. Ef aðrir möguleikar til framfærslu eru engir eða verulega vondir er ekki skynsamlegt að vændi sé glæpsamlegt.

Af hverju fór ég að skrifa þetta og hver er punkturinn? Svarið er að ég sé fólk, sem að ýmsu öðru leyti virðist skynsamt, talar eins og vændi sé eins og hver önnur vinna. Það er það ekki. Og mér finnst eiginlega óskiljanlegt hvers vegna sama fólk telur að þetta sé á einhvern hátt „ósannað“. Auk þess séu til dæmi um fólk sem vilji stunda vændi. Og margt annað sem fólk gerir til að framfleyta sér sé ömurlegt. Þetta tvennt síðarnefnda er alveg rétt. En það breytir því ekki að á alla raunvísindalega mælikvarða (dánartíðni, sjúkdómar, tíðni árása) er vændi versta starf sem til er, að minnsta kosti þar sem það hefur verið kannað.

Ég get líka vel fallist á að það kunni að vera rétt að leyfa vændi en ég held að það fari eftir samfélaginu. Í norrænu velferðarsamfélagi eru góð rök fyrir því að banna vændiskaup með lögum, vegna þess að við eigum að geta boðið öllum upp á aðra betri valkosti. Það kann að vera skynsamlegt að fara aðrar leiðir annars staðar og leggja frekar í aðgerðir til að hjálpa og lágmarka þann skaða sem fólk í vændi verður fyrir.