Monthly Archives: ágúst 2011

Mótsagnir skólakerfis

Höfum þetta form: fyrst kemur tilvitnun og svo kemur túlkun eða hugleiðing út frá textanum. Ég er að lesa bók sem heitir Someone Has To Fail: The Zero-Sum Game Of Public Schooling eftir David F. Labaree. Ég held að hann hafi komið við hér á landi nýlega, en það skiptir svo sem engu máli. Bókin er frá 2010 og er um bandaríska skólakerfið, en ég held að í grundvallaratriðum séu önnur skólakerfi sambærileg og svipuð.

the school system’s greatest social impact has come from its power to allocate social access and social advantage. And this was more the result of which students entered school and which graduated from it than of what they learned in between.

Hér er það sem er svo erfitt fyrir fólk sem vill breyta kennsluháttum, til dæmis í anda þeirra strauma sem kallaðir eru „framfara“ eða „róttækir“. Þær hugmyndir eru einhvern veginn í anda þess að nemendur hafi meira að segja um nám sitt og líf í skólanum, að þeir eigi sjálfir að skapa og uppgötva, frekar en að fyrirfram ákveðnu efni sé troðið í þá, og að hver og einn eigi að njóta sín og þroskast á eigin forsendum. En hvað ef skólinn snýst ekki nema að litlu leyti um nám? Hvaða hlutverk leikur skólakerfið í raun og veru?

Fyrir almenning/yfirvöld (almenning sem pólitíska veru) eru skólar kannski fyrst og fremst félagslegt stjórnunartæki. Í skólum á fólk að læra að vera góðir þjóðfélagsþegnar (eða borgarar?) — þar eru öll börn, og þau öðlast sameiginlega reynslu og allir eiga að læra það sama. Minna máli skiptir hvað það er nákvæmlega sem stendur í námsefninu, en meira að það er sameiginlegt. Í skólum eiga nemendur líka að læra að vera þjóðhagslega hagkvæmt, læra það sem „atvinnulífið“ (eða auðmagnið, kapítalið, með öðrum orðum) telur sig þurfa frá vinnuaflinu. Þetta birtist meðal annars í strúktúr skólakerfisins með ólíkum brautum og prófum (frá grunnskóla).

Fyrir almenning/einstaklinga (almenning sem safn einstaklinga, fjölskyldna eða annarra minni heilda) eru skólar tæki til þess að klifra upp metorðastiga eða viðhalda stöðu sinni þar gagnvart öðrum. Fólk vill að sín börn fái sem best tækifæri og komi sem hæst út úr samkeppninni, fái próf sem eru mikils metin og veita aðgang að peningum og völdum. Þetta hefur haft mikil áhrif á skólana, og sést vel á því hvernig það þarf sífellt hærri prófgráður til að tryggja sér yfirburði á vinnumarkaði.

Þegar ég var unglingur var skyldunámi lokið í 8. bekk. Það var alls ekki sjálfsagt að fólk færi í framhaldsskóla, hvað þá háskóla. Í dag fara nánast allir í framhaldsskóla og til þess að öðlast lágmarks starfsöryggi þarf háskólagráðu, helst meistarapróf. (Ég held að það sé dálítið ólíkt eftir löndum hve langt þessi þróun er komin. Mér skilst að víða í Evrópu sé kerfið svo að segja mettuð: vel menntuð börn menntafólks fær ekki lengur vinnu í krafti háskólaprófa.)

Skólakerfið hefur gefið millistéttinni öfluga vél til þess að viðhalda yfirburðum í stétt og stöðu. Þeir geta bæði sagt að allir hafi fengið jöfn tækifæri, því öll börn fara í skólann, og að þeirra börn séu einfaldlega svo vel heppnuð, þau eru klárust í bekknum, eða sjálfstæð og uppátækjasöm (áhættan er ekki svo mikil fyrir þau, þó að þeim gangi ekki vel í grunnskólanum). Á meðan njóta börn þeirra þess að erfa viðhorf frá foreldrum sínum sem henta vel til að ganga vel í skólanum. Og þau njóta fjárhagslegs öryggis, þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að skaffa til heimilis, og svo framvegis. Þetta er mjög raunveruleg hindrun sem millistéttarfólk eins og ég á stundum erfitt með að skilja, en það að geta ekki leyft sér að „falla“ eða á annan hátt hliðra til eða sveigja nám, setur mann í mun erfiðari stöðu en þann sem getur látið foreldra sína grípa sig og styðja.

Þetta seinna hlutverk skólans skýrir ágætlega það sem er stundum nefnt „ofuráhersla á bóknám“. Það er bara þannig að fleiri vilja verða læknar, lögfræðingar, arkítektar, ef ekki bara kennarar, hjúkrunarfræðingar eða millistjórnendur heldur en til dæmis iðnaðarmenn. Bóklegt háskólapróf er nauðsynlegt til að öðlast virðingu og völd í síauknum mæli (þó það sé varla nægjanlegt lengur). Starfsöryggi í iðngreinum er minna og það vita það allir. Það er þess vegna tilgangslaust að ætla að breyta viðhorfum almennings til þessa, þau viðhorf eru fullkomlega rökrétt.

Sú staðreynd að margir finna sig ekki í bóknámi er að mínu viti ekki ástæða til að beina fólki frá bóknámi heldur að grafast fyrir um það hvað það er við skipulag bóknáms sem gerir þetta að verkum. Það er ekkert lögmál að það sé „eins og við þekkjum það í dag“. En þá komum við aftur að mismununarhlutverkinu: ef við gerðum öllum kleift að stunda bóknám, og allir næðu góðum árangri, hvað eigum við þá að gera til þess að finna fólki misjafnan stað í stigveldinu — hvað eiga góðir menntamenn að gera til að tryggja sínum börnum yfirburði?

Hugsað upphátt: Glæpir og refsingar

Þetta sumar hefur verið rosalegt. Hryðjuverk í Noregi, óeirðir á Bretlandi. Fjármálakerfið höktir. Ég hef setið við tölvu og legið með tölvu, endalaust að lesa fréttir, skýringar, fræðigreinar og ekki má gleyma botnlausu þruglinu í kommenturum og bloggurum. Ég hef ætlað að skrifa oft. Ég hef ætlað að skrifa lengi. Ég skil ekki hvernig stendur á því að svona margir skrifa á netið um hluti sem þeir vita lítið um. Ég er ekki að meina að viðkomandi hafi lítið vit, eða að þeir megi ekki eða eigi ekki að hafa skoðanir. Sjálfur á ég svo erfitt með að tjá mig nema að ég hafi að minnsta kosti aðeins reynt að komast að því hvað best er vitað um viðkomandi hluti. Þetta veldur auðvitað því að ég kemst stundum ekki svo langt að byrja að skrifa áður en næstu tíðindi dynja yfir, eða ég dett í hraðskákarmaraþon á netinu eða eitthvað annað. Svo auðvitað verður maður að tala og mynda sér skoðanir án þess að kynna sér allt til hlítar.

Breivik

Ég ætlaði að skrifa um Breivik. Ég ætlaði að benda á að aðferðarfræði hans er svipuð og eignuð er al-Kaída, eins konar „open source“ hryðjuverkabarátta. Hún fer ekki fram gegnum víðfeðman strúktúr eða híerarkíur, heldur er hugmyndunum dreift, og treyst á að óháðir hópar eða einstaklingar taki til vopna.

Hryðjuverkamenn byggja baráttu sína alltaf á hugmyndum sem eru töluvert viðteknar, sem eiga sér umtalsverðan stuðning. Hugmyndin er oft eitthvað eins og að hrekja burt hernámslið, eða að reyna að þvinga stjórnvöld til að afnema eitthvert óréttlæti. En það þarf að umbreyta hugmyndinni í trúverðuga von. Til þess þarf að gera árangursríka (sem skelfilegasta) árás. Ef það tekst hefur verið sýnt fram á að skotmarkið hafi veikleika og mögulegt sé að vinna stríðið. Þannig er hryðjuverkið auglýsing og hvatning fyrir önnur skoðanasystkini, og einhver þeirra munu reyna að fylgja því eftir með frekara ofbeldi.

Allt þetta veit Breivik, þetta er ekki bara eftiráspeki fræðimanna. Hann veit líka ýmislegt um áróður og virkni fjölmiðla, hann veit að hann á sér stóran hóp „hófsamari“ samherja, að hann verði hataður og að það skiptir máli að líta ekki út eins og nasisti, það skiptir máli að orða hlutina rétt, tala ekki um að drepa eða útrýma múslimum, heldur bara um að þeir eigi að snúa aftur úr Evrópu.

Í tilfelli Breiviks er stóra hugmyndin sú að múslimar séu að yfirtaka Evrópu. Þetta er útbreidd hugmynd. Hér á landi hafa til dæmis fyrrverandi þingmenn, Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson, reynt að nýta sér þessa hugmynd og koma henni á framfæri. Bókaútgáfan Ugla hefur gefið út að minnsta kosti tvær bækur sem ganga út á þessa kenningu. (Þessi hugmynd er út í hött en ég nenni ekki að skrifa um það núna. Get vísað á þennan dóm um bókina Íslamistar og naívistar. Sú bók hlaut almennt hlýjar viðtökur á Íslandi, og marga lofsamlega dóma hægrimanna eins og á andriki.is.)

Breivik tilheyrir semsagt þeim stóra hópi fólks sem ímyndar sér að í ríku löndunum (eins og Noregi og Danmörku) sé við lýði einhverskonar fjölmenningarstefna. Þar sem innflytjendur séu boðnir velkomnir, þeim veitt allskyns fyrirgreiðsla en þeir svari með því að leggjast í leti og glæpi. Það er erfitt fyrir mig að skrifa eins og ég vilji svara þessu, því þetta er svo æpandi ranghugmynd. Bæði norrænu kratarnir og rasistarnir hafa rangt fyrir sér. Fjölmenningarstefnan hefur engin verið. Einhver fjöldi fólks hefur vissulega fengið að flytja til þessara landa, þar sem það fer beinustu leið í lægsta þrep þjóðfélagsins og vinnur láglaunastörf ef og þegar það fær að vinna. Staða þeirra er veik og þeim er mismunað bæði leynt og ljóst. Þeim er lofað aðgengi að verðleikasamfélaginu, þar sem ríkir einstaklingsfrelsi og jafnrétti en svo er í raun ekki ætlast til þess að þeir komist áfram. Jæja, nú er ég kominn út fyrir efnið, það er kannski eitthvað um þetta í áðurnefndum bókadómi. En punkturinn er: komið fyrst á fjölmenningarlegu samfélagi og þá skulum við tala saman um það hvort það „virkar“.

Ég ætlaði líka að hugsa um óeirðirnar á Englandi, en þetta er orðið gott.

Ungur, hvítur og ríkur

Þeir sem þetta lesa eru flestir hvítir Íslendingar. Í krafti þess njóta þeir forréttinda og yfirburða yfir flestum jarðarbúum. Sumir lesendur eru karlar, og þeir njóta þess vegna forskots umfram konur á ótal vegu. Einhverjir eru streit og þeir njóta forréttinda þess vegna. Sjálfsagt eru þeir flestir ágætlega settir í stétt, kannski dæmigerðir millistéttarborgarar, misþrúgaðir af skuldum, en fæstir í raunverulegri fátækt. Þeir njóta þess. Að auki mætti telja sem forréttindi að vera ekki-fatlaður, grannur, menntaður, og svo framvegis. Völdin streyma um okkur þvers og kruss, eins og við tilheyrum alls kyns flokkum sem veita mismunandi völd.

Þetta snýst ekki um það hvort fólk er gott eða vont. Hvítir ríkir karlar geta verið ágætis náungar. En þeir njóta samt sem áður yfirburða vegna þess einfaldlega að vera hvítir ríkir karlar. Burt séð frá öðrum kostum og löstum. Það er ekki þannig að hvítir karlar ákveði á leynifundum að þeir eigi að hafa forréttindi, hins vegar eiga þeir oft erfitt með að koma auga á það sjálfir að þeir hafa þau, og það sem þeir gera er mjög oft til þess fallið að viðhalda þeim eða auka þau.

Þetta snýst heldur ekki um það að einstaklingum séu allar leiðir lokaðar. Við vitum að sumar konur komast í valdastóla. Sumir hommar eiga fullt af peningum. Sumir menn komast langt upp í valdapýramídann þrátt fyrir stutta skólagöngu. Svona mætti lengi telja. Það eru til ótal undantekningar. En breytir ekki því að leiðin er erfiðari fyrir suma, þeir þurfa að vinna meira fyrir “árangrinum” og þeir þurfa að laga sig að reglum og hefðum þess stigveldis sem mismunar.

Þetta snýst ekki svo mikið um það hvort fólki misbýður og hvort það móðgast eða særist. Vandinn við brandara er ekki fyrst og fremst að þeir særi tilfinningar, þó að það sé hluti af virkni þeirra. Vandinn er að þeir viðhalda eða magna upp ýmiskonar viðhorf og skilgreina hvers konar fyrirlitning og mismunun er viðtekin og eðlileg í menningunni, hver hefur völdin. Brandarar sem gera grín að þeim sem er mismunað hafa sínu hlutverki að gegna í mismununarmenningunni.

Þetta snýst ekki um að banna brandara eða banna fólki að hugsa það sem það vill eða banna skoðanir eða banna hvíta ríka karla.

Þetta snýst um að það er í heiminum raunverulegt stigveldi, valdamismunur, eða til að reyna að halda nákvæmni þá eru mörg stigveldi sem fléttast saman og vinna saman. Fólki er mismunað og fólk er útilokað, bæði opinberlega og í gegnum ýmislegt sem ekki er sýnilegt. Baráttan er gegn mismunun, útilokun og kúgun.

Í tilefni Gay Pride

Cathy J. Cohen er fræðimaður dagsins, og grein hennar Punks, Bulldaggers, and Welfare Queens: The Radical Potential of Queer Politics? er fræðigrein dagsins. Viðar Þorsteinsson vinur minn sendi mér þessa grein í dag, þegar við vorum að ræða um róttæka kennslufræði. Það er mögnuð tilviljun að eitt megininntak greinarinnar kom skýrt fram í orðum Páls Óskars Hjálmtýssonar í kvöldfréttum sjónvarpsins.

Bryndís Björgvinsdóttir sló orð Páls á lyklaborð og birti á Facebook:

Mér finnst gay-pride hátíðin vera löngu komin út fyrir það að vera bara einhver hátíð vegna mannréttinabaráttu samkynhneigðra. Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarks mannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu – inni á internetinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa. Það er engu líkara en sá eini sem fær að vera í friði í þessum heimi, það er hvítur straight karlmaður í jakkafötum hægri sinnaður og á peninga. Og stundum er þessi karlmaður með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni. Allt annað má kalla einhverjum nöfnum. Allt annað er hægt að uppnefna: „Helvítis femínisti, helvítis kéllingar, helvítis hommar, helvítis þið, blíh, blah!“ Þannig að út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú.

Cathy er svört lesbía sem kennir í háskóla. Hún hefur að sumu leyti forréttindi umfram marga nemendur sína, til dæmis þá sem búa við fjárhagslegt óöryggi og eru af lægri stétt. En hinir sömu nemendur eiga það til að líta niður á hana, vegna þess að hún er lesbía. Sjálfsmynd fólks og staða er samsett úr mörgu, við tilheyrum öll mörgum hópum, og höfum mismunandi valdastöðu innan hópanna. Engu að síður getur verið gagn að flokkunum: kynþáttur/litur, kyn, stétt, kynhneigð, trú, og fleiri. Þó eru mörk slíkra flokka auðvitað fljótandi, og einstaklingar geta færst milli þeirra og fallið utan þeirra. Þeir sem eru hvítir straight karlmenn með peninga eru þó í æðsta forréttindahópi fólks á jörðinni, eins og allir vita. Ef þú vilt komast í æðsta flokkinn en skortir eitthvert þessara einkenna er eins gott að þú lærir að þóknast þeim eða vera eins og þeir. Margaret Thatcher er kona og það eru líka hommar í frjálshyggjufélaginu.

Only through recognizing the many manifestations of power, across and within categories, can we truly begin to build a movement based on one’s politics and not exclusively on one’s identity.

En of einfalt er að skipta fólki í valdhafandi eða valdalausa, kúgara eða fórnarlömb, óvini eða félaga. Það að einhver tilheyri kúguðum hópi þýðir ekki endilega að hann vilji frelsun þess hóps, hvað þá annarra hópa. Það er því lykilatriði fyrir okkur sem viljum berjast fyrir frelsi og jöfnuði allra manneskja að gerast meðvituð um alla kerfisbundna kúgun og mismunun og sameinast í hreyfingu sem byggir á einmitt þessu pólitíska markmiði en ekki eingöngu út frá okkar eigin sjálfsmynd eða sem einstaklingi í minnihlutahópi (til dæmis sem hinsegin, kona, öryrki…) Við eigum að gerast róttækir femínistar og róttæk hinsegin, og eigum einmitt að láta til okkar taka og berjast fyrir undirokaða innflytjendur, flóttamenn, atvinnulausa, fatlaða, tekjulága, konur, hinsegin fólk, aldraða. Róttækni á að verða hluti af okkar sjálfsmynd.

Út með kvenfyrirlitninguna, út með fyrirlitningu á öðrum kynþáttum, öðru fólki sem er af annarri stöðu og stétt en þú!