Monthly Archives: apríl 2011

Icesave

Hvað get ég sagt um Icesave-samningana? Ég sé ekki framtíðina. Ég veit ekki hvor kosturinn muni reynast dýrari. Ég hef séð ýmsar pælingar um það, og menn eru frekar ósammála. Sumir standa mjög fast á sínu þó að þeir hafi engin traust rök. Það veit enginn hvað Landsbankinn nær að innheimta af sínum útistandandi skuldum eða selja eignir sínar fyrir mikið. Reyndar eru til áætlanir um það, sem gætu verið á rökum reistar, þó að þær geti auðvitað ekki verið alveg nákvæmar. Það veit líka enginn til hvaða pólitískra bragða Bresk og Hollensk stjórnvöld kunna að taka ef samningurinn er felldur. Enginn veit hvort útlendingar vilji í framhaldinu semja við íslensk stjórnvöld eða fyrirtæki um eitt eða neitt, eða hvort þeir muni þá yfirleitt reikna sér áhættuálag í ljósi þess að ekki er hægt að treysta samningum við þau.

Ég get greint tvenns konar prinsipp-afstöðu sem leiðir til neitunar. Í fyrsta lagi eru þeir sem vilja vera bófar. Þeir vilja einfaldlega að útlendingar borgi skuld íslensks banka frekar en íslendingar. Ekki að skuldinni sé skipt. Fyrir þessu má reyndar færa þau raunverulegu rök að skattgreiðendur í Bretlandi og Hollandi séu svo margir að þá muni ekki um þetta, en fyrir fáa Íslendinga sé þetta mikið mál. Það er alveg rétt. Stundum er bófaháttur réttlætanlegur (sbr. Hrói Höttur). En kannski væri þó réttara að semja um að kostnaður á hvern skattborgara yrði jafn í öllum löndunum þremur.

Hin prinsipp-afstaðan er að almenningur eigi ekki að tryggja bankainnistæður. Að vísu hef ég ekki heyrt frá mörgum nei-sinnum sérlega kröftug mótmæli við því að allar bankainnistæður á Íslandi væru tryggðar til fulls. Þar er um að ræða aðgerð sem er beinn stuðningur almennings (allra) við þá (færri) sem eiga mikla peninga. Svo að ég vitni í Tíund, rit Ríkisskattstjóra (okt. 2010) þá áttu 3.632 framteljendur samanlagt 751,5 milljarða. Þetta eru þeir framteljendur sem áttu eignir metnar á meira en 100 milljónir samkvæmt álagningu árið 2010. Reyndar segir líka í hinu hlutlæga blaði:

Það virðist sem skipti nokkuð í tvö horn hvað varðar eignir og skuldir landsmanna. Annars vegar er stór hópur fólks sem á tiltölulega lítið og skuldar mikið og svo er tiltölulega lítill hópur sem á miklar eignir og skuldar lítið. Þá ber ekki á öðru en að eignafólki hafi yfirleitt tekist að ávaxta fé sitt nokkuð vel en almennt lítur út fyrir að fleiri eigi nú meira þrátt fyrir erfitt árferði.

Ég átta mig alls ekki á því hve litla athygli þessar staðreyndir vekja. Þetta eru (meðal annars) peningarnir sem við (allir) vorum og  erum að verja með því að setja peninga í fjármálafyrirtækin og ábyrgjast bankainnistæður.

Þessi prinsipp-afstaða felur nefnilega í sér nokkuð róttæka ögrun við það sem mætti kalla fjármálakerfið, eða bara einfaldlega við peninga, eins og þeir virka í dag. Eins og flestir vita er í raun ekki hægt að geyma peninga. Geymdur eyrir gerir ekkert gagn. Þess vegna læturðu bankann hafa hann svo hann láni einhverjum öðrum hann og svo framvegis. Flestir vita líka að bankar lána meiri peninga en þeir hafa sjálfir fengið lánaða með innistæðum. Þetta gengur upp svo lengi sem að nógu margir sem fá lánaða peninga geta borgað meira tilbaka, af því þeir eru að græða á fjárfestingum. Ef bankar eru ekki öruggir eru peningar ekki öruggir. Og á endanum er virkni peninga bara samkomulag, ef við hættum að trúa á þá virka þeir ekki lengur.

Einhver hefur minnst á að útlendar stjórnir óttist að þurfa að skera endanlega úr um hvort þær í raun ábyrgist allar innistæður. Þetta er eitt af því sem veldur því að þau hika við að ganga alla dómstólaleiðina til enda. Það virðist vera best að það sé svona óformleg og ósögð regla, að bankainnistæður séu öruggar. Kannski á breska ríkið, svo dæmi sé tekið, ekki alveg peninga til að borga allar innistæður. Nema hvað, að því yrði alltaf reddað með því að ríkið getur bæði prentað fleiri peninga og skattlagt þegnana. Svo að ríkið verður í sjálfu sér ekki gjaldþrota í eigin mynt. Hins vegar myndu peningarnir augljóslega glata gildi sínu, meira og minna. Sparnaður yrði að engu og allt lausafé, bæði vel og illa fengið. Þetta vilja ekki góðborgarar og kratar.

Kannski er þessi pistill óljós. Þá segi ég að ég sé bara að hugsa upphátt á eigin óformlegri bloggsíðu, og myndi ekki birta þetta í virðulegri miðli. Ég þyrfti meiri tíma til að hugsa þetta.

Ég þekki fólk sem vill segja nei, vegna þess að það dreymir um að hrista stoðir fjármálakerfisins. Það er jafnvel tilbúið að taka afleiðingunum. Mér finnst það dálítið freistandi, líka vegna forvitni. Hvernig mun kapítalið bregðast við? Er þetta of lítið til að angra það verulega? Ég er hins vegar svo helvíti svartsýnn að ég hef enga trú á að þetta yrði til að starta bylgju byltinga gegn fjármálakerfinu í öðrum og stærri löndum.

Hvað ber að gera spurði Lenín. Ég veit það ekki. Mig langar að segja eins og Haukur Már, þetta kemur mér ekki við – þetta er ekki mitt vandamál. Ég hef aldrei gengist þessu peningakerfi á hönd og þarf ekki að ákveða að skilja eða láta áfram reyna á sambandið. En mig langar dálítið að sjá hvað gerist við neitun og mig langar líka til að játa, ekki bara vegna þæginda þess að vera réttu megin í alheimsójöfnu auðs og valda, heldur til að hafna þjóðrembu og ábygðarleysi. Ég kom því ekki að áðan að mér finnst nei-sinnar vanmeta sína eigin ábyrgð, því kjósendur bera einhverja ábyrgð á stjórnvöldum. Ekki 100% ábyrgð, en samt einhverja. Við erum ekki fórnarlömb einræðis eða bjargarlausir aumingjar sem ekkert gátum vitað. Frjálshyggjan var ekkert falin þó að smáa letrið væri ekki fyrir hvers manns augum. Kapítalismi er kapítalismi og ykkur ber skylda til að kynna ykkur hvernig hann virkar.

Semsagt: að sitja hjá, segja nei, segja já, allt er þetta harla gott, ég held bara að þetta sé win-win situation.