Monthly Archives: mars 2011

Kveiktu!

Á pressu.is síðu Sölva „afsakið að ég skuli vera til“ Tryggvasonar er nú birtur pistill eftir Baldur Beck ritstjóra Séð og Heyrt. Kannski skilst eftirfarandi pistill ekki nema að hann sé skoðaður og hafður til samanburðar.

„Ég er kominn með bráðaofnæmi fyrir fréttum. Ég á nokkra vini sem eru fréttamenn og hef ekkert út á þá að setja, en ef ég heyri yfirborðsleg orð um vanhæfa stjórnmálamenn sem “vísa málinu á bug”, eða að “ekkert annað sé hægt að gera, það þarf að spara” eða einhvern karlfausk sem “segir IceSave vera landráð/skynsemi”, steypist ég út í andlegum útbrotum. Verð þunglyndur. Ansi margir eru í mínum sporum, bara búnir að gefast upp á ruglinu. Þessi hugvekja er fyrir þá og ég skora á alla að lesa hana til enda. Mig langar að gefa þessu fólki ráð.

Kveiktu.

Kveiktu á hugsun þinni og aflaðu þér upplýsinga á netinu sem fást ekki í sjónvarpi, útvarpi eða rusl-vefjum eins og pressunni, eyjunni eða mbl.is. Opnaðu vefi, til dæmis Guardian, Democracy Now, Al-Jazeera, Wikileaks eða Truthdig. Það er enginn sem leysir þessi mál fyrir þig. Þú hefur skyldu til þess að skipta þér af, tjá þig, hafa samband við fulltrúa þína á þingi og í bæjar- eða borgarstjórn, krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðunum og berjast fyrir betra samfélagi. Þú átt að láta þér þykja vænt um sem standa þér næst og vera til staðar fyrir þá sem þurfa á því að halda og þú þarft líka að beita þér fyrir réttlæti í samfélaginu á opinberum vettvangi. Þar gerir þú gagn, ekki bölvandi og ragnandi heima í stofu yfir því sem þó er að í okkar blessaða þjóðfélagi. Það er allt í lagi að horfa stundum á sjónvarpið eða bara slaka á með einn kaldan, og slökkva á áreitinu um stundarsakir. En það er ekki í lagi að taka ekki afstöðu, því það er afstaða með óbreyttu ástandi, sömu misskiptingu og núverandi vald- og auðhöfum. Ekki tuða í hljóði, ekki röfla við fjölskyldu þína, eða öskra í útvarpstækið. Brostu til hennar og faðmaðu, vertu glaður en reiður og komdu þér í samband aðra sem vilja breytingar. Og endurhugsaðu — ekki treysta öllu sem þú heldur og trúir af gömlum vana. Hringdu í þingmann. Skrifaðu borgarfulltrúa bréf. Sendu grein í eitthvert blaðanna.

Kveiktu, sem flesta daga, ef þú hefur orku. Og þú færð meiri orku með því að nota orku, það lögmál virkar bæði andlega og líkamlega. Ekki gleyma að hlú að þeim sem þér þykir vænt um. Þú verður mun upplýstari með sjálfstæðri heimildaöflun og lestri en með því að fylgjast með fréttum íslenskra fjölmiðla. Þér mun líða miklu betur við að skilja miklu meira hvernig heimurinn hangir saman. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sem raunverulega finnst erfitt að borga af skuldum og sköttum, þegar ég segi að krepp sú sem herjar á Íslendinga er fyrst og fremst til komin vegna andlegrar leti og afskiptaleysi almennings til margra ára, sinnuleysis um samfélagið, lélegra fjölmiðla og einstaklingshyggju, en það er staðreynd.

Konur og börn eru deyjandi úr hungri og auðlæknanlegum sjúkdómum á degi hverjum um víða veröld. Á Íslandi heyja margir harða lífsbaráttu. Þar eru bæði öryrkjar, atvinnulausir og láglaunastéttir eins og þeir sem vinna við ræstingar eða ýmis þjónustustörf. Þó að þeir deyji ekki úr hungri eru þeir einangraðir og hafa takmörkuð tækifæri til þess að njóta lífsins og leita hamingjunnar. Á Íslandi er ekki stríð en við höfum sem ríki stutt dyggilega við hernað. Hér hafa ekki orðið eins mannskæðar náttúruhamfarir og verða á þéttbýlli stöðum. Hér, sem annars staðar, á að vera nóg að bíta og brenna handa öllum þó að hér sé fremur kalt og ekki loftslag til að rækta banana. Við þurfum að taka okkur saman í andlitinu, ég og þú, og hætta þessum leiðindum og gera eitthvað í málunum. Gerum það sem okkur þykir skemmtilegt, gerum það sem veitir okkur innblástur og hættum að eyða allri þessari orku í ömurlega gervitilveru Séðs og Heyrðs og sjónvarpsstöðvanna.

Við getum öll verið dauð á morgun og ég veit ekki með þig, en mig langar ekki að eyða síðasta deginum mínum á þessari jörð í að sjá eftir því að hafa aldrei gert neitt til að bæta heiminn.“