Monthly Archives: febrúar 2011

Kennarar hætti að væla

Einu sinni var ég að furða mig á því að Kringlan væri full af fólki á sunnudögum, heilu fjölskyldurnar á rölti og á skyndibitastöðunum gúffandi í sig pítsum. Ég nefndi þetta svo við manneskju sem ég kannast við, það var á fegurri stað, við gamla kirkjugarðinn í vesturbænum. Svona miðað við mitt fegurðarskyn í samræmi við minn habitus. Hún sagði mér að hætta að pirra mig, að það væri í fínu lagi þótt einhverjir vildu nota hvíldardaga til að vera í Kringlunni. Auðvitað er það rétt, en nú er ég að endurhugsa. Umkvörtun mín var ekki persónuleg, hún var samfélagsleg. Hvað segir það um samfélag að stór hluti fólks skuli kjósa sér þessa dægradvöl? Ég er að hugsa um þetta sem spurningu, ekki að leggja til Kringlufólk sé fordæmt eða því bannað að stunda staðinn eða að það væri betra að það sæti heima og hlustaði á sinfóníur af hljómplötum. Það er samt eitthvað rangt við þetta. Ég ætla bara að standa við það. Kannski er þetta til merkis um tómleika í lífi fólks, það reynir að fylla tómið með neysluvörum. Finnst því í alvörunni svona gaman í Kringlunni? Kannski ætti að kanna það. “Það er sunnudagur og sólin skín. Hvað langar mig helst að gera í dag? Hanga í Kringlunni?”

En aftur að samræðuháttum íslenskra eða skort á þeim. Á vefsíðunni http://maurildi.blogspot.com/ birtist pistill um daginn sem upplýsti nokkur atriði um kjör og vinnu kennara. Eitt af kommentum var svohljóðandi:

Eitt sem er merkilegt með kennara, þeir fara í kennaranámið vitandi hvaða laun eru í boði og hvaða vinnuframlag þarf að skila en um leið og fólk útskrifast með kennsluréttindi að þá er það fyrsta sem gerist að fólk fer að væla yfir kjörum sínum. […]
Ef þér líkar ekki starfið eða kjörin, lærðu þá eitthvað annað, það er enginn að neyða þig í kennaranám.

Ég var svo glaður en samt dapur að sjá hvernig þetta fellur að því sem ég skrifaði í fyrradag. Kommentari hugsar ekki um samfélagið sem heild. Mér finnst ólíklegt að hann vilji samfélag án kennara, en það er raunar eina rökrétta niðurstaðan sem hann gæti fengið út úr þessu. Þá niðurstöðu mætti kannski ræða, en ekki út frá þessum forsendum. Í kommentinu birtast líka það einkenni á vanþroska hugsun að líta á fólk sem orðinn hlut. Það er næstum eins og “kennari” sé náttúruleg kategóría af fólki — sem er krónískt vælandi yfir aðstæðum sem það sækir engu að síður í. Nú er ég að reyna að segja eitthvað í stuttu máli sem er kannski flóknara. En ég er að reyna að grafast fyrir um það hvort það geti verið einhver hugsun á bak við þetta komment, eða hugsandi vera. Gæti hún kannski haldið að við fengjum betri kennara ef við réðum betra fólk sem kennara? Það væri þá fólk sem vildi kenna vel fyrir lág laun. Stundum er reyndar sagt að það sé hægt að ráða betra fólk með því að bjóða hærri laun, að það sé einhver fylgni milli launaupphæðar og “gæða” umsækjenda um stöðu. Hrunið afsannar það í eitt skipti fyrir öll, ef einhver var í vafa. Engu að síður eru léleg starfsskilyrði ekki líkleg til að leiða til betri starfsemi. Fólk getur bætt sig, sérstaklega ef það fær stuðning og þroskavænleg skilyrði. Það sem ekki bætir fólk er til dæmis að lítilsvirða það (svo sem með lélegum launum) og takmarka sjálfræði þess (svo sem eins og að stjórna og hafa eftirlit með athöfnum þess í smáatriðum). Úr menntakerfinu hrökklast fólk sem hefði (eins og flest fólk) getað orðið góðir kennarar. Svo spurningin til kommentarans væri þá: er það þetta sem þú vilt? Eða er kommentið sprottið af lögmálinu um jafna ömurð:

Mitt líf er ömurlegt og þess vegna er ekki nema sanngjarnt að ykkar líf verði það líka.

Kannski er kommentarinn óhamingjusamur maður, undir hælnum á kapítalinu, þræll skulda og lélegs sjónvarps. Við hann segi ég: rís upp maður! Settu þig í samband við aðra sem vilja vinna að frelsun manna! Berstu fyrir kjörum þínum og allra annarra!

Ég vona að þetta skiljist, þetta er dálítið knappt. En við þá sem hugsa „hvað, þetta er bara einhver vitleysingur, leyfðu honum að vera það í friði“ segi ég: þið hafið ekki alveg skilið inntakið í þessum pistli.

Leiðrétting

Mér er sagt að Ólafur Ragnar hafi aldrei reykt eins og mishermt var hér í gær. Mér er líka sagt að Ólafur Ragnar hafi einu sinni sagt satt á opinberum vettvangi, en það er óstaðfest.

Ólafur Ragnar fær sér kartöfluflögur með köldu hvítvíni eftir heita sturtu og ég er satt að segja að hugsa um að gera hið sama. Kannski fæ ég hugljómun um svokallað Icesavemál. Líklegra er þó að ég fari bara að lesa einhverjar femínistavefsíður með hressandi myndum eins og þessari:

Ég fann myndina á þessari síðu: http://anarchofeminist.tumblr.com/

Kannski er þetta blogg dagsins. Ég lofaði að blogga næstum daglega.

Persónur & leikendur

Ólafur Ragnar hitar te. Hann er úti á Bessastöðum. Hvað skyldi Dorrit setja á ristaða brauðið í dag? Kannski síld?

Hvaða rödd talar hér? Ég get ekki skrifað nema að vita að hér birtast hálfkláraðar hugsanir. Sem kvíslast. Þær kvíslast og hvíslast á.

Það er arabauppreisn í heiminum. Stór tíðindi. Í sjónvarpinu þvargar fólk um millifærslur af reikningum seðlabanka og ríkissjóða. Sigurður Kári fretar laumulega. Vatnið sem boðið er uppá í sjónvarpssal er volgt. Í tölvunni minni heilsar enn ein öðlingsgreinin. Karlmenn að tala um jafnrétti. Ekki er hlustað á konur sem hafa sagt sömu hluti og marga fleiri í mörg ár. Mér finnst grein Andra Snæs í dag nokkuð góð.

En jafnrétti segið þið? Hvernig kemur það til að ekki er talað um kvenfrelsi og kvennakúgun? Var það ekki einhvern tíma? Var þetta ákveðið á fundi markaðsmanna, að það færi betur í fólk að styðja jafnrétti en kvenfrelsi? Of hvasst fyrir almennan markað?

Á Íslandi snúast öll mál um persónur og persónulega eiginleika. Og víðar auðvitað, ég á það til að gleyma mér. Ísland er ekki undantekning. Nema í þessu: hér búa fáir. Og þess vegna þekkir fólk meira til fólks.

Þegar fréttamenn sem sýna tilburði til fréttamennsku eru reknir, hvað eftir annað — þá er það ekki tilefni til samræðu, það er bara persónulegt mál þess sem er rekinn.

Þegar baráttufólk er ofsótt af valdakerfinu er talað um það hverskonar fólk það sé: hettuklætt, krakkar, athyglissjúklingar. Það hefði átt að hafa vit á því að fara í viðskiptafræði og vera ekki með þessi læti.

Þegar bent er á kerfislæga mismunun og kúgun kvenna sem á sér djúpar rætur í menningunni, þá segja menn í mesta lagi: “Já, sumir karlar hata konur. En ekki ég. Ég elska konur. Og allir mínir vinir. Ég lít á konur sem jafningja.” Já vinur minn. Þú sérð ekki muninn. Það er af því að þú ert karl. Þú ert það sem miðað er við. Þú finnur ekki vel fyrir forskotsstöðu þinni. En þú ert vís með að fara að tala um það hvernig þú hefur sjálfur persónulega ekki notið þessa forskots sem þú hefur. Eða benda á ýmsa óhamingju sem karlar geta ratað í. Sem þeir gera sumir, þrátt fyrir forskotið.

Þegar bent er á kerfislæga mismunun eftir stéttum, uppruna, menntun, þá segja menn “já en sjáðu nú til dæmis hann Jóa. Hann hefur með dugnaði sínum og hæfileikum komist á æðstu stóla. Hér hafa allir tækifæri.” Hugmyndin um persónulegt val og persónulega hæfileika gegnsýrir heim okkar. Hver og einn ber ábyrgð á sjálfum sér. En hér er punkturinn: Svo lengi sem samfélagið gerir ráð fyrir fátækum og valdalausum, þá verða í því fátækir og valdalausir.

Hér er allt í lagi vegna þess að allir geta fært sig upp í metorðastiganum. Skúringamanneskjan sem fær svo til engin laun getur persónulega bætt við sig námi og startað eigin fyrirtæki og eignast hús og bíl.

En þá hvíslaði vindurinn:

HVER Á AÐ SKÚRA FYRIR SVO TIL ENGIN LAUN?

Allir sögðu ekki ég, og ekki þú, en bara einhver annar, kannski útlendingur. Einhver þarf að leika þetta hlutverk. Á meðan hlutverkið er til.

Reknir fréttamenn eiga ekki að væla.

Ákærðir mótmælendur eiga ekki að væla.

Konur eiga ekki að væla.

Fátækir eiga ekki að væla.

Þið getið öll gert betur. Farið á námskeið um meira sjálfsöryggi, framkomu og árangur. Takið ykkur á. Farið í ræktina. Vinnið í ykkar málum. Lærið gagnlega iðn. Skiptið um vinnu. Það verða alltaf einhverjir aumingjar eftir til að taka ykkar aumingjastöðu.

Í guðanna bænum ekki tengja ykkar litlu persónulegu ósigra við samfélagsgerðina í heild sinni.

Inni kveikir Ólafur sér í vindli. Það er ekki búið að banna reykingar í persónulegu rými forsetans, þó að Dorrit vilji helst ekki fá lyktina í nýja pelsinn.

Réttarhöldin

Nokkrar manneskjur á Íslandi gerðust frjálsar og fóru í líkömum sínum að kljást við valdið, eða útfrymi þess, í Alþingishúsinu. Þær sáu gegnum merkingarvefnaðinn eins og við gerum á góðum stundum og vildu meira en að setja stafi á skjá eða blað, meira en að gera sér upp hreina samvisku, eins og okkur er of tamt að gera, vildu ekki bara segja “ég trúi ekki á þetta valdakerfi” en halda svo áfram að gangast við því og beygja sig undir það í verki, heldur fóru þær í varnarlausum líkömum sínum inn í maga skrímslisins og hófu þar raust sína, vopnlausar en ákveðnar og sýndu okkur hinum að það er mögulegt að vera frjálsar manneskjur og beita rödd sinni og líkama í virku andófi.

En skrímslið fékk af þessu ónot og ákvað að hefna sín og hóf það sem nefnist réttu nafni pólitískar ofsóknir. Þetta skrímsli er ekki sýnilegt, áþreifanlegt skrímsli heldur býr það í stofnanaverki og hylur sig ýmsum leiktjöldum. “Ekki skutum við ykkur full af blýi, eins og sums staðar tíðkast”, segja litlu fylgitunglin sem snúast umhverfis valdið, “enginn er að grafa ykkur í jörðu niður til að grýta, eins og aðrir gera”, segja þau, “hver veit nema dómarinn sleppi ykkur einhverntíma” segja þau, “ef þið eruð svona saklaus.”

Í Kafkaískum heimi okkar síðkapítalíska ríkis eru það ekki einræðisherrar eða spilltir fulltrúar þeirra eða sadískir embættismenn sem sjá um pólitískar ofsóknir, framkvæmd þeirra er dreifð og draugsleg, við sjáum eingöngu snyrtilega og samviskusama saksóknara, skikkjulagða dómara, Lárur og Pétra, upphaf málsins ósýnilegt og enginn sem beinlínis ákvað neitt, bara hringekja sem fór í gang þegar valdastrúktúrinn kiptist til og rak sig í takkann. Níu manneskjur sem lögðu sig fram í þágu okkar allra voru ákærð fyrir fáránlegar sakir. Það er ekki hægt að stöðva málið núna, segja löglærðir. Enginn hóf það, en það ekki hægt að stöðva það. En hver veit nema að þið verðið sýknuð að lokum, eftir alla þessa mánuði og ár.

En það verður fylgst með ykkur, eftir sem áður, maður leikur sér ekki að því að vera í alvörunni frjáls manneskja með raunveruleg raddbönd og líkama sem gæti tekið upp á því að birtast í húsum valdsins án kokteilboðs. Við sem heima sitjum getum auðvitað eftir sem áður sagt að við trúum í raun og veru ekki á kapítalismann og stalinískt skrifræði hans, sem skráir og mælir alla hluti í auglýsingatekjum og skilvirkni, án tillits til neinna gilda sem nokkur vill kannast við. Við sjáum í gegnum þig, þú ert ekki birtingarmynd þess sem ég vil, segjum við, ég er á móti þessu tómi, ég væri jafnvel vinstrimaður ef ég tryði því að ég væri frjáls manneskja, eða ef ég væri ekki svona hræddur við hefnd kerfisins, um ráðningarsamninga framtíðarinnar, næstu uppstokkun og röðina fyrir utan Mæðrastyrksnefnd.

Ég beið of lengi með að ganga frá þessari litlu hugleiðingu. Henni var ætlað að tala til þeirra manneskja sem fela sig bak við embættisgrímur í þessari uppfærslu á þessu fáránleikriti. Nú bíð ég eftir dómi héraðsdómarans sem niðurlægði réttinn með því að henda þessu máli ekki beint í ruslið.